Góðar fréttir fyrir aldraða

Í vorblaði Heilsuhringsins 1997 var sagt frá efninu fosfatidyl-serin, sem virðist bæta heilastarfsemina hjá öldruðu fólki. Töluvert meira er nú vitað um þetta efni en var, þegar greinin í Heilsuhringnum var birt. T.d. er nú vitað að rétt notkun getur seinkað einkennum Alzheimersjúklinga um að minnsta kosti tvö ár. Til þess þarf þó að byrja að nota það áður en mjög mikið hefur glatast af taugafrumum, en eins og vitað er geta þær trauðla endurnýjast. Vitað er um Alzheimersjúklinga sem ekki voru lengur færir um að bjarga sér, t.d. að fara á snyrtingu en urðu næstum eðlilegir eftir að hafa notað efnið í nokkurn tíma. Þessi bati entist þó aðeins í takmarkaðan tíma og aftur sótti í sama farið. Annarskonar elliglöp lagast einnig ekki síður og endast oft betur. Mikilvægt er að það fólk noti rétt bætiefni, samhliða fosfatidyl-serin, t.d. C- og E- vítamín, kóensím Q-10, flavonefni, musteristré o.m.fl. Nýlegar athuganir á músum (Hh. vor 2000) benda og til að bláber séu sérstaklega holl fyrir aldraða. Það áhugaverðasta sem ég hef þó séð nýlega er nátturulyf, sem búið er til úr jurt sem nefnd er „periwinkle“ á ensku en hörpulauf á íslensku (vinca pervinca). Ungverskt lyfjafyrirtæki fór að gera rannsóknir á jurtinni á sjöunda áratugnum og uppgötvuðu þá efnasambandið Vincamine.

Árið 1968 var tekið einkaleyfi á sérstökum extrakti sem búinn er til úr vincamine. Þessi extract bætir blóðflæði í heilanum og hlaut nafnið Cavinton. 1989 höfðu verið gerðar yfir 100 læknisfræðilegar prófanir á cavinton sem sýndu að extraktinn var meira en 70% áhrifaríkur gegn ýmiskonar heilabilun, skertri vitrænni getu vegna öldrunar og augna- og eyrnabilunar. Nú er einkaleyfið á cavinton runnið út og efnið er nú komið á heilsuvörumarkaðinn. Þar er notað nafnið Vinpocetine, sem er nafnið á efninu sem tekið var einkaleyfi á. Vinpocetine er talið miklu áhrifaríkara en musteristré við að bæta heilastarfsemina hjá öldruðu fólki. Það verkar á ýmsan hátt, t.d. bætir það minnið og eykur skilning. Talið er að það bæti nýtni heilans á þrúgusykri með því að gera öndunarkeðjuna í hvatberum heilafrumanna meira virka, þannig að þrúgusykur myndar meiri orku. Það eykur súrefnisnýtni í heilafrumunum og dregur þannig úr súrefnisskorti í heilanum og eykur þjálni rauðra blóðfruma, sem auðveldar blóðrás í þröngum háræðum.

Vinpocetine hefur verið rannsakað í mörg ár í sambandi við fjölda heilasjúkdóma. Í tvíblindri könnun voru 22 aldraðir sjúklingar með vandamál í æðakerfi heilans látnir fá 10mg forðatöflu af vinpocetine á dag í 30 daga og því næst 5mg töflur daglega í 60 daga. Lyfleysu (placebo) fengu 20 aðrir sjúklingar til samanburðar. Allir sjúklingarnir á vinpocetine fengu betri útkomu en viðmiðunarhópurinn. Í annarri tvíblindri könnun á 18 sjúklingum fengu þeir sem notuðu vinpocetine 73% bata eftir 30 daga og 77% eftir 90 daga. Engra hliðarverkana varð vart í hvorugu tilfellinu. Í einni tvíblindri könnun, sem gerð var á heilbrigðum sjálfboðaliðum, kom fram ótrúlega mikil aukning á skammtímaminni, einni klst. eftir að þeir tóku 40mg af vinpocetine. Vinpocetine hefur verið notað til að bæta minni, einbeitingu, árvekni og hæfileika til að læra. Þessir eiginleikar dvína oft með aldri, sem trúlega kemur stundum af æðakölkun, þó að sjúkdómar eins og Alzheimersjúkdómur geti valdið líkum einkennum. Líklegra er þetta efni til muna áhrifaríkara til að bæta þessi einkenni en musteristré (ginkgo biloba) en spennandi væri að nota vinpocetine og fosfatidyl-serin saman og sjá hvort efnin eru öflugari bæði en hvort í sínu lagi. Heimild m.a. úr Nutrition and Mental Health, haust 2000



Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , , , ,

%d bloggers like this: