Gulrætur

Mig langar að deila með ykkur smáfróðleik sem ég hef tekið saman héðan og þaðan um þetta ágæta grænmeti. „Sumir halda að ginseng sé besta kraftaverkameðalið, en gulrætur kosta miklu minna og bragðast mun betur“, James Duke, amerískur grasafræðingur. Latneska nafnið er Daucus Carota. Gulrætur voru fyrst ræktaðar í Afganistan og Austurlöndum nær. Forfeður okkar þekktu vel til þeirra. Forngrikkir notuðu þær, einkum Hippókrates faðir læknisfræðinnar sem var uppi 430 f. Kr. Hann notaði þær sem styrkjandi lyf fyrir magann. Seinna notaði annar grískur læknir Galen 130-200 e.Kr. þær sem meðal við uppþembu og vindgangi. Á Krít voru gulrótarfræ notuð á dögum Rómverja sem meðal gegn alls kyns eitrunum.

Árið 1960 tókst rússneskum vísindamönnum að einangra efni úr gulrótum sem þeir nefndu Daucarine. Efni þetta víkkaði blóðæðar, einkum í höfði og verndaði gegn slagæða og hjartveiki. Í Rússlandi er mælt með að taka nokkrar teskeiðar af nýjum gulrótarsafa með hunangi og örlitlu vatni til að lækna kvef og hósta. Hinn þekkti danski náttúrulæknir Julia Völdan ráðleggur konum með krabbamein í brjósti að byrja daginn á glasi af nýpressuðum gulrótarsafa á fastandi maga til að koma jafnvægi á sýrustig líkamans. Þetta er reyndar hin besta byrjun á deginum fyrir alla.

Gulrótin lætur ekki mikið yfir sér, en hún er sneisafull af næringarefnum s.s. andoxunarefnum, A-B-C vítamínum sem og verðmætum steinefnum, þar á meðal járni, kalsíum og fosfóri. Sé gulróta neytt reglulega bæta þær heilsu fólks og líðan á undraverðan hátt, sérstaklega þeirra sem eru þróttlitlir og þjáðir eða eru að jafna sig eftir veikindi eða streituálag. Þær  örva vöxt og kraft hjá börnum og unglingum og stuðla að því að vefir og húð verði heilbrigð. Járninnihald þeirra eykur fjölda rauðra blóðkorna og hindrar blóðleysi. Beta-karóten þeirra er gott fyrir augun almennt og kemur í veg fyrir náttblindu.

Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að betacarótan geti tafið eða hindrað að æxli myndist, sérstaklega þau sem tengjast krabbameini í lungum og brisi vegna reykinga. Gulrætur eru frægar fyrir góð áhrif á meltingarveginn og voru með réttu áður fyrr kallaðar hollvinir þarmanna. Gulrætur í súpu og safa hjálpa til við að stilla meltingarstarfsemi og stuðla að eðlilegum hægðum. Þannig eru þær til bóta bæði við hægðatregðu og niðurgangi. Þær róa slímhúð um allan meltingarveginn og minnka ertingu og bólgur.

Einföld gulrótarsúpa hentar vel smábörnum sem þjást af niðurgangi og meltingarkvillum. Gulrótarsafafasta er vel þekkt hreinsandi meðferð við lifrarveiki. Og í Frakklandi voru gulrætur vinsælt meðal við vandamálum lifur og gallblöðru. Sé glas af gulrótarsafa drukkið ½ tíma fyrir morgunverð getur það losað líkamann við iðraorma og er mjög gott við þráðormum í börnum. Gulrætur örva matarlyst og hvetja framleiðslu af meltingarvökvum. Þær eru gott lyf við uppþembu, magakrampa, hægðarvandamálum ýmiskonar, iðrabólgu og magasári.

Gulrætur eru þvagörvandi og hjálpa til að losna við bjúg og blöðrubólgu. Gulrætur draga úr eituráhrifum og eru því hentugar við að lækna exem og unglingabólur. Þær geta hjálpað við liðagigt og þvagsýrugigt. Slímlosandi eiginleikar þeirra hjálpa til að leysa upp og losa slím úr brjósti við kvef, bronkítis og asma. Andoxunarefnin örva áhrif ónæmiskerfisins og hjálpa til að hindra skemmdir sem stafa af stakeindum.

Þær vernda einnig gegn hrörnunarsjúkdómum, einkum í hjarta og æðakerfi. Ef borðaðar eru 1-2 gulrætur daglega er unnt að lækka kólesterólmagn blóðsins um 10% og stuðla þannig að vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum. En ég minni á að gulrætur og gulrætur eru ekki það sama. Það eru til frábærar lífrænt ræktaðar gulrætur bæði í Yggdrasil og Heilsuhúsinu og þær standast algjörlega verðsamanburð við ólífrænar gulrætur stórmarkaðanna. Að lokum; ef það er flensa eða kvef í gangi í kringum ykkur og þið hafið sloppið hingað til, þá aukið þið möguleika ykkar til að sleppa alveg með því að drekka 1 glas af nýpressuðum gulrótarsafa með smábita af nýpressaðri engiferrót útí á fastandi maga.

Gulrótarbuff,  gamaldags, fljótleg og auðveld (fyrsta buffuppskriftin sem ég lærði.)
3/4 ltr rifnar gulrætur
1-2 laukar
1 1/2 dl sojamjöl
1 ½ dl bókhveitimjöl
1 tsk jurtasalt
1 tsk góð kryddblanda – t.d. frá pottagöldrum.

Kaldpressuð ólífuolía eða kaldpressuð canola olía til steikingar. Gulræturnar og laukurinn er rifið frekar fínt og sett í skál. Mjölinu og kryddinu er bætt útí og þetta hnoðað í  höndunum þar til að helst vel saman. Mótið lítil og flöt buff. Hitið olíu á pönnu,  setjið buffin á heita pönnuna og steikið báðum megin þar til gullin. Þið getið líka sleppt því að móta buff og notað matskeið við að setja farsið á pönnuna. Gott að bera fram með fersku salati og gufusoðnu brokkolí eða öðru grænmeti og kaldri sósu.

Grillaðir gulrótar- og tófúborgarar
200 gr tófu, stinnt (firm), hellið af því vökvanum og stappið.
25 gr gulrætur, fínt rifnar
1/2 rauð paprika, fínt skorin
75 gr fínt malaðar möndlur
4-5 vorlaukar, fínt saxaðir
1 hvítlauksrif, pressað
1 msk tamari sósa
smá cayenne pipar
rasp:
sesamfræ

Blandið öllu saman í skál, mótið 4 borgara og veltið þeim upp úr sesamfræjunum,  setjið borgarana á bökunarplötu og undir grillið. Borgararnir þurfa ca 7-8 mín hvor hlið eða þar til léttgylltir og gómsætir – njótið til dæmis með fullt af niðurskornu hráu fersku grænmeti og kaldri sósu.

Mild gulrótarsúpa -fljótleg og auðveld
6 dl gulrætur í litlum bitum
1 púrrulaukur
1 1/4 l vatn
1 gerlaus grænmetisteningur, t.d. frá Hügli -fæst í Yggdrasill
1/2 tsk paprika
1/2 tsk oregano

Bragðist til með smá jurtasalti eða hafsalti eða tamari, ferskur kóríander eða annað ferskt krydd eftir smekk til að klippa út á. Grænmetið er skorið í bita, allt er sett í pott, bæði grænmeti, vatn og krydd og soðið þar til gulræturnar eru orðnar meyrar. Þá er allt sett í blandara og maukað, sett aftur í pottinn og hitað, Ferskur kóríander er klipptur yfir áður en borið er fram – njótið.

Gulrótarsúpa – hrá en létt hituð
225 gr gulrætur, afhýddar og skornar í bita
1 vorlaukur, hreinsaður og skorinn í bita
40 gr malaðar hnetur
175 ml sojamjólk eða hrísgrjónamjólk eða möndlumjólk eða haframjólk
1 msk smátt saxaðar uppáhalds fersku kryddjurtirnar þínar -mínar eru ferskur kóríander.

Setjið gulræturnar í blandarann ásamt vorlauknum og tætið niður, restinni bætt útí og maukað þar til silkimjúkt. Setjið súpuna í pott og hitið varlega á lágum hita, á ekki að hitna yfir 56°C því þá minnkar næringin.

Gulrótar-orkusúpa – hrá, holl og fljótleg
225 gr gulrætur, afhýddar og skornar í bita
3 brokkolíblóm -ekki heilir hausar heldur blóm.
1/2 búnt vatnakarsi -frábær frá Lambhaga-
100 gr tófú, t.d þetta marineraða úr Yggdrasil
1 tsk tómatmauk smá salt og cayenne pipar -magn fer eftir þínum smekk
1 tsk grænmetiskrafts duft -gerlaust að sjálfsögðu það má setja meira ef vill, fer allt eftir smekk
75-100 ml sojamjólk eða hrísgjónamjólk eða möndlumjólk
ferskt krydd eftir smekk og því sem til er, má líka sleppa

Setjið allt í blandara og blandið, – borið fram kalt eða létt hitað í potti, þó ekki upp fyrir 56°C
– ummmmmmmmm þessi er spes.

Gulrótarsafi nýpressaður fyrir 1 glas
ca 3 miðlungsstórar lífrænt ræktaðar gulrætur, – endarnir eru skornir af gulrótunum og þær þvegnar. Ath það þarf ekki að afhýða gulrætur ef þær eru lífrænt ræktaðar
– gulræturnar eru pressaðar
– til að fá sem allra mestu næringuna út úr safanum er best að láta ekki líða meira en ca 20 mín frá því hann var pressaður, annars byrjar næringin að minnka.

Gulrótarsafi með engifer fyrir 1 glas
ca 3 meðalstórar gulrætur
ca 1 cm biti af ferskri engiferrót
– allt sett í safapressu og pressað
– njótið.

Gulrótarmuffins
150 gr hrísgrjónamjöl
75 gr haframjöl
1 msk lyftiduft (úr heilsubúð)
1 tsk kanill
1/4 tsk salt
2 egg, má sleppa og nota eggreplacer í staðinn
175 ml sojamjólk eða hrísgrjónamjólk eða möndlumjólk eða haframjólk eða 2 msk kaldpressuð ólífuolía
100 gr gulrætur, gróft rifnar
75 gr rúsínur
50 gr sólblómafræ

– hitið ofninn í 190°C
– blandið saman mjöli + lyftidufti + kryddi + salti í skál
– hrærið saman eggjum + mjólk + olíu í hrærivélinni eða matvinnsluvélinni
– blandið gulrótum + rúsínum + sólblómafræjum út í þurrefnaskálina og bætið eggjablöndunni líka útí
– blandið gætilega saman og setjið í muffinsform
– bakast í 25 mín við 190°C – ummm góðar með nýlagaðri möndlumjólk.

Höfudur: Sólveig Eiríksdóttir



Flokkar:Næring, Uppskriftir

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d bloggers like this: