Í þessu blaði (árið 1998) hefur nokkuð verið minnst á bakverki. Það á því sennilega vel við að minnast á næringu í því sambandi. Nýlega hitti ég konu sem sagði mér þá sögu að fyrir tveimur árum hefði hún breytt um fæði. Eftir það hefði henni bráð batnað í bakinu á örstuttum tíma. Reyndar grenntist hún um 18 kíló á sex mánuðum. Þegar ég spurði hana um hvernig þetta fæði hefði verið sagði hún að best væri að lýsa því þannig:
Hún borðaði ekki sykur,
ekki fitu
ekki ger.
Þessi saga minnti mig á það þegar kunningi minn lýsti á eftirfarandi hátt líðan sinni daginn eftir sætindaneyslu:
„Ég fyllist vonleysi,
á hugann sækja hryllilegar hugsanir
og ég fæ mikla verki í bakið.“
Hann sagði að fleiri bakveikir hefðu farið að hans ráðum, hætt að borða sykur og eftir það verið lausir við bakverki. Ofneysla sætinda mun líklega valda fleiri þjáningum en bakverkjum því að hálsríg og óþægindi í hálsi má oft rekja til sætindaneyslu. Í slíkum tilfellum virðist ekkert halda vanlíðan frá nema afneitun sykurs.
Höfundur Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 1998
Flokkar:Reynslusögur