Úr einu í annað – Haust 1997

Hér fara á eftir 8 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:

  • Geta bakteríur valdið æðahrörnun?
  • M.S. og heilaköngullinn
  • Veirueyðandi efni í olífulaufi
  • Ofnæmi og pantóþensýra
  • Er rétt að nota beta-karótín?
  • D-vítamín hindrar krabbamein
  • Jurtaextrakt dregur úr æðakölkun
  • Kóladrykkir og beinþynning

Geta bakteríur valdið æðahrörnun?
Í síðasta tölublaði Heilsuhringsins var sagt frá veiru sem vísindamenn gruna um að valdið geti hjarta- og æðasjúkdómum, t.d. kransæðaþrengingum. Nú hafa aðrir vísindamenn leitt líkur að því að ákveðin baktería, Chlamydia pneumoniae, geti valdið hliðstæðum breytingum á slagæðum. Venjulega veldur þessi baktería sýkingu í öndunarfærum fólks og flestir hafa komist í kynni við þess háttar sýkingar. Vísindamennirnir telja að þessi sama baktería geti einnig sýkt æðaveggi slagæða og verið þar árum saman án þess að einstaklingurinn viti af því.

Þar veldur hún bólgum sem skaðað geta æðina og valdið hjarta eða heilaáföllum. Með þessu er ekki verið að segja að heilsusamlegt mataræði og hreyfing skipti engu máli, heldur að til þess að fá áðurnefnda sjúkdóma verður einstaklingurinn að hafa sýkst af Chlamydia preumoniae bakteríunni (eða einhverju öðru sem skaðað getur æðina). Af þessu leiðir að sé þessi kenning rétt má t.d. hjálpa kransæðasjúklingum með því að gefa þeim við-eigandi sýklalyf. Tveir finnskir læknar, Pekka Saikku og Maija Leinkonen vöktu fyrstir at-hygli á áðurnefndri bakteríu árið 1988. Þeir bentu á að fólk með kransæða-sjúkdóma væri miklu líklegra en heilbrigt fólk til að hafa mótefni gegn Chlamydia pneumoniae í blóðinu.

Einnig sýndi önnur rannsókn óvanalega mikið af þessu mótefni í blóði fólks sem fengið hafði hjartaáfall. Enginn vissi þá um ástæðuna fyrir þessu en faraldsfræð-ingnum Thomasi Grayston við Washington háskóla fannst þó rétt að athuga þetta nánar. Hann komst að sömu niðurstöðu og finnsku vísindamennirnir. Síðan hafa átta rannsóknar-hópar í fimm löndum staðfest þetta. Þegar hér var komið sögu var farið að athuga hvort bakterían fyndist í stífluð-um æðum. Árið 1993 bar sú leit árangur þegar vísindamaður frá Suður Afríku, James Summ- ersgill, fann lifandi bakteríu í æðum sjúklings sem beið eftir hjartaígræðslu.

Nú var ekki lengur efast um að bakteríur eða aðrar örverur eigi þátt í æðasjúk-dómum og við nánari athgun sýndi það sig að Chlamydia pneumoniae fannst aldrei í heilbrigðum æðum, aðeins í sjúkum. Kenningin er sú að átfrumur sem hreinsað hafa Chlamidia pneumoniae úr öndunar-færum eftir sýkingu geti stundum sjálfar sýkst af bakteríunni og þá orðið smitberar. Þegar þær fara um æðakerfið geta þær svo smitað frumur í æðaveggjunum. Við það koma svo fleiri átfrumur sem svo sýkja enn fleiri frumur í æðaveggjunum og útkoman verður bólgumyndun í æðinni. Sýnt hefur verið fram á að þessi baktería getur lifað inni í átfrumum og frumum í æðaveggjum og að sýktar frumur draga til sín átfrumur eins og segull dregur til sín járn.

Dýratilraunir benda til hins sama. Á Michaels sjúkrahúsinu í Toronto í Kanada var hópur kanína sýktur með bakteríunni gegnum öndunarfærin. Eftir aðeins tvær vikur höfðu myndast sár í meginslagæð tveggja þeirra. Finnsku læknarnir Saikku og Leinonen sýktu fimm kanínur á sama hátt. Að sjö vikum liðnum höfðu þrjár þeirra fengið æðaþrengsli. Verði hægt að lækna þannig æðaþrengsli með sýklalyfjum er ekki lengur neinn vafi hver ástæðan fyrir þeim er. Mörgum spurningum er þó ennþá ósvarað, t.d. hvort fituríkt fæði sé sjálfstæður áhættuþáttur eða aðeins meðvirkur en bakterían sé hin raunverulega ástæða. Einnig gæti verið að bakterían setjist að í æðaskemmdum sem myndast hafa vegna oxaðs kólesteróls eða annarra skaðlegra efna. Þá gæti bakterían valdið sárum sem kólseteról og önnur fituefni setjist síðan að í og síðar smá stíflað æðina.

Hvort einhver fær kransæðasjúkdóm eða ekki gæti hreinlega verið allt að því tilviljun, t.d. vegna þess að einstaklingurinn hafi fengið sýklalyf t.d. við hálsbólgu eða ígerð í fingri. Sýklalyfið gæti hafa nægt til að drepa allar bakteríur sem e.t.v. síðar hefðu valdið lífshættulegum æðaþrengingum. Tilraun hefur verið gerð við St. George’s sjúkrahúsið í London með sýklalyfið azithromycin og í ljós kom að það dró úr bólgum við samanburð á tveim hópum hjartasjúklinga, þar sem annar hópurinn fékk lyfið en hinn ekki. Sennilega skýrast þessi mál á næstu árum og greinarhöfundi finnst ekki ólíklegt að fleiri bakteríur eigi eftir að finnast sem stuðlað gætu að æðaþrengingum, auk veirusýkinga eins og sagt var frá í síðasta blaði. Hvað sem öllum kenningum líður er þó nokkurn veginn fullvíst að hollt fæði og heilbrigðir lífshættir verða í framtíðinni mikilvægt vopn í baráttunni, bæði við sjúkdóma í æðakerfinu sem og aðra vanheilsu. Heimild að mestu úr Newsweek.

M.S. og heilaköngullinn
Rannsóknir benda til að heilaköngullinn í M.S. sjúklingum starfi ekki nógu vel. Í einni könnun sem sagt var frá í Townsend Letter forDoctors and Patients kom í ljós að kalk hafði safnast í heilaköngulinn á öllum þeim M.S. sjúklingum sem athugaðir voru. Einnig kom í ljós að melatonin í blóði þeirra eftir nóttina var minna en æskilegt er talið og að serotonín var einnig of lítið. En serotonín er mikilvægt taugaboðefni, sem m.a. er forefni sem heilaköngllinn notar til að búa melatonin til úr. Einkenni serótonínskorts lýsa sér m.a. í svefntruflunm, ýmiskonar verkjum, fíkn í sætindi, hitanæmi, ljósnæmi, mígren-höfuðverk, þreytu, skorti á stjórn á þvaglátum og þunglyndi með sjálfsmorðstilhneigingu. Reynt hefur verið að „endurlífga“ heilaköngulinn með ýmsu móti, m.a. með púlserandi rafstraumi sem sagt er frá í International Journal of Neuroscience 1992, 66, 237-250. Þar er talið að 60-70% M.S. sjúk-linga hljóti umtalsverðan bata með þannig meðferð en allir einhvern. Ekki var nefnt hvort M.S. Sjúklingar, sem gefið var melatonin í pillum fyrir svefn, hlutu einhvern bata en greinaröfundi finnst það líklegt. M.S. sjúklingar sem eiga þess kost að taka melatonin fyrir svefn ættu því að prófa það í nokkurn tíma til að finna árangurinn, ef einhver er.

Veirueyðandi efni í olífulaufi
Efnafræðingurinn William F. Fredrickson segir í Townsend Letter for Doctors and Patientsí júlí 1997 frá merkilegum veiruhemjandi efnum sem honum hefur tekist að vinna úr laufum olífu-trésins (olea europeaea). Notkun á olífulaufi til að lækna sýkingar nær að minnsta kosti á aðra öld aftur í tímann og sennilega lengra. Þá var tinktúra úr olífulaufum notuð sem lyf við malaríu. Síðar tókst að vinna efni sem nefnt var olenolsýra úr laufunum. Þetta efni hefur öfluga veirueyðandi eiginleika. Ennþá síðar var svo sýnt fram á olenolsýra hindrar ensím sem nefnt er reverse transcriptasi í þremur retroveirum. Ein veiran hefur verið notuð til að kanna hvort líklegt sé að efnið verki gegn HIV veirunni. Tinktúra úr olífulaufum er mjög áhrifarík gegn herpes simplex (áblásturs)- veirunni og gegn leukemia (hvítblæðis)- veirunni. Í ljósi alls þessa var ákveðið að prófa olífulaufa-extrakt á þremur langt leiddum eyðnisjúklingum.

Auk veirudrepandi eiginleika extraktsins var einnig álitið að hann hefði ónæmishvetjandi verkanir. Því var ákveðið að fylgjast með fjölda T4 fruma í sjúklingunum. 10% fjölgun var talin marktæk en vonast var eftir meiri fjölgun. Auk þess var fylgst með líðan sjúklinganna, nætursvita, þyngdaraukningu og matarlyst. Engar eiturverkanir komu fram og dýratilraunir með allt að 300 faldan venjulegan skammt af extraktinum sýndu heldur ekki eiturverkanir. Þó að þrír sjúklingar séu varla nógu margir til að tilraunin sé tölfræðilega marktæk eru niður-stöðurnar eigi að síður áhugaverðar. Hjá sjúklingi nr. 1 fjölgaði T4 frumum úr 207 í 922 á sex mánuðum. Haldi T4 frumunum áfram að fjölga verður mælt með að hann láti rannsaka í sér blóðið til að sjá hvort yfirleitt nokkrar HIVveirur eru í því. Sjúklingur nr. 2 hætti eftir þrjá mánuði en þá hafði T4 frumum hans fjölgað úr 420 í 588. Þessi fjölgun er mjög áhugaverð, því að sennilega byrjar þeim ekki að fjölga fyrr en nokkur tími er liðinn frá því að meðferð hefst. Hefði hann haldið áfram að nota extraktinn er því líklegt að T4 frumum hans hefði fjölgað jafnvel meira en hjá sjúklingi nr. 1. Sjúklingur nr. 3 er mjög áhugaverður. T4 frumutalning hans var 0 þegar tilraunin hófst en var 9 þegar tilrauninni lauk.

Áhugavert væri að hann héldi áfram að nota extraktinn til að sjá hvort T4 frumum hans heldur áfram að fjölga, sé það á annað borð hægt. Einnig mætti reyna að gefa honum stærri skammt af extraktinum en það verður varla hægt fyrr en búið verður að setja hann í hylki sem hægt er að gleypa. Þó að þessi tilraun sé ekki tölfræðilega marktæk er hún eigi að síður uppörvandi og þarf að endurtaka með fleiri sjúklingum.

Ofnæmi og pantóþensýra
Wayne Martin skrifar í Townsend Letter for Doctors and Patients um ofnæmi fyrir gúmmí sem hann segir að sé mjög algengt, u.þ.b. 5% (í Bandaríkjunum). Hann segir þar frá bráða-ofnæmi sem valdið hafi varanlegum heilaskaða, sem komið hafi vegna snertingar við gúmmí, sem finnst víða eins og vitað er. Á eftir fer hann að ræða um vítamínið pantóþensýru sem hann segir að hindri alvarleg ofnæmisviðbrögð ef það er notað í skammtinum 500mg á dag. Einnig segir hann að þetta hindri annað ofnæmi t.d. stíflað nef og vitnar þar í grein í Texas Reports of Biology and Medicine nr. 2, 1961. Sá sem skrifar þá grein, dr. Roger Williams við háskólann í Texas at Austin, segist hafa verið í sambandi við fjölda lyfjafyrirtækja og reynt að vekja áhuga þeirra á að selja pantóþensýru til að hindra og/eða lækna ofnæmi. Lyfjafyrirtækin sýndu þessu engan áhuga og þannig féll þetta í gleymsku. Pantóþensýra hindrar einnig nefrennsli en ef notað er of mikið af henni getur það valdið nefþurrki og verður þar hver og einn að finna hvað hentar, en algengur skammtur er 500 mg.

Er rétt að nota beta-karótín?
Á síðasta ári voru birtar niðurstöður úr þremur nokkuð fjölmennum könnunum á hvort gagn-legt sé að nota beta-karótín til að fækka lungnakrabba- eða kransæða- tilfellum, sérstak-lega hjá reykingafólki. Townsend Letter for Doctors and Patients birti langa grein um þessa könnun í júlí 1997 eftir lækninn Thomas Brunoski, M.D., M.S. Brunoski kemst að nokkuð annarri niðurstöðu um hvernig eigi að túlka þessar kannanir heldur en sumir fjölmiðl-ar sem skrifað hafa um þær. Tveimur könnunum, CARET og PHS var aldrei lokið vegna þess að svo virtist að þær gætu jafnvel valdið skaða frekar en gagni, að mati þeirra sem að þeim stóðu. Niðurstöðurnar voru svo birtar í fjölmiðlum nærri hálfu ári áður en sagt var frá þeim í lækna-riti og það jafnvel þó að rannsóknarmennirnir teldu að „engar traustar tölfræðilegar niður-stöður hefðu ennþá fengist“ Þegar niðurstöðurnar voru svo að lokum birtar í New England Journal of Medicine kom nokkuð önnur mynd í ljós en birst hafði í fjölmiðlum hálfu ári áður. Sú könnun sem einkum var talin benda til að beta-karótín gæti valdið lungnakrabbameini er CARET-könnunin. Eins og málið var lagt fram virtist sem fólk sem notaði beta karótín væri í 28% meiri hættu á að fá lungnakrabbamein heldur en þeir sem ekki nota beta-karótín.

Með annarri reikningsaðferð verður aukin hætta á lungnakrabbameini þó óveruleg eða aðeins 0.26%. Athuganir sem gerðar voru á fólkinu sem tók þátt í CARET könnuninni sýndi að þeir sem höfðu mikið karótín í blóði fengu síður hjartasjúkdóma og krabbamein en aðrir, hvort sem þeir notuðu fæðubótarefni eða ekki.Þetta leiðir hugann að því að haldið hefur verið fram að beta-karótín, sem notað var í áðurnefndum könnunum, hafi ekki verið náttúrlegt eins og t.d. í gulrótum, heldur tilbúið „syntetiskt“, búið til efnafræðilega í verksmiðjum.Syntetískt karótín hefur svolítið aðra efnafræðilega uppbyggingu en náttúrlegt, er annar „ísómer“, svo að notað sé efnafræðileg skilgreining á efninu. Einnig hefur verið bent á að í náttúrlegum mat er venjulega blanda margra karótínefna. Beta-karótín er aðeins eitt fjöldamargra þannig efna. Jafnvel gæti verið að beta-karótín eitt sér hindri upptöku annarra karótínefna í meltingrfærunum og gæti þannig gert meira illt en gott því að sennilega eru sum önnur karótínefni mikilvægari en beta-karótín.

Margir hafa bent á að oxunarvarnarefni verka oftast best mörg saman með samvirkni (synergism). Sameiginleg virkni margra oxunarvarnarefna er þá miklu öflugari en summa þeirra allra ætti að vera. Því ætti að nota með karótín-efnum t.d. C-víta-mín, Evítamín, bíóflavon-efni, selen, zink o.fl. Það hefur miklu öflugari verkanir heldur en að nota t.d. karótín eða E-vítamín í miklu stærri skömmtum, sem hugsanlega gætu truflað upptöku annarra oxunarvarnarefna. Vegna þess að flestar aðrar kannanir á betakarótíni hafa sýnt hollustu þess og gagnsemi sem nokkur vörn gegn vissum krabbameinstegundum sér greinarhöfundur ekki ástæðu til að fólk hætti að nota það sem fæðuuppbót með öðrum oxunarvarnarefnum fyrr en betri sannanir en nú eru komnar fyrir gagnsleysi þess eða jafnvel skaðsemi. Þangað til meira er vitað ætti þó ekki að nota efnafræðilega framleitt betakarótín og best væri að fá blöndu af lífrænu karótíni þar sem beta-karótín er aðeins hluti karótínefnanna.

D-vítamín hindrar krabbamein
Í læknaritinu The Lancet, 9. febrúar 1985 er sagt frá könnun á D-vítamíni og krabbameini í ristli. Fólk með mest D-vítamín í blóði var aðeins með 14.2 ristilkrabbameinstilfelli hjá 1000.einstaklingum, en þeir með minnst D-vítamín höfðu aftur á móti 38,9 tilfelli hjá 1000 einstak-lingum. Önnur könnun sem birt var í The Lancet 18. nóvember 1989 var gerð á 25.000 einstaklingum í Maryland í Bandaríkjunum. Þar kom í ljós að 80% fleiri ristilkrabbamein voru hjá fimmtungi íbúanna með minnst D-vítamín í blóði. D-vítamín virðist einnig hafa verndandi eiginleika gegn blöðruháls- og brjóstkrabbameini. M.Frydenbert hjá þvagfæradeild Royal Melbourne sjúkrahússins, telur í Cancer Forum, 19. árg. nr. 1, 1995, að mikið D-víta-mín í blóði geti varið menn fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini. Hann bendir á að í norðlægum löndum, t.d. Íslandi, Danmörku og Svíþjóð sé þessi tegund krabbameina miklu algengari en í suðlægari og sólríkari löndum, en eins og vitað er myndast D-vítamín í húðinni við að sólin skín á hana. Líkt má segja um brjóstkrabbamein og í The Lancet 23. mars 1991 er skýrsla frá Englandi um að meðhöndla brjóstkrabbamein með D-vítamínhliðstæðu efni (D-vítamín analogue) útvortis hjá 14 konum. Meinsemdirnar drógust saman um 50% við þessa læknis-meðferð. Eigi D-vítamín að myndast í húðinni í sólarljósi má ekki sápuþvo hana því að vítamínið myndast úr fituefnum í húðinni sem hæglega getur þvegist af með sápu.

Jurtaextrakt dregur úr æðakölkun
Jurtaextrakt sem nefndur er MAK-4 (Maharishi Amrit Kalash) hefur sýnt sig að draga úr æðakölkun hjá kanínum sem vantar móttaka fyrir lágþéttni fituprótein (slæma kólesterólið). Þetta veldur því að lágþéttni fituprótein í blóði þeirra verður alltof mikið og sest innan í slagæðar eftir að það hefur oxast og veldur þá æðaþrengingum. Eftir því sem vísindamaður-inn Hari Sharma sem m.a. skrifaði bókina Fullkomið heilbrigði segir, en hann ásamt nokkrum öðrum vísindamönnum hefur mikið rannsakað MAK-4, þá minnkar það ekki kólesterólið í blóði kanínanna, heldur hindrar að það oxist og verði þar með hættulegt. Í könnun sem nefnd var „Oxunarvarnir og æðaverndunar áhrif MAK-4 á WHH kanínur“ var kanínunum skipt í tvo hópa. Annar hópurinn fékk 6% MAK-4 í fóðrinu en hinn ekki. Blóðsýni voru tekin á tveggja mánaða fresti í sex mánuði. Samanborið við viðmiðunarhópinn voru kanínurnar sem fengu MAK-4 með: ? Marktækt minni æðakölkun í ósæðinni. ? Marktækt meira viðnám gegn oxun á lágþéttni kólesteróli (sem tekið var úr MAK-4 kanínunum.) ? Marktæka aukningu á oxunarvarnarensíminu glutaþion peroxidasa (hjá MAK-4 kanínunum.) Þessi könnun, ásamt öðrum hliðstæðum, bendir til að MAK-4 kunni að veita fólki með hátt kólesteról í blóði von um að geta lifað eðlilegu lífi.

Kóladrykkir og beinþynning
Beinþynning eða beingisnun er sjúkdómur sem einkum hrjáir eldra fólk, einkum konur. Mikill áróður hefur verið rakinn fyrir því að fólk drekki daglega mjólk til að verjast þessum ófögnuði. Greinarhöfundur dregur reyndar í efa að mjólkurdrykkja ein sér geti bætt þar miklu um. Frekar væri að undanrenna og/eða mysa gagnaði eitthvað, því að kannanir benda til að kalk úr fitusprengdri mjólk nýtist mjög illa. Stór könnun sem gerð var í Mexíkó fyrir meira en áratug sýndi til muna meiri beinþynningu í fólki sem notaði daglega mjólk heldur en í þeim sem aldrei notuðu mjólk.Sagt var frá þessari könnun í bandaríska tímaritinu Vegetarian Times, en því miður fann ég ekki blaðið og get því ekki sagt nr. eða árgang þess, en það var fyrir 1990. Það var þó ekki þetta sem ég ætlaði að ræða um, heldur að vekja athygli les-enda á öðru sem lítið hefur verið rætt hér á landi.Eins og kunnugt er þurfa efnin kalk, fosfór og sennilega magnesíum að vera í jafnvægi í fæðunni ef vel á að fara. Þetta hefur lengi verið vitað og þarf því ekki nánari rökstuðning.

Sé of mikill fosfór, eða nánar sagt fosfórsýra, í matnum er kalk og magnesíum tekið annarstaðar í líkamanum, sérstaklega úr beinum, til að binda umfram fosfórsýru úr fæðunni. M.ö.o. getur mjög fosfórsýruríkt fæði valdið úrkölkun í beinum. Þetta er þekkt og viðurkennd staðreynd sem ekki er líklegt að neinn sem kynnt hefur sér þessi mál muni reyna að mótmæla. Annað sem færri hafa sennilega gert sér ljóst er að kóladrykkir eru sýrðir með fosfórsýru. Þó að ekki sé beinlínis hægt að segja að þessir drykkir séu eitraðir er þó augljóst að mikil kóladrykkja krefst stóraukinnar neyslu á kalki og magnesíum til að binda fosfórsýruna úr kóladrykkjunum. Að öðrum kosti verður líkaminn að taka þessi efni úr beinunum, sem hann vafalaust gerir oft. Því má segja með almennum orðum, að mikil kóladrykkja valdi úrkölkun beina, nema samtímis sé notað kalk og magnesíum í stórum skömmtum. Fyrir allmörgum árum var greinarhöfundur á fyrirlestri um „beingisnun“ hjá þekktum sérfræðingi. Hann talaði m.a. um að mikil fosfórsýra í mat, t.d. kjötvörum gæti stuðlað að beingisnun. Nokkrar umræður urðu á eftir og spurði greinarhöfundur hann þá hvort ekki væri eins mikil ástæða til að hafa áhyggjur af öllum þeim kóladrykkjum sem þjóðin drekkur árlega hér á Íslandi.

Sérfræðingurinn eins og vaknaði af draumi. „Þetta hefur mér bara aldrei dottið fyrr í hug. Líklega þyrfti að athuga þetta sérstak-lega“. Þó að þetta hafi ekki ennþá verið athugað, svo að greinarhöfundur viti til, finnst honum þó ekki ólíklegt að mikil kóladrykkja sé ein höfuðástæðan fyrir aukinni tíðni beingisnunar á Íslandi. Sennilega er dólómít einna besta kalk- og magnesíum- uppspretta sem fáanleg er og örugglega sú ódýrasta. Dólómít nýtist þó ekki þeim sem skortir magasýrur og reyndar ekki heldur calcíum- eða magnesíum- oxid eða -hydroxid. Best er þó sennilega að drekka sem minnst af kóladrykkjum, þó að ég segi ekki með þessu að ekki megi smakka þessa drykki stöku sinnum. Fólk með beingisnun ætti þó aldrei að drekka kóladrykki nema taka um leið nokkrar dólómíttöflur eða aðra kalk- og magnesíumgjafa.

Höfundur: Ævar Jóhannesson haust 1997



Flokkar:Úr einu í annað

%d bloggers like this: