Breytingar – Hluti af lífinu.

„Breytingar eru ögrandi. Þeim fylgir léttir,  þær rugla, ógna, valda okkur sorg eða örva okkur. Umfram allt neyða þær okkur til að þroskast. Náttúran færir okkur breytingar til að tryggja áframhaldandi þróun og með þeim kallar Guð okkur heim. Breytingar krefjast þess að við endurskoðum stöðugt hver við erum og þær vísa okkur veginn til að við megum verða það sem okkur er ætlað að verða. Vegna breytinga færist vitund okkar stöðugt hærra, stig fyrir stig.

Þegar við sættum okkur við breytingar – eða öllu heldur tökum þeim fagnandi, þá umbreyta þær lífi okkar, víkka skilning okkar og við fáum nýtt sjónarhorn, hverfum frá ótta og förum að horfa á lífið eins og það er. Því lífið er breytingar.“ Á þennan veg mælist Gloriu Karpinski í inngangi bókar sinnar „Where Two Worlds Touch“. Í bókinni fjallar hún um breytingar sem ferli sem við göngum í gegnum í sjö skrefum. Þessi sjö skref breytinga og hvað felst í þeim, er viðfangsefni þessarar greinar. Hvert sem við lítum í alheiminum sjáum við að breytingar eru það eina varanlega í lífinu.

Hið gamla deyr og nýtt fæðist. Ef við viljum reyna að fanga lífið og koma því á eitthvert fast eða varanlegt form, erum við aðeins að blekkja okkur. En það er mannlegt að verjast breytingum, því að í okkur öllum býr óttinn við hið óþekkta. Þó er það eins öruggt og að geislar sólarinnar toga fræið upp í átt að ljósinu, að við færumst áfram í átt að fullkomnun. Vitundin um ótakmarkaða möguleika mannsandans er sá kraftur sem drífur okkur áfram. Það eru nokkur atriði sem Gloria ætlast til að séu höfð í huga þegar við lesum um sýn hennar á breytingar og hvernig þær gerast í sjö skrefum. ? Öll reynsla þín og allar hliðar lífsins snúast í raun um andlegt líf þitt, því hið ytra líf endurspeglar alltaf hvernig þér líður innra með þér. ?

Þú ert hluti af heimsviðburðunum og þeir hluti af þér, einfaldlega vegna þess að þú andar, hugsar og framkvæmir á jörðinni. Þú ert þátttakandi í öllum breytingum á jörðinni, en ekki fórnarlamb þeirra. ? Breyting á einu sviði í lífi þínu hefur áhrif á öll önnur svið. ? Oftast fara saman fleiri en eitt skref. ? Breytingar sem þú forðast eða lýkur ekki við, draga þig til sín aftur og aftur, til að þú megir ljúka ferlinu. Því þegar þú hefur farið í gegnum eitt skref, breytist orkan þín, sem um leið breytir því hvað þú laðar til þín. ? Sennilega ertu að upplifa margskonar breytingar á sama tíma. En þó að skrefin séu sjö, eru þau í eðli sínu aðeins ólíkir hljómar sem allir hafa sama grunntón.

Fyrsta skrefið – FORMIÐ
Í gegnum aldanna rás hefur okkur tekist að búa til einhvers konar form (skema) yfir allt lífið, bæði veröldina og okkar persónulega líf. Við trúum því að við séum góð, slæm, frábær eða ómöguleg. Allt eru þetta atriði sem við trúum um okkur sjálf og þessi vissa ræður því síðan hvernig við lifum lífinu. Það er ekkert lát á þeim formum sem við höfum komið okkur upp. Það er hins vegar ekki fyrr en þeim er ógnað sem breytingar geta átt sér stað. En við högum okkur ekki alltaf í samræmi við það sem við teljum okkur trúa, því það er tvískinnungur í eðli mannsins. Það er ekki fyrr en við trúum einhverju af öllu hjarta, þegar það sama er orðið hluti af okkur og farið að skila sér út í áruna okkar, sem við virkilega förum að lifa í samræmi við það. Þá, og þess vegna, getum við verið viss um að við erum að lifa í samræmi við það sem við raunverulega trúum – núna.

Annað skrefið -ÁSKORUNIN
Annað skrefið gerist þegar eitthvað eða einhver verður til þess að „ógna“ forminu. Atburður kallar á að við bregðumst öðruvísi við en við höfum nokkurn tíma gert til þessa. Hið gamla form virkar ekki lengur. Og breytingin er hafin. Stundum riðar allt til falls. Vera má að í dag sé það hluti af sjálfsmynd þinni að þú ert eiginkona. Það þarf ekki nema eitt símtal og þú ert skyndilega orðin ekkja. Gleymdu ekki að þessi ógn eða áskorun við tilveruna eins og hún er í dag, færir alltaf með sér eitthvað nýtt. Margir hafa upplifað að það voru einmitt erfiðleikar sem hjálpuðu þeim að snúa við blaðinu. Breytingar gerast ekki alltaf með látum. Þær geta verið hvísl sem þú finnur innra með þér.

Rödd sem kallar á svar við þeirri spurningu hver þú ert og hver sé tilgangur þinn hér á jörð. Það besta sem við getum gert þegar við göngum í gegnum þetta skref, er að sættast við það sem er að gerast og vera fyllilega meðvituð um það. Þegar lífið okkar liðast í sundur, er oft það eina sem við getum gert að bíða og sýna þolinmæði. Að leyfa okkur að lifa í hinu óþekkta. Að taka eftir öllu sem færir okkur vísbendingar og leiðsögn og að treysta því að allt fari eins og það á að fara. Í fyllingu tímans fáum við svör við spurningum á borð við „hvers vegna?“ Þakklæti er lykilatriði. Líka þakklæti fyrir erfiðleika. Og að muna að þú ert ekki það sem þú ert að upplifa. Á þessu tímabili líður okkur stundum eins og við séum að eigra um í stöðugu myrkri. Þá gæti verið freistandi að vilja leita aftur í gamla formið. En svörin eru ekki þar. Þau búa í myrkri hins óþekkta. En um síðir mætir myrkrið ævinlega ljósinu.

Þriðja skrefið -ANDSTAÐAN
„Það þýddi sko ekki að bjóða mér að verða svona“, sagði lirfan þegar hún sá fiðrildið. Okkur er líkt farið, þegar við streitumst gegn breytingum sem eru óhjákvæmilegar. Í þessu skrefi hefst baráttan milli hins gamla og hins nýja. Hið gamla er ekkert á því að gefa sitt eftir og hinu nýja fylgir óttinn við hið óþekkta. Hér takast á spurningar sem byrja á; „hvað ef…?“ og „já, en….“. Hið nýja heillar, en við höldum í hið gamla því við vitum hvað við höfum. En andstaðan er mjög mikilvæg í breytingaferlinu og það er hvorki hægt að hraða för né stytta sér leið. Þetta er erfitt skref, meðal annars vegna þess að okkur finnst við hvergi eiga heima lengur.

En mundu að þessi staður, þar sem þú stendur mitt á milli hins gamla og hins nýja er staður möguleikanna. Staður þar sem allt getur gerst. Við þurfum þolinmæði á meðan við göngum í gegn um andstöðuna og hvað lengi við erum stödd í þessu skrefi ræðst af því hversu heiðarleg við erum gagnvart sjálfum okkur. Hvernig okkur tekst að horfa á það sem við upplifum án þess að dæma það eða okkur sjálf. Það sem við getum helst gert fyrir okkur í þessu skrefi er að leita leiða til að vinna úr því sem við erum að upplifa. Við getum leitað til meðferðaraðila, talað við einhvern, skrifað niður og losað um líkamlega spennu, svo tekin séu dæmi. Það er líka mikil hjálp í bæn. Stund skilnings mun brátt renna upp.

Fjórða skrefið – VAKNINGIN
Þegar andstaðan dvínar, kemur vakningin í kjölfarið. Hér brjótumst við í gegn. Stundum gerist það skyndilega og með einu stóru Aha! sem er afrakstur þess sem á undan er gengið. „Já en…“ verður að „hvers vegna ekki?“. Þessi áfangi í breytingaferlinu er mjög ánægjulegur. Alheimurinn færir okkur nýjar hugmyndir, nýja reynslu, nýtt fólk og kannski nýja drauma í lífinu. Við förum að vilja kanna nýjar slóðir. Innra með okkur finnum við ný svör við gömlum spurningum. Og veröld okkar hefur stækkað að eilífu. Meðan á andstöðunni stendur búum við til perluna.

Í vakningunni leyfum við henni að koma í ljós. Einmitt þegar við vorum við það að gefast upp á andstöðunni og tvískinnungnum þá breyttist allt. Vakningin gerist vegna þess að innst inni óskum við hennar og sálin okkar vísar veginn. En til að byrja með erum við varkár, minnug þeirra erfiðleika sem andstaðan færði okkur. Eins og áður, getum við ekki flýtt vakningunni. Það eina sem við getum gert er að taka eftir, undirbúa jarðveginn og láta náttúruna sjá um afganginn. Hér uppgötvum við að við þurfum ekki að ráðskast með alheiminn heldur aðeins að finna okkar stað í honum – og slaka á.

Fimmta skrefið – ÁSETNINGURINN
Í fimmta skrefinu kemur að því að fara að taka ákvarðanir. Það nægir ekki lengur að segja; „ég sé, ég skil“, líkt og við gerum í gegnum vakninguna, heldur er komið að því að svara spurningunni: „og hvað viltu svo gera með þetta allt saman?“ Gloria Karpinski vitnar í Rene Daumal, sem segir: „Þú getur ekki verið á fjallstindinum til eilífðarnóns, þú þarft að koma niður aftur. Svo hvers vegna að leggja fjallgönguna á sig? Jú, það sem er fyrir ofan, veit hvað er fyrir neðan, en það sem er fyrir neðan veit ekki hvað er fyrir ofan.

Maður klifrar, sér og fer niður. Maður sér ekki lengur, en hefur séð.“ (Bls. 191). Eftir að hafa upplifað vakninguna verðum við aldrei söm. En þegar við snúum til baka af tindinum, komumst við yfirleitt að því að efnislegi heimurinn okkar hefur harla lítið breyst. Það getur verið erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, en ef ásetningur okkar er einlægur í því að lifa í samræmi við sannfæringu okkar þá nægir það. En innra með okkur býr líka rödd efans. Röddin sem segir: „Ég er ekki tilbúin(n)“, eða „Ég er ekki verðug(ur)“. Þó að engu okkar finnist við vera verðug eða reiðubúin er sannleikurinn alltaf verðugur og reiðubúinn til að birtast.

Á leið okkar þurfum við að eiga trú og traust. Að vera tilbúin til að treysta þeirri leiðsögn sem okkur er gefin og að taka ábyrgð á eigin vali og ákvörðunum. Og þegar við erum tilbúin til að treysta, munum við fá fjöldann allan af tækifærum til að láta reyna á þetta traust. Ásetningur okkar þarf að vera skýr. Viljum við frið í heiminum?, en eldum samt grátt silfur við nágrannana? Það sem við trúum á birtist í öllu sem við gerum. Við þurfum líka að glíma við afstöðu okkar til peninga og valda. Og þegar ásetningur þinn verður í samræmi við þinn æðsta tilgang, geturðu fundið mikinn kraft flæða í gegnum þig.

Þessi kraftur er ekki þinn, heldur er þetta kraftur alheimsins – kraftur Guðs. En persónulega miðlar þú þessum krafti og þarft að gera það upp við þig hvort þú vilt leyfa honum að flæða í gegnum þig eða ekki. Bæn, hugleiðsla og sjónmyndun (visualization) eru mjög öflug tæki til að styðja okkur í að beina orkunni í þann farveg sem við höfum einsett okkur. Ásetningurinn er bænin okkar. Þegar við gerum upp við okkur hvert við viljum fara erum við í raun að biðja um að vera leidd á einmitt þann stað. Það er því rétt að fara varlega og vera nákvæm, því okkur gefst örugglega það sem við biðjum um.

Sjötta skrefið – HREINSUNIN
Það er ekki fyrr en hér sem allt hið gamla umbreytist. Allt sem á undan er gengið virðist hafa verið undirbúningur fyrir hreinsunina. Hér förum við að sleppa takinu. Þau brot sem enn eimir eftir af gömlum viðhorfum eða ótta, koma upp á yfirborðið til að mega hreinsast endanlega. Við mætum aftur og aftur hlutum sem við héldum að við værum búin að afgreiða. Þetta er sá tími sem getur verið einna erfiðastur og einmanalegastur af öllu breytingaferlinu. Hér kveðjum við hið gamla og það reynir á traust okkar á þeirri nýju leið sem við höfum valið okkur.

Mundu að umbreytingareldar hreinsunarinnar eru heilagir og brenna gamlar takmarkanir okkar. Þegar hreinsuninni er lokið er orkan þín og öll verund komin á hærra tíðnisvið. Hið gamla virkar ekki lengur á þessum nýja stað, því það nær ekki til hans. Það sem á að fylla, þarf fyrst að tæma. Þess vegna er hreinsunin svo mikilvægur hluti af ferlinu. Hluti af hreinsuninni er að losa um líkamann, því hann geymir ýmis gömul áföll og gamlan sársauka. Við getum þurft aðstoð meðferðaraðila til þess, en mikilvægið felst í því að opna fyrir nýja orku. Opna fyrir heilun – til að geta síðan haldið áfram. Og við þurfum að /elska skuggahliðar okkar ekki síður en hið góða í okkur, til að opna fyrir náðina sem ævinlega stendur okkur til boða. Fyrirgefningin er líka mikilvægur hluti af hreinsuninni. Aðeins þegar við fyrirgefum verðum við fullkomlega frjáls.

Sjöunda skrefið – AÐ SLEPPA TAKINU
Í þessu síðasta skrefi, sleppum við að fullu takinu af því gamla til að geta stigið endanlega inn í það nýja. Hinn lægri vilji – minn vilji – er gefinn hinum æðri vilja á vald; „verði Guðs vilji“. Við sjáum dýpri merkingu lífsgöngunnar okkar. Tími hins litríka og frjálsa fiðrildis er kominn. Það býr heilagur staður innra með okkur öllum, þar sem heimur anda og heimur efnis mætast, þar sem hið innra og ytra verða eitt. Þetta er staður sem óvinurinn nær ekki til.

Hver og hvað er óvinurinn? Óvinurinn er sú lygi sem segir að þú sért eitthvað annað en skapandi Andi. Óvinurinn hefur þúsund andlit, ýmist heillandi eða ógnvekjandi, sem öll reyna að fá okkur til að trúa því að við séum það sem við gerum, en ekki það sem við erum Að sleppa takinu færir okkur nær og nær því að vera og þá eigum við miklu meira að gefa í allt sem við gerum. Ríkara ímyndunarafl og endalausa orku. Við hverja breytingu, við hverja uppgjöf, stækkar formið sem við lifum í. Það er eins og ílát, sem smátt og smátt nær að rúma meiri og meiri náð. Þegar við sleppum takinu uppgötvum við þann kraft sem býr í „ég veit ekki“ og „ég get ekki“.

Þá verðum við móttækileg fyrir því sem lífið og almættið eru að kenna okkur. En það þýðir ekki að við gefum frá okkur alla okkar hæfileika því við þurfum sjálf að taka ábyrgð á lífinu okkar Þegar við gefum okkur æðri vilja á vald, komumst við að því að okkur er ætlað að lifa í gleði. Gleði sem vísar okkur rétta leið. Og við getum hætt að berjast. Hér líður okkur kannski stundum eins og fanganum sem þráir frelsið, en helst síðan ekki við utan múranna og brýtur af sér til að komast þangað aftur.

Við kunnum að berjast, en við kunnum ekki að slaka á, treysta og leyfa alheiminum að bera okkur áfram. Hér er gott að við minnum okkur á hver við erum; „vera af ljósi, sonur eða dóttir móður, sköpunarverk Guðs“. (Bls. 270). Stundum förum við svo hratt að við náum ekki að vinna úr hlutunum jafnóðum. Það er gott að taka aðeins eitt skref í einu og síðan að fella það að heildarmyndinni. Að lokum er rétt að ítreka að Gloria Karpinski leggur áherslu á að þessi sjö skref meðvitaðra breytinga eru aðeins fyrirmynd og ber að nota sem slík. Prófaðu að bera saman þína eigin reynslu við skrefin og vittu hvort það færir þér dýpri skilning. Gangi þér vel Sigurborg Kr. Hannesdóttir Heimild: „Where Two Worlds Touch“ eftir Gloriu Karpinski, útg. Ballantine Books, New York, 1990.

Eftir að hafa upplifað vakninguna verðum við aldrei söm. En þegar við snúum til baka af tindinum, komumst við yfirleitt að því að efnislegi heimurinn okkar hefur harla lítið breyst.

Höfundur: Sigurborg Kr. Hannesdóttir 1997



Flokkar:Hugur og sál

%d bloggers like this: