Hér fara á eftir 6 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:
- Geta bakteríur valdið æðahrörnun?
- Kólesteróllækkandi lyf, krabbamein, eyðni o.fl.
- Á veirusýking þátt í æðasjúkdómum?
- Um fólinsýru, hjartaáföll o.fl.
- Taugan æring úr lesitíni
- C- vítamín minnkar áhrif reykinga
Kólesteróllækkandi lyf, krabbamein, eyðni o.fl.
Fyrir ekki ýkja löngu sögðu fjölmiðlar frá því að kólesteróllækkandi lyf, „simvastatin“ yki umtalsvert lífslíkur fólks með of mikið kólesteról í blóði. Eldri kannanir á öðrum hliðstæðum lyfjum höfðu hins vegar flestar sýnt hið gagnstæða og jafnvel þó að lækkun á kólesteróli væri umtalsverð í sumum tilfellum, fjölgaði dauðsföllum eigi að síður. Vitað er að kólesteróllækkandi lyf af „statin“ lyfjaflokknum, t.d. lovastatin og simvastatin hindra lifrina í að mynda ensím sem myndar mevalonsýru, sem er nauðsynleg til að lifrin geti búið til kólesteról.
Mevalonsýra er einnig nauðsynleg til að lifrin geti myndað kóensím Q-10, svo að um leið og kólesteról í blóði verður minna, minnkar einnig Q-10, nema þess sé neytt í fæðu. Því kom áðurnefnd frétt nokkuð á óvart og gekk nokkuð á skjön við aðrar hliðstæðar kannanir. Dýratilraunir (Newman og Hulley, JAMA 3. jan. 1996) benda til að áðurnefnd lyf geti valdið krabbameini séu þau notuð í langan tíma. Því er ekki talið ráðlegt að nota þau nema mjög brýna nauðsyn beri til að minnka kólesteról í blóði og helst ekki að staðaldri. Sterk rök hníga að því að skortur á kóensími Q-10 valdi þessum hliðarverkunum og að með því að taka það inn megi komast hjá krabbameinsáhættu og öðrum aukaverkunum sem fylgja því að nota simvastatin eða önnur hliðstæð lyf.
Gaman væri að vita hversu margir þeirra sem tóku þátt í könnuninni sem fjölmiðlar skýrðu frá notuðu Q-10. Vitneskjan um að simvastatin minnki Q-10 í blóði var nefnilega orðin almenn fyrir nokkrum árum og því gætu jafnvel flestir í könnuninni hafa notað það, annaðhvort af eigin ákvörðun eða að læknisráði. Þar gæti legið skýringin á því hversvegna niðurstöður þessarar könnunar stangast á við eldri kannanir. Q-10 virðist vera afar mikilvægt sem krabbameinsvörn og auk þess lífsnauðsynlegt fyrir starfsemi hjartans og til að vinna gegn hrörnunarsjúkdómum (sjá grein í Hh, vor 1995).
Því eru allir sem nota lyf gegn of miklu kólesteróli í blóði hvattir til að nota einnig kóensím Q-10, 60 mg á dag eða meira. Athuganir benda til að eyðnisjúklinga skorti Q-10 tilfinnanlega af einhverjum ástæðum. Við það að gefa þeim Q-10 batnar ástand þeirra og jafnvel T4 : T8 frumuhlutfall þeirra verður eðlilegra. Því má líta á Q-10 sem vopn í baráttunni við þennan illvíga sjúkdóm. Eyðnisjúklingar ættu að prófa að nota 60- 120 mg af Q-10 á dag ásamt 80-120 mg af pycnogenol (fæst í Heilsubúðinni í Hafnarfirði). Gaman væri að einhver leyfði mér að frétta um árangur. Fullri þagmælsku heitið.
Á veirusýking þátt í æðasjúkdómum?
Í Townsend Letter for Doctors, janúar 1995, er bréf frá lesanda um hjarta- og æðasjúkdóma og orsakir þeirra. Bréfið er vel skrifað og skemmtilegt og er m.a. vitnað í heimildir í tímaritið The Lancet, okt. 1978, sept. 1983 og jan. 1994, auk annarra heimilda. Bréfritarinn, Wayne Martin, ræðir þar nokkuð aðrar hugmyndir um orsakir æðasjúkdóma, en þær sem mest hafa verið í sviðsljósinu á síðustu áratugum. Sá er þetta ritar leggur vitaskuld engan dóm á hugmyndir Wayne Martins, en finnst þó rétt að gefa lesendum Hh kost á að kynnast þeim. Martin segir að oftast sé aðeins lítill hluti æðaþrenginga vegna kólesteróls eða annarra fituefna. Meiri hluti þeirra er gerður úr frumum eins og þeim sem mynda slétta vöðva. Dr. Earl P. Benditt skrifaði um þetta í tímaritið Scientific American í febrúar 1977, án þess að grein hans hlyti verðskuldaða athygli. Hann taldi að æðaþrengingarnar mætti flokka sem góðkynja æxlismyndun.
Ritstjóri tímaritsins The Lancet, tók þó málið til meðferðar í október 1978 og sagði þar m.a. fjölgun á frumum eins og þeim sem mynda slétta vöðva hefst án þess að áður sé um neina uppsöfnun kólseteróls að ræða. Útfellingar með lágu fituinnihaldi og litlu kólesteróli, en sem vaxa er tímar líða, hafa fundist í 30-50% allra hvítra útfellinga. Þar virðist kólesteról frekar koma í kjölfarið.“ Niðurstaðan af þessu virðist benda til, að hafi þessi góðkynja æxli ekki myndast áður, þá setjist ekkert kólesteról innan í æðarnar. Í The Lancet, sept. 1983 er svo sagt frá því að fundist hafi í æðaþrengingum sem teknar voru með skurðaðgerð, mótefnisvaki (antigen) gegn cytomegoloveiru (CMV) í meira en fjórðungi þeirra tilfella sem athuguð voru. Þar var komið með þá tilgátu að CMV væri veiran sem kæmi af stað góðkynja æxlismyndun í sléttum vöðvum í æðaveggjunum og að e.t.v. mætti koma í veg fyrir það með því að finna bóluefni gegn CMV og bólusetja fólk gegn æðaþrengingum af þessu tagi. Síðustu 10 árin hafa þessar hugmyndir lítið verið ræddar.
Þó komust þær aftur í sviðsljósið eftir að farið var að „blása út“ æðar. Vitnað er í grein sem kom í Science nýlega, sem fjallar um hversvegna æðar sem nýlega höfðu verið „blásnar út“ þrengdust oft fljótt aftur. Þar voru leiddar líkur að því að CMV væri orsök þessara nýju æðaþrenginga. Einnig var þar fjallað um nýlega uppgötvað prótein, p53. Þetta prótein er talið hindra heilbrigðar frumur í því að fjölga sér hömlulaust og verða að æxlisfrumum. CMV-veiran gerir þetta prótein óvirkt. Því geta frumur eins og þær sem mynda slétta vöðva í æðaveggjunum farið að skipta sér og mynda útfellingar, sé CMV- veiran til staðar. Við það að „blása“ æðina út kemst veiran í virkt ástand, en áður lá hún í nokkurskonar dvala eða óvirku ástandi.
Því eru þrengingar í æðum, sem víkkaðar eru með blásingu oft fljótar að koma aftur. Bólusetning gegn CMV-veirunni ætti samkvæmt þessu að geta unnið kraftaverk í að fyrirbyggja æðaþrengingar og hjartaáföll. Bréf Wayne Martins er allmiklu lengra en þetta. Þar ræðir hann m.a. um aukna tíðni hjartaáfalla á þessari öld, sem sé 50-80 föld. Á sama tíma hefur neysla á dýrafitu og kólesteróli lítið breyst en heildarfituneysla þó aukist heilmikið. Aukningin er eingöngu í tilbúnum fitum og olíum, t.d. smjörlíki, bökunarfeiti og hálfhertum jurtaolíum, sem notaðar eru við matreiðslu. Á þetta hefur margoft verið bent m.a. í þessu riti. Erfitt er að kenna kólesteróli eða dýrafitu um 50-80 falda aukningu kransæðatilfella á einni öld, fyrst engin aukning hefur orðið á neyslu kólesteróls eða dýrafitu á þessu tímabili.
Greinarhöfundi finnst þó að taka verði með varúð öllum nýjum hugmyndum og kenningum, en þó má alls ekki afskrifa þær að órannsökuðu máli. Vel getur hugsast að margar samvirkar ástæður séu fyrir þessum æðasjúkdómum og að CMV-veiran sé ein þeirra. Aðrar ástæður gætu t.d. verið skortur vissra bætiefna, t.d. C-, E- og B6- vítamína, óhófleg neysla á sykri eða transfitum, hreyfingarleysi og/eða streita. Kannski vitum við ekki ennþá hver höfuðástæðan er og e.t.v. þurfa fleiri en ein ástæða að vera til staðar. Einhvern tíma las ég að herpesveirur (áblástursveirur) gætu valdið skemmdum í æðaveggjum, líkum þeim sem hér er talað um.
Í grein Wayne Martins segir að coxackie Bveirur liggi undir grun um að valda hjartaáföllum. Hann vitnar þar í grein í The Lancet, 23. apríl 1977. Coxackie-veirur sýkja taugar líkt og lömunarveiki en lömunin gengur til baka að nokkrum tíma liðnum. Að lokum segir Wayne Martin að læknar og aðrir ættu að leggja minni áherslu á kólesteról og mettaða fitu í sambandi við hjarta- og æðasjúkdóma. Þess í stað ættu þeir að einbeita sér að atriðum sem draga úr samloðun blóðflaga og blóðtöppum í æðum, eins og t.d. hvítlauk, lýsi, kvöldvorrósarolíu og stórum skömmtum af B6-vítamíni.
Um fólinsýru, hjartaáföll o.fl.
Fyrir meira en áratug sagði ég frá því í þessum rabbþáttum að fólinsýruskortur mæðra fyrri hluta meðgöngutímans gæti valdið alvarlegum fósturskaða, sér í lagi svokölluðum „klofnum hrygg“, sem stafar af því að mænugöngin lokast ekki að fullu þegar fóstrið þroskast. Þetta veldur oftast misalvarlegri fötlun og jafnvel dauða. Í stöku tilfellum er þó fötlunin ekki meiri en svo að þess verður ekki vart og enginn veit um að neitt sé að barninu, fyrr en e.t.v. á fullorðinsárum þegar viss einkenni fara að koma í ljós. Þessi einkenni geta t.d. verið hreyfihömlun eða dofi í fótum eða fótleggjum. Nú munu verðandi mæður yfirleitt fá fólinsýru, þegar þær vita að þær eru með barni, sem því miður er stundum of seint, því að mænugöngin eru að þroskast fyrsta hluta meðgöngunnar.
Því væri best að allar konur á barneignaraldri notuðu fólínsýru að staðaldri, því að ekki má treysta um of á að fólinsýra sé næg í mat. Hún þolir illa hita, suðu og geymslu og þeir sem ekki nota ferskt, eða lítið soðið grænmeti mega búast við að skorta stöðugt fólinsýru. Annað atriði, ekki síður mikilvægt, er að fólinsýra er ómissandi fyrir æðakerfið, sérstaklega ef fólk notar mikið dýraeggjahvítu. Hún er auðug af amínósýrunni meþionin. Við niðurbrot meþionins myndast amínósýran hómócystein, sem er skaðleg fyrir æðakerfið og hvetur m.a. oxun á kólesteróli, sem síðan sest innan í æðar og getur m.a. valdið hjarta- og heilaáföllum.
Fólinsýra getur umbreytt hómócystein aftur í meþíonín. Einnig getur B12 aðstoðað við þessa umbreytingu og B6 vítamín er algerlega ómissandi til að hindra að kólesteról oxist og setjist innan í æðar (sjá grein í Hh, haust 1991). Það er því einkennileg ráðstöfun hjá Lyfjanefnd ríkisins að banna frjálsa sölu á fólinsýru á Íslandi, enda þótt vitað sé að fólinsýra er eitthvert öruggasta fæðubótarefnið á markaðinum. Rökin skilst mér að séu þau, að stórir skammtar af fólinsýru geti „maskað“ eða falið B12 vítamínskort. Því megi fólk ekki nota fólinsýru nema í mjög smáum skömmtum, í vítamínblöndum sem leyfilegt er að hafa fólinsýru í. Þessi röksemd er léttvæg, því að auðvelt væri að setja reglur um að ekki megi selja fólinsýru nema blanda B12-vítamíni saman við. Einnig virðist varla geta verið betra að skorta bæði vítamínin en annað þeirra, því að B12- vítamín fæst heldur ekki nema gegn lyfseðli.
Tauganæring úr lesitíni
Engin nýlunda er að tala um að í lesitíni séu efni sem næra taugakerfið. Nú hefur bæst við heilmikil vitneskja um efnasamband sem finnst í litlum mæli t.d. í soja-lesitíni. Þetta efnasamband heitir fosfatídyl serin og er örlítill hluti fosfólípíðanna sem lesitín er gert úr. Önnur mikilvæg fosfólípíð í lesitíni eru: fosfatídyl kólin, fosfatídyl inósítol og fosfatídyl ethanolamin. Kólin hefur lengi verið talið mikilvæg tauganæring, enda myndar það taugaboðefnið „acetyl-kólin“, sem er eitt mikilvægasta boðefnið í heila og taugum.
En nú hefur sem sé komið í ljós að annað fosfólípið, fosfatídylserín, sem ég hér eftir nefni „f-serín“ til styttingar, er ennþá mikilvægara F-serín finnst lítið í algengum mat og þó að líkaminn geti búið það til úr öðrum efnum er það miklum erfiðleikum bundið og þarfnast fjölda mismunandi ensíma. Eina líffærið sem f-serín finnst í nokkru verulegu magni í er heilinn í mönnum og dýrum. Ekki er fólki þó ráðlagt að fara að borða heilastöppu eða annan mat sem heilinn úr dýrum er notaður í, vegna þess að sýkingarefnið „prion“, sem veldur m.a. Creutzfeldt-Jacobs sjúkdómi og riðuveiki, getur borist með sýktum heilavef og auknar líkur eru nú taldar á að þessi banvæni sjúkdómur í miðtaugakerfinu berist frá einni dýrategund til annarrar, t.d. úr nautgripum í fólk sem leggur sér til munns afurðir úr sýktum dýrum.
Sýkingarefnið þolir suðu svo að öruggast er að halda sig sem mest frá öllum afurðum úr dýrum sem gætu borið riðusmit, sér í lagi heila þeirra dýra. Þetta var nú útúrdúr en nýlegar athuganir sýna að f-serin virðist ómissandi fyrir eðlilega heilastarfsemi. Sú staðreynd að f-serín finnst fyrst og fremst í heilanum en sáralítið annars staðar í líkamanum, endir óneitanlega sterklega til þess að það gegni þar einhverju veigamiklu hlutverki. Þegar aldur færist yfir fólk dregur oft verulega úr virkni ýmissa ensíma. Því má gera ráð fyrir að eitthvert þeirra fjölmörgu ensíma sem líkaminn þarf að nota til að geta búið til f-serín, verði lítið eða ekkert virkt þegar fólk eldist.
Raunin er líka sú, að gamalt fólk er í meiri þörf fyrir að fá f-serín úr fæðu, heldur en yngra fólk. Svo virðist að sum einkenni þess sem oft er nefnt „elliglöp“ lagist við að gefa fólki f-serín sem fæðubótarefni. Þar má t.d. nefna minnisleysi og depurð og það hjálpar eldra fólki til að sigrast á streitu sem oft hrjáir fólk í ellinni. Fosfatídyl serín getur jafnvel bætt minni hjá fólki á unga aldri, ef það hefur lélegt skammtímaminni. Skammtastærðir eru frá 100 mg á dag upp í hálft gramm, tekið að morgni, því að annars getur fólki gengið illa að sofna, en það eru einu aukaverkanirnar sem vitað er að fylgi því að nota efnið.
Ekki er ennþá vitað hvort hægt er að nota það við Alzheimersjúkdómi með árangri, þó að sum einkenni hans virðist lagast, að minnsta kosti um stundar sakir. Dr. Parris Kidd, sérfræðingur í frumulíffræði, segir það sína reynslu að hægt sé að snúa til baka skerðingu á heilastarfseminni hjá öldruðu fólki um að minnsta kosti 10 ár með því að nota f-serín, þ.e.a.s. heilastarfsemin verður eins og einstaklingurinn sé 10 árum yngri. Hann telur að e.t.v. hjálpi það heilafrumunum með því að örva boðefnamyndun, endurnýja frumuhimnurnar í heilafrumum og hvetja vaxtarþátt, sem stuðlar að því að taugafrumur skjóti út nýjum taugaþráðum.
Hvað sem öllum kenningum líður hefur f-serín mjög æskileg áhrif á heilastarfsemina hjá öldruðu fólki, sem greinilegast kemur fram í bættu minni. Parris Kidd telur að eldra fólk eigi einnig að nota bætiefni sem vitað er að næra heilann t.d. kóensím Q-10, acetyl L-carnitín, musteristré (ginkgo biloba), flavonefni og C- og E- vítamín. Vitað er að öll þessi efni koma heilafrumunum til góða á einn eða annan hátt, t.d. með því að bæta blóðrásina í heilanum, aka orkuvinnslu frumanna eða eyða stakeindum sem skaða heilann, telur dr. Parris Kidd. Fosfatídyl serin, unnið úr soja lesitíni, fæst nú sem fæðubótarefni í Bandaríkjunum. Heimild: Viðtal við dr. Parris Kidd í læknaritinu Townsend Letter for Doctors and Patients – janúar 1996.
C- vítamín minnkar áhrif reykinga
Lengi hefur það verið skoðun eða trú ýmissa að C-vítamín dragi úr skaðlegum áhrifum tóbaksreyks. T.d. skrifaði frumkvöðullinn Marteinn sálugi Skaftfells, einn helsti hvatamaður þess að Heilsuhringurinn var stofnaður, um það fyrir meira en hálfum öðrum áratug og taldi að nálægt 25 mg af C-vítamíni þyrfti til að vega upp á móti einni sígarettu. Margir gerðu lítið úr þessum upplýsingum Marteins og gáfu jafnvel í skyn að hann héldi þessu fram í eiginhagsmunaskyni til þess að selja meira C-vítamín í „Elmaro“ sem var heildverslun með fæðubótarefni sem Marteinn rak. Þá var kannski ekki hægt að benda á viðurkenndar rannsóknarniðurstöður til að sanna þetta, þó að færa mætti að því sterkar líkur. Nú virðist þó sem niðurstöður, sem flestir hljóta að taka gildar, séu loksins komnar. Þrír þýskir vísindamenn segja frá því í „Circulation“, tímariti Bandarísku hjartaverndarsamtakanna að C-vítamín, sem sé öflugt oxunarvarnarefni, hafi bætt skemmdir í æðakerfinu, sem oxandi efni í sígarettureyk höfðu valdið.
Þeir sögðu þó að of snemmt væri að fullyrða að C-vítamín í pillum hefði hliðstæð áhrif eins og C-vítamín í æð, sem þeir notuðu við tilraunina. Vísindamennirnir sem starfa við Háskólann í Freiburg, telja að gera þurfi sérstaka rannsókn til að fá úr því skorið, hvort dagleg neysla á C-vítamínpillum geti dregið úr skaðlegum áhrifum tóbaksreyks á hjartað og æðakerfið. Garrett Fitzgerald, sem starfar við Fíladelfíu- háskóla í Bandaríkjunum, skrifar í sama blað af Circulation, að hann og félagar hans hafi komist að því að C-vítamín, ýmist eitt sér eða með E-vítamíni dragi mikið úr skaðlegum oxunarárhrifum sígarettureyks hjá reykingafólki (eyði skaðlegum sindurefnum).
Hann telur þó best að reykja alls ekki. Sindurefni (stakeindir) úr sígarettureyk skemma þunnt frumulag sem þekur innsta borð slagæða. Þetta frumulag gerir æðunum kleyft að þenjast út og dragast aftur saman eftir því sem þörf er á. Við skemmdir sest („slæmt“ oxað) kólesteról innan á æðaveggina og getur um síðir lokað æðinni eða orsakað að lítill blóðtappi loki henni. Það veldur hjartaáfalli eða heilaáfalli eftir því hvort æðin er í hjarta eða heila.
Einnig getur æð í útlimum lokast, sem leiðir stundum til dreps og að taka verði útliminn af. Við það að hætta að reykja minnka sindurefni í blóði. Sama gerist ef tekin eru inn C- og E- vítamín, ásamt fleiri oxunarvarnarefnum. Þó að vítamínin bæti vissulega, er þó ennþá betra að hætta að reykja og þó að hér sé fyrst og fremst talað um æðasjúkdóma má ekki gleyma öðrum alvarlegum sjúkdómum, t.d. ýmsum krabbameinum. Þeir sem ekki reykja mega þó ekki halda að vítamín séu aðeins fyrir reykingafólk, þó að það hafi vissulega meiri þörf fyrir þau en aðrir.
Höfundur : Ævar Jóhannesson Vor 1997
Flokkar:Úr einu í annað