Stæltir vöðvar og sterk bein fara saman

Rætt við Gunnar Sigurðsson lækni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur um rannsóknir á beinþéttni íslenskra stúlkna

Rannsókn á beinþéttni íslenskra stúlkna fór fram í byrjun síðasta árs og voru rannsakaðar 254 stúlkur. Ákveðið var að bera beinþéttni saman við næringu og líkamsáreynslu. Tekið var mið af því að erlendar rannsóknir hafa bent til þess að erfðir ákvarði um 60-70% af beinþéttni hvers einstaklings, en um það bil 30% ákvarðist af öðrum þáttum. Stúlkurnar voru valdar með slembiúrtaki úr íbúaskrá Reykjavíkur. Í rannsókninni tóku þátt 71 stúlka á 16. ári, 64 stúlkur á 18. ári og 119 stúlkur á 20. aldursári. Þær svöruðu ýmsum spurningum um næringarþætti og var sá hluti unninn í samvinnu við Manneldisráð Íslands. Kannað var magn kalks í fæðu þeirra, einnig magn D- vítamíns og hvort það kæmi úr lýsi eða sólarljósi. Spurt var um líkamsáreynslu, einkanlega skólaleikfimi og fleiri greinar íþrótta.

Beinþéttni stúlknanna var mæld í hrygg, mjöðm og framhandlegg og voru niðurtöður síðan bornar saman við niðurstöður úr könnunum um mataræði og líkamsáreynslu. Í ljós kom að einungis lítill hluti hópsins neytti undir 1000 mg af kalki á dag, en í heildina var kalkneysla stúlknanna tiltölulega mikil, að meðaltali 13-1400 mg á dag. Það kom einnig fram að kalkneyslan virtist ekki vera takmarkandi þáttur í beinvexti þeirra. D-vítamín inntakan var hins vegar nokkru lægri, þó var hún góð hjá stórum hluta stúlknanna. Að meðaltali var nóg D-vítamín í blóði stúlknanna og kom nokkuð á óvart að ljósaböð virtust hafa Meiri áhrif en lýsisinntaka. Um 20% hópsins voru neðan við þau mörk D-vítamíns sem sérfræðingar   mæla með, þó að það virtist ekki koma niður á beinum stúlknanna. Þess vegna er þörf á því að rannsaka betur þátt D-vítamíns í beinþéttni unglinga.

Beinin styrkjast við áreynslu
Rannsóknin sýndi að stæltar stúlkur sem höfðu fengið góða líkamsþjálfun og höfðu nægilegan vöðvamassa og vöðvakraft komu verulega betur út úr könnuninni heldur en mjög grannholda stúlkur sem litla líkamsþjálfun stunduðu. Þessar niðurstöður benda því vissulega til þess að stæltum vöðvum fylgi sterk bein og hvetur það til aukinnar líkamsþjálfunar, sem væntanlega gæti komið í veg fyrir beinþynningu síðar á ævinni.

Fyrri rannsóknir
Áður hefur verið kannað beinmagn eldri kvenna og þar kom fram að verulega verður vart beintaps hjá konum á fyrsta áratugnum eftir tíðahvörf, sem að öllum líkindum er tengt hormónabreytingum. Á þeim áratug tapa margar konur 15% af sínu beinmagni en síðan hægir á eftir 60-65 ára aldur og tapið verður kannski ekki meira en 1% á ári. Margar erlendar rannsóknir benda til þess að beintap eftir 65 ára aldur, bæði hjá konum og körlum ráðist af því hver næringin er og hve hreyfing sé mikil. Hjá báðum kynjum er hægt að draga úr beinþynningu á efri árum með góðri næringu og hreyfingu.

Geta konur varist beintapi fyrst eftir tíðahvörf með réttu mataræði og hreyfingu? Það kemur að gagni að takmörkuðu leiti, en ekki virðist hægt að koma í veg fyrir beinþynningu. Hinsvegar komast þær konur mun betur frá þessu tímabili sem eru vel á sig komnar fyrir tíðahvörf. Það má segja að þær hafi efni á því að missa svolítið. Kominn er á markað nýr flokkur lyfja, sem eru verndandi fyrir beinin, en eru ekki hormónalyf. Þau setjast í beinin og hindra að frumur sem kallaðar eru úrátur skemmi þau. Tvö lyf í þessum nýja lyfjaflokki hafa verið skráð hérlendis, en eins og mörg önnur lyf hafa þau aukaverkanir, sérstaklega á magann því að nauðsyn er að taka þau inn á morgnana á tóman maga.

Ásamt Gunnari Sigurðssyni lækni unnu að rannsókninni læknanemarnir Sindri Valdimarsson og Sigurjón Stefánsson, aðstoðarlæknarnir Örnólfur Valdimarsson og Jón Örvar Kristjánsson, ásamt Díönu Óskarsdóttur, röntgentækni og Guðrúnu Kristjánsdóttur, ritara. Spurningarnar varðandi mataræðið voru unnar af Laufeyju Steingrímsdóttur og Manneldisráði. Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er boðið upp á beinþéttnimælingar fyrir almenning, kostar slík rannsókn 4000 kr. fyrir einstakling

Ingibjörg Sigfúsdóttir skráð 1997 Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

%d