Osteopathy – loksins komin til Íslands

Mikill hluti manna í hinum vestræna heimi þjáist af bakvandamálum í einhverri mynd einhvern tímann á lífsleiðinni. Bakveiki er mikið vandamál, ekki einungis vegna þjáninganna sem hún veldur einstaklingnum, heldur einnig vegna tapaðra vinnustunda og röskunar á lífi almennt. Bakveiki er af ýmsum toga, en það er ekki ætlunin með þessari grein að ræða um bakvandamál sem slík, heldur að ræða um Osteopathy og hvernig sú grein lækninga getur veitt hjálp við bakvandamálum, liðvandamálum og bætt almennt heilbrigði.

Hvað er Osteopathy?
Osteopathy er lækningakerfi sem leitast við að koma ájafnvægi og samræmi í stoðkerfi tíkamans. Osteopathy lítur á líkamann sem eina heild, og lítur svo á að ef einn hluti kerfisins er í ólestri þá hafi sá óheilbrigði hluti áhrif á alla heildina og raski heildarjafnvæginu. Það má líkja þessu ferli við keðjuverkun. Sem dæmi má nefna, að oft lagast verkur í mjóbaki þegar efri bakliðir eða sacro-iliac liðir hafa verið leiðréttir með meðhöndlun. Osteopatinn leitast við að finna út hvaðan sársaukinn er uppruninn, því að í mörgum tilfellum finnur sjúklingurinn fyrir sársauka í öðrum hluta líkamans en þeim  sem veldur sársaukanum. Verkur í handlegg á sér oft rætur í hálsliðum, þar sem taugar eru ertar af einhverjum ástæðum. Meðferð á handleggnum sjálfum hefur því engin áhrif, heldur þarfnast hálsinn meðferðar við.

Saga Osteopathy
Osteopathy var þróuð af bandarískum lækni, Andrew Taylor Still að nafni, í kring um 1855. Fyrsti Osteopathy-skólinn  var  stofnaður í Kirksville í Missourifylki árið 1902. Læknisfræði var á frumstigi á þessum árum, og Dr. Still, sem hafði starfað sem læknir á vígvöllum þrælastríðsins, var mjög ósáttur við hvað lítið var oft hægt að gera fyrir sjúklingana og hversu lækningaaðferðirnar voru oft á tíðum hrottalegar og ómanneskjulegar. Þetta ásamt dauða þriggja barna hans úr heilahimnubólgu hvatti hann til að þróa hugmyndir að annarskonar læknisfræði.

Dr. Still sem var líka verkfræðimenntaður fór nú að líta á líkamann sem heildarkerfi þar sem hver hluti er öðrum háður. Hann uppgötvaði að ef ekki er samræmi á milli hluta líkamans þá verði truflun á streymi blóðs, tauga og lífsorku. Hann þróaði kerfi handmeðhöndlana þar sem leitast er við að koma á jafnvægi í óheilbrigðum hlutum líkamans, sérstaklega í stoðkerfinu. Hann leit svo á, að ef blóðstreymi og flæði tauga og orku væri óhindrað, þá hefði líkaminn meira afl til að vinna gegn sjúkdómum. Dr. Still stundaði allskyns sjúkdóma með góðum árangri, en smám saman fór að koma í ljós að vandamál sem áttu sér uppruna í stoðkerfinu brugðust einna best við þesskonar meðferð.

Í Bandaríkjunum hefur Osteopathy þróast samhliða  hefðbundinni læknisfræði og er Osteopathy tekin sem sérnám á eftir almennu læknisfræðinámi. Osteopathy breiddist fljótt út til Evrópu, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands og til meginlandsins og margir skólar voru settir á stofn.  Osteopathy náði miklum vinsældum í Bretlandi og virtustu Osteopathy-skólarnir eru þar, og greinarhöfundar stunduðu nám í einum stærsta skólanum þar. Í Bretlandi er Osteopathy nú á háskólastigi og útskrifað er með gráðu í Ost. Med., en áður var útskrifast með diplóma. Námið felur í sér almenna læknisfræði, röntgenfræði,  lyfjafræði,  stoðkerfisfræði og bæklunarlækningafræði svo nokkur fög séu nefnd.. Verklegt nám og  starf í skólaklínikinni er stór hluti af náminu. Í Bretlandi og á meginlandinu hefur nátturulækningahreyfingin (Naturopathy og Nature Cure) löngum verið sterk.

Í Bretlandi hreifst sú hreyfing mjög af Osteopathy og í þeim skóla sem greinarhöfundar stunduðu nám eru náttúrulækningar kenndar samhliða Osteopathy. Þessar tvær lækningaaðferðir fara mjög vel saman þar sem báðar byggjast á því að auðvelda líkamanum að lækna sjálfan sig. Osteopathy hefur löngum verið virtasta og þekktasta  „óhefðbundna“  læknisaðferðin í Bretlandi, og 1993 var samþykkt í breska þinginu að Osteopatar skyldu hafa sömu stöðu og læknar og tannlæknar, og er því greinin orðin mjög „hefðbundin“. Osteopatar starfa því á læknamiðstöðvum samhliða læknum og líka á spítölum, sérstaklega á bæklunardeildum og á sérstökum Sársaukadeildum. Slíkar Sársaukadeildir eru að verða algengar í Bretlandi, en þetta eru oftast göngudeildir þangað sem fólk með langvarandi sársauka getur sótt. Mjög margt þessa fólks þjáist af langvarandi bakvandamálum, og þá getur Osteopathy oft hjálpað.

Hvað á sér stað í meðferðartíma hjá Osteopata?
Fyrsti tíminn hefst á því að sjúklingurinn er spurður spurninga sem varða það sem þjáir hann og farið er út í sögu og þróun vandamálsins. Síðan er spurt um fyrri sjúkrasögu einstaklingsins, veikindi og önnur meiðsli. Síðan er sjúklingurinn  skoðaður mjög vandlega, og hann er látin gera vissar hreyfingar sem geta brugðið ljósi á eðli vandamálsins. Blóðþrýstingur er mældur og önnur líkamskerfi athuguð nánar ef þörf þykir. Þegar þessu er lokið og Osteopatinn er sáttur við að þessi meðferð geti orðið sjúklingnum til góðs hefst meðferðin. Vegna læknisfræðikunnáttu sinnar þá hafa Osteopatar tök á að greina á milli þess sem þeir geta meðhöndlað og þess sem þarf frekari rannsókna við, og vísa þá til heimilislæknis eða sérfræðings. Osteopatar þekkja því mörk sín og þykjast ekki geta hjálpað við allt eða alla. Þar sem greinarhöfundar hafa líka menntun í náttumlækningum (Naturopathy), þá spyrjum við líka út í mataræði og almennt líferni og gefum ráðleggingar ef þess er óskað.

Meðferðin sjálf felst í því að Osteopatinn beitir höndunum við að koma á heilbrigði í liðum og vefjum. Notaðar eru taktfastar mjúkar hreyfingar, hnykkingar og djúp vefja- og vöðvameðferð. Meðferð á sjúkum líkamshluta getur auðvitað ekki verið algjörlega án óþæginda, en aðferðirnar sem beitt er eru í eðli sínu mjúkar og án sársauka. Fólk verður oft hrætt að ástæðulausu þegar það heyrir minnst á hnykkingar. Hnykkingar eru sársaukalaus meðferð í höndum lærðra manna, og yfirleitt verður sjúklingurinn ekki var við að lið hafi verið hnykkt fyrr en hnykkingin er yfir-staðin. Þetta er mjög áhrifaríkt meðferðarform þegar farið er rétt með  það og notað kunnáttusamlega, þar sem það getur losað um stirða liði og hjálpað til að endurskapa jafnvægi í óheilbrigðum liðum.

Sjúklingar fá ráð leggingar í sambandi við bæði fyrirbyggjandi og enduruppbyggjandi æfingar dl að gera heima, og ráðleggingar eru veittar varðandi notkun líkamans í vinnu og heima. Eitt mýksta meðferðaformið sem Osteopatar hafa yfir að ráða er höfuðbeina-spjaldhryggs meðferð (Cranio-Sacral Osteopathy), þar sem óreglulegar hreyfingar á mænuvökva eru leiðréttar, og hjálpar slík meðferð sérstaklega vel gegn höfuðverk af ýmsu tagi og almennum óróleika og vanlíðan. Í London er búin að vera starfrækt um árabil „Osteopathy-miðstöð fyrir börn“, þar sem höfuðbeina-spjaldhryggs meðferð er notuð nær einungis, og hefur náðst góður árangur við meðferð heilaskaðaðra barna og barna með atferlisvanda. Í Osteopathy-meðferð fá engir tveir sjúklingar nákvæmlega sömu meðferð, því að hver sjúklingur er einstakur og meðferðin er sniðin eftir hans þörfum.

Höfundar:
Þórunn Björnsdóttir B.Sc. Ost.Med., M.R.O., N.D.,M.R.N.
Simon B. Michaelson D.O., M.R.O., N.D     Grein skrifuð árið 1995

 



Flokkar:Meðferðir