Lífræn umbreyting ,,Biologisk Transmutation“

Greinin er rituð með hliðsjón af því, hvernig megi fyrirbyggja beinþynningu og jafnvel stuðla að endurkölkun áður en í óefni er komið. Margt af því sem hér er ritað er unnið upp úr enskri útgáfu bókar eftir Charles Louis Kervran, prófessor í efnafræði við Sorbonne í París. Uppgötvanir hans í jarðvegsfræðum vöktu athygli og skoðanaskipti á þeim tíma sem bókin kom út á frummálinu, árið 1962. Því miður entist prófessor Kervran ekki aldur til að fylgja eftir þessum uppgötvunum, en þær hefðu getað hindrað mikla eymd í mannheimi, ef þeim hefði verið gaumur gefinn. Þarna var ekkert á ferðinni, sem aflað gæti auðugum lyfjafyrirtækjum stórgróða, nema síður sé.

Og nú er svo komið að bókin, sem C. L. Kervran gaf út á frönsku, „Transmutationes Biologiques“ mun vera orðin vandfengin. Ég hafði enska þýðingu að láni frá Guðmundi Einarssyni verkfræðingi og sannfærðist um að hún hefði sannleik að geyma, sem ætti erindi til allra, sem vilja halda heilsu. Ég skrifaði útgefandanum og pantaði tvö eintök, en ekkert kom út úr því. Hvarf ég á það ráð að fá bókina ljósritaða til eigin nota, svo að ég gæti skilað henni til eigandans, því að það fer ekki framhjá mér, að þarna er stórkostleg uppgötvun sem ekki má fara í súginn. Það er reyndar ekkert einsdæmi að ómetanleg þekking fari í gröfina með snillingum.

Efnafræðingar á gömlu línunni voru vel á veg komnir að kveða niður þekkinguna á lífrænum umbreytingum, ekki með vísindarökum, heldur með þögn. Eitt hið allra fyrsta, sem reynt er að negla fast í sannfæringu nýnema í efnafræði er það að frumefnin séu varanleg og breytist ekki hvert í annað. Sjálft orðið „atóm“ merkir „hið ódeilanlega“. Litið er á þetta sem pottþéttan grundvöll, sem lagður var á síðari hluta 18. aldar af hinum fræga franska efnafræðingi Lavoisier, sem nefndur hefur verið faðir nútímaefnafræði.

Hann var einn þeirra mörgu merku manna, sem misstu höfuðið undir fallöxinni á tímum frönsku byltingarinnar. Innan efnafræðinnar vorum við á námsárunum sífellt minnt á lögmálið hans Lavoisiers: „Ekkert glatast, ekkert skapast, allt um-breytist“. Þetta var trúarjátning efnafræðinnar. Það gekk helgispjöllum næst í augum margra, sem álitu sjálfa sig trausta og heiðarlega vísindamenn, að víkja svo mikið sem hársbreidd frá þessu áliti meistarans.

Samt kom brestur í trúna, þegar Madame Marie Curie sýndi fram á það með óhrekjandi vísindarökum að geislavirk efni breytast í önnur efni á þann hátt, sem sjálfur Lavoisier hafði engan grun um að gerst gæti. Radíum varð blý,  það var stutt blýungum rökum. Um miðja 20. öld kom fram enn einn franskur efnafræðingur, C. L. Kervran og sýndi fram á með gildum vísindarökum, að það voru ekki aðeins nokkur blýþung atóm geislavirkra efna, sem breyst gátu í önnur efni, heldur gat umbreyting (transmutation) frumefna orðið þar sem líf var að verki. Þetta fyrirbrigði nefndi Kervran „transmutationes biologiques“, sem ég mun nefna lífræna umbreytingu, vegna þess að ég hef hvergi rekist á þýðingu þessa hugtaks á íslensku. Kervran margtekur fram, að þetta gerist aðeins þar sem lífverur eigi hlut að máli. Í dauðhreinsuðum tilrauna-glösum getur slíkt ekki átt sér stað. Mætti það vera venjulegum efnafræðingum huggun að í tilraunastofum sínum eru þeir óhultir fyrir þessu fráviki frá kenningu meistarans Lavoisiers.

Af mörgum er það talið einhvers konar tregðulögmál í vísindum að venjulega líði 20-30 ár frá uppgötvun til viðurkenningar nýrrar þekkingar,  sem krefst verulegra breytinga á viðurkenndu kerfi. Og það helst óbreytt, að ekkert glatast, ekkert skapast og allt breytist. Það sem bætist við er að í lífrænu umhverfi geta einingamar, sem kjarni frumefnanna er samsettur úr, prótónur og nevtrónur raðast saman með nýjum hætti, þannig að fram komi öðruvísi kjarnar og þá um leið önnur frumefni.

Til þess að þetta geti gerst, verða að vera til staðar þau ensím sem til þarf í virku lifandi umhverfi. Trúlega er hér um ákaflega yfirgripsmikið efni að ræða og margt óljóst í þekkingu okkar enn, varðandi möguleikana sem búa með lifandi efni, enda vitum við ekki hvað líf er eða hvaða kraftar eru þarna að verki. Grunur leikur á að um einhvers konar rafmagn sé að ræða. En reyndar kunnum við ekki heldur full skil á hvað rafmagn er. Varðandi úrkölkun beinanna hefur dæmið vafalaust verið einfaldað alltof mikið.

Aldrei hafa sönnur verið á það færðar að kalsíumfosfatið í beinunum hafi til orðið fyrir það að fólkið hafi etið kalk og fosfór, sem síðan hafa myndað þetta efnasamband í beinunum. Kervran og margir fleiri hafa sýnt fram á að kalk getur orðið til úr öðrum frumefnum. Ekki liðu nema 30 ár frá dauða Lavoisiers þar til Vanquelin sýndi fram á að í saur kjúklinga, sem fóðraðir voru á komi einu saman og hvergi komust í kalk, var samt meira kalk en fyrirfannst í fóðrinu án þess að gengið hefði á kalkið í beínum kjúklinganna.

Þetta var og er enn algerlega óskýranlegt samkvæmt kenningu Lavoisiers. Fyrir árið 1822 gerði enskur efnafræðingur, Prout að nafni, tilraunir með frjóvguð egg sem ungað var út. Kom þá í ljós að kalkmagnið í eggjunum hafði fjórfaldast. Því var þá slegið fram, að kalkið hlyti að hafa komið úr skurn eggjanna, en það sýndi sig að þaðan hafði ekkert kalk horfið.

Síðari tilraunir sýndu hins vegar að kísill og magnesíum höfðu horfið að sama skapi og kalk hafði myndast. Fleiri dæmi svipaðs efnis hafa fram komið bæði á 19. öld og þeirri 20., samviskusamlega unnar tilraunir sem sýndu að örverur, jurtir og dýr gátu innan vissra takmarka umbreytt frumefnum, þó að slíkt væri útilokað í tilraunastofum þar sem aðeins var fengist við líflaust efni. Það kom t.d. í ljós að baldursbrá, sem þrífst vel í kalksnauðum jarðvegi, er samt sem áður mjög auðug af kalki.

Vísindamaðurinn Bertrand sýndi fram á um miðja 20. öldina að jurtir taka til sín árlega 30-120 kílógrömm af magnesíum á hektara. Þó það sé ekki borið á, verður samt ekki þurrð á því eins og búast mætti við samkvæmt lögmáli Lavoisiers, heldur endurnýjast það fyrir virkni örvera, sem breyta kalí í magnesíum. Þá má geta þess að ánamaðkar auka kalkmagn jarðvegs og má rekja það til þess að í þeim eru kirtlar sem breyta kísilsamböndum í kalksambönd.

Lengi var vitað að flýta mátti fyrir því að beinbrot gréru með því að gefa inn klóelft ingu (lat equisetum arvense), malaða í  duft eða í jurtaseyði. Elftingar, sem einar fimm tegundir eru til af á Íslandi, eru auðugar af lífrænum kísilsamböndum, sem nýtast vel, þegar líkaminn þarf að framleiða kalk vegna  beinbrota eða úrkölkunar.

Einnig þótti elfting gefast vel til að flýta fyrir lækningu berkla í lungum með því að örva kölkun  þar sem hennar var þörf. Röntgenmyndir af beinbrotum sýna að lífræn kísilsambönd unnin úr elftingu flýta fyrir að brotin grói, en kalkgjafir breyta þar engu. Nefna má í þessu sambandi, að starf prófessors Kervran gæti verið að öðlast nýja viðurkenningu. Ég sá ekki alls fyrir löngu umbúðir frá dönsku fyrir

tæki sem á stóð ,,KERVRANS silica“ eða eitthvað í þeim dúr. Varla þarf að efast um vörugæðin. Danir vita að góð vara mælir með sér sjálf. Þetta fæðubótarefni ætti að vera til þess kjörið að vinna gegn úrkölkun og stuðla jafnvel að endurkölkun þar sem úrkölkun hefur átt sér stað. Gallin á svona fæðubótarefnum er oftast sá, að verðlagið er óhæfilega hátt.

Úr mætti bæta með því að fara á stúfana þegar vorar og birgja sig upp af elftingu til ársins, en jurtin er talin innihalda mest af þessum gagnlegu efnum á vorin. Þau má varðveita með því að þurrka jurtirnar. Þannig gæti fólk orðið sér úti um heilsusamlegar jurtir sér að kostnaðarlausu, því að nóg er af elftingu í íslenskri náttúru.Gott er að kynna sér útlit og vaxtarstaði klóelftingar og ættingja hennar til dæmis með því að fletta upp í bók sem fæst í öllum bókabúðum og nefnist „Íslenskar lækningajurtir“.

Dálítið furðulegt  þótti mér samt, að það notagildi jurtarinnar, sem hér er lögð aðaláhersla á, er ekki tíundað í þessari annars ágætu bók. Flóra Íslands og  aðrar bækur slíkar gera að sjálfsögðu sama gagn varðandi það að finna og þekkja jurtina. Með því að ganga út í náttúruna og safna hollum jurtum er líka stutt að öðru sem mikilvægt er í sambandi við heilsuna og styrkleika beinanna um leið, nefnilega að hreyfa sig nógu mikið í útiloftinu.

Hreyfingarleysi flýtir mjög fyrir úrkölkun. Ástæða er til að nefna magnesíum í þessu sambandi vegna þess að athuganir á fæðuvali nútímafólks bera með sér að flestir taka til sín minna magnesíum en talið er æskilegt. Tilraunir bera með sér að magnesíumskortur eigi þátt í úrkölkun og jafnvel sé unnt að ná kalkinu aftur upp í beinunum með því að auka verulega við magnesíum í fæði. Það mun vera unnt með því að neyta fæðu, sem ekki hefur verið of mikið unnin, sem sagt borða trefjaríka fæðu, sem er líka góð fyrir meltinguna og jafnvel bæta svo við magnesíum í töflum.

Oftast innihalda töflumar kalk þar að auki, sem er í rauninni lítils virði rétt eins og kalkið sem upp er gefið að sé í mjólkinni og er trúlega alveg gagnslaust í baráttunni við hið mikla böl, sem úrkölkunin er þeim sem fyrir verða.

Samkvæmt rannsóknum Kervrans eru læknisfræði, næringarfræði og jarðvegsfræði enn á villigötum að því er varðar, hvernig kalk verður til og nýtist lifandi verum á jörðinni, og þess vegna er sífellt klifað á mikilvægi þess að fá nægilegt kalk í fæðunni, sem ekkert gagnast, en útundan verður nauðsyn á að ekki vanti það, sem líkaminn raunverulega þarf til að byggja upp hæfilegt kalkmagn þar sem þess er þörf.

Þetta skýrir hins vegar þá staðreynd að allur þessi kalkaustur virðist skila litlum sem engum árangri, en rennir stoðum undir að gömul ráð, sem kunn eru og virðast fjarri sanni í fljótu bragði, eru samt sem áður miklu vænlegri til árangurs en þau sem nú eru í háveg-um höfð, af því að menn sitja fastir í úreltum kenningum, sem rugla heilbrigða dóm-greind. Í þessu sambandi vil ég geta um leið, sem notuð var áður fyrr við beinbrot, sem gekk illa að gróa.

Hún fólst í því að forðast öll þau fæðuefni, sem við vitum nú að innihalda mikið kalk svo sem mjólk og osta, en gefa inn elftingu, annaðhvort seyði af henni eða mylsnu af jurtinni, þótti þetta stundum gefa góða raun. Hver veit nema hið sama gæti átt við um beinþynningu á háu stigi, forðast kalk, en neyta þeirra efna, sem líkaminn getur notað til nýmyndunar á kalki með sinni lífrænu ummyndunaraðferð?

Áður hefur verið á það minnst, að ýmis ensím muni til þurfa svo að umbreyting geti orðið og mundi þá óvirkni slíkra ensíma hindra eðlilega kalkmyndun,  þó svo að önnur efni sem til þyrfti vantaði ekki. Vel mætti hugsa sér að D-vítamín, hormónar og fleira grípi þar inn í atburðarásina, og þarf af rannsaka það mál miklu betur. Það er fremur frumstæð hug-mynd, að, ef kalkskortur kemur fram sé nóg að hella bara einhvers konar kalksamböndum í sjúklinginn með inntöku eða í æð.

Lyfjaframleiðendur og heilsubúðir gætu grætt á slíku, en það er vonandi ekki búið að gefa upp á bátinn þá hugsjón Hippókratesar, að hinn sjúki ætti að njóta góðs af meðferðinni öðrum fremur. Kalkmeðferð hefur verið haldið áfram áratugum saman án þess að nægileg vísindarök lægju fyrir. Karlabækur gefa oft kerlingabókum ekkert eftir þegar svo ber undir.

Viðurkenning staðreyndanna í þessu efni gæti kostað byltingu í næringarfræðum, sem ýmsum þætti erfitt að kyngja. Þess ber að geta, að það sem einkum konur, sem fara illa út úr úrkölkuninni, þó að hún geti líka dregið úr styrk beina í gömlum mönnum. Þetta tengist vafalítið kynhormónum, enda hefst úrkölkun kvenna oft um það leyti sem þær hætta að hafa á klæðum. Reynslan bendir til þess að tefja megi fyrir úrkölkuninni með skynsamlegri hormónagjöf.

Einnig benda traust rök til þess að nægilegt magn af magnesíum og lífrænum kísilsamböndum dragi verulega úr hættu á úrkölkun og fylgikvillum henni samfara, ekki síst tíðum beinbrotum. Lengi hefur verið vitað að D-vítamín er mikilvægt í sambandi við beinmyndun og heilbrigði beina.  Má mæla kröftuglega með því og reyndar E-vítamíni líka, því að þessi efni vinna saman að heilbrigði og góðri endingu líkamans í heild.

Konurnar austur í Laugardal sem áttu hænsni á mínum bernskuárum kunnu enga efna-fræði. Þær fóru eftir sínum kerlingabókum og gafst vel, enda mikil speki í kerlinga-bókum, ef rétt er með farið. Þegar hænumar þeirra urpu eggjum með þunna og veika skurn tóku þær hamar í hönd og brutu í smátt postulín, sem mátti missa sín, og báru það fram fyrir hænumar.

Ég sá hænumar hakka í sig postulínsmylsnuna með áfergju. Síðan brá svo við að þær tóku að verpa hinum fegurstu eggjum með sterkri og sléttri skurn, alls óvitandi um það að samkvæmt kenningu Lavoisiers hins franska átti það alls ekki að geta gerst að postulín, sem er kísill, gæti orðið eggjaskurn, sem er kalk. Það kætti mig að rekast á svipaða sögu í hinni merku bók Kervrans. Alveg eins og ég, hafði hann sem drengur orðið undrandi yfir látunum í hænsnum, sem gefin var kísill (kaólín) við sömu aðstæður.

Hann segir að ákafinn hafi verið svo mikill að hænsnin hafi staðið á öndinni og orðið að taka sér smáhvíldir til að anda milli þess að þau hömuðust við að hakka í sig þetta eina efni, sem eðlishvötin vísaði þeim á, en snertu ekki á neinu öðru. Það er augljóst að þarna segir sjónarvottur frá. Kervran bætir við, að það hafi ekki liðið nema 20 klukkustundir þar til hænsnin urpu eggjum með gallalausri skurn, þó svo að eggin verði til innan í hænunum eins og á færibandi á mörgum dögum.

En skurnmyndunin, síðasta þrepið í eggjaframleiðslu hænsnanna, gengur svona hratt. Umbreytingar hljóta að koma miklu víðar við sögu í líkamanum en okkur rennir grun í enn sem komið er. Viðfangsefni okkar í þessari smágrein átti þó einkum að vera hin geigvænlega úrkölkun, sem fer oft illa með gamalt fólk, sérstaklega konur. Kalíum í mannslíkamanum myndast einkum út frá natríum, og í sumum tilfellum er of langt gengið í því að draga úr neyslu matarsalts. Þá getur átt sér stað að kalí vanti til að mynda magnesíum sem breytist áfram í kalk (og líka fosfór).

Þannig getur komið fram fjölþættari steinefnaskortur en margan grunar, ef of langt er gengið í skerðingu á venjulegri saltneyslu. Öruggast er að fara sér að engu óðslega. Það kann að leynast hollusta, t.d. lífræn kísilsambönd, í ýmsum trefjaefnum sem menn hafa ekki áttað sig á til þessa, en hafa neytt af því að þau eru talin góð fyrir meltinguna. Hollustan fyrir beinin gæti verið jafnvel enn mikilvægari. Þarna er rannsóknarefni fyrir heilsufræðinga, sem eru ósmeykir við að fara ótroðnar slóðir. Hætt er við að sumir lesendur hrökkvi við og þyki nokkuð hart að hafa verið fóðraðir á villandi aug-lýsingum áratugum saman svo sem t. d.: ,,MJÓLK ER GÓÐ! “

Kalkið í mjólkinni mun vera vita gagnslaust í baráttunni við úrkölkun, og sitthvað annað flýtur með, sem mörgu fullorðnu fólki er beinlínis óhollt. Þar fyrir skulum við ekki gera auglýsendum upp illar hvatir, trúlega hafa næringarfræðingar sem ekki vissu betur samþykkt þessa auglýsingu í góðri trú.

Náttúran ætlaði mjólkina börnum til fæðu og segja má með sanni að móðurmjólkin sé mannanna börnum góð,  kúamjólk kálfum og annað eftir því með þeim fyrir-vara þó, að mjólkinni hafi ekki verið spillt með ofbeldi gagnvart lífríkinu, svo sem geril-sneyðingu og fitusprengingu. Auglýsingin um hollustu mjólkur án fyrirvara er því miður ósönn alhæfing, byggð á vanþekkingu. Svo er annað mál að vinna má úr kúamjólk ágætis matvörur sem flestum verður gott af sé þeirra í hófi neytt t. d. skyr, súrmjólk, osta, rjóma og smjör.

Tvennt hið síðasttalda hefur að ósekju verið í ónáð um árabil, en smjörlíki og olíu hampað. En nú kemur á daginn að hertu fitumar, svonefndar transfitur í smjörlíki gefi náttúrulega mettuðum fitum ekkert eftir varðandi skaðsemi í æðakerfinu, ef fitan hefur orðið fyrir súrefnisáhrifum, sem nú er farið að nefna oxun. Þarna er reyndar komið út fyrir það efni, sem þessi grein átti að fjalla um, enda er Ævar Jóhannesson að mínum viti miklu færari að fjalla um þetta sérsvið.

Athugulum manni verður smám saman augljóst að það sem mestu varðar er að rjúfa ekki tengslin við náttúruna, heldur rækta upp í sér heilbrigða tilfinningu fyrir hvað henti hverju sinni. Við náum víst seint hænsnunum sem sóttust svo ákaflega í það sem þeim lá mest á eins og á stóð. Vonandi er þó einhver snefill eftir af heilbrigðri eðlishvöt í okkur, sem unnt er að efla með skynsamlegu líferni í takt við hinn mikla anda alls lífs.

Höfundur: Úlfur Ragnarsson læknirFlokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: