Suzuki tónlistaruppeldi

Erindi flutt á haustfundinum: Börnin okkar Næring – Hreyfing – Umhyggja  árið 1992. Ræðumaður Ræðumaður:  Haukur Hannesson, skólastjóri Tónlistarskóla íslenska Suzukisambandsins.

Þegar rætt er um heilsu er hugtakið umhverfi mikið notað. Rétt umhverfi getur skipt sköpum í uppvexti barna. Umhverfi í þessu sambandi eru allir þættir í aðbúnaði barns sem hefur áhrif á þroska þess og vöxt. Frá réttri næringu og líkamlegum aðbúnaði og rétt umhverfi ástúðar og örvunar til þess að barn nái fullum þroska bæði líkamlega og andlega tónlist hefur fylgt manninum frá örófi alda.

Söngur móðurinnar við komabarnið er eitt af fyrstu tjáskiptunum sem fram fara og viðbrögð mjög ungra barna við tónlist eru greinileg. Megin forsenda móðurmálsaðferðar Suzuki gengur út á að sé börnum sé búið rétt hvetjandi umhverfi frá upphafi séu möguleikar þeirra til árangurs og þroska á tónlistarsviðinu og í raun öllu námi verulega meiri.

Grundvallarhugmyndir að baki móðurmálsaðferð Sinizi Suzuki er hvernig barnið lærir móðurmál sitt. Foreldrarnir eru aðalkennarar þess í byrjun, raddir þeirra eru hluti af hljóðumhverfi nýfædds barns og eru stöðugt fyrir hendi þó barnið bregðist ekki við áreitum fyrr en seinna. Foreldrarnir halda samt áfram að tala og barnið byrjar síðan smátt og smátt að mynda hljóð.

Þegar barnið byrjar að mynda hljóð bregðast foreldrarnir síðan við með hrósi og stolti sem vekur síðan frekari löngun hjá barninu til að tjá sig. Suzuki sem nú er á 94. aldursári þróaði þessa móðurmálsaðferð í tónlistarnámi. Upphafið var þegar hann var á námsárum sínum í Þýskalandi og átti í erfiðleikum með þýskuna. Hann þróaði síðan aðferð sína fyrst í fiðluleik en eftir stríð  stofnaði hann sinn eigin tónlistarskóla og nú er  aðferð hans útbreidd um allan heim.

Grundvallarheimspeki móðurmálsaðferðarinnar í tónlistaruppeldi felst í setningu Suzukis. „Maðurinn er sonur umhverfisins. Með því að virkja þá orku sem í hverjum einstaklingi býr á réttan hvetjandi hátt er hægt að gefa börnum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína og að skapa heilan einstakling. Fullorðinn einstaklingur sem notið hefur hvetjandi og jákvæðs umhverfis í uppvexti sínum er betur fær um að njóta hæfileika sinna og móta líf sitt á þann besta hátt sem honum hentar.“

Að læra á hljóðfæri eftir Suzuki aðferð er í raun verkefni allrar fjölskyldunnar og oft læra foreldrarnir fyrst á hljóðfærið en forsenda þátttöku í þessari aðferð er að foreldrarnir séu með.

Ekki er byrjað á nótnalestri heldur ná börnin góðu valdi á tæknilegum atriðum fyrst því eins og með móðurmálið þá byrjar barn ekki á að lesa áður en það lærir að tala. Þessari kennsluaðferð var ekki spáð miklu gengi hér fyrir u.þ.b. áratug er kennsla byrjaði. Nú stunda tæplega 200 börn nám eftir þessari aðferð og er hún kennd í Reykjavík, Akureyri og Keflavík. Þessi börn eru vissulega forréttinda- börn. Ekki í efnahagslegu tilliti því þau koma úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Flestir Suzuki foreldrar vinna bæði utan heimilis eins og flestir foreldrar gera en í tilfinningalegu tilliti eru þetta foreldrar sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum til menntunar barna sinna. Þetta tekst þessum foreldrum þrátt fyrir þá þjóðfélagsgerð sem hér er.

Ræðumaður:  Haukur Hannesson, skólastjóri Tónlistarskóla íslenska Suzukisambandsins.
Hann er sellóleikari að mennt og starfaði lengi við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Undanfarin ár hefur hann starfað mest við tónlistarkennslu samkvæmt móðurmálsaðferð Suzuki.



Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d