Umönnun barna á sjúkrahúsum

Erindi flutt á haustfundinum: Börnin okkar Næring – Hreyfing – Umhyggja  á vegum  Heilsuhringsins  árið 1992. Ræðumaður Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur

Hugmyndafræði heilsunnar er sífellt að breyta um áherslur og hefur áhrif á persónuleg viðhorf okkar og stefnumótun. Það er ekki langt síðan að við umönnun barna á spítala voru foreldrar ekki taldir eiga erindi inn á barnadeildir. Foreldrar máttu horfa á börn sín í gegnum gler og þau börn sem gengust undir aðgerðir urðu að búa við það tilfinningalega álag sem fylgir því að vera aðskilin frá foreldrum sínum á mikilvægu mótunarskeiði og má spyrja hvaða áhrif þetta hafí haft á þau seinna í lífinu. Um þessar mundir er vaxandi skilningur á því hlutverki sem andlegur og trúarlegur stuðningur gegnir á meðan á sjúkrahúsvist stendur og ýmsar rannsóknir sýna að ekki er nóg að skera manneskjuna upp til að hún fái bata.

Lækning við sjúkdómum er mun flóknara ferli en það. Draumurinn um sérhannaðan spítala er ekki enn orðinn veruleiki. Þegar skammtaðir eru peningar til heilbrigðismála þá eru það börn og aldraðir sem fá minnst í sinn hlut. Ég þekki kosti þess að vinna með börnum á sérhæfðum spítölum frá Bandaríkjunum. Þar er til dæmis leikherbergi fyrir systkini barnanna og fóstra sem sér um verkefni fyrir þau. Kemur þetta sér oft vel ef um langvarandi veikindi er að ræða. Þarna eru herbergi fyrir foreldra, sérstakar deildir eftir sjúkdómum og ýmislegt fleira sem auðveldar starfið.

Þegar talað er um andlega umönnun og trúarlega, þá er ljóst að þessir þættir eru nátengdir. Í mínu starfi hefur farið mun meira fyrir vinnu með sálgæslu foreldra en barna. Þetta merkir ekki að þarfirnar séu ekki fyrir hendi. En sú sálgæsla sem sinnt er með börnum krefst mun meiri tíma og viðveru en hjá fullorðnum.

Þar koma fóstrur og kennarar inn í myndina, því börnin tjá sig líka gegnum leik og myndir. Það er umhugsunarvert hversu lítið er talað við börn í okkar samfélagi um dauðann. Teiknimyndirnar um helgar hafa það hlutverk. Fyrir vikið búa börn yfir ógnvekjandi myndum af dauðanum sem þó bíður okkar allra. Mikilvægast er að gefa börnunum gott veganesti út í lífið og tíminn á sjúkrahúsi getur oft verið mjög skapandi til að kynnast börnum okkar á annan hátt.

Ef þessum þætti er sinnt vel þá mun barnið nýta sér þennan tíma eða þessa úrvinnslu í næsta áfalli á lífsleiðinni. Það er engin gleði tærari en gleði barnsins og jafnframt engin sorg sárari en sorg barnsins. Þau geta kennt okkur hvernig við erum innst inni þó við förum í gegnum þroskaheftandi ferli með árunum. Einlægni barnanna sýnir okkur hvað það er að vera manneskja og áhyggjulaust ævikvöld stendur og fellur með því hversu mikil alúð var lögð í akur barnssálarinnar.

Ræðumaður : Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur á Ríkisspítölunum. Hann tók vígslu 1982 til Fríkirkjunnar í Hafnarfirði. Hann hefur lokið uppeldis og kennslufræðinámi fyrir sjúkrahúspresta í Bandaríkjunum



Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

%d bloggers like this: