Geðleikur (psykodrama)

Fylgst með kynningu á Geðleik ,,psykodrama“ árið 1988, hjá danska geðlækninum  Gyrit Hagman, sem þá var yfirlæknir á Blekinge Lans Vuxen Psykiatri, Sölvesborg Olofsströmssektors Klinik, sem er héraðs geðsjúkrahús í Svíþjóð. Hún lauk læknanámi frá háskólanum í Árhus í Danmörku 1969. Eftir það flutti hún til Finnlands og gegndi þar yfirlæknisembætti á stóru geðsjúkrahúsi.

Samhliða því stundaði hún nám í Geðleik í 7 ár hj’á Zerka Morena. Síðan hefur hún kennt geðleik í mörg ár við sumarháskólann í Abos í Finnlandi. Síðan þá hefur hún beitt þessari aðferð í starfi sínu og telur hana áhrifaríka, bæði fyrir einstaklinga og hópa. Geðleikur var fundinn upp af Jakob Leví Moreno, lækni í Vín á árunum 1920-30, og er nú notaður við kennslu í geðlækningum, sálfræði og félagsráðgjöf bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Hann er byggður á gömlum fræðum um trúarbrögð og grísk-katharsiskri hugmyndafræði.

Jakob var mikill áhugamaður um leiklist og starfaði með bróður sínum, sem rak leikhús í Vín. Þar starfaði ung og falleg leikkona að nafni Barbara, sem ávallt var valin til að leika góðar og fallegar persónur. Hún giftist ungum manni sem einnig starfaði við leikhúsið. Tveimur mánuðum eftir brúðkaupið kom eiginmaðurinn til Jakobs alveg í öngum sínum og sagði: ,,Ég hélt að Barbara væri góð af því að hún er svo falleg, en það er öðru nær. Hún umturnast þegar hún kemur heim, skammast, bölvar og slær. Hvað á ég að gera?“ Jakob hugsaði málið vandlega, síðan tók hann þá ákvörðun að láta Barböru breyta um  hlutverk og leika það gagnstæða, ljótar og vondar persónur, þar sem hún fékk útrás fyrir illskuna.

Mánuði eftir hlutverkabreytinguna kom eiginmaðurinn aftur að máli við Jakob og tjáði honum að konan sín væri orðin allt önnur manneskja, hreinasti engill. Þetta varð Jakobi mikið umhugsunarefni. Ef hlutverkin í leikhúsinu gátu haft svona mikil áhrif á sálarlíf hennar, hvaða áhrif hefði það þá ef hún léki sitt eigið vandamál og fyndi lausn á því. Þessi hugmynd varð til þess að hann gat hjálpað Barböru til að fínna lausn á sínu andlega vandamáli.

Síðar flutti Jakob til Bandaríkjanna og stofnaði geðsjúkrahús, þar sem Geðleikur reyndist áhrifaríkur til að hjálpa mjög andlega veiku fólki. Hann stofnaði einnig skóla, sem hann rak ásamt Zerka konu sinni. Þar þróuðu þau og breiddu út þessa áhrifaríku aðferð, sem er búin að hjálpa fjölda fólks síðan.

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsóttir 1988



Flokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , ,