Yoga og heilbrigði

Blaðinu þykir mikill fengur að fá hér með tækifæri til að koma á framfæri hvernig yoga fræðigreinin lítur á vandamál sjúkdóma og heilbrigði. Höfundurinn er fjölfróður um efnið og hefur m.a. dvalið erlendis við nám á þessum sviðum. Blaðið vill þó gjarnan árétta að greinin er að sjálfsögðu birt á ábyrgð höfundar og tekur blaðið enga afstöðu til einstakra þátta hennar. Skrifað árið 1981- Ritstjóri.

Strangt tekið er ekkert til sem kalla má heilsuræktar-Yoga. Upphaflega er Yoga ætlað fyrir heilbrigða einvörðungu. Skilyrði fyrir því að menn fái að stunda Yoga, skyldi vera það, að menn væru heilir heilsu. Smám saman fór heilsufari almennings hrakandi, þannig að stofna varð til einskonar „forskóla“ í Yoga, þannig að heilsunni var fyrst kippt í liðinn áður en neminn gat snúið sér að eiginlegu Yoga. Samhliða eiginlegu Yoga var samt um að ræða umfangsmikla fræðigrein og þekkingu sem sneri að heilsu manna. Fræði þessi nefnast AYUR VEDA eða Heilsu Viska. Um Ayur Veda er sömu sögu að segja og Yogað sjálft: „heilsuviskan“ var ætluð fyrir þá heilbrigðu; þ.e.hvernig skyldi gæta fullrar heilsu eða varðveita hana. Síðan varð sú þróun að heilsu manna fór hrakandi – einsog áður sagði og Ayur Veda varð í stöðugt vaxandi mæli að snúa sér að því verkefni að bæta úr þegar skertri heilsu.

Í þessu samhengi er vert að minna menn á: betra er heilt en vel gróið. Enginn sjúkdómur, ekkert meiðsli, getur læknast fullkomlega, kannski að stærstum hluta þegar best gegnir, – en samt aldrei fullkomlega. Fátt er til ritað og á almennum markaði um Ayur Veda. Ég hefi hlustað á fyrirlestra um þetta efni (sennil. einn Íslendinga) og lært eina grein eða eitthvað í henni. Hinsvegar hefi eg (ennþá) enga bók undir höndum um þetta efni. Þegar Yoga berst til Vesturlanda heldur áfram sú þróun sem þegar var hafin austur á Indlandi. Yoga er nú stöðugt meira og meira beitt sem tæki til að endurheimta skerta heilsu. Almenningur núorðið á Vesturlöndum hugsar sennilega um Yoga fyrst og fremst sem „heilsubótar“ Yoga. Samkvæmt þessum fræðum skilst mér að heilbrigði sé komin undir nokkrum samverkandi þáttum.

  • 1. Réttu mataræði
  • 2. Vistkerfinu (ómenguðu umhverfi)
  • 3. Réttri og fullnægjandi öndun (ómengaðs lofts)
  • 4. Nægri og hæfilega fjölbreytilegri áreynslu og hreyfingu og á hinu leitinu nægri og fullnægjandi hvíld.
  • 5. Réttu hugarfari

6. „Karmískum“ skilyrðum að menn fæðist í þennan heim lausir undan heilsufarslegum „erfðasyndum“, sem í sumum tilfellum geta komið fram sem arfgengar veilur eða sjúkdómar. Þá verða menn að gera sér ljóst, að enginn er undanskilinn lögmáli lífsins um hrörnun og dauða. Þannig verður aldrei um algerlega fullkomið heilsufar að ræða. Vestrænt við horf er að líta á dauðann sem óeðlilegan hlut sem fresta verði eins lengi og kostur er og HVAÐ SEM ÞAÐ KOSTAR. Þetta viðhorf er rangt. ÉG VILDI nú skoða þessi sex atriði nokkru nánar hvert fyrir sig. Í þessari grein fjalla ég einvörðungu um mataræðið. Flest heilsuræktarkerfi gera of mikið úr einhverju einu þessara sex skilyrða (raunar hunsa vestræn kerfi tvö síðustu skilyrðin algerlega). Þannig ofmetur Náttúrulækningastefnan mataræðið á kostnað hinna.

RÉTT MATARÆÐI SAMKVÆMT FRÆÐUM YOGA: SAMKVÆMT YOGA-heimspekinni er tilveran drifin áfram af þremur frumkröftum eða frumeiginleikum (tilhneigingum) svokölluðum GUN-um (GUNAS). Þessir þættir eru: „Raja“ eða krafturinn, breytiorkan; „Tamas“ eða tregðan, stöðugleikinn; og „Sattwa“ eða jafnvægið, „harmóní“. Þannig flokkast allur matur í þrjá flokka eftir þessari skiptingu. Bestur matur er „sáttwískur“, þá kemur „rajaískur“ matur og loks „tamasískur“ sem er sístur og beinlínis skaðlegur. Sattwískur matur er yfirleitt nýr matur úr jurtaríkinu; einkum ávextir og grænmeti (kál og annað). Sumir ávextir einsog laukur eru samt „rajaískir“ (orkugefandi).

Nýmjólk er umdeild. (Eðli sínu samkvæmt gildir um sumar matvælategundir, að þeirra skal EKKI neyta glænýrra. Rajaískur matur er (úr hófi) orku- eða öllu heldur hitagefandi. Einkum er um að ræða kjöt og egg (ný). Rajaískur matur getur verið mjög nærandi og efnaríkur, en myndar jafnframt of mikil úrgangsefni í líkamanum. Kaffi og sumir ávextir falla undir þennan flokk. Jafnan ber að taka ávexti (grænmeti) sem vex ofan-jarðar fram yfir neðan-jarðar ávexti, þótt þeir séu einnig oft á tíðum mjög hollir. Tamasískur matur er sístur og oft mjög skaðlegur bæði andlega og líkamlega. Tamasískur matur er saltmeti, allur geymdur matur, niðursuðuafurðir, matvæli sem fyllt hafa verið með ýmiskonar kemískum efnum til að auka geymsluþol eða til litunar etc.

Geymd egg (eldri en sem nemur tveimur sólarhringum) eru tamasísk, þótt þau að vísu séu mjög næringarrík. Sýrð, hleypt mjólk og jógúrt er heppilegur matur. Nýmjólk er hinsvegar einsog áður segir – umdeild. Flestir yogar nærast hvorki á kjöti né fiski. Sumir sleppa einnig öðrum afurðum úr dýraríkinu (eggjum og mjólk). Sumir aldraðir yogar lifa á mjög fábreyttu fæði  (sic): hrísgrjónum (auðvitað með hýðinu), hleyptri mjólk, kannski banönum. Hér er nú samt ýmislegt að athuga:1) Hvort matur er sattwískur, rajaískur eða tamasískur fer einnig mjög eftir loftslagi, aldri viðkomandi og hvort hann vinnur erfiðisvinnu eða ekki. Matur sem er tamasískur í Indlandi (og hitabeltinu) er aðeins rajaískur á Grænlandi eða kuldabeltinu. Eftir því sem vöxtur er meiri (kornabörn), loftslag kaldara og viðkomandi einstaklingur vinnur erfiðari vinnu eftir því hefir neytandinn meiri þörf fyrir rajaískan mat – jafnvel tamasískur matur getur verið skaðlítill eða skaðlaus. Börn mega neyta eggja þar sem uppbygging líkamans er mjög hröð.

Annars er stropun eggja það hraðvirk að þau teljast óneyzluhæf jafnvel eftir nokkrar klukkustundir (annars miðað við 1 og í hæsta lagi 2 sólarhringa). Eggið verður ekki „af-stropað“ nema það sé bakað við nokkur hundruð stiga hita (í bakstri). Samt er samkvæmt því er að framan sagt – allt annað fyrir erfiðisvinnumann í köldu loftslagi að neyta eggja og miklu skárra heldur en fyrir yoga í hitabeltisloftslagi Indlands. Kaffi (í hófi) er gott fyrir hugleiðslu, en getur verið vafasamt fyrir maga- eða hjartveika. Salt er mjög slæmt og raunar óþarft (sumir Eskimóar nota EKKERT salt, sbr. Vilhjálm Stefánsson). Örlítið salt er í öllu fersku vatni og alveg nóg fyrir mannslíkamann. Sterkt krydd, sem annars er yfirleitt hitagefandi (rajaískt) er mjög heppilegt að því leyti að það „startar“ maganum (kemur af stað framleiðslu meltingarvökva). Hinsvegar kann það líka að vera of sterkt – valda of sterkri ertingu fyrir slímhúðina.

Laukur sem getur verið góður líkamlega (hreinsandi fyrir nefgöng o.s.fv.) er slæmur fyrir hugleiðingu og andlega iðkun. Matur á hvorki að vera heitur né kaldur. Hvorttveggja veldur „shokki“ í slímhúðinni. Ísaðir drykkir eru bannaðir sérstaklega í heitu loftslagi. Fremur getur átt við að neyta heitra drykkja, þó ekki svo heitra að þeir skaði slímhúð meltingar færanna. Reglur yoga um mataræði falla um sumt saman við Náttúrulækningastefnuna, en alls ekki að öllu leyti. Niðursoðinn matur er talinn gagnslaus, matur mengaður verulegu magni kemískra litarefna o.s.frv. stórskaðlegur. Yfirleitt er ráðlagt að drekka mikið (helst af soðnu) vatni. Kúamjólk er mjög svo frábrugðin móðurmjólkinni. Kemískir hvatar og hormónar ætlaðir kálfum eru alls ekki heppilegir fyrir mannabörn.

Af fleiri ástæðum er nýmjólk miður æskileg, getur orðið verulega skaðleg. Börn þarf að hafa á brjósti í full tvö ár. Eitt heilt ár er algert lágmark. Brjóstamjólkurbörn eru ævinlega miklu heilbrigðari  (nægilegar rannsóknir eru fyrir hendi) en „kúamjólkur“-börn. Enn fleira kemur til. Jörðin sem ávöxturinn vex í eða fóður húsdýra, áburður, kemísk efni (einsog tröllamjöl), hvenær (gagnvart tungli) sáð er og uppskorið. Engin lífvera getur lagt annað í afurð sína en svarar til þeirrar næringar sem hún hefur nærst á. Einnig skiptir máli hvernig matar er neytt. Meginmáli skiptir, að maturinn sé nægilega tugginn (80 sinnum að því talið er). Ekki má drekka um leið og matar er neytt því vatnið skilur munnvatnið frá matnum. Raunverulega skal ekki renna niður, heldur lekur maturinn sem þunnur safi smátt og smátt niður eftir vélindanu. Því betur sem maturinn er tugginn því meiri prönu fær neytandinn úr henni.

Fyrir Indverja skipti ekki aðeins hvernig maturinn er matreiddur heldur einnig HVER matreiðir hann. Þá má ekki breyta matarvenjum mjög snögglega, jafnvel þótt þær séu RANGAR þar sem einstaklingurinn þarf að aðlagast þeim. Jafnvel einstakar þjóðir eða „rasar“ eru búnir að aðlaga sig ákveðnum skilyrðum og ekki rétt að þeir taki allt í einu upp mataræði yoga á Indlandi. Þá er á það að líta að rétt er að lifa sem  mest á afurðum eigin lands að því marki sem við getur átt og landið getur framleitt. Íslendingar ættu þannig t.d. sennilega ekki að sneiða hjá fiski og sjávarafurðum, þótt þeir ættu að hætta neyzlu kjötmetis – eða  að sem mestu leyti. Í Yoga er mælt með að neyta fremur nýrra ávaxta og ekki aðfluttra. Í Ayur-Ved-ískum ritum kunna auðvitað að finnast nákvæm fyrirmæli varðandi mataræði. Í fornum Yoga-ritum er ekki um mjög auðugan garð að gresja.

Taldar eru hollar tegundir og óhollar. Ekki er mikið á þessu að græða, því ekki er lengur vitað um margar þessara tegunda hverjar þær eru og hafa ekki verið samsamaðar nútímaheitum. Enda þótt stundum sé vitað um hvaða tegundir er að ræða, þá eru það iðulega tegundir óþekktar hér á landi. Og í þriðja lagi eru aðstæður gjörólíkar á Íslandi og á Suður-Indlandi (hægt er að sanna að Yoga sé upprunnið ekki bara á Indlandi heldur á Suður-Indlandi). Hinsvegar er oft rætt um að fylla magann af lofti, vatni og mat í ákveðnum hlutföllum (1/4+1/4+1/2 ). Það merkir: a) að drekka mikið vatn fyrir matinn og/eða milli mála, b) eta sig aldrei „stútfullan“. Þá er spurningin um föstur! Föstur eru manninum nauðsyn sem hreinsun. Þessi nauðsyn brýst fram í smábörnum sem lystarleysi og dyntir. Einsog margt gott í börnum brjóta foreldrarnir þetta niður þegar þau neyða börnin til að „borða fyrir pabba“. Þannig er þessi lífsnauðsynlega hvöt, að svelta af og til, brotin niður.

Föstur geta verið a.m.k. tvennskonar: 1) hálffasta -kjötæta neytir þá einskis nema ávaxta og drekkur þunna ávaxtasafa; 2) heilfasta – einskis neytt nema drukkið mikið vatn og ósætt (kaloríulaust) te. Nægilegt er í flestum tilvikum að fastan vari aðeins einn dag. Ef fastan varir lengur verður að hreinsa innyflin með sérstökum mjög vandasömum aðgerðum. Annars síar blóðið stöðugt upp óhreinindi úr ristlinum og fastan verður til ills. Á Indlandi var ég mjög varaður við því sem austur á Heilsuhæli NLFÍ er nefnt „glasafæði“. Ef maður á annað borð fastar má maður allra síst neyta efnaríkra safa ÁN ALLRA TREFJA. Er með öllu óskiljanlegt að „náttúrulækningastefnan“ skuli beita sér fyrir trefjalausu fæði. Fyrr má nú rota en dauðrota. Ítrekun: Ef maður fastar á annað borð þá annaðhvort trefjar og hratvatn eða vatn eingöngu. Þetta er orðið snöggtum lengra en ég ætlaði í fyrstu.

Í næsta hefti mun ég ræða um önnur skilyrði heilbrigðis. Að lokum núna varðandi mataræði: YOGAR eru sammála um að meira varði hvað maður láti frá sér en hvað maður lætur ofan í sig. Engu að síður má og komast svo að orði að maður sé það sem maður etur. Einsog náttúrulækningamenn hafa bent á bera meltingarfæri mannsins þess vitni að hann sé jurta- eða alæta – alls ekki kjötæta (rándýr); mér hefir einnig erið kennt að sýru-basa stilling mannslíkamans bendi til þess að hann sé ekki kjötæta. Gorillan sem er eitthvert öflugasta dýr undir sólinni (samt blíð og gæflynd) lifir einkum á hnetum (ekki kjöti – takk fyrir).

Læknar hafa útbreitt þann þvætting að menn þurfi að neyta kjöts og/eða fisks vegna eggjahvítuefnanna. Með leyfi að spyrja: hvaðan fær kýrin sín eggjahvítuefni? Af siðferðilegum ástæðum skal EKKI neyta kjöts og þá allra síst af háþróuðum verum eins og kúnni eða sauðkindinni (hvað þá selum eða hvölum).

Frá heilsusjónarmiði einvörðungu er miklu skárra að neyta fuglakjöts. Svína- og nautakjöt er  best. Sum dýr neyta matar allan daginn (grasbítar og apar), önnur aðeins seint á kvöldum (eftir vel-heppnaða veiðiför) (þ.e. rándýrin, sem að vísu engin „rándýr“ eru). Hvalir sem eru háþróuðustu verur á þessum hnetti eta hálft árið (sumrin) en svelta hinn helming ársins (veturna). Hinsvegar hefi ég ennþá engar spurnir af lífveru sem neytir „kostaríks“ morgunverðar, en sveltir sig á kvöldin. Til að fremja svo fráleitt athæfi útheimtist háskólamenntuð innræting og heilaþvottur.

VERÐI YKKUR SVO AÐ GÓÐU. 9. nóv. 1980.+

Höfundur Skúli Magnússon yogakennariFlokkar:Annað

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: