Um andoxunarefni

,,Lífsspursmál er að koma sem mest í veg fyrir keðjuhvörf sem myndast af efnum sem hafa eina fría rafeind og valda skemmdum í frumum og hvatberafrumum.“ Jenny Bowden Ph.D CNS segir í bókinni ,,Healthiest Food on Earth “ (2006) að sannleikurinn sé raunar sá að ekkert fullkomið mataræði fyrirfinnist fyrir mannskepnuna. Og um matarkúra: „Því meiri jurtafæða, því betra.“ Öll jurtafæða sé stútfull af andoxunarefnum.

Oxun orku fæðunnar með súrefni, sem er prótín, glýseríð fita og sykrur og meltingar hvatarnir brjóta niður í glúkósa og fitusýrur svo hvatberarnir ráði við að gera orkumiðilinn ATP, sem síðan rekur mestalla líkamsstarfsemina, er ekki hnökralaus. Orkan er bundin í efnatengjunum en hjá lífrænum efnum fæðunnar eru tvær aðalleiðir með skiptingu rafeindanna tveggja sem mynda efnatengið við leysingu þess. Losun eins tengis með tvær rafeindir myndar tvö myndefni sem getur átt sér stað á tvo vegu: Lendi sín rafeindin á hvoru myndefninu eru yfirleitt komin óþurftar efni sem eru óstöðug, gífurlega hvarfgjörn og með örstuttan líftíma. Þessi efni koma af stað keðju hvörfum við að ná til sín auka rafeind og mynda hlutlaus varanleg efni. Keðjuhvörfin skemma DNA, RNA, lífhvata, frumuhimnur og fleira í frumunum en alvarlegast er þetta fyrir hvatberana, sem eru mismargir í öllum frumum og viðkvæmastir. Séu skemmdir á þeim miklar eyðast þeir.

Það sem getur stöðvað þessi keðjuhvörf eru andoxunarefni. Þau bindast þessu hvarfgjarna efni og til verður hlutlaust efni sem þarf að koma í lóg. Þekktir eru elliblettir (lipofuscin) sem myndast í öllum líffærum en sjást best í andliti er þeir renna fleiri saman er húðfrumurnar deyja. Hin aðalleysing lífrænnar efnatengingar er sú hefðbundna meltingarinnar og myndast þá af einu hvarfefni tvö myndefni sem eru hlaðnar jónir; önnur jónin fær báðar rafeindirnar og er því með neikvæða hleðslu en hin verður jákvæð.

Flest hvörf líkamans eru milli jóna í vatnsfasa. Það sem kemur fyrri óhagstæðari leysingu efnatengisins af stað gæti verið ýmiss konar geislun, mengunarvaldar eins og úr andrúmsloftinu og þá ýmis peroxíð og fleira. Það er því auðskilið að gróðurinn, sem er mjög berskjaldaður, myndi urmul andoxunarefna til að hamla gegn keðjuhvörfunum.

Hjá okkur eru aðalandoxunarefnin úr fæðunni sem draga úr þessari óheillamyndun keðjuhvarfa A-, C- og E-vítamín, hormónið melatónín, glútaþíon, steinefnin Mg og selen auk beta-karótíns sem myndar jurta-A-vítamínið. Vandinn er að hafa nægt magn af þessum andoxunarefnum í kroppnum og er víst varla unnt lengur án hjálpar bætiefna. Öll þessi efni hafa líka aðra margháttaða starfsemi og er C-vítamínið líklega mikilvægast.

Nái keðjuhvörfin að tengjast saman í stórar sameindir sem síðan komast ekki út úr frumunni en smáfylla frymið og hefta þannig starfsemi frumunnar veldur það að lokum ýmsum kvillum. Minni sameindum myndefna keðjuhvarfanna skolar líkaminn út. Alvarlegastar eru skemmdir á hvatberunum því án þeirra getum við ekki lifað. Allt veldur þetta því að við eldumst mishratt hver og einn eftir eigin líkamsstarfsemi eða matarvenjum og umhverfisáhrifum.

Í bók eftir öldrunarsérfræðingana Katz og Goldman, Stopping the Clock (1996), segir af rannsóknum á tíæringjum sem hafi sýnt að þeir hafi borðað lítið prótín en meira jurtafæði. Vitað er að minna er af andoxunarefnum í kjöti en jurtamat svo þetta gæti verið hagstætt. Auðsætt er, þótt margt sé enn óljóst varðandi áhrif vaxandi mengunar og geislunar á líkamsstarfsemina, að þörfin er vaxandi fyrir andoxunarefni til að hlífa frumunum og svo sjálfum orkustöðvunum, sem eru hvatberafrumurnar innan frumnanna. Það gæti hamlað ellinni og ýmsum sjúkdómum. Hvatberarnir eru einna flestir í hjartavöðvunum, lifur og heila og uppsafnaðar skemmdir og eyðing hvatberanna hafa sín langtímaáhrif.

Höfundurinn: Pálmi Stefánsson er efnaverkfræðingur. spalmi@simnet.is  Greinin er birt með leyfi höfundar en var áður birt í Morgunblaðinu.



Flokkar:Næring

Flokkar/Tögg, ,

%d