Austurlensk læknisfræði og næringarfræðin

Fleygar setningar frá einum allra þekktasta lækni Kínverja sem var uppi á tímum Tang-veldisins (618-907) og lagði mikla áherslu á næringarfræðina segir: ,,Matar-meðferðir skulu alltaf vera fyrsta skrefið sem við tökum til að ná tökum á sjúkdómi.  Aðeins þegar sú leið ekki virkar er notast við læknismeðferðir.”  Áfram segir hann: ,,Án þekkingar um rétt mataræði fyrir hvern og einn er harla hægt að njóta góðrar heilsu”

Næringarfræðin í austurlenskri læknisfræði er byggð á þeim grundvallar hefðum að borða heilnæma og fjölbreytta fæðu í takt við uppbyggingu hvers líkama fyrir sig og þetta eru flókin fræði sem leggja áherslu á og taka tillit til undirliggjandi orsaka og ójafnvægis í líkamanum.  Lykillinn að hinu fullkomna mataræði er að skilja að það er ekki til nein ein tegund mataræðis sem virkar fyrir alla. Brennsluhraði hvers og eins er ólíkur, við hreyfum okkur mismikið, erum öll með mismunandi heilsufar.  Þegar sumir veikjast sjaldan sem aldrei, eru aðrir stöðugt lasnir.  Einnig herja sömu sýkingar misjafnt á ólíka einstaklinga.  Hvar við búum á jörðinni skiptir einnig máli sem og sá matur sem vex í þeim heimshluta.  Það sem við höfum sameiginlegt er að hver einstaklingur er með sömu grunnþarfir og næringarfræði austurlensku læknisfræðinnar byrjar á þeim grunni.

Í kaldari heimshlutum er lögð áhersla á að hita upp líkamann til að tryggja góða brennslu matar og uppbyggingar orku hjá einstaklingnum.  Kjöt hefur alltaf verið sú matvara sem getur hitað upp líkamann og hefur alltaf verið notuð sem slík ef þurfa þykir, jafnvel hjá búddískum munkum sem trúa á að allt líf sé heilagt.  Þeir notuðu kjöt á köldum vetrum í Himalayafjöllunum til að halda heilsu.  Fyrir grænmetisætur er nauðsynlegt að finna gott prótein sem er vermandi, fullt af næringarefnum og getur komið í stað kjötsins. Það er hægt að vera án kjötsins en mikil áhersla er lögð á réttu næringuna og upphitun líkamans svo næg orka byggist upp fyrir líkamann.  Helst skal allt borðað heitt eða við líkamshita.  Það hjálpar meltingunni og orkunni.  Vatn skal einnig helst vera drukkið heitt eða við stofuhita og grænmetið eldað svo frumuveggirnir séu brotnir niður (þar sem flest næringarefnin eru).  Þetta hjálpar allt niðurbroti matar og styrkir meltinguna.

Það sem tefur og heldur aftur af meltingarkerfinu samkvæmt austurlenskri læknisfræði er of kaldur líkami og köld melting og hættan á uppsöfnun svokallaðs raka eða slímmyndunar.  Það er talið auka bólgur í líkamanum og sýkingarhættur og heldur aftur af orkunni, uppbyggingu og hreyfingu blóðvökvans og almenns heilbrigðis.  Þess vegna er talið að mjólkurvörur séu aðeins fyrir ungabörn.  Mjólkurvörur eru slím-myndandi og þar með bólgu-myndandi.  Þær aftra einnig uppbyggingu orkunnar og eru sérstaklega slæmar fyrir þá einstaklinga sem eru að glíma við slík vandamál.

Í austurlenskri læknisfræði er hver líkami skoðaður og greindur á sinn einstaka hátt og meðal annars er athugað hvort líkaminn sé ýmist með þessi einkenni hita eða kulda og enn fremur hvaða einstaka líffæri virkar mögulega of heitt eða kalt.  Út frá þessum athugunum er síðan hægt að skoða nákvæmar hvar mögulegt ójafnvægi í líkamanum liggur.  Hver einstaka matvara er á sama hátt talin hafa heita eða kalda eiginleika.  Þ.e.a.s. sum matvæli eru kælandi og önnur vermandi eða hitandi.  Við þurfum ekki að horfa lengra en á chili og agúrkur sem merki um mat sem annað hvort hita eða kæla.  Laukur vermir og þurrkar en vatnsmelóna kælir og myndar raka. Hver einasta matvara hefur sinn sérstaka eiginleika og samkvæmt nútíma rannsóknum og greiningum er einnig hægt að vita nákvæmlega hvaða vítamín, steinefni og snefilefni þessar matvörur hafa. Með þessum hætti er hægt að finna út hvaða matvörur henta hverjum einstaklingi hverju sinni.  Allur matur er hollur og gerir líkama okkar gagn.  Hver matvara sem eitt sinn hafði líf, gefur okkur líf.  Líkaminn verður því alltaf undir áhrifum hvers matar fyrir sig á hverjum degi.

Hitastig matar getur síðan breyst eftir því hvort maturinn nái að þroskast að fullu eða er nýttur fyrir fullan þroskatíma.  Eldunaraðferðir eiga einnig til að breyta hitastigi og eiginleika matar.  Hrár matur kælir meira en eldaður matur og þær plöntur sem taka lengri tíma til að þroskast eru yfirleitt meira vermandi en þær plöntur sem vaxa hratt.  Litir matar eru einnig taldir skipta máli þegar við skilgreinum hitastig matar en t.d. kælir blár, grænn og fjólublár matur meira en kannski rauður, appelsínugulur og gulur matur sem er þá talinn meira vermandi.

Hitastig líkamans getur því verið misjafnt eftir því hvernig lífsstíl við lifum, hvar við búum eða vegna gena og meðfæddra eiginleika.  Við getum þó alltaf haft áhrif á ástand okkar með lífsstíl og lifnaðarháttum.  Sér í lagi með mataræði.  Ójafnvægi í líkamanum er ýmist greint sem of heitt ástand, of kalt ástand eða of mikil slímmyndun eða þurrkur, svo eitthvað sé nefnt.  Þannig er hægt að stilla líkamann af ef viss einkenni byrja að myndast og finna út hvað hentar okkar einstaka líkama best.

Heitur líkami:

Of heitur líkami getur verið með mörg mismunandi einkenni eftir því hvar hitinn safnast fyrir í líkamanum.  Hiti á samt alltaf til að rísa upp, þurrka og örva, þó svo mörg mismunandi einkenni geti átt sér stað hjá hverjum og einum.  Rauð augu, höfuðverkir, hár blóðþrýstingur, brjóstsviði, magabólgur, harðlífi, blöðrur, roði og almenn tilfinning um hita í líkamanum eru nokkur dæmi um heitari líkama.

Við slíkar aðstæður hjálpar það líkamanum að minnka þær matvörur sem hita mest og bæta inn matvörum og drykkjum sem eru meira kælandi til að öðlast jafnvægi og forðast að hitinn skaði líkamann til lengri tíma.

Nokkur dæmi um kælandi mat:

Epli, bananar, perur, vatnsmelónur, kantalópur, tómatar, sítrus ávextir, klettasalat, radísur, agúrkur, selerí, sveppir, aspas, eggaldin, spínat, kál, brokkólí, blómkál, maís, kúrbítur, sojamjólk, tofu, mungbaunir, spírur, bygg, amaranth, heilhveiti, spirulina, allir þörungar, hveitigras, yogurt, skelfiskur.

Kaldur líkami:

Of kaldur líkami á til að hægja á starfsemi sinni og virka letjandi á þau líffæri sem verða fyrir áhrifunum.  Þá safnast fyrir meiri raki og slím sem sest fyrir í líkamanum og verkir vegna kulda og hægari líkamstarfssemi gera vart við sig.  Kaldar hendur og tær, lausar hægðir, magaverkir eftir kalda drykki og hráa fæðu, orkuleysi, bjúgur, einbeitingarleysi, síþreyta, vöðvaverkir og lár blóðþrýstingur eru t.d. nokkur einkenni um kaldari líkamsstarfssemi.

Hægt er að nota vermandi matvörur við einkennum af þessu tagi og þær aðstoðað líkamann í að verma og örva starfsemi sína.  Þá er einnig nauðsynlegt að nota vermandi matvörur til að losa sig við uppsafnaðan vökva og verki af völdum kuldans.

Nokkur dæmi um vermandi matuvörur:

Engifer, svartar baunir, aduki baunir, nýrnabaunir, kanill, negull, basil, rósmarín, hafrar, spelthveiti, quinoa, sólblómafræ, sesamfræ, valhnetur, furuhnetur, fennel, dill, anise, cumin, brún hrísgrjón, steinselja, laukur, hvítlaukur, vorlaukur, kirsuber, mango, döðlur, chili pipar, paprikur, kræklingur, silungur, kjúklingur, nautakjöt, lamb.

Forn næringarfræði

Næringarfræði í austurlenskri læknisfræði, sem var einfaldlega kölluð matar-meðferð á þeim tíma fyrir +3000 árum síðan, gekk niður kynslóðir eftir endalausar baráttur við sjúkdóma, og þann ávinning sem fékkst við að nota mat sem meðferð til að koma í veg fyrir þá sjúkdóma.

Næringarfræðin var orðin marktæk það snemma að Keisari Zhou veldisins (1046-256 f.Kr.) var komin með sinn eigin ,,næringarþerapista” sem sá um að skjalfesta og merkja samhengi á milli næringarinntöku og heilsu hirðarinnar sem og gæði matar, ekki svo ólíkt því sem matvælaeftirlitið á að gera hér hjá okkur í dag. Þessir næringarþerapistar voru mikils metnir og áttu að sjá um allar forvarnir sjúkdóma ásamt því að nota mataræði markvisst fyrir viðvarandi veikindi sem og bráðatilfelli.

Næringarfræðin hefur alltaf verið mjög mikilvæg í austurlenskri læknisfræði til að fyrirbyggja sjúkdóma og halda almennu hreysti og heilsu í gegnum næringu.  Forvarnir, leiðin til að forðast veikindi, hefur spilað stóra rullu í öllum aðferðum í austurlenskri læknisfræði, allt til dagsins í dag.  Fyrir mörg þúsund árum síðan var læknum í Kína borgað í takt við hversu mörgum var haldið heilbrigðum.  Því færri sem veiktust, því hærri voru launin.

Akupunktur, jurtafræði, næringarfræði, moxa-þerapía og líkamsæfingar eins og Qi-Gong og Tai-Qi eru helstu grundvallar meðferðirnar sem notaðar eru í austurlenskri læknisfræði.

Þórunn Birna rekur stofuna: Kuan Yin Nálastungur, Hamraborg 10, 200 Kópavogi.  netfangið er: drthorunng@gmail.com og símanúmer er : 861-6778Flokkar:Greinar og viðtöl, Kjörlækningar

Flokkar/Tögg, , ,

%d