Frá vöggu til grafar

Nýlega var haldin ráðstefna um stefnumörkun í heilbrigðismálum á Íslandi sem nefndist ,,Frá vöggu til grafar”. Dagskráin var fjölbreytt og fjallað var um ýmsa þættið heilbrigðisþjónustunnar. Það vakti athygli mína að dagskráin bauð ekki upp á umræðu um forvarnir. Forvarnir hljóta að vera mjög mikilvægur þáttur í heilbrigðisstefnu þjóðarinnar en veigamestu þættir forvarna eru mataræðið þ.e. heilnæmt fæði og hreyfing en tóbaksreykingar og ofneysla á mat og áfengum drykkjum sem ber að forðast.
 
Einstaklingurinn verður sjálfur að taka ábyrgð á eigin heilsu eftir því sem kostur er með því að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl, þ.e. heilnæmt fæði, nægilega hreyfingu og hófsemi í allri neyslu. Einstaklingurinn ræður samt ekki alltaf örlögum sínum þrátt fyrir góðan vilja og ásetning, sumir erfa sjúkdóma eða fötlun og berjast þá við ýmsa erfiðleika mikinn hluta æfinnar. Fleira kemur til sem torveldar einstaklingum að gæta heilsu sinnar og fjölskyldunnar en það er mengun af ýmsu tagi sem erfitt er að varast.
Til þess að einstaklingurinn geti borið ábyrgð á eigin heilsu þarf hann að vita hvað ógnar heilsu hans.
 
 
Ein tegund af mengun sem fylgir nútíma manninum frá vöggu til grafar er mengun af hormónatruflandi efnum eða hormónahermum sem er orðin mjög almenn og er af manna völdum. Menn standa nánast varnarlausir gagnvart þessari hættu, sumpart vegna vanþekkingar á þessum efnum og einnig vegna vantrúar á skaðsemi þessara efna. Hefi ég fjallað um þessi efni í nokkrum pistlum á þessum vettvangi og í greinum í dagblöðum.
Þekkt eru tugir efna sem trufla hormóna starfsemina (endocrine disruptors, endcrine mimics) og hefur komið fram flokkur efna sem eru manngerðir hormóna-hermar sem raska eðlilegri stjórnun á starfsemi hormóna. Sum efnin trufla kynhormóna, estrógena, testosterón, og skjaldkirtilshormóna o.m.fl. Þekktustu efnin eru DDT, PCB-efni og dioxin en önnur efni koma einnig við sögu sem eru minna þekkt. Mýkingarefni í plasti eru t.d. hormóna-hermar og berast þau auðveldlega í mat og drykk sem eru í plastílátum og í dósum sem eru húðaðar að innan. Á meðal þessara efna eru phthalöt, alkylphenolar í plasti, bromaðir diphenyl etherar og flúoruð lífræn efni. Alkyl phenolar, einkum bisphenol A, eru öflugir hormóna-hermar. Þessir hormóna-hermar eru taldir ógna frjósemi og heilsu manna.
Rannsakað var magni hormóna-herma í inni-lofti og ryki á 120 heimilum manna í Banda-ríkjunum (Mass.). Fundust 28 slík efni í andrúmslofti innanhúss og 42 slík efni í ryki innanhúss. Mest var af phhtalötum (mýkingarefni í plasti), o-phenylphenol (í sótt-hreinsandi efnum), 4-nonylphenol (í þvottefnum) og 4-tert-butylphenol (í lími, krossviði). Magnið var 50-1500 ng/m3. Magnið sem mælt var reyndist meira en það sem heimilað var en engar reglur voru um notkun 28 þessara efna.
Bisphenol A (BPA) er í plastefnum (þ.e. polycarbonati, epoxy resin) og í lakkhúð innan á dósum sem eru notaðar fyrir mat. BPA var mælt í mat á markaði í Japan og niðurstöðurnar benda til þess að menn fái t.d. BPA úr dósamat þar sem dósirnar eru húðaðar að innan með efnum sem hafa BPA.
Bisphenol A er estrogen hermir og tengist estrogen viðtökum sem taka við boðum frá kvenkynshormónum. Of mikið magn estrogens eða estrogen-herma getur raskað eðlilegum þroska fósturs. Rannsóknir sýna enn fremur að fái tilraunadýr bisphenol A (BPA) á fósturskeiði getur það örvað vöxt á krabbameini í blöðruhálskirtli síðar á ævinni. Blöðruhálskirtillinn er undir stjórn karkynshormóna (androgena). Sýnt hefur verið fram á að bisphenol A á fósturskeiði getur jafnframt valdið brjóstakrabbameini í konum.
 
Krabbamein í blöðruhálskirtli er ört vaxandi og eru hormóna-hermar taldir koma þar við sögu, einkum bisphenol A. BPA getur aukið breytingar í blöðruhálskirtli, góðkynja stækkun, bólgur og forstigs krabbamein og örvað síðar vöxt á krabbameini í blöðruhálskirtli.
Mikið er af efninu bisphenol A í umhverfinu. Margt fólk fær um 2.5 ug/kg/dag sem er sama magn og veldur krabbameini í tilraunadýrum. Bisphenol A er notað við framleiðslu á polykarbonat plasti og epoxy efnum. Efnið er í ílátum fyrir mat og drykk, meðal annars í pelum smábarna. BPA berst úr plastinu út í mat og drykk í þessum ílátum og finnst efnið í þvagi 95% manna í Bandaríkjunum.
Mýkingarefni í plasti berast auðveldlega í mat og drykk í plastílátum og eru menn uggandi um afleiðingar þessarar mengunar. Þessir hormóna-hermar eru margir fituleysanlegir og berast þá auðveldlega út í feitmetið. Nauðsynlegt er að athuga magn slíkra hormónaherma í feitmeti, svo sem matarolíum, smjörlíki o.þ.h. vörum í plastumbúðum sem eru á íslenskum markaði.
Nýjar rannsóknir, aðgengilegar á PubMed og Google, sýna vaxandi fjölda rannsókna sem fjalla um tengsl BPA og krabbameina, hjartasjúkdóma og sykursýki. Þessi heilsu-spillandi efni eru nú nánast á hvers manns diski.
Heildarstefna í heilbrigðismálum.
Þegar menn ræða um mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum þá hljóta menn að leggja áherslu á forvarnir og þann lífsstíl sem við viljum te
mja okkur.
Ábending til áhrifavalda:
Til foreldra: sýnið börnum ykkar gott fordæmi. Viðhafið þann lífsstíl sem þið viljið að börnin ykkar tileinki sér, heilnæmt fæði og hófsemi, nægilega hreyfingu og tóbaksbindindi.
 
Til framleiðenda: sýnið neytendum tillitsemi og setjið aðeins á markað matvörur sem þið sjálfir viljið borða, þ.e. hollar og bragðgóðar vörur án mengunar og aðskotaefna.
Til innflytjenda: sýnið neytendum þá kurteisi að flytja aðeins inn til landsins matvörur sem eru neysluhæfar erlendis, varist innflutning á menguðum vörum og á vörum sem eru ekki lengur söluhæfar erlendis.
Til lækna: leiðbeinið sjúklingum ykkar um val á heilnæmu fæði og hollum lífsstíl. Almenningur væntir slíkrar leiðsagnar frá ykkur. Er nauðsynlegt að læknar afli sér nauðsynlegrar þekkingar á þessu sviði ef hún er ekki fyrir hendi nú þegar.
Heimildir:
1. Phthalates, alkylphenols,pesticides, polybrominated diphenyl ethers, and other endocrine-disrupting compounds in indoor air and dust. Rudel RA, Caman DE, Spengler JD, Korn LR, Brody JG. Environ. Sci. Technol. 2003; 37: 4543-4553.
2. Bisphenol A (BPA) and its source in foods in Japanese markets. Sajki J, Miyamoto F, Fukata H, Mori C, Yonekubo J, Hayakawa K. Food Addit. Contam. 2007; 24: 103-112.
3. Developmental estrogen exposures predispose to prostate carcinogenesis with aging. Prins GS, Birch L, Tang WY, Ho SM. Reprod. Toxicol. 2006; (Epub á undan prentun).
4. Bisphenol A facilitates bypass of androgen ablation therapy in prostate cancer. Wetherill YB, Hess-Wilson JK, Comstock CE, Shah SA, Buncher CR, Sallans L, Limbach PA, Schwemberger S, Babcock GF, Knudsen KE. Mol. Cancer Ther. 2006; 5: 3181-3190.
5. Endocrine disruptors and reproductive health: the case of bisphenol A. Maffini MV, Rubin BS, Sonnenschein C, Soto AM. Mol. Cell. Endocrinol. 2006; 25: 254-255.
6. Endocrine disruptors: challenges for environmental research in the 21st century. Wolff MS. Ann. N.Y. Acade. Sci. 2006; 1076: 228-238.
Sigmundur Guðbjarnason Prófessor emeritus.


Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d bloggers like this: