Núvitund með börnum

Ævintýrið okkar hófst fyrir nokkrum árum þegar við fjórar kennslukonur, skráðum okkur á námskeið í núvitund hjá Hugleiðslu og friðarmiðstöðinni. Þegar leið á námskeiðið tókum við ekki bara eftir breytingum hjá okkur sjálfum heldur líka á nemendum okkar. Við vorum jarðbundnari og rólegri sem endurspeglaðist í börnunum. Þetta vakti áhuga okkar og við sáum það svart á hvítu að börnin voru móttækileg og þeim leið betur. Þess vegna fórum við að leita að námskeiðum í núvitund fyrir börn.

Til að gera langa sögu stutta þá fundum við námskeið í núvitund með börnum í Samye Ling klaustrinu í Skotlandi, þangað höfum við farið reglulega auk þess að sækja önnur námskeið hérlendis líka. Okkar áhersla hefur verið að læra að kenna börnum og kennurum þessar aðferðir. Við höfum líka verið svo heppnar að hafa fengið að kenna börnum í okkar bekkjum núvitund sem hefur verið mjög lærdómsríkt og ómetanlegt að sjá börnum líða betur í námi og starfi eftir að hafa tileinkað sér aðferðirnar.

Undanfarin misseri höfum við haldið námskeið fyrir börn í húsnæði Erindis, sem eru samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða, hlutverk þeirra er m.a. að skapa fræðslu og umræðu um málefni sem varða hag barna á öllum skólastigum.

Við höfum hug á að vera með framhaldsnámskeið og jafnvel hugleiðslutíma fyrir þá sem hafa komið á námskeiðin okkar. Þannig geta börnin haldið við því sem þau lærðu og bætt við þekkingu sína.

Draumur okkar um að fleiri börn fengju að kynnast núvitund er að rætast. Í vor fengum við styrk frá Sprotasjóði til þess að innleiða núvitund á yngsta stig í Lágafellsskóla, innleiðingin er hafin og mun standa yfir í eitt og hálft ár. Við vonumst til að hún muni bæta skólabrag og andlega líðan barnanna.

Við höfum þá trú að við sem vinnum með börnum getum gert betur. Með því að innleiða núvitund í skólakerfið þá höfum við stigið skref í rétta átt. Erill og streita er stór þáttur í daglegu lífi barna og fullorðinna í dag.  Væntingar og kröfur eru oft óyfirstíganlegar. Þegar allt ætlar um koll að keyra og jafnvel þegar allt er eins og best verður á kosið, getur verið gott að eiga stund með sjálfum sér og hugleiða. Róa sál og líkama, safna sér saman hér nú og njóta líðandi stundar.  Það er því dýrmætt að gefa börnum lykil að sjálfum sér sem þau taka með sér inn í framtíðina og fylgir þeim ævilangt. Þessi lykill er hugleiðsluaðferð sem nefnist núvitund.

En hvað er núvitund?
Núvitund snýst um að upplifa líðandi stund, án þess að dæma. Að leggja sig fram við að vera andlega og líkamlega til staðar og sleppa tökunum á fortíð og framtíð. Núvitund er hugarþjálfun þar sem markmiðið er að fá það besta út úr hverri stund, því líðandi stund er í raun sú eina sem við eigum.

Höfundar:
Bryndís Ingimundardóttir
Jónína Loftsdóttir
Rósa Gunnlaugsdóttir
Rut G MagnúsdóttirFlokkar:Fjölskylda og börn

Flokkar/Tögg, , , ,

%d bloggers like this: