Ókeypis nám í Bataskóla Íslands

Bataskóli Íslands býður upp á nám fyrir fólk með geðrænar áskoranir. Námið er ætlað fólki 18 ára og eldra, það er einnig fyrir aðstandendur og starfsfólk á heilbrigðis- og velferðarsviði. Markmið skólans er að valdefla nemendur, auka við lífsgæði þeirra og styrkja sjálfsmyndina.

Hægt að velja úr 17 námskeiðum:

  • • Velkomin í Bataskólann
  • • Batahugmyndafræðin – hentar hún þér?
  • • Vellíðan og heilsa
  • • Sjálfstraust og samskipti
  • • Losaðu um hnútinn – lærðu að takast á við kvíða
  • • Þekktu þunglyndið – taktu í tauminn
  • • Geðrof – ekki eins klikkað og þið haldið
  • • Hvað er þetta ADHD?
  • • Dagbókarnámskeið
  • • Svefn – grunnstoð heilsu
  • • Hvar er hettan mín, hvar er húfan mín? Minnissnámskeið
  • • Sköpun í listum og lífi
  • • Samfélagið og batinn
  • • Aukin virkni til náms, starfs eða sjálfboðaliðastarfs
  • • Geðklofanámskeið
  • • Sjálfsumhyggja og núvitund
  • • Bati í náttúrunni

Reykjavíkurborg og Geðhjálp gerðu samkomulag um stofnun Bataskóla Íslands, hann var formlega opnaður í apríl 2017.

Meðal samstarfsaðila í verkefninu eru Landspítalinn, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík, auk samráðsvettvangs geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu. Meginmarkmið Bataskólans er að með menntun megi auka innsæi, bæta lífsgæði og auka þátttöku fólks með geðrænar áskoranir í samfélaginu. Rauði þráðurinn í starfseminni er þétt samstarf sérfræðinga og fólks með reynslu af geðrænum áskorunum.

Fyrirmynd að Bataskóla Íslands er Nottingham Recovery College í Bretlandi. Bretar eru frumkvöðlar á sviði bataskóla og hafa stofnað 33 bataskóla þar í landi á síðustu fimm árum. Þeir hafa breitt út hugmyndafræði bataskóla til hátt í 40 annarra Evrópulanda og Japan. Geðhjálp átti frumkvæðið að því að íslenskur hópur á vegum samráðshóps úrræða/félaga á geðheilbrigðissviði kynnti sér hugmyndafræði bataskóla í London og Nottingham. Í framhaldi af því leituðu samtökin eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um þróun skólans. Borgarráð samþykkti að leggja árlega 15 milljónir króna á næstu þremur árum og frítt húsnæði til þróun¬ar bataskóla á Íslandi

Námsframboð bataskólans ræðst af áhuga nemenda hverju sinni. Dæmi um nám-skeið í breskum bataskólum eru: Lifað með geðhvörfum, Kvíðastjórnun, Uppbyggileg samskipti og Núvitund. Tveir einstaklingar, sérfræðingur og svokallaður jafningjafræðari, stýra námsefnisgerð í hverju námskeiði fyrir sig með virkri þátttöku breiðs hóps hefðbundinna sérfræðinga og notenda geðheilbrigðiskerfisins. Með sama hætti kenna alltaf tveir kennarar, hefðbundinn sérfræðingur og jafningjfræðari, hvert námskeið. Bataskólar hafa skilað frábærum árangri í Bretlandi, t.a.m. halda um 70% nemenda við Bataskólann í Nottingham áfram námi, taka að sér sjálfboðaliðastörf eða launuð störf að námi loknu,

Verkefnastjórar Bataskólans  eru Esther Ágústsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson eru bæði í hálfu starfshlutfalli. Esther er grunn- og framhaldsskólakennari að mennt. Hún hefur sinnt skólastjórn og kennslu á ýmsum skólastigum á Íslandi og í Danmörku á umliðnum árum. Esther er jafnframt menntaður markþjálfi. Síðustu ár hefur Esther látið sig geðheilbrigðismál miklu varða og hefur hún tekist á við geðrænar áskoranir í eigin lífi.

Þorsteinn Guðmundsson er leikari, grínisti og uppistandari og leggur stund á sálfræði við Háskóla Íslands með starfi verkefnisstjóra. Þorsteinn hefur komið fram, skrifað pistla og greinar fyrir ýmsa fjölmiðla, útvarpsleikrit og bækur auk kvikmyndarinnar Okkar eigin Osló á síðustu árum. Hann er líklega þekktastur fyrir sjónvarpsþættina Fóstbræður sem hann lék í og skrifaði ásamt fleirum. Þorsteinn hefur látið sig samfélagsmál varða með ýmsum hætti á undangengnum árum.

Frekari upplýsingar má fá annað hvort í síma 411-6555 á milli kl. 13 og 16 virka daga eða með tölvupósti: esther@bataskoli.is og/eða thorsteinn@bataskoli.is  –  Heimasíðan er http://www.bataskoli.is.

Skólinn er staðsettur í húsnæði Námsflokkanna við Suðurlandsbraut 32 og er nemendum að kostnaðarlausu.



Flokkar:Kynningar

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: