Náttúruheilsufræðin leggur mikla áherslu á hreinsun eiturefna út úr líkamanum. Þetta eru eiturefni sem berast inn í líkamann í gegnum húðina, um lungun og í mat og drykk. Þá eru ótalin þau sem myndast við efnaskiptin eða koma frá örverum í ristlinum. Þessi fræði telja að veikindi séu oft aðferð líkamans til að losa sig við of mikið af eitri. Líkaminn losar sig stöðugt við eiturefni með svita um húðina, með þvagi frá hreinsun nýrnanna á blóðinu, gegnum lungun við útöndun, með saur úr ristlinum og jafnvel með eyrnamerg. Hreinsun eða afeitrun krefst mikillar orku sem okkur er ekki alltaf tiltæk.
Með réttu mataræði og nægjanlegri hreyfingu fyrir vessakerfið mætti halda líkamanum í toppformi hvað þetta varðar. Nú á tímum mengunar er ekki vanþörf á að hjálpa líkamanum við afeitrun hans. Föstur, sána og ristilskolun eru mikið notaðar til afeitrunar. Áhrif mataræðis eru talin geta skipt sköpum og þá m.a. algjört hráfæði sem byggist á að neyta bara matar úr jurtaríkinu og hita hann ekki yfir 40°C. Þá er tryggt að virk efni, prótín og vítamín, skemmist ekki og öll afeitrun verði líkamanum auðveld. Í mat úr jurtaríkinu eru svonefnd phyto-efni (talin geta verið um 25.000 virk efni) sem eru heilsusamleg og styrkja ónæmiskerfið. Auk þessa fáum við flest steinefnin úr jurtaríkinu. Sé etið bara hráfæði er frásog efna mun meira en frá blönduðu fæði og minnkar þar með magn þess sem neyta þarf.
Til að matreiða hráfæði sem er bæði ferskt og þurrkað þarf örfá raftæki: hnífakvörn, hrærivél, safapressu og þurrkofn fyrir 40°C. Það eina sem er e.t.v. ekki í eldhúsinu nú þegar er þurrkofn fyrir 40°C hita til að þurrka vatn úr réttunum (mætti líkja við harðfiskgerð) og getur það tekið allt að hálfum sólarhring fyrir suma rétti. Þessi lági hiti er einkar athyglisverður vegna þess sem vitað er um skaðsemi hitameðferðar matar á heilsu.
Gerðar hafa verið margar mataruppskriftir hráfæðis fyrir bæði ýmsa safa, súpur og marga þurrkaða og óþurrkaða rétti. Í hráfæðið eru notuð fræ, hnetur, korn, fersk ber og þurrkuð, grænmeti, ávextir, laukar og hvítlaukur, rótarávextir, sveppir, þang, söl, hunang, eplaedik, pressuger, kaldpressuð ólífuolía og vatn, krydd, bæði ferskar jurtir og þurrt, sjávarsalt og pipar bara til að nefna það helsta. Með aldrinum eigum við erfiðara með að losa líkamann við eiturefnin sem fylla stöðugt meira og meira af fryminu í frumunum þar sem aðallífefnaferlin eiga sér stað og hægja þannig á lífsstarfseminni. Að lokum deyja frumurnar og við eldumst þeim mun hraðar sem uppsöfnun eiturefna verður meiri.
Samkvæmt þessu getum við auðveldlega endað lífið í eigin mengun.
Algjört hráfæði eins og hér er greint frá gæti verið ein leiðin til að losna við ýmis veikindi með náttúrulegri afeitrun og stuðla að bættri heilsu, einkum hjá eldra fólki. Það sem meira er um vert er að elliblettirnir, sem flestir fá á efri árum og eru vísbending um uppsöfnun eiturefna, hverfa alveg eða lýsast verulega ef vel tekst að koma afeitrun líkamans í lag.
Höfundur Pálmi Stefánsson er efnaverkfræðingur.
Flokkar:Næring