Lífsstílsbreytingar réðu því að ristillinn var ekki tekinn vegna blæðandi sáraristilbólgu.

Margrét Alice Birgisdóttir í viðtali árið 2015.   Veikindin komu með hvelli hausti 2001. Ekki var gripið inn í það strax því að um sama leyti gekk mjög svæsin magapest og talið að um meltingarsýkingu væri að ræða. Mér var bara sagt að taka það rólega segir Margrét Alice Birgisdóttir NLP og markþjálfi sem lýsir því hér hvernig hún  náði heilsu aftur:

,, Í desember fyrir 14 árum lenti ég í bráða innlögn á sjúkrahús þá var ég orðin svo veik að ég vissi   hvorki í þennan heim eða annan. Ristillinn var bólginn og blæðandi endanna á milli, allur eitt flakandi sár. Þegar ég fékk greininguna um sáraristilbólgu fannst mér það lítið mál að fást við og finna ráð gegn. En þegar ég fékk blóðtappa í lungun um tveimur vikum síðar og mér voru gefin blóðþynningarlyf sem juku blæðingarnar í ristlinum voru það erfið dæmi að fást við samtímis.

Í sex mánuði á eftir tók ég inn blóðþynningarlyf og það blæddi sífellt úr ristlinum. Svo fór allt úr böndum og endaði með annarri sjúkrahúsvist þar sem meðferðinni var breytt og títaníumgildra (vena cava filter) sett í stóra bláæð í kviðarholi til að varna því að blóðtapparnir færu í lungu. Eftir það var talið að ég þyrfti ekki á blóðþynningunni  að halda og hafist handa við  að græða ristilinn með sterum og bólgueyðandi lyfjum.  En ég þoldi ekki lyfin, ristillinn var nánast dæmdur ónýtur og talaði var um að mögulega gæti komið til  að fjarlægja hann. Okkur meltingarsérfræðingnum samdist þá um að bíða í hálft ár með að taka ristilinn, fyrst ég væri hætt á blóðþynningunni því mig langaði til að  sjá hvort einhverjar aðrar leiðir væru færar.

Kannski var það mín blessun að ég þoldi ekki lyfin þó að það væri ekki auðvelt að leita annarra leiða og finna lausn. Það var mikill skóli og vinna fyrir mig að finna útúr þessu og skilja meinið því að þegar þetta gerist árið 2001 var svo langt frá því að vera jafn góður aðgangur að upplýsingum eins og nú er og ég hafði fáa til að leita ráða hjá.

Hvað varð þér til bjargar?

Eftir leit að ráðum í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi og víðar tileinkaði ég mér kenningar dr. Huldu Clark doktors í lífefnafræði en hún setur samasemmerki  á milli sníkjudýra í kroppnum og krónískra lífsstílsmeina. Eftir að hafa lokið jurtaprógrammi dr. Clark sem fólst aðallega í að drepa sníkjudýr í meltingarvegi og byggja hann upp að nýju með því að forðast það sem hún taldi vera bólgumyndandi. Ásamt því að byggja upp þarmaflóruna tók heilsa mín risa stökk til betri vegar.

Að breyta um lífsstíl

Í veikindunum hafði ég lést mikið, var komin niður í 45 kg og þurfti virkilega á góðri næringu að halda. Ég byrjaði að taka inn kornsafa til að rétta af þarmaflóruna. Kornsafi er gerjaður safi úr spíruðum heilum hveiti- og rúgkjörnum að hætti Lifandi fæðis Ann Wigmore. Ég fjarlægði úr mataræðinu allt það sem ég fann að gerði mér ekki gott eins og: sykur, hveiti, mjólkurvörur, allan unninn mat, kaffi, vín og brauð.

Ótrúlegur árangur náðist á 6 mánuðum. Læknirinn studdi mig og hvatti þó hann vildi svosem ekkert vita hvað ég var að gera.

Svo veikist ég hastarlega aftur árið 2012 vegna þess að blóðtappagildran sem sett var upp þarna um árið stíflaðist og ég aftur sett á blóðþynningarlyf.  Í fyrstu óttaðist ég að lenda í sama farinu með ristilinn en ég bjó þá að vitneskju sem hjálpaði mér. Ég fór á 100%  hráfæði og hætti að borða allt sem innihélt glúten. Það undarlega gerðist þá að bólgur sem alltaf hafði örlað á hættu að mælast í ristilspeglun.

Er ekki fyrirboði á undan sáraristilbólgu (colitis ulcerosa)?

Svona veikindi verða ekki til á einum degi þau hafa yfirleitt langan aðdraganda. Ég er sannfærð um að  orsökin er margþætt  og kemur fram þegar fólk hefur ofboðið sér á einhvern hátt t.d. með: of mikilli vinnu, röngu mataræði, hreyfingarleysi eða slæmum samskiptum.  Veikleikar tengdir erfðum eru klárlega einnig til staðar en mín reynsla er að lífsstíllinn spili afar stóra rullu. Svo þarf ekki nema smá áfall til að hrinda þessu öllu af stað. Í mínu tilfelli var það þannig að í upphafi var ég búin aðlaga mig að veikleika meltingarinnar því að ég fann að ég  þoldi ekki allan mat.

Ég hafði ekkert val um annað en að gjörbreyta mínum lífsstíl annars hefði ég misst ristilinn. Sáraristilbólga er mjög krefjandi  sjúkdómur vegna mikilla verkja sem fylgja. Ég gleymi því aldrei hvað ég fann mikið til á meðan sárin voru að gróa, verkirnir voru stanslausir. Stundum held ég að ég hafi harkað of mikið af mér því ég tók eins lítið af verkjalyfjum og möguleg var. Ég vildi ekki leggja það á líkamann til viðbótar að  brjóta þau niður því að ég var svo viss um að hann þyrfti á öllu sínu að halda til að gera mig heila aftur.

Þetta er mín leið til heilbrigðis en ekki endilega leið annarra. Ég borða mat sem ég finn að mér verður gott af og elda hann í langflestum tilfella frá grunni. Nú byggist næring mín mest á grænmeti eða um 80 til 90% en  spara við mig kartöflur og maís vegna sterkjunnar. Af fiski hentar mér best sá bleiki en af kjöti vel ég villibráð eða lambakjöt. Ávexti nota ég af hófsemi enda afar sætir. Regla mín er sú að einbeita mér að því sem mér verður gott af þá er ekki pláss fyrir hitt á disknum“.

Nám og reynsla hefur hjálpað

Margrét Alice hefur iðkað hugleiðslu til margra ára, hún sótti námskeið erlendis í Núvitund árið 1995 hjá ,,Insight meditation society“. Hún er lærð og starfar við heilsumarkþjálfun og NLP (Neuro Linguistic Programming) undir hatti ,,Fyrir fólk“ og einnig að forvarnarhugsjón og meðvitundarvakningu hópa og fyrirtækja í samvinnu við Gyðu Dröfn Tryggvadóttur lýðheilsufræðing og Kristínu Sigurðardóttur slysa- og bráðalækni hjá  ,,Á heildina litið“.

Markþjálfun kenni okkur að horfa fram á veginn, setja raunhæf krefjandi markmið og ná þeim.  NLP hjálpi til við að finna út hvað standi í vegi fyrir því að markmiðunum sé ekki fyrir löngu náð og Núvitundin kenni svo að njóta ferðarinnar í vakandi athygli.

,,Þegar gildran stíflaðist árið 2012 taldi ég mig í góðu formi  nýbúin að ganga á hæstu tinda landsins. Þó að markmiðið að klífa tinda geti tekið á var gangan mín í kringum húsið heima eftir veikindin margfalt erfiðari að takast á við.  Þá reyndist mér óskaplega vel að hafa lært markþjálfun og NLP. Því að til þess ná heilsu á ný þurfti ég að vera að setja mér ný markmið nánast á hverri klukkustund. Markmiðið að endurheimta heilsuna náðist og nú eru markmið mín að ganga á fleiri fjallstoppa og spreyta mig í Reykjavíkurmaraþoni í sumar“ sagði Margrét Alice að lokum.

Höfunfur:  Margréti Alice er með slóðina:  www.aheildinalitid.is og er einnig með tvær síður á Fésbók:  Fyrir Fólk – NLP Heilsumarkþjálfun  og:  Á heildina litið .

Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði.



Flokkar:Reynslusögur

Flokkar/Tögg, , , , , , , , ,

%d bloggers like this: