Erfðabreytt skepnufóður og matur – er það málið ? 4. hluti

Stærsti framleiðandi erfðabreyttra lífvera til matvælaframleiðslu í heiminum í dag, Monsanto, ásamt fyritækjunum Syngenta, Bayer, Dow og DuPont hafa undanfarin ár keypt meira en 200 önnur fyrirtæki á fræmarkaði, sem gerir það að verkum að þau ráða nú þeim markaði og þar með aðgengi að fræi til matvælaframleiðslu. Afleiðingin er að það er orðið erfitt fyrir bændur að verða sér úti um annað fræ en frá þeim.

Árið 2012 var svo komið að um 93% allra sojabauna sem ræktaðar voru í Bandaríkjunum voru erfðabreyttar, 86% alls maís, 93% canola og 93% baðmullarfræs(olíu). Á árunum 2005-2009 voru 95% alls sykurrófufræs sem sáð var Roundup Ready. Erfðabreytt fræ, sérstaklega maís og soja hafa og tekið yfir ræktunina víða annarsstaðar í heiminum og útrýmt þar notkun á hefðbundnu fræi og sjálfbærum ræktunaraðferðum. Auk þessa hefur Monsanto náð að fá einkaleyfi á mikinn fjölda hefðbundins, óerfðabreytts fræs. Þar með er Monsanto orðinn eini eigandinn að mörgum helstu fræjum sem nauðsynleg eru til fæðuframleiðslu í heiminum.

10 algengustu erfðabreyttu mat- og iðnaðarvörur framleiddar í dag: soja, maís, kanola (olía), tómatar, kartöflur, bómull (olía), papaya, baunir og mjólkurafurðir.

Einkaleyfi á lífverur

Í fyrsta skipti í sögunni hafa líftæknifyrirtækifengið einkaleyfi á lífverur með því að breyta þeim með genatilfærslu, án þess að almenningur eða þing hafi haft nokkuð um það að segja. Í framhaldinu hafa þau svo ítrekað lögsótt bændur fyrir að ,,stela” frá sér fræjum og nota óleyfilega, þó fræin eða frjó úr þeim hafi borist þeim með öðrum hætti, s.s. með fuglum, skordýrum eða vindi. Þó líftæknifyrirtækin geti sjálf ekki ,,haft hemil á” sínu eigin erfðabreytta efni eru þau ekki ábyrg fyrir því þó það ,,smitist” yfir á land annarra og eyðileggi áratuga ræktunarstarf bænda þar. Þess í stað eru bændurnir sakfelldir fyrir notkun á einkaleyfisskyldu efni í óleyfi og hafa þurft að bera allan skaða af.

Baráttan fyrir frelsi til að rækta eigin afurð af eigin fræi á eigin landi, er í raun barátta fyrir sjálfstæði einstaklings og ríkja og því að vera ekki eign fyrirtækis eða stofnunar. Hvenær og hjá hvaða kynslóð endar einkaleyfisverndin? Verður það hjá fyrstu kynslóð erfðabreyttra lífvera, annarri kynslóð, þeirri þriðju eða eiga líftæknifyrirtækin allar lífverur sem erfðabreytt gen finnast í, kynslóð fram af kynslóð  um ókomna framtíð ? Þessari spurningu er ósvarað.

Út um allan heim, þar sem risinn Monsanto og samabærileg fyrirtæki selja bændum erfðabreytt  fræ og stunduð er akuryrkja með erfðabreyttar plöntur, standa bændur í baráttu upp á líf og dauða.

Heimildarmynd sem búin var til um kanadíska bóndann Percy Schmeiser er áhugavert innlegg í þá umræðu og sýnir hvernig þessi mál hafa náð að þróast þar í landi og hvað venjulegir bændur eru að takast á við þar í dag. Því miður er þessi mynd ekki lengur aðgengileg á netinu, en í staðinn fylgir hér vefslóð inn á viðtal við Percy um þessi mál árið 2010:  http://www.democracynow.org/2010/9/17/percy_schmeiser_vs_monsanto_the_story

Íslenskur veruleiki

Á Íslandi er erfðabreyttu efni blandað í ýmsa matvöru. Sem dæmi hefur soja fundið sér leið inní íslenska lifrarpylsu, sviðasultu, bjúgu, kæfu, plokkfisk ofl. þjóðlega rétti framleidda hjá ákv. fyrirtækjum. Nema annað sé tekið fram eru mestar líkur á að þar sé erfðabreytt efni á ferðinni, þar sem langmest af soja á markaði er þannig ræktað. Unnin matvara er líklegri en önnur til að innihalda erfðabreytt efni – bæði innlend framleiðsla og innflutt. Innflutt grænmeti og ávextir eru ekki merkt sérstaklega GMO og ekki er gott að vita hvort glyphosate-illgresiseyðir er notaður við ræktun þeirra. Í Bandaríkjunum inniheldur um 80% allrar unninnar matvöru erfðabreytt efni en á heimsvísu eru framleiðsla og neysla erfðabreyttrar uppskeru um 20%. Stærstur hluti efðabreyttrar uppskeru er til skepnufóðurs, í bómullarframleiðslu, í lífrænt eldsneyti, snyrtivörur og fæðubótarefni.

Gera má ráð fyrir að gæludýrafóður innihaldi erfðabreytt efni – nema annað sé tekið fram. Það sama má segja um innfluttan fóðurbætir fyrir búfé, sem inniheldur soja, sojaolíu, maís, ýmsar korntegundir, sykurrófuhrat ofl.

Hér á landi hafa bændur  eins og víðar verið að glíma við óútskírðan kálfadauða, líflitla kálfa, fósturlát hjá kúm og sauðfé og  frjósemisvandamál, t.d. lélegri frjósemi stóðhesta.  Gæti fóðurbætir með erfðabreyttu efni í verið ástæðan? Gæludýr með lengri líftíma en gripir í matvælaframleiðslu, s.s. hundar og kettir, þjást af ýmsum þeim krónísku sjúkdómum sem fram hefur komið í rannsóknum óháðra aðila að fylgi neyslu erfðabreytts fóðurs s.s. krabbameini, efnaskiptasjúkdómum og ofnæmi.

Framleiðsla og neysla erfðabreyttra matvæla er alvarlegt mál, kannski það stærsta sem við komum til með að standa frammi fyrir á okkar tímum. Það er almenningur sem ræður hvort framleiðsla þeirra heldur áfram eða ekki, því ef varan verður ekki keypt, þá verður hún ekki framleidd. Þetta vita framleiðendur erfðabreyttra matvæla, sem hafa barist hatrammlega gegn því að vörur þeirra séu merktar sérstaklega. En ef varan er jafn góð og þeir vilja meina, ættu þeir þá ekki að vilja láta vita hvar hana er að finna?

Opinbert mat – erfðabreytt fæða hefur ekkert að bjóða

Það sorglegasta við allt þetta mál er, að það er i raun engin ástæða til að taka þá miklu áhættu  með fæðuöryggi og framtíð sem fylgir þeim tilraunum sem eru í gangi núna með ræktun erfðabreyttra lífvera  til matvælaframleiðslu á þeim forsendum sem áður hafa verið raktar. Í áraraðir hefur því verið haldið fram að erfðabreytt uppskera sé lausn á matvælaþörf mannkyns í framtíðinni, en vaxandi sannanir hrannast nú upp að sú sé ekki raunin, að þessi tækni búi til enn önnur vandamál sem við þekkjum ekki úr sögu mannkyns hingað til og erfitt getur verið að bakka út úr. Það er vitað hvernig á að setja framandi gen inn í lífverur, en það er ekki vitað hvernig á að fjarlægja þau þaðan. Genabreytingin gengur í arf og erfðabreyttar plöntur parast við óerfðabreyttar ef aðstæður leyfa. Erfitt er því að sjá hvernig á að vera hægt að rækta jafnhliða erfðabreyttar plöntur og óerfðabreyttar.

Skv. upplýsingum af vefsíðu Dr.Mercola, sem er ein stærsta og mest lesna óháða vefsíða um ýmis heilsutengd mál í heiminum í dag, er mat International Assessment of Agricultural Knowledge, Science and Technology for Development sem gert var opinbert, eftir lok þriggja ára samstarfsverkefnis með 900 þátttakendum frá 110 löndum, styrkt af öllum stærstu fjármögnurum heims s.s. World Bank, FAO, UNESCO, WHO ofl, eftirfarandi:

Að erfðabreytt fæða hefði ekkert að bjóða til að ná þeim markmiðum að minnka hungur og fátækt,  bæta næringu, heilsu og lifibrauð, né auðveldi hún sjálfbærni í samfélags- og umhverfismálum. Að í raun minnki erfðabreytt ræktun uppskeru, auki ánauð bænda og það að þeir verði háðir fjölþjóðafyrirtækjum, minnki lífffræðilegan fjölbreytileika, auki illgresiseitursnotkun og færi fjármagn burt frá árangursríkari og meira viðeigandi landbúnaðaraðferðum.

Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir

 

 



Flokkar:Annað, Ýmislegt

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: