Meðferðir fyrir börn og fullorðna sem hafa orðið fyrir tilfinningaáföllum og ofbeldi í æsku

Rætt við Grétu Jónsdóttur, fjölskyldu- og hjónaráðgjafa, HNA uppeldis- og áfallafræðing.

Þegar Gréta er spurð hvað hafi leitt hana í nám um tilfinningatengd mál svarar hún: ,,Kannski má rekja það til ársins 1995 eftir að við hjónin misstum barn úr krabbameini og leituðum til sálfræðings hjá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. En hann hafði ekkert lært í sorgarmeðferð, sem við þurftum mikið á að halda. Þá hét ég því þá að ég skyldi finna meðferð sem gæti nýst foreldrum í svona aðstæðum.

Ég leitaði mikið að námi en fann ekkert sem kom til greina. Ég útskrifaðist sem söngkennari (LRSM) árið 1999, fór svo í nám í kórstjórn hjá Tónskóla Þjóðkirkjunnar.  Árið 2002 langaði mig að halda áfram að læra en ég hafði heyrt um nám í stjórnun og fannst það geta hentað ágætlega með söngkennslu og kórstjórn. Ég sótti um í Newbold College háskóla í Bretlandi en fékk ekki svar. Þá hafði ég samband íslenskan kennara sem vann þarna úti og bað hann að athuga þetta fyrir mig, sem hann gerði og lét mig vita að ég ætti að mæta í Newbold College háskólann í lok ágúst. Ég var með stjórnun í huga og vissi ekki betur en ég væri skráð í það. Það runnu því á mig tvær grímur þegar ég mætti í fyrsta tímann og áttaði mig á því að ég hafði verið skráð í nám í ,,Counselling“ eða ráðgjöf.  Beina þýðingin á Counselling er ráðgjöf og dálítið villandi því að námið snýst ummargskonar meðferðir við ýmsum andlegum kvillum eins og þunglyndi, kvíða, fælni, streitu, áfallastreitu, sorg og fleiru.

Námið tók alls fjögur og hálft ár, þar af voru tvö og hálft ár bókleg. Kennt var einn dag í viku og flaug ég því út í hverri viku meðan á bóklega náminu stóð. Svo tóku við tvö ár í verklegu námi, sem ég fékk að taka hér heima undir stjórn kennara sem heitir Lucia Hall MA. Handleiðsla hennar fór fram í gegnum Skype á meðan ég vann meðferðirnar. Ég var svo heppin að á sama tína kenndi Lucia einnig meðferð fyrir fullorðna sem orðið hafa fyrir ofbeldi og áföllum í æsku. Það var í samvinnu við ,,Integrative Cognitive Solutions“,  ICS -stofnunina“.Námið fór fram í útibúi Anglia Ruskin háskólans í Cambridge, sem staðsett er í Wokingham. Mér tókst að ljúka því námi samhliða verklega náminu og útskrifaðist sem (Parks Inner Child Therapy)- ,,PICT Therapist“ árið 2007.

Á þessum árum lærði ég líka tvær hjónameðferðir: ,,Prepare Enrich“ heitir önnur aðferðin og hin ,,Evidance Based Couple Therapy – Gottman Institute“. Svo tók ég aukalega sorgarmeðferð fyrir fólk sem hefur t.d. misst barn/börn.  Sú meðferð byggist á ,,Elisabeth Kübler-Ross MD“ og fleirum.

Árið 2011 hafði Lucia Hall samband við mig og sagði að á döfinni væri nám í áfallafræði, sem væri nýtt Evrópu samstarfsverkefni: ,,Europian Society of Stress and Trauma Studies“ (ESTSS.org). Þrátt fyrir að ég þyrfti að fara mánaðarlega til Bretlands vegna námsins ákvað ég að bæta því við mig, eftir að Lucia bauð mér fría gistingu og að lækka kostnaðinn. En þetta breyttist, ég fór í lengra nám og lauk námi á meistarastigi nú í janúar og útskrifast í apríl með: ,,Postgraduate Diploma in Traumatology & PTSD (Level 7)“.

Þegar ég nú lít til baka á þennan námsferil finnst mér að ég hafi verið leidd í gegnum þetta nám svo ég geti staðið við fyrirheitið, sem ég sagði frá í byrjun, um að finna hjálp handa fólki sem er í vanda vegna tilfinninga áfalla.

Kynntist áföllum af eigin raun

,,Ég var búin að brenna kertið mitt í báða enda, eins og sagt er, þegar ég veikist alvarlega 35 ára gömul. Þunglyndi þjáði mig árum saman ásamt líkamlegum veikindum, lífsbaráttan var hörð, eiginmaðurinn sjúklingur og fyrir fjórum börnum að sjá. Dóttir mín fæddist með húðkrabbamein 1982 og vorum við mikið inn á spítala með hana fyrstu árin hennar. Ég var hjá geðlækni og tók inn geðlyf að hans ráði í mörg ár, en þau bættu ekki vanlíðan mína. Þau breyttu engu nema því að ég þyngdist um 30 kíló á 6 mánuðum. Þyngdaraukningin fylgdi einni tegund geðlyfjanna. Geðlæknirinn greindi mig svo með ADHD og tók ég lyf við ADHD í einhvern tíma. Á þessum tíma taldi ég lækninn hafa rétt fyrir sér og fór síðar í stjórn ADHD samtakanna og var þar með sjálfshjálparhóp og regluleg ör-erindi. Einnig var ég með hópa fyrir foreldra.

Það var ekki fyrr en í Englandi eftir að ég byrja í námi í fjölskyldu og hjónameðferð, sem ég fór í alvöru meðferð. Í námi mínu vorum við skyldug til að fara sjálf í þær meðferðir sem kenndar voru, ásamt því að vinna með fólk samkvæmt aðferðinni. Þegar til kastanna kom þurfti ég margfalt fleiri meðhöndlanir en þær sem skyldan fól í sér. Það kom fram að á þeim tíma sem læknirinn greindi mig með ADHD, var ég með margþætta áfallastreituröskun (PTSD) á mjög háu stigi vegna áfalla, veikinda og heimilisaðstæðna eins og áður sagði. Þá komst ég að því að greining læknisins á mér var kolröng.

Nú eru liðin nokkur ár síðna ég hef þurft að taka inn geðlyf. Það sem meðferðirnar aðallega breyttu var að ég losnaði við öll einkenni um ofvirkni og athyglisbrest og innri óróleiki og tómleiki hvarf. Púslið sem vantaði í líf mitt, féll á réttan stað.

Einkennin áfallastreituröskunar eru mjög lík ADHD, eða eins. Þegar ég komst að þessu og áttaði mig á orsökinni fyrir veikindum mínum, leitaði ég uppi öll námskeið sem ég fann um streitu og áfallastreitu. Ég er í félagi sem heitir ACC Europe og förum við reglulega í endurmenntun. Ráðstefnur eru annað hvort ár og fór ég á öll námskeið þar sem fjölluðu um hvers konar áföll og meðferðir. M.a. fór ég á námskeið hjá David Kinchin sem er kennari og fyrrverandi lögreglumaður. Hann hefur sérhæft sig í, viðbrögðum við slysum og öðrum áföllum (PTSD). David Kinchin er fyrirlesari og höfundur margra greina og bóka.

Hvernig heilinn bregst við skiptir miklu máli þegar um streitu eða áföll er að ræða. Í PTSD námi og námskeiðum sem ég hef sótt hefur mikið verið fjallað um heilann. Ég var svo heppin að hingað til lands kom dr. Arlene Taylor bandarískur sérfræðingur í heilastarfsemi og var mér boðið á námskeið hjá henni. Ég fór einnig á mjög gott námskeið hjá ACC á ráðstefnu Englandi sem fjallaði um heilastarfsemi. Talsvert er af námsefni á netinu og ógrynni bóka. Í áfallafræðinni þurfum við að læra og vita hvað gerist í heilanum þegar börn eða fullorðnir lenda í missi, áföllum eða ofbeldi.

Hefur eitthvað gerst í æsku?

,,Streita, áfall eða áfallastreita getur komið af minnstu ástæðu og fara viðbrögðin eftir bakgrunni fólks og hvernig hver einstaklingur er gerður. Það getur verið nóg að barn týni uppáhalds leikfanginu. Það er kannski dýrmætt leikfang fyrir barnið og því getur barninu fundist sér hafi verið ógnað við að týna leikfanginu. Leikfangið hefur kannski veitt barninu öryggi. Ef foreldri bregst ekki rétt við t.d. með að segja ,,við kaupum bara annað“. Þá fer barnið að efast um að tilfinningar sínar séu réttar. Í stað þess ef foreldrið segir: ,,Já, ég sé að þú er rosalega sorgmædd/ur yfir þessu og það er allt í lagi að vera sorgmædd/ur“.  Sýnum barninu samkennd, hlýju og kærleika, þá er líklegt að barnið komi óskaddað útúr þessu.

Það þarf lítið til að börn upplifi slæmar tilfinningar. Lítil neikvæð tilfinninga atvik geta safnast saman og vafið upp á sig eins og snjóbolti. Þessar neikvæðu tilfinningar smá hlaðast upp og má líkja við að að barn sé með bakpoka, fyrst fer einn og einn steinn í bakpokann, svo eldist einstaklingurinn og verður fullorðinn og steinarnir halda áfram að bætast í pokann við fleiri áföll. Svo jafnvel þarf ekki nema einn pínulítinn atburð til þess að valda uppgjöf. Þegar leitað er að orsök þannig uppgjafar kemur oft í ljós mikill kvíði, þunglyndi eða jafnvel taugaáfall og líf manneskjunnar þá orðið skelfilegt. Það er ekki vitað hvenær þetta skeður í ferlinu. Sumir hafa mikið þol en aðrir lítið. Sem betur fer eru komnar meðferðir sem geta hjálpað flestum sem lenda í áföllum“.

Meðferðirnar

,,Þegar fólk kemur til mín í meðferð byrjar það venjulega á að fylla út og svara 374 spurningum. Stundum fylli ég smá saman inn á listann, fer alveg eftir hverjum og einum. Svörin hjálpa til að finna hvað liggur að baki vandans. Stundum dugar það ekki til og þarf að grafa dýpra og oft þarf einstaklingurinn að kynnast mér vel og treysta áður en sagt er frá því sem er að eða hefur gerst. Það er mikið af góðum verkfærum til að nota til að finna út hvað er að hjá fólk. Ég má ekki gera greiningar en get sent út til Englands ef ég þarf á greiningu að halda fyrir skjólstæðing, svo er ég í sambandi við geðlækna sem ég get leitað til.

Meðferðarformið sem ég nota venjulega ef ekki er um áföll að ræða er margþætt Hugræn atferlismeðferð (Multimodal Behavioural Therapy). Höfundurinn Arnold A. Lazarus var upphafsmaður atferlismeðferðarinnar ,,Behavioural Therapy“ sem síðar varð að Hugræni atferlismeðferð. Sú meðferð er einstaklingsmiðuð og þá er sett saman meðferð fyrir hvern og einn eftir kerfi sem kallað er ,,BASIC ID“. Ef þessi meðferð er notuð, þá þarf ekki neinar greiningar. Heimavinnan hjá mér er talsverð til að setja saman meðferð fyrir skjólstæðinginn og gera mér grein fyrir hvað er að.

PICT (Parks Inner Child Therapy) var fyrsta áfalla meðferðin sem ég lærði. Í henni situr einstaklingurinn, hlustar og vinnur í huganum, þarf ekki einu sinni að tala um áföllin frekar en vill. Það er nóg að finna eitt stikkorð.  Svo er unnið með það sem gerðist og fólk losnar við vandann. Unnið með undirvitundina til að sleppa takinu á vandamálinu og jafnvel búa til nýjar minningar. PICT er mjög fljótvirk og er blanda af Hugrænni atferlismeðferð ,(Cognitive Behavioural Therapy), Samvirknigreiningu (Transactional Analysis) og NLP (Neuro Linguistic Programming). Annað sem er gott við PICT er að áhrif meðferðar er metin; þannig að í upphafi er fylltur út listi og gefin stig. Það er metið aftur þegar meðferðin er hálfnuð og í lok meðferðar. Í framhaldi er svo metið tvisvar á 3ja mánaða fresti.

IRRT (Imagery Rescripting and Reprocessing Therapy) Þar er unnið með hvert atvik og meðferðin vinnur með undirvitund og atburðinn. Viðkomandi segir frá því sem kom fyrir í annarri persónu, til að gera það örlítið fjarlægt. Slíkt er gott að gera ef um er að ræða alvarlegt áfall þannig að viðkomandi fái ekki áfall aftur. Síðan er farið í atvikið aftur og viðkomandi segir frá því í fyrstu persónu. Þetta er líka mjög fljótvirk meðferð og tilheyrir Hugrænni atferlismeðferð.

ERRT (Exposure, Relaxation, and Rescripting Therapy) meðferð er notuð sérstaklega fyrir martraðir. Unnið er með undirvitundina með slökun og hugarvinnu. Tilheyrir einnig Hugrænni atferlismeðferð.

PE (Prolonged Exposure Therapy) er mjög áhrifarík meðferð sem hefur sýnt að hún vinnur á kvíða, þunglyndi, reiði og sektarkennd. Upptökutæki er notað og einstaklingurinn fer með upptökuna heim og hlustar á úrvinnsluna á hverjum degi í heila viku. Þetta passar fyrir suma en ekki aðra.

CATT (Children Accelerated Trauma Treatment) er skemmtileg meðferð ef segja má svo um meðferðir. Sérstaklega gerð fyrir börn og höfðar  vel til þeirra. Meðferðin hentar öllum, sérstaklega þeim sem eru listrænir. Þá leikur einstaklingurinn atburðinn þrisvar bæði áfram og afturábak til að nota vinnsluminni heilans. Svo er búin til björgunar aðgerð. Meðferðin er byggð á heilastarfseminni og er ótrúlega fljótvirk. Stundum þarf ekki nema einn tíma til að losna við það sem var að hjá einstaklingnum ef um eitt afmarkað áfall er að ræða oftar ef um mörg áföll er að ræða.

Það leysir sjaldan mikinn vanda að tala mikið um eitthvað gamalt. Það getur jafnvel valdið miklum skaða. En það skiptir miklu máli að geta rætt strax um áföll sem við verðum fyrir og þá þarf að nota öll skynfæri okkar, sjón, heyrn, lykt, snertingu og skynjun. Það er venjuleg úrvinnsla vandamála og oft er það nóg. En þeir sem frekast þurfa á meðferð að halda eru þeir sem burðast með gömul áföll sem ekki hefur verið unnið úr strax.“

Gréta er í evrópskum félagasamtökum sem heita ACC Europe, samtökin sjá um endurmenntun sem krafist er af öllum þeim sem eru í félaginu. Einnig er Gréta meðlimur í UKPTS og NCP Englandi og í Félagi fagaðila um hópmeðferð.

Gréta Jónsdóttir hefur einnig lokið námi í ,,Manchester and Syracuse NY“ í uppeldisaðferð eða lífsspeki sem kallast Umbreyttu erfiðu barni – Hjartanærandi aðferð. Sú aðferð getur gert algjört kraftaverk þegar er um að ræða erfið, krefjandi börn og unglinga. Um það verður fjallað í næstu grein ásamt áhrifaríkum meðferðum til hjálpar börnum.

 Flokkar:Fjölskylda og börn

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: