Að undanförnu hefur farið fram töluverð umræða um geðheilbrigðismál og er það að mínu mati afar jákvætt. Umræðan núna hefur gjarnan verið út frá sjónarhorni notenda og notendur eru í þeim skilningi einstaklingar sem hafa á einhverjum tímapunkti nýtt geðheilbrigðisþjónustu. Sjónarhornið er mjög mikilvægt og ætti í raun að hafa ríkan sess í stefnumótun og markandi ákvarðanatöku. Ég er sannfærð um að umræðan hefur breyst töluvert, hún er vandaðri en hún var og ekki endileg í æsifréttastíl lengur, enda ekki ástæða til.
„Hallgrímur maður eins og ég“ heimildarmyndin sem sýnd var á ríkissjónvarpinu 6. mars síðastliðin, hefur almennt vakið mikla og jákvæða umræðu. Hallgrímur fer inn á mörg málefni sem vert er að huga að í okkar samfélagi s.s. eins og einelti, neyslu, viðmót vegna geðröskunar og bataferlið. Hann hafði einstakan frásagnarstíl og var svo einlæg og hlý manneskja að hann náði til allra sem á hann hlýddu. Ég hef þá trú að þessi myndi verði okkur leiðarljós í framtíðinni og geti leiðbeint okkur mikið um hvernig við eigum að stuðla að sem bestri nálgun í öllu okkar kerfi. Kerfin okkar, hvað sem þau heita, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi eða annað, eiga að spegla þeirri nálgun til einstaklinga sem leita þurfa aðstoðar vegna einhvers vanda, að hægt sé að sigrast á honum. Það gangi þjónustan út á, ekkert annað. Ef að einstaklingur sem leitar sér hjálpar mætir þessu viðhorfi segir sig sjálft að vonin verður sterkari, leitin að lausnum verður einfaldari og trúin á að hægt sé að komast yfir vandann verður önnur og meiri. Manneskja sem hefur von fer öðruvísi af stað í sínu bataferli en sú sem hefur hana ekki.
Sú nálgun sem beita á þegar einstaklingur kemst í þrot með líf sitt vegna geðheilsuvanda, er að mínu mati hlýja, persónuleg nánd og virðing. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort kerfin okkar séu að búa til of stórar einingar þar sem ofangreind gildi geta auðveldlega týnst í dagsins önn. Ef svo er þarf að staldra við, stokka upp og opna augun fyrir öðrum leiðum.
Ef að viðmót hjá þjónustukerfi ítrekar að bilið sé stórt milli einstaklings og kerfis, einstaklingurinn hafi litla sem enga rödd og eigi bara að fara eftir því sem honum er sagt, er farið rangt af stað. Manneskja sem upplifir sig minni máttar eða stjórnlausa á mun erfiðara með að finna rétta farveginn og hefur meiri tilhneigingu til að gefast upp. Vert er að hafa í huga að líkurnar á að hægt sé að sigrast á vandanum eru miklar og æ fleiri rannsóknir sýna að það er hægt að ná bata og eiga gott líf þrátt fyrir geðröskun.
Hugarafl er hópur notenda og fagfólks sem hefur með starfi sínu undanfarin ár lagt áherslu á að breyta viðhorfum og nálgun í íslensku geðheilbrigðiskerfi. Hugarafl er m.a. stofnað til þess að hafa áhrif á ríkjandi kerfi, að kynna fyrir almenningi að það sé hægt að ná bata af geðröskunum, að kynna fjölbreyttar leiðir í bataferli og síðast en ekki síst minnka fordóma.
Robert Whitaker kom á dögunum til landsins í boði Hugarafls, Maníu og Unghuga sem er unga fólkið innan Hugarafls. Hann hélt erindi um geðheilbrigðismálin, ítök læknisfræðilega módelsins, lyfin og áhrif þeirra á heilastarfsemina og daglegt líf einstaklinga. Hann gaf viðstöddum verðug umhugsunarefni og fræddi um sláandi staðreyndir í þessum efnum hér heima og erlendis.
Robert Whitaker er bandarískur rithöfundur og rannsóknablaðamaður og hefur m.a. verið tilnefndur til Pulitzer verðlaunanna fyrir greinarflokk sinn í dagblaðinu Boston Globe, þar sem hann fjallaði um ný geðlyf sem náð höfðu mikilli útbreiðslu í Bandaríkjunum. Hann hefur skrifað tvær bækur um geðheilbrigðismál ,,Mad in America” sem kom út árið 2002 og ,,Anatomy of an Epidemic” sem kom út árið 2010. Kveikjan að ,,Mad in America” er skýrsla frá WHO sem skýrði m.a. frá því að fólk sem greindist með geðklofa í vanþróuðu löndunum á borð við Nigeríu var líklegra til að ná sér en fólk sem fékk þessa greiningu á Vesturlöndum. Hluti af skýringunni virðist liggja í því að lyfin voru oftast notuð í stuttan tíma í vanþróuðu löndunum og meiri áhersla lögð á að gera umhverfis breytingar sem gátu stutt viðkomandi einstaklinga í daglegu lífi. Á Vesturlöndum hefur þróunin hins vegar verið sú að fólki er haldið lengur á lyfjum en bati sjúklinga er minni. Þetta er vissulega sláandi og vert fyrir okkur hér heima að huga að hvort ekki megi skoða.
Í síðarnefndu bókinni tekur hann til skoðunar spurninguna, af hverju fara svo miklu fleiri núna á örorku vegna geðraskana en nokkru sinni fyrr?
Whitaker skildi eftir margar spurningar sem ég vona að við munum reyna að svara og ekki síður nota til að horfa í eigin barm. Við hjá Hugarafli erum sammála um að innblásturinn var nauðsynlegur og hvetur okkur til að skoða með gagnrýnum huga hvað sé verið að gera í íslensku geðheilbrigðiskerfi þegar kemur að lyfjamálum og hvað beri að gera til að stuðla að minnkun lyfjanotkunar þegar um geðheilsuvanda er að ræða.
• Erum við ekki að nota lyfin í of miklum mæli og stundum án þess að skoða hvað veldur því að einstaklingur kemst í þrot með líf sitt?
• Hvað með ungt fólk sem veikist í kjölfarið á neyslu fíkniefna, eigum við ekki að horfa á bak við vandann áður en hann er sjúkdómsvæddur?
• Þurfum við ekki að stoppa greiningargleðina og horfa á manneskjuna?
• Er eðlilegt að sjúkdómsgreina börn og gefa þeim lyf?
• Er ekki komið að því að skoða þurfi aðrar leiðir og hlusta betur á lífssögu einstaklinga?
• Getum við ekki farið einfaldari og ódýrari leiðir þegar kemur að því að styðja fólk út í lífið á ný?
• Hvað með valmöguleika með hefðbundnum leiðum?
Fleiri áleitnar spurningar leita á hugann og vert að nota neistann til að reyna að svara þeim og leita annarra leiða. Heimsókn Whitakers hvetur okkar sannarlega áfram til að skoða hug okkar og stuðla að fjölbreyttari leiðum til að styðja einstaklinga til sjálfstæðis eftir áföll án þess að auka sjúkdómsvæðingu á mannlegum tilfinningum.
Hlustandi góður, það eru mörg málefni sem vert er að skoða vel frá öllum hliðum með opnum huga. Það er engin ein leið sem hentar okkur öllum ef við þurfum á hjálp að halda, en það er mikilvægt að við virðum mismunandi sjónarhorn og leiðir. Víðsýni, skilningur fyrir fjölbreytileikanum er nauðsynlegur og gerir okkar samfélag dýrmætara og ekki síður skemmtilegra. (Í komandi pistlum mun ég deila með ykkur reynslu minni og Hugaraflsmanna, kynna fyrir ykkur valdeflingu og batamódelið. Þakka góða hlustun).
Erindið var áður flutt i þættinum Vítt og breitt í ríkisútvarpinu stöð eitt og birt með leyfi höfundar sem er: Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi og forstöðumaður Geðheilsu-eftirfylgdar og einn af stofnendum Hugarafls. Símar eru: 4141550 og 8212183 og netfangið: audur.axelsdottir@heilsugaeslan.is.
Flokkar:Geðheilbrigði