Alvarleg misnotkun Rítalíns meðal fullorðinna á Íslandi

Vandamál tengt misnotkun lyfja sem eru ávísuð af læknum oft í góðri trú en eru síðan misnotuð til vímuefnanotkunar er alvarlegt heilbrigðisvandamál hér á landi, því miður. Jafnvel algengara en í ýmsum öðrum löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Ofnotkun metýlfenidatlyfja (Rítalíns og skyldra lyfja) voru til umræðu á læknadögun í vetur. Upp undir helmingur sjúklinga sem leitað hafa á Vog hafa misnotað Ritalin og skyld lyf. Stór hluti hefur leyst upp lyfin og sprautað þeim í æð. Eiturlyfjasjúklingar sem jafnvel þekkjast úr frá öðrum á ljótum og sýktum stunguförum. Fyrr í vetur var notkunin hér á landi til umræðu eftir að Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna (WHO) varaði við mikilli notkun hér á landi og miðaði þá við sölutölur úr apótekunum hér á landi. Jafnvel meiri notkun en í Bandaríkjunum sem var þekkt fyrir að nota mest allra þjóða af þessum lyfjum áður. Nær eingöngu er samt um að ræða lyf sem upphaflega á eingöngu að vera ávísað af íslenskum læknum vegna sjúkdómsgreininga skjólstæðinga þeirra, ofvirkni og athyglisbrestur (ADHD). Leita þarf skýringa í heilbrigðiskerfinu af hverju þessum málum er svona illa fyrir komið í okkar litla þjóðfélagi.

Það er auðvitað alvarlegur hlutur ef ekki er farið eftir klínískum leiðbeiningum um ávísun og meðferð lyfja. Greinilegt er samt að ýmist hafa lyfin verið misnotuð af fullorðnum en sem ætluð eru börnum með ofvirkni og athyglisbrest eða að þau eru ætluð fullorðnum með sjúkdómsgreininguna en misnotuð af þeim eða öðrum. Í báðum tilfellum hefur geðlæknir ávísað lyfjaskírteini í upphafi. Lyfin eru hins vegar sett á svartan markað eftir afgreiðslu úr apótekunum eins og á við um önnur vímuefni- og eiturlyf. Þannig getur mikil hagnaðarvon ráðið ákvörðun um að selja lyfið á svörtum markaði, jafnvel foreldris sem selur lyf sem ætlað var barni þess.

Mikil notkun ritalins og skyldra lyfja á Íslandi var fyrst til umfjöllunar í fjölmiðlum snemma í vetur eftir úttekt sem Sjúkratryggingar Íslands lét gera á sölu slíkra lyfja frá árinu 2006 til ársins 2009.  Um verulega aukning var að ræða, sérstaklega hjá aldurshópnum 20 ára og eldri sem var fámennur í upphafi tímabilsins. Aukningin, bara í þessum aldurshóp var um 20% af öllum sem fengu þessi lyf ávísuð og samsvarar söluaukningin auknum kostnaði fyrir ríkið upp á rúmlega 200 milljónir króna á ári. Í heild stefnir sala á þessum lyfjum fyrir alla aldurhópa að fara í rúmlega 700 milljónir króna árið 2010. Lætur nærri að kostnaðurinn sé um fimmtungur af heildarkostnaði ríkisins vegna geðlyfja í dag og sem er dýrasti lyfjaflokkurinn eins og sjá má á mynd frá Lyfjastofnun Ísands og í  eldri bloggfærslu um háan kostnað vegna lyfja. Ekki má þó gleyma að þegar lyfin koma að miklu gagni hjá börnum og jafnvel fullorðnum, getur afleiddur sparnaður fyrir ríkið til lengri tíma einnig orðið umtalsverður.

Því hefur verið haldið fram að landnámsmennirnir hafi verið þeir sem illa þrifust í gamla landinu vegna deilna við kónga og aðra höfðingja. Það, ásamt e.t.v. hvatvísi og ævintýraþrá, hafi sennilega fengið þá til að leggja í hættulega för yfir hafið, til fyrirheitna landsins. Eitt er víst að þeir létu ekki þar við sitja, heldur héldu áfram að deila við nágrananna, oft á banaspjótum, og héldu síðan í víking erlendis þar sem þeir rændu og rupluðu. Íslendingasögur (fyrri hluti) lýsir þessum atburðum mjög vel, eins eirðarleysinu sem sumir voru haldnir þegar halla tók á veturinn og þrá fyrir nýjum ævintýrum tók við. Víkingablóð er þetta kallað. Eitt er víst að margir eru þegar í dag orðnir óþreyjufullir og bíða spenntir nýrra tíma enda óspart verið hvatt til nýrrar útrásar og áhættusækni í fjárfestingum.

Hvað sem öllum vangaveltum um orsakir hvatvísi og ofvirkni hjá landanum líður, tala staðreyndirnar í tölum sínu máli. Við Íslendingar höfum notað margfalt meira af ritalíni og skyldum lyfjum en nágranar okkar í norðri og erum nú heimsmethafar samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. Alþjóðasamfélagið hefur þannig gefið gefið okkur rauða spjaldið og varað sérstaklega við ofnotkun lyfjanna hér á landi. Notkunina samanborið við hin Norðurlöndin má m.a. sjá á meðfylgjandi mynd frá Sjúkratryggingum Íslands.

Nærtækast er að áætla að sjúkdómurinn, hvatvísi og eirðarleysi, sem þessi lyf eru oftast gefin við sé miklu algengari hér á landi nema að við séum bara duglegri að leita eftir honum. Athyglisverð er þessi aukning hjá ungum fullorðnum (20 ára og eldri) og að þeir hafi ef til vill “misst” af réttri greiningu á sínum tíma. Önnur spurning vaknar um nákvæmni sjúkdómsgreininganna og sem hafa verið gagnrýndar. Staðreyndin er samt sú að allir sem hafa fengið þessi lyf í dag hafa fengið þau upphaflega hjá geðlækni og í flestum tilvikum að undangengnum sálfræðilegum athugunum.

Frumgreining á ofvirkni og athyglisbresti hjá fullorðnum verður framvegis undir yfirumsjón geðsviðs Landspítala, hert verður á tilkynningarskyldu til landlæknis og teknar upp breyttar reglur um lyfjaskírteini samkvæmt tillögum vinnuhóps um leiðir til að sporna við misnotkun metýlfenidatslyfja. Svo sagði í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu í vetur. Ákvörðun sem er tekin til að sporna gegn misnotkun lyfjanna.

Ef satt hefði reynst að sjúkdómurinn væri svona algengur hér á landi, kann erfðablandan sem við fengum frá víkingunum að skýra ýmislegt sem miður hefur farið í okkar þjóðfélagi og sem er svo áberandi í dag, hvert sem litið er. Við skulum af tvennu illu heldur vona að um ofgreiningar og ofnotkun lyfjanna sé að ræða og að þessi ákvörðun ráðuneytisins nú reynist skynsamleg. Spurning sem annars væri áhugavert rannsóknarefni fyrir Íslenska erfðgreiningu að svara. Umhverfisþættir og uppeldi ræður auðvitað miklu eins og oft hefur verið bent á, en því miður oft líka litið fram hjá, m.a. í skólakerfinu.
Ofnotkun lyfja, af hvaða toga sem er, skýrist samt alltaf fyrst og fremst af ávísanavenjum og klínískum leiðbeiningum lækna sem mikilvægt er að allir fari eftir. Nokkuð sem umræða síðustu daga um aðkomu annarra heilbrigðisstétta til lyfjaávísana stangast á við. Eins er ljóst að stór hluti lyfja sem a.m.k. er ætlað fullorðnum fer á svartan markað hér á landi og er notað sem sterkt lækadóp. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að bregðast strax við vandanum.

Höfundur: Vilhjálmur Ari Arason  greinin birt með leyfi höfundar en var áður birt 29. jan. 2011 á www.eyjan.is



Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , ,