Nýlega kom út bók eftir faraldsfræðing og lækni að nafni Samuel Milham. Hann er kominn á eftirlaun, starfaði í Bandaríkjunum og kom að fjölda faraldsfræðirannsókna sem snertu sjúkdóma og útbreiðslu þeirra. Bókin ber heitið „Dirty Electricity“ og fjallar Milham þar um athuganir sínar á „óhreinu“ rafmagni. Hann hóf þessar rannsóknir eftir að hann komst á eftirlaun og fór að hafa tíma til að sinna áhugamálum sínum. Hann segir að með því að bæta inn í eldri rannsóknir einni breytu megi sjá mjög skýrt samspil rafmengunar og sjúkdóma eins og krabbameins. Þessi breyta er „óhreint“ rafmagn. Þetta verður útskýrt nánar hér á eftir.
Nýlega kom upp umræða um tilfelli af bráðahvítblæði í barni þar sem foreldrar töldu að rekja mætti orsök sjúkdómsins til frágangs á rafkerfi hússins. Í framhaldi létu nokkrir foreldrar barna með bráðahvítblæði mæla hjá sér rafmengun og kom í ljós að óeðlilega há gildir rafsegulsviðs voru til staðar í öllum þremur tilfellunum. Yfirvöld vísa því á bug að rafmengun geti valdið slíkum sjúkdómum en í ljósi þess að tengsl hafa komið fram í rannsóknum milli búsetu nálægt raforkumannvirkjum og bráðahvítblæðis þá vilja foreldrar að sjálfsögðu njóta vafans.
Frágangur á raflögnum hérlendis er gegnumsneytt mjög góður og vandað til allra verka. Það er þó einn hængur á en það er kerfið sem notast er við. Við búum við svokallað „þriggja fasa“ kerfi og þetta kerfi nýtir jarðsambönd til að flytja rekstarstraum. Það þýðir að það getur víða verið fljótandi rafstraumur í járnabindingum húsa, hitaveitukerfi og jarðvegi og má áætla að 30 – 70% rekstarstraum fari þessar leiðir og veldur víða rafsegulsviði í hærri kanti.
Rafmagnið kemur inn í hús frá tengikassa í götu. Heimtaugin er með tveimur vírum og á rafmagnið að fara fram og tilbaka eftir þessari taug. Það er hinsvegar ekki reyndin. Innan hvers húss er framkvæmd svokölluð núllun þar sem annar rafmagnsvír heimtaugar er tengdur í járnabindingu hússins, svokallað sökkulskaut og einnig í hitaveitu. Þetta er snertispennuvörn og er mikilvægt öryggisatriði gagnvart notendum til að ekki myndist hættuleg spenna við bilun í aðveitustöð eða rafkerfi. Þá getur rafstraumur farið að renna eftir vatnsleiðslum, járnabindingu og jafnvel komist út í jarðveg með þeim afleiðingum að húsið og allt nágrennið getur verið löðrandi í rafstraumum sem eru að þvælast í allar áttir. Þess vegna eru þeir kallaðir flökkustraumar.
Sem dæmi má nefna hús sem undirritaður mældi fyrir alllöngu þar sem 17 Ampera rafstraumur kom inn í húsið eftir heimtaug en einungis 4 Amper til baka. Þau þrettán amper sem vantaði laumuðust út með hitaveiturörinu. Þetta kerfi hefur verið gagnrýnt víða og horft til þess að hægt er að fara út í annarskonar kerfi, svokallað „fimm víra“ kerfi sem hindrar með öllu að rafstraumur geti verið að fljóta annars staðar en hann á að vera. Víða í vesturbæ Reykjavíkur og sumstaðar út á landi er notast við eldra kerfi, stundum kallað „tveggja fasa“ kerfi. Það kerfi nýtir ekki jörðina til að flytja rekstrarstraum og er því mjög lítil rafmengun í kring um það kerfi.
Hugtakið „óhreint“ rafmagn hefur vakið meiri og meiri athygli sérfræðinga undanfarin ár. Það eru mörg ár síðan sérfræðingar hér á landi byrjuðu að benda á að svokallaðir „yfirtónar“ í rafmagni væri líklega megin orsök þess að rafmengun hefði áhrif á heilsufar manna og dýra. Yfirtónar í rafmagni er mælikvarði á óhreinindi. En hvað er óhreint rafmagn? Skoðum það aðeins. Notandinn fær rafmagnið inn til sín í formi 230 Volta spennu sem breytir um stefnu milli plús og mínus fimmtíu sinnum á sekúndu. Sveiflan milli hámarks og lágmarks er regluleg.
Mjög mörg raftæki taka við þessari spennu, breyta henni í jafnspennu (eins og frá rafgeymi) og hakka hana síðan niður í púlsa, þrjátíu þúsund sinnum á sekúndu til eitt hundrað þúsund sinnum á sekúndu. Þetta gerist í tölvum, hleðslutækjum, rafeindastraumfestum fyrir flúrljós, videotækjum, rafeindastraumfestum fyrir halogen lýsingu, dimmerum, sparperum og svo mætti lengi telja. Þessi háa tíðni lekur óhjákvæmilega út á rafmagnsnetið og bjagar rafspennuna á veitukerfinu. Öll þessi tæki hafa innbyggða síu til að minnka óhreinindi sem annars færu út á rafmagnsnetið. Þær síur eru misvel virkar. Þessi tæki geta líka bilað með þeim hætti að síurnar hætta að virka og hleypa hátíðninni beint út á netið. Þetta er ekki óalgengt með sparperur en það sést ekkert á perunni, hún lýsir sakleysislega.
Rafmagnið sem flæðir um rafmagnsnetið verður óhreint með þeim afleiðingum að allstaðar þar sem rafgeislun er þar er hátíðnigeislun sem fólk er þá útsett fyrir, til dæmis við matarborðið, lesaðstöðu, vinnuaðstöðu eða við náttborðið. Svo má ekki gleyma því að þar sem fólk býr við flökkustrauma í rafkerfinu, en þeir geta flætt í til dæmis hitaveiturörum eða járnabindingu, þá verða allar þessar hátíðnitruflanir fólgnar í þeirri rafsegulgeislun. Milham nefnir í bók sinni fjölda rannsókna og eru þær mjög áhugaverðar. Ein af þeim er rannsókn sem framkvæmd var í orkuveri Hydro Quebec í Kanada. Þar fundu rannsakendur að fimmtánföld aukning var á tíðni lungnakrabbameins hjá þeim starfsmönnum sem útsettir voru fyrir púlsandi rafmengun (óhreinu).
Aukningin var í skýru samræmi við viðverutíma í slíku sviði. Fimmtánföldun er gríðarlega mikil aukning og algerlega skýr niðurstaða. Það hafði valdið Milham heilabrotum að faraldsfræðirannsóknir á aukningu hjartasjúkdóma, þunglyndis og fjölda sjálfsvíga jókst í borgum Bandaríkjanna á árunum frá 1900 til 1950. Hinsvegar kom ekki sambærileg aukning fram í rannsóknum í dreifbýli. Eftir árið 1956 fóru þó línuritin að líta eins út og svo virtist sem hlutfallslega svipaður fjöldi þjáðist af ofangreindum einkennum. Milham skildi ekki hvers vegna dreifbýlið var langt á eftir í þessum efnum. Hann fór að gruna rafmagnið og aflaði sér upplýsinga um rafvæðingu þéttbýlissvæða og dreifbýlissvæða. Það kom í ljós, sem hann grunaði að rafvæðing dreifbýlis var mun hægari en þéttbýlis og var ekki fyrr en árið 1956 sem búið var að rafvæða allt dreifbýli en þá fór dreifbýlið að sýna álíka fjölda ofangreindra sjúkdóma og þéttbýlið. Milham dregur þá ályktun að líklega sé rafmagninu um að kenna.
Hann nefnir líka Amish fólkið en hjá því eru ýmsir menningarsjúkdómar sjaldgæfir. Amish fólkið notar ekki rafmagn. Milham segir í bók sinni: „Ég set fram þá kenningu að tuttugustualdar faraldur menningarsjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, sykursýki og sjálfsvíg sé um að kenna rafmengun en ekki lífsstíl eins og haldið hefur verið fram. Af þeim sökum má draga mjög úr upptökum þessara sjúkdóma“.
Milham hefur skoðað ýmsar faraldsfræðirannsóknir út frá óhreinu rafmagni. Hann fór að beina sjónum sínum að óhreinu rafmagni þegar hann kynntist vandamáli í framhaldsskólanum La Quinta í Kaliforníu. Árið 1990 flutti skólinn í nýtt húsnæði. Nokkrum árum seinna fór að bera á óeðlilega mörgum krabbameinstilfellum og fóru kennarar að undrast þessa aukningu. Þegar Milham kom að málinu, árið 2005, höfðu átján krabbameinstilfelli komið upp meðal 137 kennara við skólann Það voru því nálægt 30% starfsmanna sem höfðu fengið krabbamein og þrír voru látnir. Milham heimsótti skólann og gerði mælingar með það fyrir augum að greina óhreint rafmagn. Til þess notaði hann svokallaðan Graham/Stetzer mæli sem sýnir meðalgildi hátíðnihluta rafmagns á tíðnibilinu tíu þúsund rið til eitthundrað þúsund rið. Ekki er um staðlaða mælieiningu að ræða heldur viðmið sem nota má til athugunar á hlutfalli óhreininda inni á rafmagnsnetinu.
Þessi mælir á, samkvæmt því sem hönnuðir halda fram, ekki að sýna hærra tölugildi en 50 þar sem allt er í góðu lagi. Ef gildið fer yfir það ráðleggja þeir aðgerðir til að hreinsa rafmagnið. Í La Quinta skólanum fór mælirinn yfir 2000 í mörgum kennslustofum. Milham hóf að skrá feril hvers einasta kennara sem komið hafði að kennslu í skólanum og voru þeir alls eitthundrað þrjátíu og sjö. Hann greindi skólann upp í svæði með háum gildum óhreins rafmagns og athugaði hvar kennarar höfðu verið að kenna. Breyturnar hjá Milham voru skýrar því hann leitaði að svörun gagnvart óhreinu rafmagni. Niðustaðan var merkileg og kom honum sjálfum á óvart. Meðal allra kennara hjöfðu komið upp átján krabbameinstilfelli þegar rannsókn var lokið. Þegar áhættuþátturinn var reiknaður út kemst Milham að þeirri niðurstöðu að áhættuþáttur (risk ratio) fyrir húðkrabbamein var sinnum 9,2. Skjaldkirtilskrabbamein hafði áhættuþátt upp á 13,3 og krabbamein í móðurlífi upp á 9,2. Hér er verið að tala um nálægt 1000% aukningu að meðaltali.
Hópurinn var ekki stór og má auðvitað draga þessar niðurstöður í efa en þær gefa skýra vísbendingu sem fylgja þarf eftir. Undirritaður hefur undanfarin ár notað þennan mæli sem Milham fjallar um. Margt merkilegt hefur komið í ljós sem annars hefði verið hulið. Til dæmis er ekki óalgengt að þar sem sparperur eru notaðar sé gildi G/S mælisins mun hærra en eðlilegt getur talist. Þegar óeðlilega há gildi mælast þarf að finna orsakavaldinn og með því að slá út hverja rafmagnsgreinina á fætur annari í rafmagnstöflu íbúðar má finna sökudólginn. Það reynist oft sparpera, spennugjafi tölvu eða spennugjafi fyrir jaðarbúnað sem orsakar þessa óeðlilegu hækkun. Sparperur hafa reyndar verið umdeildar vegna þess að þær gefa frá sér útfjólublátt ljós, sem getur verið hættulegt og jafnframt hátíðnirafgeislun sem getur reynst skeinuhætt.
Frétt um það frá kanadískri sjónvarpsstöð má sjá á vefsíðunni www.simnet.is/vgv. Rannsókn Milhams á tengslum óhreins rafmagns og krabbameins tekur ekki tillit til þess hve mikið hver kennari er útsettur fyrir geislun í skólastofunni en sá þáttur hlýtur að skipta máli. Til samanburðar hafa sólbekkir í sólbaðsstofum verið umdeildir vegna tíðra húðkrabbameinstilfella og er það rakið til UV ljóss sem kemur frá perum bekkjanna. Það hefur aldrei verið skoðað hvort rafmengunin í bekknum geti verið orsakavaldur en inni í bekknum er rafmengun gríðarleg. Það er ljóst að þessa tegund rafmengunar þarf að rannsaka betur.
Kóp. 25.01.2011. Valdemar Gísli Valdemarsson rafeindavirkjameistari
Heimildir:
Samuel Milham, Dirty Electricity.
Ann Louise Gittleman, Zapped
www.microwavenews.com
eigin rannsóknir og mælingar
Höfundur hefur stundað rafmengunarmælingar á heimilum og vinnustöðum síðastliðin nítján ár en jafnframt skrifað fjölda greina um málefnið. Heldur úti vefsíðunni www.simnet.is/vgv og ritaði bókina Rafsegulsvið! Hætta eða hugarvíl? Gefin út 2005, Iðnú.
ur.