Raynoids heilkenni, hákarlalýsi, og hómópatefni.

Þegar ég var um þrítugt fór ég að finna fyrir verkjum í táliðum, sérstaklega ef mér varð kalt á tánum – eins og oft vill verða þegar maður stundar útiveru á veturna á Íslandi.   Ég hélt lengi vel að um frostbólgur væri að ræða, því tærnar nánast ,,dóu” í kuldanum en lifnuð svo við þegar inn var komið og urðu þá mjög bólgnar, rauðar og ofurviðkvæmar.   Í framhaldinu fóru svo að koma verkir í liðina og mikil viðkvæmni í húðina, sérstaklega á ákveðnum tám.  Eftir nokkur ár með þetta ástand var ég farin að beita fótunum mjög vitlaust til að  hlífa tánum sem voru aumar allan veturinn.  Við þetta fór að myndast sigg á utanverðum jörkum fótanna því ef ég t.d. stóð þá hvíldi þunginn ekki á iljunum heldur á jörkum fótanna.  Var þetta orðinn ávani sem sleit öllum beinum og liðamótum fótanna vitlaust og olli verkjum og frekari vanlíðan annarsstaðar í líkamanum.  Síðar komst ég að því að líklega væri þarna um að ræða sjálfsónæmissjúkdóm sem nefnist Reynoids og í samtali við gigtarlækni tók hann undir það.

Ég reyndi ýmislegt til að laga ástandið s.s. allavegana krem og áburði en ekki man ég eftir að neitt af því virkaði og ástandið versnaði og fleiri tær bættust við þannig að ég átti orðið erfitt með að vera úti á veturna og finna skó sem meiddu ekki fæturna.

Þá var það einhverju sinni að ég var verulega þjáð af verkjum, hita og bólgum í tánum og var þá stödd í foreldrahúsum í höfuðstaðnum.  Af einhverjum ástæðum var til hákarlalýsi á flösku þar á bæ.  Hafði það staðið niðri í kjallara og var komið nokkuð til ára sinna og farið að þrána.

Ég var svo viðþolslaus af verkjum og vanlíðan í tánum að ég prófaði að taka lýsi úr flöskunni og bera á tærnar – bara svona til að gera eitthvað!  Og viti menn, mér fór strax að líða betur.  Ég fékk flöskuna með mér heim og hélt áfram að bera á tærnar, kvölds og morguns og verkirnir fóru dagminnkandi og bólgan í liðunum einnig.  Gekk þetta svo þangað til verkirnir voru alveg hættir og bólgan hjöðnuð og hætti ég þá að nota lýsið.  Leið nú og beið og alltaf ef bólaði á að einkenni færu að taka sig upp aftur, bar ég á tærnar þránað hákarlalýsið og einkennin hurfu.

Síðan kom að því að flaskan með lýsinu kláraðist og voru nú góð ráð dýr – því ég var orðin alveg sannfærð um að nákvæmlega þessi blanda væri sú rétta – þ.e. passlega gerjað og þránað lýsið væri að virka best.  Þar sem ekki var til meira af þeirri eðalblöndu var ekki um annað að ræða en að kaupa nýjar og ferskar hákarlalýsisperlur í næstu matvöruverslun og prófa.  Virkni þeirra var þokkaleg, ekki þó jafn góð og af flösku-lýsinu, svo til að reyna að ná upp betri virkni fór ég að taka þær inn líka (…en það hafði ég ekki lagt í að gera með hitt lýsið!).  Árangurinn var ásættanlegur en enn vantaði nokkuð uppá að ég væri einkennalaus og prófaði ég þá að taka inn hómópataefnið Sepia sem unnið er úr bleki smokkfisks, en það hómópataefni átti best við einkenni þau sem ég sýndi.  Eftir það hurfu öll einkennin í nokkur ár.

Liðir í tánum sem verst höfðu orðið úti af bólgunum voru orðnir nokkuð aflagaðir og eru það enn, eins má enn sjá þykknun á húð þar sem verkirnir og bólgurnar voru verstar.  Ef mér verður mjög kalt á tánum eða geng í skóm sem erta eða þrengja að þessum sködduðu liðum get ég átt von á að einkenni fari að láta á sér kræla aftur.  Þá er best að eiga hákarlalýsisperlur og bera strax á svæðið, taka jafnframt inn nokkra belgi í daglega nokkra daga og þar með er málið úr sögunni.

Hins vegar er ég enn sannfærð um að það var eitthvað  í þránaða, gerjaða hákarlalýsinu sem ég prófaði fyrst sem virkaði enn betur en nýja lýsið.  Gerjun á lýsi (ekki endilega hákarlalýsi) er gömul og þekkt vinnsluaðferð en lítið notuð í dag þó enn séu einhverjir sem vinna sitt lýsi á þennan hátt.  Forvitnilegt væri að vita meira um hvað breytist við geymslu lýsisins sem skýrt gæti aukna virkni þess í þessu samhengi og spurning hvort þeir sem vinna lýsi á matvæla-markað í dag ættu ekki að kynna sér þessa gömlu aðferð og endurvekja hana.  Erlendis er hægt að kaupa slíkt lýsi í hylkjum en vinnsluaðferðin er atvinnuleyndarmál þar sem menn óttast samkeppni um þetta sérstaklega öfluga bætiefni.

Á vefsíðunni http://www.cheeseslave.com/2008/10/10/why-fermented-cod-liver-oil/ er að finna áhugaverðar upplýsingar um gerjun á lýsi til inntöku.

Höf. Sigríður Ævarsdóttir 4.des. 2009Flokkar:Reynslusögur

%d