Holl ráð úr gamalli bók um varnir gegn sykursýki

Árið 1985 gaf Fjölvi útgáfa út bókina Okholms hollráð til langlífis og heilsu sem Þorsteinn Thorarensen íslenskaði. Þótt liðin séu 23 ár síðan bókin kom út á íslensku eiga kenningar höfundarins Lars Okholms erindi við okkur enn. Hér mun ég stytta og endursegja kafla úr bókinni en hún mun ekki fáanleg lengur.

Kolvetni eru góð og nauðsynleg næringarefni, en þau geta verið mjög misjöfn. Hreinsaði hvíti sykurinn, sem við notum út í kaffi, í gosdrykki, sætabrauð og sælgæti, verkar í rauninni eins og sprengja fyrir líkamann. Hann leysist upp í skyndi og fer beint út í blóðið. Okkur finnst það hressa okkur í bili og gefa mikla orku, en sífelld notkun hans er óeðlileg og til lengdar hættuleg líkamsstarfseminni. Sykur veldur kvillum, m.a. sykursýki. Höfundur bókarinnar Lars Okholms,  segir að til séu mörg önnur kolvetni í mat, sem hæfi líkamsstarfseminni. Það eru hin hægleystu kolvetni, sem eru jafn gagnleg heilbrigðu fólki og þeim sem eru með sykursýki. Komið hefur t.d. í ljós að snefilefnið (málmefnið) króm skiptir líkamann miklu máli og stuðlar að réttri verkun insúlínsins.

Eina hollusta sykurs sem Lars Okholms hefur fundið er: að sykur getur læknað hiksta. Til þeirra nota er hann a.m.k. ráðlagður á sjúkrahúsinu í Sundsvall í Svíþjóð. – Hella skal nokkrum ediksdropum á sykurmola og láta hann bráðna uppi í sér, og hikstinn hverfur (Hedenus, 1982). Þar með er allt upptalið, sem hægt er að segja sykrinum til málsbóta. Hinsvegar má margt segja honum til lasts. Hann kemur meira og minna við sögu ýmissa velferðarvandamála okkar, eins og:

Tannroti
Tannholdsbólgu
Sykursýki
Magasári
Ristilbólgu
Ristilkrabba
Æðakölkun
Vannæringu
Offitu

Allir vita að sykursjúkir mega ekki neyta sykurs. En hitt vita færri, að sykur veldur miklu um svokallaða öldrunar-sykursýki. Og verst er, að mörg ár geta liðið, áður en eldra fólk gerir sér grein fyrir því, að það er hægt og sígandi komið með sykursýki. Hún þjáir 5- 10 % allra, sem komnir eru yfir sextugt. Og þessi aldurshópur fer stöðugt stækkandi. Æ fleiri hafa því öldrunarsykursýki, án þess að vita af því. Nánir fylgikvillar hennar eru í hjarta, heila, sóndepra og æðakölkun í fótum. Ef fólk vissi af veikinni og gæti brugðist við henni tímanlega, væri sennilega hægt að fá bót og komast hjá fylgikvillunum (E.M.Damsgárd, 1981).

Lykilorðið fyrir sykursjúklinga, sem allt snýst í rauninni um er kolvetni, hugtak sem margir skilja ekki. Stundum er sykursjúklingum gefið það ráð að forðast öll kolvetni eins og heitan eldinn, ráð sem er því miður tóm vitleysa. Þeir eiga ekki að forðast öll kolvetni, heldur neyta réttra kolvetna, sem eru kölluð hœg kolvetni, og með þeim mega þeir gjarnan fullnægja yfir 50 % af allri orkuþörf sinni. En þeir verða að forðast hröð kolvetni eins og fjandann sjálfan. Eitt þeirra er sykur, en til viðbótar koma 5 önnur engu betri.

Ómeltanleg kolvetni- Sellulósa = trefjar (í grænmeti og kornklíði)
Meltanleg kolvetni a) Óuppleysanleg (hæg) = Sterkja. ( í korni og kartöflum)
b) Uppleysanleg (hröð):

Glúkósa = þrúgusykur.(í vínþrúgum, ávöxtum)
Frúktósa = aldinsykur (í ávöxtum)
Galaktósa = mylksykur ( í mjólkursykri)
Sakkarósa = sykur.(í sykurrófum, sykurreyr)
Maltósa = maltsykur (í spíruðu byggi)
Laktósa = mjólkursykur ( í mjólk)

Hröðu kolvetnin birtast í mörgum dularklæðum. Þau eru t.d. kölluð ýmist:
Uppleysanleg kolvetni
Hröð kolvetni
Sykur
Einfaldar sykurtegundir
Hraðleystar sykurgerðir
Einsykrur eða tvísykrur

Það var víst aldrei ætlun skaparans, að við neyttum hinna hröðu kolvetna í þeim mæli og samþjappaða formi og við nú gerum t.d. í gosdrykkjum, sætum kökum, ávaxtamauki, súkkulaði, brjóstsykri og rjómaís. Þau þenjast út í öllum iðjumat jafnvel í marineraðri síld, þar sem lögurinn er oft um 25 % sykur lausn. Lítið vandlega á töflu 5 hér fyrir neðan. Þar er rakið sykurmagnið í ýmsum iðjumatvælum. Það er eins og það sé ómögulegt að komast hjá því að belgja sig út af sykri. Þegar svo þar við bætist allur sá sykur, sem við mokum sjálf út í drykki okkar og mat, komumst við auðveldlega upp í 50 kg meðalneyslu sykurs á mann á ári.

5.TAFLA  sykurinnihald í ýmsum iðjumatvælum
Mjólk …………………………………………… 4—5 %
Kakaómjólk…………………………………. 8—10 %
Súr aldinsafi, djús ………………………..7—11 %
Súr aldinsafi, útþynntur………………2—3 %
Sætur aldinsafi………………………….. 32—36 %
Sætur aldinsafi, útþynntur…………..8—9 %
Gosdrykkir, kóladrykkir………………8—12 %
Rjómaís, ávaxtaís …………………………8—23 %
Síld í vínsósu, kryddsíld …………… 10—30 %
Pylsur ýmiskonar…………………………0—2 %
Brauð,rúnnstykki…………………………3—8 %
Kex, kökur…………………………………….2—45 %
Aldinmauk, marmilaði ……………. 30—60 %
Brjóstsykur ………………………………. 50—100 %
Hunang …………………………………….. 77—81 %

Samtímis því sem við belgjum okkur út af iðjusykri, má ekki gleyma, að með fylgir ýmiskonar önnur óhollusta. Viti þið til dæmis hvað gosdrykkur er? –Hann er auðvitað 10% upplausn. En þar við bætist allskyns annar óþverri. Þar er að finna litarefni, sem hætt er við að valdi ofnæmi. Þar er rotvarnarefni eins og Benzósýra, sem er mikill ofnæmisvaldur. Þar er gervibragðefni, sem öruggt er að getur valdið ofnæmi. Auk þess er þar töluverð sítrónusýra, sem nagar og leysir upp tannglerunginn. Þannig eru gosdrykkir mörg börn drekka  frá morgni til kvölds.

Við skulum bera saman hæg kolvetni (þau meinlausu) og hröð kolvetni (þau skaðlegu) í brauði og í aldinmauki.
Brauð       Marmilaði
1. Sterkja                   61 %           1 %
2. Sykur                       3 %          63 %

Kolvetni samtals      64 %          64%

Að hugsa sér! hrópar lesandinn við fyrstu sýn, -Að það skuli vera eins mikið af þessum hræðilegu kolvetnum í brauði og aldinmauki! En hér er mikill munur á kolvetnum, sem veldur því, að aldinmaukið er óæti fyrir sykursjúkling, meðan brauðið er holl prýðisfæða fyrir hann. Hafið þó í huga, að þið fáið aldrei alveg sykurlaust gerbrauð. Hvatar (enzym) í gerinu kljúfa hluta af sterkjunni við bökun og umbreyta í maltósu og glýkósu.

Því kemur það fram í töflunni, að 3 % af brauðinu er hratt kolvetni, þó engum sykri sé bætt í það Þetta er þó svo lítið magn, að það skiptir fremur litlu máli fyrir sykursjúkling. Sama er að segja um það 1 % af sykri, sem bætt er út í lifrarkæfu til að gefa henni brúna bökunarskorpu. Þetta fyrirbæri, samverkunin milli amínósýru og glúkósa kallast Maillard-verkun. Varið ykkur sérstaklega á vörulýsingunni ,,sykurlaus , sem stundum er t.d. skráð á súra aldinsafa. Þar er um að ræða safa úrjarðarberjum, hindberjum, sólberjum, rifsi og kirsuberjum.

Safi þeirra er að vísu sykurrýr, en ekki sykurlaus. Með því að þynna safann út með vatni, má koma sykurmagninu niður í 2—3 %. En þá finnst sumum safinn ódrekkandi. Prófið það t.d. á börnum ykkar, sem eru vön gosdrykkjaþambi með 10 % sykurinnihaldi, hvort þau fást til að innbyrða slíkan safa. Varið ykkur sérstaklega á djúsi. Hann er oft drukkinn óútþynntur og inniheldur þá svo mikið af sítrónusýru og hröðum sykurtegundum (um 11 %), að varla er til virkara tæki til að eyðileggja framtennurnar, einkum ef það er sogið í gegnum rör.

Látið ekki heldur blekkjast á hunangi eða púðursykri (brúna sykrinum). Stundum hefur því verið haldið fram, að þau séu hollari en ,,hvítur sykur“, en þau eru alveg jafn illvíg tannrotsefni og valda sykursjúklingum sömu vandræðunum. Líka kemur fyrir að lakkrístöflur eru merktar ,,án viðbótar sykurs“ og af því dregur fólk í fljótræði þá ályktun, að þær séu sykurlausar í þeim skilningi, að þær brenni ekki tennurnar. En það er mesti misskilningur, því að í hráefni þeirra eru frá náttúrunnar hendi um 5 % vatnsleysanlegra og hraðra kolvetna, sem geta unnið hreinustu hermdarverk á tönnum ávanapillumanna. Hinsvegar skiptir þetta sykurmagn sykursjúkling tiltölulega litlu máli.

Sterkja, glýkógen og glúkósi
Dýr og menn hafa samsvarandi kolvetnageymslur. 1 þeim kallast það glykógen og safnast einkum fyrir í lifur og vöðvum. Þar er það tilbúið til notkunar og brennslu, hvenær sem við þörfnumst skyndilega mikillar •orku við mikla áreynslu. Bæði sterkjan í jurtunum og glýkógenið í dýrum og mönnum eru flókin efni, svokallaðir fjölsykrungar (pólýsakkaríðar). Þeir eru byggðir upp úr þúsundum mólekúla af glúkósa (þrúgusykri), sem er einfaldasti sykrungurinn, einsykrungur (mónósakkaríð).

Glúkósi er upphaflega framleiddur af blaðgrænu jurtanna í efnaskiptum, sem kallast ljóstillífun. Þar er orku sólarljóssins beitt til að sameina koldíoxíð loftsins og vatn jarðarinnar í hinu einfalda kol-vetni glúkósa. Þetta er eins og fyrirfram gerð áætlun til að flytja sólarorkuna með auðveldum hætti inn í líkama okkar. Glúkósi er lítið, vatnsleysanlegt og óstöðugt mólekúl, sem getur leiftursnöggt smogið inn um meltingarveggi okkar, þarmana, og berst svo með blóðstreyminu um allan líkamann, inn og út um glýkógengeymslur líkamans og inn og út um frumur líkamans. En fyrir því er þó eitt skilyrði:

Brisið þarf að vera í lagi og framleiða nóg insúlín. Insúlín er hormón, sem gegnir því hlutverki að opna glúkósanum leið inn í gegnum frumuveggina. Sé maður með sykursýki, stafar það annaðhvort af því að insúlínframleiðslan hefur stöðvast, eða af því að frumuveggina skortir svokallaða insúlín-nema, en það eru móttökustöðvar, sem opna dyrnar fyrir insúlíninu ásamt glúkósanum inn í frumurnar. Sykursýkin kann að stafa af ónæmisvörnum líkamans, sem grípa inn í fyrir einhvern misskilning og ráðast á eigin insúlínframleiðandi frumur. Ef um er að ræða öldrunar-sykursýki, má örva insúlínnemana með fáeinum töflum. Annars er það helst með tvennum hætti, sem maður getur reynt að verka á þetta:

1) Við offitu dregur úr insúlín-nemum. Því er ágæt hugmynd að reyna að grenna sig.
2) Ef skortur er á snefilefninu króm hætta insúlínnemarnir í frumuveggjunum að verka. Í þeim tilfellum getur það gefið góðan árangur að taka krómríkar töflur eða ölger. (Það eru eðlileg efnaskipti, að frumurnar brenni glúkósann jafnóðum og skilji honum aftur sundur í kolsýru (koldíoxíð) og vatn og leysi þannig aftur út sólarorkuna, sem var bundin í glúkósann.

En ef maður nýtir ekki orkuna, af því að maður situr allar stundir með fæturna uppi á skemli fyrir framan sjónvarpið eða vídeóið, þá fer glúkósinn í geymslu í formi glýkógens, eða hann ummyndast í fitu og leggst í fitugeymslur líkamans (aðallega á kviðnum, sem orkubirgðir, eins og spikið á grís eða sel). Líkaminn er aldrei fús á að skilja með góðu við þann glúkósa, sem einu sinni er komin inn í hann, a.m.k. ekki fyrr en glúkósamagnið er komið yfir 180 millígrömm í 100 millílítrum af blóði, en þá fer það að falla út í nýrunum og skiljast út í þvagi.

Dragið úr líkamsþyngd, ef þið getið.
Það er afar mikilvægt ráð við sykursýki að grenna sig. Offita getur beinlínis verið orsök öldrunarsykursýki. Létta sig niður í kjörþyngd eða jafnvel meira. Er líka nokkuð snotrara en spengilegur vindþurrkaður herra? – Æ, það er nú víst umdeilanlegt. En hitt er staðreynd, að horrenglurnar eru heilbrigðari. – Þegar talað er um kjörþyngd, er átt við eðlilega þyngd manns við 25 ára aldur. Þá er hún samkvæmt Jensen og Okholm (1975) Eins mörg kíló og sentimetratalan er yfir 100 mínus 10%. Auk þess þarf svo að draga 1 kg frá fyrir karla og 4 kg fyrir konur.—

Ef karlmaður er 180 cm, er kjörþyngd hans: 80 kg mínus 8 kg. mínus 1 kg. = 71 kg. Margir verða þó ósammála þessu, þegar þeir heyra það, enda er þetta miklu flóknara mál, sterkbyggðir og beina sverir menn eru þyngri, og þar að auki teljast menn ekki of feitir, fyrr en þeir eru 20 % yfir kjörþyngd sinni. Sá sem er 180 cm má þannig, ef hann er sterkbyggður vega yfir 90 kg, án þess að teljast nokkur offitungur. Það er gagnlegt undir öllum kringumstæðum að grenna sig, því að yfirþyngd er áhættuþáttur um æðakölkun, sem verður svo sérlega hættuleg saman við vandamál sykursjúkra. Losið ykkur því við fituna úr matarvenjum ykkar, það mun í sjálfu sér takmarka æðakölkun og gera ykkur auðveldara að ráða þyngd ykkar. En nú kemur dálítið óvænt:

Efrihluta- og neðrihluta-fita kvenna.
Ef þú ert of feit kona, er fyrsta spurningin, hvort fitan sé efrihluta-líkamsfita eða neðrihluta-líkamsfita. Það má ganga úr skugga um þetta, án þess að saga þig í sundur undir smásjána. Efrihlutafitan liggur í öxlum, barmi, handleggjum og kviði, en neðrihlutafitan í mjöðmum, afturenda og lærum. Árið 1982 rannsakaði A.H.Kissebach 52 konur með mismunandi líkamslögun. 25 höfðu efrihlutafitu, 18 höfðu neðrihlutafitu, en 9 höfðu enga offitu. Allar þessar 25 með efrihlutafituna reyndust með of mikið glúkósaþol, sem jaðrar við sykursýki.

Hér er rétt að útskýra, hvað er glúkósaþol. Það er rannsókn á risi blóðsykurs eftir að taka inn 70 grömm af sykri. Ef blóðsykurinn vex innan klukkustundar í 200 mg í 100 ml og hefur ekki fallið niður fyrir 140 mg á 2 klst, er eitthvað að, annaðhvort skortir mann insúlín eða insúlínnema í frumuveggjunum. Rannsóknir á 15 þúsund bandarískum konum leiddu í ljós, að 25 % þeirra voru offeitar, en það þýðir, að 10 % af þeim gætu dregið úr sykursýkisáhættu sinni með því að grenna sig.

En hversvegna er efrihluta- og neðrihluta-fita kvenna ólík og hvernig myndast hún. Kenningar ganga út á það, að efrihluta fituna hafi þær fengið á fullorðinsárum. Því er efrihlutafitan sett saman úr fáum en stórum og feitum frumum, sem skortir mjög insúlínnema. Því hafa þær mikla tilhneigingu til að fá „falska“ sykursýki, en það lagast, ef þær megra sig. Konur fengu neðrihluta-fituna hinsvegar af því að þær borðuðu of mikið á krítískum tíma í uppvextinum. Þær hafa fengið alltof margar fitufrumur, en hver um sig hefur ekki vaxið sérlega mikið.

Þær minnka ekki við megrun og því eiga konurnar mjög erfitt með að megra sig. En á móti hafa þær ekki eins mikla tilhneigingu til sykursýki. Samt er ekkert þægilegt að vera með neðrihluta-fitu og það ætti að vera til viðvörunar að ofala ekki börn okkar á unglingsaldrinum. Karlmenn hafa ekki sömu offitueinkenni. Á þeim safnast fitan mest framan á kviðinn og kallast ístra á íslensku, topmave á dönsku og potbelly á ensku. Eðli hennar og gerð er lík efrihluta fitu kvenna og getur með sama hætti stuðlað að sykursýki. Aðalatriðið í öllu því sem hér hefur verið rakið, er fyrst og fremst, að þið ættuð að halda ykkur sem mest frá sykri og öðrum hröðum kolvetnum og þá einnig þeim iðjuvarningi, sem inniheldur mest af þeim.

Króm
Til öryggis ættu menn ætíð að láta athuga, hvort sykursýki þeirra sé ,,fölsk“, hvort hún stafi af krómskorti. Því er líkt farið og um skjaldkirtilstækkun (struma), sem stafar einungis af því að fólk skortir joð og lítill vandi að laga það. Lesið vörulýsinguna á vítamínum og steinefnistöflum. Í þeim á helst að vera króm. Takið þær daglega um skeið og falska sykursýkin hverfur eins og dögg fyrir sólu. Það er nokkuð um það að króm vanti í nútíma-mataræði. Og sama vandamál kemur upp með zink, ef ýmis matvæli, eins og sykur og mjöl, eru ofmikið hreinsuð.

Þá hverfa snefilefnin með melassanum eða klíðinu. Svo er dýrunum gefinn þessi hollari hluti fæðunnar, og þeim verður gott af. Þessi dauðhreinsun matvæla gengur allt-of-langt. T.d. hefur komið í ljós, að í einu kg af heilkornsmjöli eru 2 mg af krómi, en í hreinsigtuðu fransbrauðsmjöli aðeins 0,1 mg (Sjá R.J. Doisy, 1976).

Ef mann skortir króm, bila insúlín-nemar frumanna, svo þær geta ekki veitt insúlíninu með glúkósanum inngöngu og allt fer til spillis. Þá er heldur ekkert gagn að insúlín-sprautum. Blóðið fyllist bæði af of miklum glúkósa og insúlíni og manni líður ömurlega. Einna auðveldast er að kippa þessu í lag með því að taka ölgerstöflur, sem hafa töluvert magn af lífrænt tengdu og auðmeltanlegu krómi. Þú gætir líka reynt að taka matskeið af ölgeri, sem inniheldur 4 grömm af krómi, eða sem svarar 10 gertöflum (hver með 0,4 grömm), og ef með þarf tvisvar á dag.

Hægt er að fá ferskt ölger í brugghúsi, en það bragðast hræðilega og þú færð á tilfinninguna, að öll innyflin í þér haldi áfram að gerjast og bólgna út. Svo að það uppfyllir ekki eitt meginskilyrðið til að geta talist hollráð, — það má ekki valda vanlíðan. Svo helsta hollráðið hér verður þá sennilega að fá sér heldur vítamín- eða steinefnatöflur sem innihalda króm.

Lokaorð. Fjölva útgáfan var í eigu Þorsteinn Thorarensen, sem lést fyrir fáum árum. Þorsteinn gaf út margar bækur um nýungar í heilbrigðismálum. Lars Okholm var virtur heilsufrömuður í Danmörku og sá meðal annars um framleiðslu á ,,Okholms-Ældretabler” steinefnatöflum ætluðum eldrafólki sem fengust hér á árum áður.

Höfundur samantektar: Ingibjörg SigfúsdóttirFlokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: