Samantekt um sinadrátt og fótaóeirð

Árið 2001 hóf Íslensk erfðagreining leit að erfðaefni vegna fótaóeirðar, einnig var reynt að fá hugmynd um tíðni fótaóeirðar á Íslandi. Þótt enn séu ekki til tölur um tíðni fótaóeirðar hérlendis og ekki heldur vitað hvað veldur henni, er ljóst að orsök áunninnar fótaóeirðar geta verið sjúkdómar eins og járnskortur, úttaugaskemmdir eða nýrnabilun. Fyrsta greiningin á fótaóeirð sem vitað er um er frá því um árið 1700, þegar lýst var þjáningunum sem fólk fékk í fæturna á kvöldin. Ekki var vitað hvað þetta var, en á svipuðum tíma var ópíum notað við meðferðirnar. Þá var þetta talinn vera einhverskonar geðsjúkdómur.

Árið 1932 skilgreindi sænskur læknir fótaóeirð sem raunverulegan sjúkdóm. Samt vaknaði ekki áhugi á rannsóknum fyrr en í kringum árið 1990 og nú er talið að fótaóeirð þjaki fimmtán manns af hverjum hundrað.

Nútíma greining á fótaóeirð er byggð á klínískum skilmerkjum, það eru: Verkir og óþægindi í fótum, sem er erfitt að lýsa og gerist í hvíld og fylgir gjarnan þörf á hreyfingu. Óþægindin koma frekar seinnipart dags. Þegar sjúkdómurinn ágerist getur þetta líka komið fram á daginn og þá einnig í höndum. Áttatíu af hundraði eru líka með lotuhreyfiröskun útlima í svefni. Svefnrannsóknir hafa sýnt að sumir fá reglulega kippi í svefni, sem trufla djúpa nætursvefninn. Kippirnir geta jafnvel orðið það miklir að svefn makans raskist. Svefnröskunin getur svo leitt til dagsyfju. Þetta er ekki sértækt heldur getur fylgt öðrum sjúkdómum eins og kæfisvefni og svefnsýki.

Meðferð
Helsta meðferð hérlendis gegn fótaóeirð eru Parkinsonlyf, sterk verkjalyf eða flogalyf. Fólk hefur svarað vel parkinsonlyfjameðferð. Áður var sjálft boðefnið notað, það virkaði mjög vel en 60- 80 af hundraði mynda þol fyrir því og dregur það úr áhrifum, en er samt nothæft. Ekki hafa verið rannsökuð áhrif næringar á sjúkdóminn þó að vitað sé að ef um járnskort er að ræða þarf að leiðrétta hann því annars virka ekki lyfin.

Þegar þessi samantekt stóð yfir sagði mér kona að hún hefði haldið niðri einkennum fótaóeirðar með því að taka inn magnesíum (vörumerki Higher Nature) 1 stk að morgni og 2 stk að kvöldi ásamt Kvöldvorrósarolíu 1 stk.á dag (vörumerki Udos). Sú olía inniheldur einnig ómega olíurnar 3-6 og 9. Margra reynsla er sú að óþægindi í fótum orsakist af stöðurafmagni, sem myndast þegar gerviefni snertast. T.d. er algengt að sum teygju-frotte lök sem sett eru yfir rúmdýnur úr öðru gerviefni valdi kláða, pirringi og taugaviðbrögðum í fótum. Slík vandamál má koma í veg fyrir með því að nota lök úr hreinni bómull.

Ekki virðist alltaf sama orsök valda sinadrætti.
Hér koma nokkur ráð, sem gagnast hafa gegn þeim vágesti: Þann 13.3.2006 birtist lítil grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni: Hvers vegna fáum við sinadrátt. Þar sagði meðal annars: ,,Sinadráttur er kröftugur, sársaukafullur samdráttur í vöðva eða vöðvum. Algengt er að hans verði vart í kálfum í vöku eða svefni. Hann getur komið vegna mikillar vinnu, meiðsla eða vegna einhæfra hreyfinga eða hreyfingarleysis.

Vökvatap eykur hættu á sinadrætti, sem m.a. er algengur hjá íþróttafólki, sem reynir mikið og lengi á sig og tapar við það vökva“. Í greininni kemur einnig þetta fram: ,,Orsakir sinadráttar eru yfirleitt skortur á magnesíum eða ójafnvægi á kalki og magnesíum í líkamanum eða skortur á E-vítamíni“ Þessi fróðleikur er fenginn af netinu og í greininni eru taldir upp ótal sjúkdómar sem geta átt þátt í því að fólk fái sinadrátt. Sagt er samband á milli hreyfingarleysis og einnig of mikils álags og sinadráttar. ,,Til að forðast sinadrátt er rétt að gera teygjuæfingar fyrir og eftir áreynslu. Auk þess er gott að kreista og nudda viðkomandi vöðva með olíum. Sumum hugnast vel að fara í heitt eða kalt bað“. Í lok greinarinnar kemur fram að kalk og magnesíum séu mikilvægustu steinefnin fyrir þá sem er gjarnt að fá sinadrátt. Ofþornun er talin algeng orsök og mælt með aukinni vatnsdrykkju.

  • • Bananar eru magnesíumauðugir, sem dæmi um það er, að læknir ráðlagði manni sem kvartaði um sinadrátt að borða hálfan banana á dag. Það hreif, sinadrátturinn hvarf.
  • • Annar fullorðinn maður kvartaði um sama kvilla við lækni og var ráðlagt að taka inn stóra skammta af B fjölvítamíni ásamt   C vítamíni. Eftir það hætti sinadrátturinn.
  • • Kona sagðist taka inn kalk í nokkra daga, þá hyrfi sinadrátturinn fljótt.
  • • Söl og þari eru steinefnarík, einnig grænt grænmeti og korn með hýði.

Viðbót: Árið 2016 las ég vitnisburð tveggja manna á Internetinu þeir fullyrtu báðir að inntaka E- vítamíns hefði bætt hjá þeim fótaóeirð.

Bendi á grein um nýlegar rannsóknir á fótaóeirð og D- vítamínskort:  https://heilsuhringurinn.is/2014/12/26/nylegar-rannsoknir-benda-til-ae-fotaoeire-tengist-d-vitaminskorti/

Bendi einnig á: að kona að nafni Soffía Káradóttir sagði frá því í Fréttablaðinu 13.janúar 2021 að þegar hún fór að taka inn fæðubótaefnið Melissa Dream hafi fótapirringur hennar hætt.

Höfundur Ingibjörg Sigfúsdóttir  upphaflega skrifað árið 2008

 



Flokkar:Líkaminn

%d bloggers like this: