Rætt um Bowen tækni og sitthvað fleira við Margeir Sigurðsson

Árið 2008 var tekið vital við Margeir sem lærði Bowen tækni í Englandi árið 2002 og er umboðsmaður ,,European College of Bowen studies“ á Íslandi. Hann hefur rekið Bowen skóla á Íslandi frá árinu 2002 og einnig í Danmörku frá árinu 2006. Margeir hefur fengist við sitt af hverju á lífsleiðinni þar á meðal kennt heilun á Indlandi og kynnst þar hve fólk getur verið glatt þrátt fyrir sárafátækt. Hann lærði höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun og óperusöng í Englandi. En frá því hann lærði Bowen hefur hann eingöngu unnið við það og segir að það sé létt vinna og þó að tæknin sjálf líti út fyrir að vera mjög einföld þegar horft er á hendur meðferðaraðila gefa meðferð, sé hún mjög fljótvirk og árangursrík fyrir skjólstæðinginn. Í Bowen skólanum kennir Margeir grunnnám tækninnar í fimm hlutum á einu ári. Síðan eru í boði framhaldsnámskeið með sérkennurum sem koma frá ECBS þar sem farið er dýpra í ýmis sértæk vandamál.

Upphafsmaður Bowen tækninnar
Bowen tæknin er kennd við manninn sem fann hana upp, Thomas Bowen frá Geenlog í S-Ástralíu. Frá unga aldri vann Thomas ýmsa verkamannavinnu og endaði í steypuskála einingaverksmiðju. Þar horfði hann á vinnufélaga sína þjást af álagsmeiðslum vegna vinnunnar. Hann reyndi þá að finna leið til að hjálpa þeim og þróaði Bowen tæknina sem nú er orðin þekkt og vinsæl víða um heim. Meðferðin samanstendur af röð mjúkra hreyfinga sem gerðar eru með þumlum og fingrum yfir vöðva, sinar, liðbönd og húð. Þrýstingurinn er mjög lítill en slaki húðarinnar er notaður til þess að ná bandvefnum, síðan þrýst og gerð rúllandi hreyfing yfir svæðið.

Þó að hreyfingin sé ekki hörð á vöðvann kveikir það á eins konar viðvörunarbjöllu í heila sem kemur af stað náttúrlegum viðbrögðum líkamans að laga það sem þarf. Bowen meðferð truflar boð til heilans, sem hann þarf að túlka, en í því ferli sendir heilinn blóð til taugaenda og á þau svæði sem hefur verið unnið með. Eitt lykilatriði í Bowen meðferð er að meðferðaraðilinn fer út úr herberginu á milli ákveðinna hreyfinga og aðgerða. Hléin gera meðferðina árangursríkari. Mikill árangur Bowen meðferðar felst í að lítið þarf að gera til þess að fá líkamann til að laga sig sjálfur. Bowen leitar jafnvægis og þótt það lækni ekki allt má segja að það sé sama hvað hrjáir fólk, þá líði því alltaf betur eftir meðferð. Í spjalli Heilsuhringsins við Margeir bar margt á góma sem bæði snerti starf hans og reynslu
.
Eplaedik á bólginn ökkla
Á einu námskeiðanna bað nemandi um að unglingur sem hafði nýverið snúið sig á ökkla yrði tekinn í meðhöndlun á námskeiðinu. Drengurinn kom illa haldinn, á hækjunum, með ökklann vafinn með 6 eða 8 teygjubindum og öðru eins af bómullarbindum til að auka þrýsting. Ég byrjaði á að rekja trafið af og meðhöndla ökklann með Bowen tækni, síðan bleytti ég bómullarbindi með eplaediki og setti á ökklann. Vafði síðan einu bindi utanum. Batinn kom strax og drengurinn gekk stuttu seinna út hækjulaus. Áður en nemendurnir urðu vitni að þessu hafði ég fundið fyrir efa hjá þeim um að Bowen tækni væri eins frábær og ég vildi vera láta. Þarna hvarf þeim algjörlega allur efi. Árangur af svona meðferð gengur best ef hægt er að komast í meðferð strax“.

Til að draga úr bólgu: Setja eplaediksbakstur á í 2 tíma og hvíla á milli í 1 tíma. Notað er óblandað eplaedik nema fyrir þá sem eru með viðkvæma húð. Ekki skal hafa baksturinn á nóttunni heldur bera íslenskt smjör á svæðið og setja plastpoka utanum, sem er hægt að festa með einhverju tiltæku.

Stundum kemur batinn ekki svona fljótt
Oft kemur fólk til mín sem kvartar um verki á einum ákveðnum stað eins og t.d. kona sem bað um meðferð vegna verkja í hné, aðspurð kannaðist hún ekki við að neitt annað þjáði sig. Þegar ég spurði um líðan hennar eftir tvær meðferðir svaraði hún: ,,Ég finn enn til í hnénu en hálsinn bakið og axlirnar eru alveg eins og ný“. Hálfum mánuði eftir þriðju meðferðina hringdi hún og lét mig vita að hnéð væri búið að vera verkjalaust í nokkra daga.

Magakveisa hvítvoðunga
Margar ljósmæður senda til mín mæður með hvítvoðunga því að góður árangur hefur náðst með Bowen í meðhöndlun magakveisu hjá ungbörnum.

Lítið gefið um pillur
Mér er illa við pillur og hef alltaf leitað annarra leiða, því féll mér vel að hlusta á erindi doktors og prófessors í læknadeild Stanford háskóla, Bruce Lipton, sem sagði að nútíma vestrænar lækningar séu 50 árum á eftir tímanum, vegna þess að þær reyni að lækna með ,,kemískum“ efnum (efnafræðilega tilbúnum efnum) þó svo að þeir viti að þau virka ekki. Hann sagði: ,,Kemísk efni fá ekki frumurnar til að vinna heldur er það orka og prótein, sem við fáum úr lífrænni fæðu. Fæða, tilfinningar og lífsmunstrið sjálft er stór þáttur í þessu ferli. Hægt er að sjá nokkra fyrirlestra Liptons á netinu og eru þeir mjög svo áhugaverðir, en vefsíða hans er http://www.brucelipton.com/article. Í því sambandi má nefna hvaða áhrif ákveðin lifandi fæða getur haft samanber að Kínverjar nota rauðrófu eða rauðrófusafa við feimni og segja að það losni ensím í lifrinni sem valdi því að fólk verði frakkara. Einnig má nota rauðrófusafa til að hreinsa lifrina. Frétt í Morgunblaðinu fyrir síðustu jól sagði að margir væru með augnbotnasjúkdóma. Úr því má draga með því að borða spínat, sem er mjög kalkríkt.

Síþreyta, hormónar, skjaldkirtill
Nú á tímum er mikill áróður gegn feitum mat en staðreyndin er sú að hormónakerfið og heilinn þurfa á fitu að halda. Ef við fáum enga fitu skorpnar heilinn. Það er ekki verið að segja að við eigum að háma í okkur síðuspik heldur ættum við að nota grænmetisolíur, fiskiolíur og lýsi. Ef líkaminn fær nóg af Omega 3 6 og 9 fitusýrum framleiðir hann melatónín, þá náum við meiri hvíld út úr svefni. Fyrsta skref til að ná jafnvægi á sál og líkama er að geta hvílt sig og sofið. Allir sem eru með liðagigt og exem ættu að taka inn Omega 3-6 og 9 fitusýrur tilað smyrja að innan smáþarmana, því að exem orsakast af lekum görnum en olían varnar því að saurinn síist út og fari í sogæðakerfið. Einnig hjálpar olían að verjast Candida sveppnum sem nær ekki að krækja sig í þarmaveggina ef þeir eru hálir af olíu. Ef líkaminn innheldur nóg af Omega 3-6 og -9 olíu, ver það húðina fyrir hrukkum. Ef konur vissu þetta almennt myndi ekki seljast svona mikið af dýrum húðkremum eins og raun ber vitni.

Vandamál barna og unglinga

Talað er um að unglingar séu erfiðir, ofvirkir og sumir þunglyndir. Ef við lítum á hegðan þeirra og atferli komumst við að því að þeir sitja með tölvuna í fanginu og fá í sig rafmengun, hreyfa sig lítið og borða mikið af hveiti og mjólkurvöru. Hvorutveggja er þungmelt og þunglyndisvaldandi vegna þess að þessi matur dregur úr seratónín framleiðslu líkamans. Um 80 eða 90% af seratónin framleiðslunni kemur frá meltingunni, en seratónin eykur hæfni til að takast á við streitu og er eitt af aðal gleðihormónunum. Í viðbót við þetta drekka margir unglingar sykurlausa diet gosdrykki með Aspartam.“ (Sjá grein um Aspartam á bls. 51 í Heilsuhringnum vorbl. 2007).

Er ofvirkni af sama toga?
Ja, hvað er ofvirkni og hvað er orkumikið barn? Ég er þeirrar skoðunar að mörg börn þyrftu ekki Rítalín ef þau fengju verkefni við sitt hæfi. Orsökin er mjög oft tímaleysi foreldra og svo er það áreitið sem börn verða fyrir, meira að segja strax í móðurkviði. Það er til frábær bók sem heitir ,,Secret life of the unborn child“ eftir læknana Thomas Verny og John Kelly sem rannsökuðu áreiti sem fóstur verða fyrir í umhverfi móður. Þeir tala um áhrif sónarskoðunar og benda á að sónar gefi frá sér hátíðnihljóðbylgjur og þeir benda á að sónar er notaður við fiskveiðar til að finna fiskitorfur. Einnig eru myndir í þrívídd teknar af fóstrum og þá eru notaðar ennþá kröftugri bylgjur. Árið 2007 skrifaði Jóhanna Harðardóttir Bowentæknir lokaritgerð til B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri um áhrif Bowenmeðferðar á börn með ofvirkni og /eða athyglisbrest.

Rannsóknin var gerð í samvinnu við Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar og með leyfi frá Vísindasiðanefnd. Sálfræðingar Fjölskyldudeildarinnar könnuðu líðan og hegðun barnanna fyrir og eftir meðferðina með spurningalistum sem lagðir voru fyrir foreldra þeirra. Sex börn á aldrinum fjögurra til ellefu ára tóku þátt í rannsókninni og mætti hvert barn í fjóra meðferðartíma. „Rannsóknin leiddi í ljós að einkenni ofvirkni og/eða athyglisbrests minnkuðu og í sumum tilvikum það mikið að börnin uppfylltu ekki lengur greiningarskilyrði fyrir ADHD eftir meðferðina. Flest börnin sváfu og hvíldust betur, þeim leið betur, áttu betra með að sitja kyrr og sumum gekk betur að einbeita sér.

Ritgerðina má lesa á: http://skemman.khi.is/bitstream/1946/1069/1/Ahrif%20Bowen%20 taekni%20med%20forsidu.pdf

Slær á sætindalöngun
Það á enginn að fara í megrun heldur breyta mataræði og auka hreyfingu. Bowentækni getur hjálpað fólki að losa sig við fíknir, jafnt sætinda-,matar-, áfengis, eða eiturlyfjafíkn. Vilji fólk grennast þá eykur Bowenmeðferð meltinguna og hjálpar líkamanum til að losna við úrganginn. Í Bretlandi er Bowen notað á sumum meðferðarstofnunum í umræddum tilgangi.

Kanill kemur jafnvægi á blóðsykurinn og dregur úr sykurlöngun. Hjón sem voru ,,nammifíklar“ tóku til þess ráðs að drekka kanilte með morgunmatnum í heilan vetur. Þau höfðu bæði misst mörg kíló að vori. Er notað venjulegt kanilduft? Nei, það er hellt á kanilstöng. Rannsóknir á Bowenmeðferð á hina ýmsu kvilla hafa leitt í ljós að Bowen kemur mjög vel út úr öllum rannsóknum. Þannig að með Bowen er hægt að nálgast og vinna með hvað sem er, en án þess að hægt sé að lofa bata, er nokkuð öruggt að viðkomandi skjólstæðingi líður á flestan hátt betur og er tilbúnari til að takast jákvætt á við lífið!

Góð æfing til að liðka Axlir
Staðið er andspænis vegg og hönd stutt á vegg með beinan handlegg er líkamanum snúið að handleggnum eins langt og hægt er. Hendinni er haldið fast á veggnum, síðan er líkamanum snúið í gagnstæða átt við fyrri snúning þar til rassinn snertir vegginn. Endurtekið nokkrum sinnum á dag.

Viðtalið skrifaði Ingibjörg Sigfúsdóttir



Flokkar:Meðferðir