Nýtt fæðubótarefni á markaði -Ómissandi sykrur – Glyconutrients

Fyrir tiltölulega stuttu uppgötvuðu vísindamenn að hinn dæmigerða mat sem nútímamaðurinn neytir skortir mjög mikilvæg næringarefni og öllum á óvart reynast þessi efni vera sykrur!

 Allir þekkja umræðuna um óhollustu sykurs og augum hefur því ekki verið beint þangað í leit að hollustu fyrr en hin allra síðustu ár. Skýringa á sykurfíkn manna má kannski rekja til þess að líkaminn veit að þessi efni eru honum nauðsynleg og leitar því þeirra í þeim mat sem þær í upphafi fengust úr en standa honum ekki til boða þar lengur. Jafnvel örlítið magn þessara sykra – eða vöntun á þeim hefur djúpstæð heilsufarsleg áhrif. Til að líkami okkar starfi eðlilega þarf hann ákv. einsykrur og fái hann þær er heilsufarslegur ávinningur undraverður: Hæfni hans til að ráða við sjúkdóma eykst, ónæmiskerfið vaknar til lífs á ný, blóðfita lækkar, vöðvamassi eykst, líkamsfita minnkar, ofnæmi sefast, þunglyndi minnkar og svo mætti áfram telja. Sumir ganga svo langt að segja að skortur á þessum sykrum sé ein aðalástæða hinnar miklu aukningar á krónískum sjúkdómum sem orðið hefur á Vesturlöndum í seinni tíð.

Skorti á þessum efnum má kannski helst líkja við efnaskortssjúkdóma fyrri tíma s.s. Beri-Beri og skyrbjúg, sem þóttu læknast líkt og fyrir kraftaverk þegar þeim sem skortinn liðu var gefið Thiamin og C-vítamín. Hér á eftir koma upplýsingar fyrir þá sem áhuga hafa á að vita meira um þessar sykrur og stórmerkilega virkni þeirra. Þó undarlegt megi virðast getur verið að sigur okkar yfir sjúkdómum í framtíðinni liggi í fortíðinni og því skulum við byrja á að skoða bakgrunninn að því lífi sem við lifum í dag til að átta okkur á samhenginu.

Upphaf landbúnaðar og jarðræktar fyrir um 10.000 árum og afkastaaukning, með þróun þess yfir í verksmiðjulandbúnað dagsins í dag, hefur leyst vandamál er tengjast magni þess matar sem fólki stendur til boða en ekki gæðum. Langmestan hluta þess tíma sem maðurinn hefur verið á jörðinni hefur hann þrifist og þróast við að lifa úti í náttúrunni á þeirri fæðu sem þar finnst. Forfeður okkar í veiðimanna/safnara samfélaginu þjáðust ekki af sjúkdómum sem herja á okkur í dag og taldir eru stafa af nútíma vestrænu mataræði s.s. hjartasjúkdómum, háum blóðþrýstingi, sykursýki og sumum teg. krabbameins.

Matseðill forfeðra okkar hefur sennilega samanstaðið að mestu af: ávöxtum, hnetum, hunangi, ákv. grænmeti og jurtum, fléttum, mosa, fræjum, berjum, sveppum, berki, rótum, eggjum, villibráð og hræjum. Forfeður okkar átu mat sem innihélt takmarkað magn af kjöti en mikið úrval af jurtum sem týndar voru jafnóðum og þeirra var neytt. Í dag lifa hins vegar margir í heimi fullum af gerviefnum, lyfjum, plasti, menguðu lofti, litlu sólskini, ónógum líkamsæfingum, menguðu vatni, unninni fæðu o.fl. sem varla á nokkuð sameiginlegt með því sem við vorum þróuð til að lifa við. Jafnvel þó við í dag neyttum mikils magns af fersku, óunnu grænmeti og ávöxtum er líklegt að það eigi uppruna sinn á risabúum, sé ræktað við óeðlilegar aðstæður í jarðvegi snauðum af náttúrulegum næringarefnum en fullum af tilbúnum áburði ásamt ý.k. eitri, týnd á mismunandi stigi þroska plöntunnar.

Einnig spila inn í þetta plöntukynbætur og erfðabreytingar, sem oftar en ekki leiða til ræktunar á fljótsprottnum afbrigðum með ákv. útlit frekar en að horft sé til næringargildis. Eins og þetta sé ekki nóg eitt og sér heldur bætist við að mikið magn þess matar sem okkur stendur til boða er unninn (soðinn, örbylgjumatur, dósamatur, frystur, hreinsaður, gerilsneyddur, með íblöndunarefnum o.s.frv.) á þann hátt að næringargildi hans minnkar enn frekar. Því er það fullkomlega réttlætanlegt að kasta fram þeirri spurningu hvort þau næringarefni sem forfeður okkur fengu úr sinni fæðu séu til staðar í matnum okkur í dag í nægjanlegu magni?! Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu og benda þær til að svo sé ekki. Uppbót með fæðubótarefnum er kostur sem margir hafa því valið til að bæta úr meintum skorti. Mannslíkaminn þarf vatn, vítamín, steinefni, ensím, eggjahvítu, fitu og kolvetni (sykrur) til að geta starfað eðlilega. Hægt er að kaupa fæðubótarefni sem innihalda eitt eða fleiri þessara efna og nú eru að koma á markað hérlendis ómissandi sykrur = Glyconutrient, sem afar áhugaverð viðbót við þessa flóru.

Hvers vegna ómissandi sykrur?
Sykrurnar sem verið er að markaðssetja eru matur sem forfeður okkar fengu nóg af úr sínu mataræði. Þær finnast lítt í nútímafæði því með þeim vinnsluaðferðum sem notaðar eru í dag við matvælaiðnað, eru þær hreinsaðar í burtu. Þær finnast í berki, hýði, fræjum, rótum, mosa, sveppum o.fl. s.s. brjóstamjólk. Sykrur eru ekki vítamín, steinefni, eggjahvíta, fita, ensím eða hómópataefni og koma ekki í staðinn fyrir þau, heldur eru þær flokkur út af fyrir sig. Þær eru kolhydröt (saccharides) sem venjulega ganga undir nafninu sykrur. Heilbrigður líkami er heild sem starfar skv. flóknu og háþróuðu samspili. Slíkt samspil krefst nákvæmra lífefnafræðilegra tjáskipta til að ekkert fari úrskeiðis.

Í grundvallaratriðum er hægt að segja að þessi tjáskipti eigi sér stað milli frumanna (on cellular level) og kallast á máli sameindalíffræði ,,samskipti frá frumu til frumu“ (cell-to-cell communication). Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að frumurnar hafa ákv. tungumál sem búið er til úr ,,stöfum“ og ,,orðum“ og þar koma ómissandi sykrur við sögu sem aðalleikarar. Sykru-mólekúlin búa til e.k. stafróf eða stafi er þau bindast við prótein, sem raðast saman í ,,orð“ sem líkaminn notar til að koma upplýsingum milli líkamsfrumanna og gera honum kleyft að starfa á heilbrigðan hátt. Þessi ,,orð“ eru kölluð glycoprotein eða sykruprótein og samanstanda af mismunandi sykur-sameindum tengdum við prótein.

Sykrupróteinin þekja yfirborð hverrar einustu frumu í líkamanum og geta breyst þúsund sinnum á hverri sekúndu. Frumurnar snerta hver aðra til að geta skipst á upplýsingum, þ.e. þær lesa skilaboðin úr sykrupróteinunum á yfirborði hverrar annarrar og láta vita hvort þær vantar eitthvað, hvort of mikið er af einhverju, hvort þær eru veikar o.s.frv. Árið1999 voru veitt Nóbelsverðlaun í læknisfræði fyrir þessa uppgötvun og rannsóknarfólk sem kynnt hefur sér þessi samskipti frumanna fullyrðir að þetta sé mikilvægasta uppgötvun sem gerð hafi verið í sögu læknisfræðinnar er kemur að starfssemi ónæmiskerfisins. Sjúkdómar og vanvirkni er afleiðingin þegar þætti sem gerir frumunum kleift að tala saman vantar. Vöntun á fjölsykrum hefur verið tengd við allskyns heilsufarsleg vandamál, því ef ,,stafi“ vantar í stafrófið á frumuyfirborðinu er hætta á að röng skilaboð séu ,,lesin“ úr ,,orðunum“ sem myndast. Það eru yfir 200 kolhydröt einsykrur í náttúrunni og þau eru öll kölluð sykrur. Í dag er vitað að 8 af þessum einsykrum spila lykilhlutverk í samskiptum frumanna og því hægt að kalla þær ómissandi.

Þær eru:
1) Glucosi – þrúgusykur, sem við fáum meira en nóg af dagsdaglega úr hvítum sykri, ávaxtasykri og fæðu sem inniheldur mjölva.
2) Galactosi – sem fæst úr mjólkursykri og flestir sem ekki hafa lactosa-óþol fá nóg af úr fæðu.
3) Fucosi – sem finnst ekki auðveldlega í því fæði sem við fáum en er í brjóstamjólk og ákv. teg. sveppa sem notaðir eru il lækninga.
4) Mannosi – sem finnst ekki auðveldlega í nútímamat í dag.
5) Xylosi (Xylitol) notað í sumar tegundir sykurlauss tyggigúmmís og tannkrems en einnig hægt að kaupa í  heilsuvöruverslunum og nota í stað venjulegs sykurs.
6) N-Acetyl-neuramin sýra – finnst ekki auðveldlega í mat en er í brjóstamjólk.
7) N-Acetyl-glucosamin – Það finnst ekki í mat okkar í dag.
8) N-Acetyl-galactosamin – Hún finnst ekki heldur í mat okkar í dag. Einungis tvær af þessum átta sykrum finnast að jafnaði í dæmigerðu nútíma fæði: glucosi og galactosi og þeir sem ekki neita mjólkurafurða fá ekki nema aðra þessara sykra.

 Bestu náttúrulegu uppsprettur sykranna átta eru: Brjóstamjólk, Aloe Vera, Arabinogalactan = safi úr leiðsluvefjum plantna (t.d. trjákvoða), Astragalus Gummifer, Gum acacin, Gum ghatti, Limu Moui, sveppir, ölger, hvítlaukur, laukur, sólhattur, sumir þörungar, korn, blaðlaukur, gulrætur, radísur, perur, kókóshnetualdin-kjöt, tómatar, baunir, fíkjur og haframjöl. Pektin úr ávöxtum, psyllium husk, maís, hrís-, haframjöls- og byggklíð innihalda einnig ómissandi sykrur. Vísindarannsóknir staðfesta gagnsemi umræddra sykra og árlega eru gerðar yfir 20.000 rannsóknir á þeim einum saman. Takist mönnum að ráða ,,sykru-kóðann“ væri það til gríðarlega hagsbóta fyrir heilsufar almennt og læknisfræði, því þessar sykrur virðast geyma lykilinn að því að ónæmiskerfið starfi eðlilega.

Stofnfrumur og tengsl þeirra við ómissandi sykrur
Stofnfrumur eru ósérhæfðar frumur sem geta breyst í hvaða frumutegund sem er. Þær eru framleiddar í beinmergnum og fara þaðan út um líkamann eftir þörfum til að laga skemmda vefi. Við heyrum oft í seinni tíð fréttir um tilraunir og stofnfrumurannsóknir á frumum úr mannsfóstrum sem margar hverjar vekja upp siðferðislegar spurningar. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum (Fisher Institute for Medical Research) að inntaka á ómissand sykrunum átta örvar eigin framleiðslu á stofnfrumum en aldrei hefur áður verið sannað með rannsóknum að nokkurt efni – hvorki náttúrulegt né tilbúið hafi gert slíkt. Þetta gefur fólki með alvarlega sjúkdóma og ástand sem hingað til hefur verið talið ólæknandi s.s. Alzheimer-sjúkdóm, Parkinsons, MND, MS, sykursýki, heilablóðfall o.m.fl. nýja batavon. Einnig er ánægjulegt að fram hefur komið við notkun og rannsóknir að hátt í 50 mismunandi erfðagallar s. s. Downs-heilkenni, svari þessum sykrum á jákvæðan hátt .

Rannsóknir benda til að neysla ómissandi sykranna átta geti framkallað ótrúlegan árangur.

Eftirtalin eru fáein atriði til skýringar:
1. Eykur gríðarlega fjölda náttúrulegra drápsfruma og stórra átfruma gegn sýklum.
2. Örvar ónæmis T-frumu starfssemi, einungis þegar um innrás fjandsamlegra örvera er að ræða eða þegar mótefnavaki er til staðar í blóði.
3. Minnkar frumudauða hjá fólki með síþreytu.
4. Eykur stórlega mótstöðuafl hjá veikluðum einstaklingum.
5. Vinnur sem andoxunar-efnasamband, sem eykur upptöku á hættulegum stakeindum og eyðir þeim.
6. Verndar líkamann fyrir eiturefnum og mengunaráhrifum.
7. Hægir á ótímabærri öldrun.
8. Minnkar bólgur í sjúkdómum s.s.gigt.
9. Hjálpar ónæmis-frumum að þekkja óvini frá vinum vegna þess að samskipti gegnum sykrurnar verða markvissari.
10. Gerir frumuhlutum mögulegt að límast hver við annan svo þeir bregðist rétt við.

Líkaminn getur sjálfur framleitt ómissandi sykrur og gerir það ef með þarf
Líkaminn okkar hefur ótrúlega hæfileika til að lagfæra sjálfan sig… þ.e. ef hann fær frið til þess. Við höfum hæfileikann til að búa til sumar af ómissandi sykrunum, en það er mjög flókið efnafræðilegt ferli sem ýmislegt getur truflað s.s. eiturefni, streita, næringarskortur, skortur á ensímum eða léleg efnaskipti. Sennilega er þetta eingöngu hugsað sem neyðarúrræði yfir styttri tíma ef um skort er að ræða í mat og sýnir hversu ómissandi líkaminn telur þessar sykrur vera fyrir heilbrigða líkamsstarfssemi. Ef líkaminn hins vegar þarf að búa til ómissandi sykrurnar að staðaldri yfir lengri tíma orsakar það mikið álag og afleiðingin er að magn og uppbygging þeirra sykra sem næst að framleiða er takmarkað og getur er frá líður leitt til alvarlegs heilsufarslegs misbrests. Því er inntaka þeirra í gegnum mat eða sem bætiefni æskilegri leið.

Ómissandi sykrur er hægt að vinna úr mismunandi efnum og því eru ekki öll bætiefni sem innihalda þær eins. Þá er það ekki sama hvernig þessi efni eru unnin og hægt er að fá misnýtanlegar sykrur frá mismunandi fyrirtækjum á mismunandi verði og af mismunandi gæðum. Sum fyrirtæki sérhæfa sig í ákv. sykrum t.d. glucosamin vörur (afurð úr sykrunni N-acetylglucosamin) er verið hafa á markaði um nokkurra ára skeið hérlendis og notaðar eru til að gefa fólki með slitgigt og önnur vandamál er tengjast liðbrjóski. Stöðugt er verið að þróa nýjar vinnsluaðferðir til að þau bætiefni sem verið er að búa til séu á því formi að þau nýtist líkamanum auðveldlega því annars er til lítils að taka þau. Ómissandi sykrur eru fáanlegar frostþurrkaðar, sem extraktar, á duftformi og í belgjum. Ráðlagt er að leita frekar eftir hágæða efnum sem ekki einungis innihalda mismunandi sykrur heldur í nægjanlegu
magni.

Með því að taka inn ómissandi sykrur minnka líkur á :

  • veirusýkingum
  • sjálfsónæmissjúkdómum
  • sjúkdómum af völdum örbaktería
  • sveppasýkingum
  • illkynja sjúkdómum
  • taugasjúkdómum
  • sjúkdómum af völdum snýkjudýra
  • sjúkdómum af völdum baktería

Hliðarverkanir:
Þegar byrjað er að taka inn ómissandi sykrur verða sumir varir við að hægðir verða lausari en áður var. Loftmyndun og mildir krampar geta einnig komið fram en venjulega lagast það á nokkrum tíma. Til að draga úr þessum einkennum er ráðlegt að minnka skammt sykranna eða taka þær eingöngu með mat. Ofnæmiseinkenni geta komið fram (1- 2%) við ómissandi sykrum og fæðu sem inniheldur þær. Eins og áður hefur verið nefnt eru sykrurnar unnar úr mismunandi efnum og sé maður með ofnæmi fyrir einhverju þeirra innihaldsefna sem talin eru upp á innihaldslýsingu ætti maður ekki að nota það. Þumalfingursregla er að byrja rólega og auka síðan skammtinn ef engin óþægindi koma fram. Þar sem svo stuttur tími er síðan vísindamenn uppgötvuðu eiginleika ómissandi sykranna er enn verið að rannsaka hversu stór ,,hæfilegur“ skammtur getur talist.

Sykrur eru flokkaðar sem matur, ekki sem lyf, en þó að uppbót með þeim sé almennt álitin örugg og ekki hætta á eiturverkunum er ekki ráðlegt að taka þær án þess að láta lækni vita, sé maður haldinn einhverjum sjúkdómi s.s. blóðsykursójafnvægi, sé ofnæmisgjarn eða ef menn eru á lyfjum s.s. blóðþynningarlyfjum og ýmsum bólgueyðandi lyfjum. Meðan ekki er vitað meira um virkni umræddra sykra telja margir að ekki sé ráðlegt að gefa þær mjög ungum börnum v. hættu á ofnæmisviðbrögðum og það sama á við um ófrískar konur og konur með barn á brjósti. Eins og mörg önnur náttúruleg efni tekur það sykrurnar nokkurn tíma að virka. Flestir finna virkni til bóta á 4-6 vikum en í einhverjum tilfellum geta liðið allt að þremur mánuðum áður en full virkni næst.

Íslenskar lækningarjurtir – sykruforðabúr

Þegar ég fór að lesa um ómissandi sykrurnar og allt það merkilega efni sem til er um þær varð mér fljótlega ljóst að jurtalæknar og grasakonur fyrri tíma hafa lengi vitað að jurtir með mikið innihald þessara sérstöku sykra hafa einstök ónæmishvetjandi áhrif. Þau vissu ekki að efnin væru ómissandi sykrur, heldur þekktu þau jurtirnar og notuðu skv. þeirri reynslu sem forverar þeirra höfðu af þeim í gegnum aldirnar. Í framhaldi af því kom upp í huga minn sú spurning hvort lúpínuseyðið sem svo margir hafa drukkið hérlendis, innihéldi þessar sykrur eða hluta þeirra. Það hefur ekki verið rannsakað sérstaklega en það kæmi mér ekki á óvart að svo væri. Í sumum þeim jurtum sem í seyðinu eru hafa fundist óþekktar sykrur sem voru ekki rannsakaðar nánar á þeim tíma er rannsókn stóð yfir, enda vitneskjan um ómissandi sykrurnar ekki orðin sú sem hún er  í dag.

Flestir þeir sem drukkið hafa seyðið í seinni tíð hafa þjáðst af krabbameini, en áður en það varð svo var seyðið notað af fólki með allskyns mismunandi heilsufarsleg vandamál, allt frá eyrnabólgu og magakveisum í börnum upp í sjálfsónæmissjúkdóma og krabbamein. Hægt er að segja að þar sem seyðið hafi verið rétt notað hafi það allstaðar verið til bóta í mörgum tilfellum hurfu einkenni algerlega eftir einhvern tíma og á það bæði við um minniháttar sem meiriháttar kvilla. Innihald seyðisins er lúpínurót, hvannir, njóli og litunarmosi. Lækningarmáttur hvanna er vel þekktur og hefur m.a. verið skrifað töluvert um það efni í þetta blað, landgræðslustjóri hefur kallað lúpínuna ,,ginseng norðursins“, litunarmosi

er þekktur m.a. fyrir bakteríudrepandi áhrif en merkilegt nokk þá bannar Lyfjastofnun notkun á njóla í heilsubótarskini hérlendis þó hann sé þekkt lækningarjurt langt aftur í aldir. Það er vissa mín að hérlendis vaxi margar lækningarjurtir sem innihalda ómissandi sykrurnar átta.  Lúpína, njóli og hvönn sem í dag eru af mörgum álitin illgresi gætu í ljósi þess sem að framan hefur verið skrifað, innihaldið mikið magn þessara verðmætu efna. Vegna þess hversu auðvelt er að rækta þau væri slík ræktun afar áhugaverur kostur fyrir bændur og aðra landeigendur án þess að miklu þyrfti að kosta til. Ef hægt er að finna leiðir til að vinna efnin og markaðssetja sem heilsuvöru líkt og Saga Medica er þegar farin að gera með góðum árangri opnast nýir möguleikar og markaðir fyrir okkar einstöku afurðir!

Við eigum leik!
Miðað við þann gríðarlega áhuga sem sykrunum er sýndur í dag er þarna kominn nýr vaxtarbroddur innan læknavísindanna sem verðugt er fyrir íslenska vísindamenn að skoða nánar. Sykrulíffræði (Glycobiology) er nýtt og spennandi fag innan læknisfræðinnar sem mikill uppgangur er í. Þegar sá sannleikur sem upp er að renna fyrir vísindamönnum varðandi ómissandi sykrurnar átta verður orðinn almennur, er viðbúið að notkun á þeim verði með ýmsu móti og að þeim verði m.a. bætt í mat til heilsubótar fyrir þá sem hans neyta – líkt og nú þegar er gert með vítamín og steinefni. Ekki er ólíklegt að það verði jafnvel krafa yfirvalda til að lágmarka þann kostnað sem annars mun sliga heilbrigðiskerfið vegna krónískra sjúkdóma ef ekki verður róttæk breyting til batnaðar frá því sem nú er.

Mikil þörf er því fyrirsjáanleg á hráefni til að anna þeirri eftirspurn og er þá ótalin hráefnisþörf vegna lyfjaframleiðslu úr þessum efnum. Það væri ekki ónýtt fyrir íslenskan landbúnað og efnahagskerfi í heild að njóta góðs af vinnslu og sölu íslenskra lækningajurta til þessara verkefna. Það gæti jafnvel ef rétt er á haldið orðið önnur tegund stóriðju en hingað til hefur verið í umræðunni hérlendis, sakir sérstöðu okkar er kemur að hreinleika, ræktunarskilyrðum og náttúrufari. Til þess að af þessu geti orðið þarf að veita meira fé til rannsókna á íslenskum lækningarjurtum og skoða þær m.t.t. nýtingar á umræddum sykruefnum, þannig að Ísland geti verið í fararbroddi við þróun verðmætra fæðubótar- ofl. heilsubótarefna í framtíðinni.

Heimildir: Sugars That Heal – The New Healing Science of GLYCONUTRIENTS; höf.Emil I.Mondoa M.D og Mindy Kitei. Miracle Sugars – The New Missing Nutrients, höf. Rita Elins, M.H. Miracle Sugars – The Glyconutrient Link to Disease Prevention and Improved Health – Groundbreaking Information on the Eight Essential Sugars; höf. Rita Elkins, M.H. Townsend Letter, Oct.2005, Rationale for Creating the First „Un-Cereal“ höf. Dr.Randy Wysong, bls. 60-64,

http://www.evenbetterhealth.com/glyconutrients.html http:www.als-options.com/glyconutrients.html
http://www.glycoscience.com/glycoscience/start_frames. wm?FILENAME=C012 Mynd: http://www.ideacenter.org/contentmgr/showdetails.php/id/838

Höf: Sigríður Ævarsdóttir árið 2007



Flokkar:Næring

%d bloggers like this: