Töfri, jurtaseyði Kolfinnu

Það vakti forvitni blaðamanns Heilsuhringsins á ferð um Norðfjörð árið 200 er á vegi varð kona við jurtatínslu. Er betur var að gáð kom í ljós að þetta var Kolfinna Þorfinnsdóttir kennari, sem er búin að vera áskrifandi Heilsuhringsins nánast frá upphafi útgáfu hans. Hún hefur frá barnæsku haft dálæti á jurtum og smakkaði gjarnan á þeim er hún var barn í sveitavist á Fljótsdalshéraði. Þar heyrði hún líka fyrst um heilsufarsleg áhrif jurta. Kolfinna hefur gengt íþróttakennslu og almennri kennslu í 30 ár og verið bóndi í 16 ár.

Kolfinna lærði Bowen meðferð fyrir þremur árum og vinnur nú við það ásamt því að aðstoða eiginmann sinn við rekstur verslunarinnar Nesbakka í Neskaupstað. Kolfinna tók vel umleitan blaðsins um viðtal og fær hún nú orðið:

Jurtaseyðið Töfri
Það eru um það bil 18 ár síðan ég byrjaði að sjóða seyði af fjallagrösum og gefa fjölskyldu og vinum þegar þörf krafði. Síðan fór ég að þreifa mig áfram með fleiri jurtir og nú eru aðaljurtirnar í seyðinu mínu: Fjallagrös, vallhumall, birki, blóðberg og ætihvönn. Smám saman fréttist út fyrir fjölskylduna áhrifamáttur seyðisins því að komið hefur fram að það er: ónæmisstyrkjandi, blóðhreinsandi og blóðþrýstingslækkandi, slímlosandi, örvar meltingu og hægðir. Sem dæmi um áhrif seyðisins á ónæmiskerfið má segja frá konu sem fékk slæma lungnabólgu fyrir 60 árum og uppskar eftir það veikt ónæmiskerfi sem olli lungnakvefi oft á ári. Í kjölfar þess fylgdi sífelld sýklalyfja inntaka sem í svip læknaði kvefið en fór illa með magann. Þessi kona er búin að taka Töfra inn í tvö ár og hefur aðeins einu sinni fengið kvef í lungu á þeim tíma.

Blóðhreinsandi og slímlosandi eiginleiki Töfra kom fram þegar ung kona með þrálátan hósta tók seyðið inn. Eftir tvær vikur kom hún að máli við mig, þá var hóstinn horfinn og hún spurði hvort það gæti verið að inntaka seyðisins hefði losað um tíðateppu sem þjáð hafði hana lengi. Í kjölfar inntökunnar höfðu blæðingar farið af stað og mikil úthreinsun fylgt þeim. Næstu sex mánuði tók hún Töfra inn í nokkra daga fyrir blæðingar. Síðan á hún ekki við þennan vanda að stríða. Um þessar mundir eru tvö börn sem taka inn seyðið af og til gegn magaverkjum og hefur það dregið úr verkjunum.

Smyrsl úr vallhumli
Fyrir um það bil átta árum var ég svo heppin að fá að læra hjá fullorðinni konu að búa til smyrsl úr vallhumli og jurtafeiti. Það reynist mjög græðandi, sem kom sér afar vel þegar ég varð fyrir annars stigs bruna í öðrum lófanum fyrir tveimur árum. Eftir að hafa fengið kælandi gel á sjúkrahúsinu til að slá á mesta sársaukann bar ég kremið mitt á. Ég hélt sárunum alltaf rökum með kreminu og þau gréru á tveimur vikum. Kolfinna réttir lófann að blaðamanni sem sér engin ör, en á úlnliðnum eru tvö örsmá ör sem hún segir hafa komið í sama slysi. ,,Brunablettirnir hér voru svo litlir að ég hirti ekki um að bera smyrslið á þá. Á samanburði á lófanum og þessu má glöggt sjá gróðurmátt smyrslisins, útskýrir Kolfinna.

Bowen tækni hjálpaði gegn ofvirkni
Árið 1993 las ég grein um Bowen tækni í Heilsuhringnum sem varð til þess að ég dreif mig suður til að læra þá meðferð. Bowen tækni er sársaukalaus, aðallega gerð með fingrunum. Hún örvar taugaboð líkamans og auðveldar honum að lækna sig sjálfur. Fljótlega eftir að ég fór að meðhöndla fólk með Bowen kom í ljós að það er mjög áhrifarík meðferð.

Þó kom mér á óvart áhrif Bowen á ofvirkni þegar komið var með 7 ára dreng til mín, sem búinn var að taka inn Rítalín þrisvar á dag í nokkurn tíma vegna ofvirkni og örðugleika í skóla. Eftir fjögur skipti í Bowen (einu sinni í viku) var hætt að gefa honum lyfið því að hegðan hans breyttist og skólagangan gekk vel um veturinn. Um vorið sló í bakseglin þá lét kennarinn foreldrana vita og komið var aftur tvisvar sinnum með barnið til mín í Bowen. Eftir það breyttist hegðun hans aftur í betra horf.

Meðan ég var að læra Bowen kom til mín maður með ,,frosnar axlir“. Hann gat ekki lyft handleggjum upp nema e.t.v. beint út. Hafði slæma verki, svaf illa og stóð til að hann færi í skurðaðgerð með báðar axlir. Eftir þrjú skipti gat hann lyft handleggjum beint upp og var verkjalaus. Hann hefur komið til mín einu sinni til tvisvar á ári þessi þrjú ár sem liðin eru síðan og hefur haldist góður. Reynsla mín er sú að auk þess sem áður er nefnt reynist Bowen vel gegn mjaðmaverkjum, mígreni, svefntruflunum, streitu, tennisolnboga, liðverkjum, ungbarnakveisu o.fl. Heilsuhringurinn þakkar Kolfinnu fyrir spjallið.

Viðtalið skrifað árið 2006  – I.S.Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir

%d bloggers like this: