Astmi og eðlileg öndun

Við lifum á upplýsingaöld. Daglega hellast yfir okkur nýjar upplýsingar, sem oft eru misvísandi. Sérfræðingum ber ekki saman um hvað sé hollt fyrir okkur og hvað óhollt. Stundum kemur ný vitneskja í stað gamals sannleika, sem ekki hafði hvarflað að okkur að draga í efa. Það sem einn hópur vísindamanna sannar að sé hollt, er stundum síðar afsannað af öðrum hópi vísindamanna. Það er því ákaflega mikilvægt að fólk noti sína heilbrigðu skynsemi en treysti því ekki blint að aðrir hafi vit fyrir því. Í dag eru velmegunarsjúkdómar ein helsta ógnin við heilsu okkar. Við erum smám saman að átta okkur á því að við erum það sem við borðum. Mælt er með því að við drekkum a.m.k. 1 lítra af vatni á dag, að við öndum djúpt og mikið og hreyfum okkur reglulega. Mikil áhersla er lögð á að við lærum að bera ábyrgð á eigin heilsu og lifum heilsusamlegu lífi.

Ég var illa haldin af astma og hafði ofnæmi fyrir köttum og heyi. Hafði því verið í sterameðferðum og var orðin háð innöndunarlyfjum. Mér tókst að losna við astmann með því að fá aukið innsæi í ,,sjúkdóminn“, með því að skilja orsök hans og hvernig öndunin hefur áhrif á líkamann. Einnig með því að vera nógu ákveðin í að fá bata. Í heimalandi mínu, Hollandi, komst ég í samband við rússneska konu, Masha Kotousova, sem skrifaði bók á hollensku um ,,Buteyko-aðferðina“. Á íslensku gæti bókin heitið ,,Lifið heil, andið rólega“.

Buteyko-aðferðin byggir á niðurstöðum umfangsmikilla vísindarannsókna sem rússneskur læknir, prófessor Konstantin Pavlovich Buteyko, gerði á 40 ára tímabili. Í Rússlandi var aðferðin viðurkennd af heilbrigðisráðuneytinu árið 1985. Masha kenndi mér aðferðina. Virknin lét ekki á sér standa. Innan viku gat ég hætt notkun berkjuvíkkandi innöndunarlyfja (oxis og ventolin).

Okkur hefur verið sagt að best sé að anda djúpt til þess að sjá líkamanum fyrir nægu súrefni. Því meiri og dýpri sem öndunin er, því betra! En er þetta rétt?
 Vitað er að kæfisvefn veldur mikilli líkamlegri vanlíðan og hefur veikindi í för með sér. En það gerir oföndun (hyperventilation) einnig. Öndunin er lífsnauðsynleg fyrir starfsemi líkamans, og andardrátturinn er mjög næmur fyrir áreiti. Þessu til skýringar má nefna að við getum aðeins verið án þess að anda í 2-3 mínútur. Til samanburðar má nefna að við getum verið án drykkjar í 3 daga en án matar í 3 vikur! Við öndunina eiga sér stað loftskipti milli frumna líkamans og umhverfisins. Öndunarferlinu má skipta í þrjá hluta.

1. Eiginleg öndun. Hún er að hluta til hreyfiferli (mekanísk). Lungun fyllast af súrefnisríku, fersku lofti (innöndun) og tæmast af notuðu, koltvísýringsríku lofti (útöndun).
2. Flutningur lofts með blóði. Með blóðinu flyst súrefnið bundið hemóglóbíni til frumnanna. Hemóglóbíni má e.t.v. líkja við hjólbörur í þessusambandi.
3. Vefjaöndun. Þetta er sá hluti ferlisins þegar súrefnið flyst úr blóðinu yfir í frumurnar og koltvíoxíð úr frumunum yfir í blóðið. Koltvíoxíðið flyst síðan með blóðinu til lungnanna.

Öndunarferlið í heild sinni hefur það hlutverk að viðhalda eðlilegu magni af súrefni og koltvíoxíði í frumunum og þar með líffærum líkamans. Koltvíoxíð (CO2) er samsett af kolefnis- og súr- efnissameindum. Frá jarðfræðilegu sjónarmiði er kolefni eldra efni en súrefni, sem kom seinna til sögunnar í þróun lífsins. Þetta endurspeglast í þroskaferli ófædds barns, en í blóði þess er fremur lítið súrefni, en mun meira af koltvíoxíði. Þetta kann að útskýra þær niðurstöður prófessors Buteykos að við stjórnun efnaskipta öndunar gegnir koltvíoxíð mikilvægara hlutverki en súrefni.

Bakgrunnur aðferðarinnar í hnotskurn:
Helsta niðurstaða vísindarannsókna prófessors Buteykos er sú að koltvíoxíðskortur í lungnablöðrum (alveoli) sé orsök margra sjúkdóma. Koltvíoxíðskorturinn kemur til vegna of mikillar, djúprar (út)öndunar og veldur röskun á efnaskiptum og starfsemi ónæmiskerfisins. Til að vinna á móti þessari röskun gerir líkaminn ráðstafanir til að tryggja líkamanum nægt koltvíoxíð, og astmi er mjög áþreifanlegt dæmi um slík verndarviðbrögð.

Kenning prófessors Buteykos:
Koltvíoxíð myndast í frumunum við brennslu á súrefni og næringarefnum. Koltvíoxíð er ekki eitur heldur lífsnauðsynlegt efni, sem stjórnar efnaskiptum. Til að öndunarefnaskiptin fari eðlilega fram, þarf að vera ákveðið magn af koltvíoxíði í líkamanum. Súrefni gefur okkur orku en koltvíoxíð gegnir hlutverki við stjórnun efnaskipta. Djúp öndun er skaðleg, því þá skilst of mikið af koltvíoxíði út og skortur verður á því í líkamanum. Djúp öndun hefur áhrif á sýru-basa-jafnvægi líkamans. Breyting á sýrustigi (pH) veldur röskun á starfsemi ensíma og vítamína. Djúp öndun hefur einnig áhrif á jónajafnvægi blóðsins og við það raskast efnaskiptin. Þetta dregur meðal annars úr mótstöðu líkamans, sem lýsir sér í kvefsækni og ofnæmi. Skortur á koltvíoxíði veldur því að bindingin milli súrefnis og hemóglóbíns (súrefnishjólbaranna) verður sterkari, þannig að súrefnið kemst verr úr blóðinu til frumnanna (svokölluð Bohr-áhrif).

Með öðrum orðum: því dýpra sem við öndum, því minna súrefni nær til líffæra eins og vöðva, heila, hjarta og nýrna. Líkaminn kemst í uppnám. Hann þarf að bregðast við þessu ástandi. Þegar dregið er úr önduninni og hún gerð eðlileg, upphefjast neikvæðu áhrifin af djúpu önduninni og sjúkdómseinkenni hverfa. Eðlileg öndun, sem tryggir lífeðlisfræðilega rétt magn af koltvíoxíði í lungnablöðrunum, gerir líkamanum kleift að viðhalda nægri súrefnisupptöku án þess að líkaminn þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til að sporna gegn koltvíoxíðsmissinum, svo sem að stífla nef, þrengja lungnaberkjur (astmi), þrengja æðar (of hár blóðþrýstingur) eða breyta sýrustigi í líkamanum með breyttri ensím- og vítamínvirkni (ofnæmi). Prof. Buteyko komst sem sagt að þeirri niðurstöðu að það sé mjög óæskilegt að anda mikið

Öndunin er nákvæmt kerfi sem krefst endurnýtingar koltvíoxíðs. Við þurfum á ákveðnu magni af koltvíoxíði að halda til þess að innri öndunin geti verið eðlileg, að súrefnið losni úr blóðinu og komist til frumnanna. Þegar öndunin er of mikil, skilst of mikið af koltvíoxíði út úr líkamanum og þá festist súrefnið í blóðinu og nýtist ekki. Heilinn upplifir súrefnisskort og gerir boð um meiri öndun. Líkaminn bregst einnig við með því að þrengja lungnaberkjur og æðar, og þetta veldur enn meiri loftskorti. Ferlið viðheldur sjálfu sér og vítahringur myndast. Því meira andað, því minna súrefni sem við nýtum.

Astmi til dæmis er því ekkert annað en heilbrigð viðbrögð líkamans við óæskilegum aðstæðum, nefnilega djúpri öndun. Með því að þrengja lungnaberkjurnar er líkaminn að segja okkur að anda minna og astmasjúklingar eiga að anda minna! Astmi er því ekkert annað er heilbrigð viðbrögð líkamans við óæskilegum aðstæðum, nefnilega djúpri öndun Mín fyrstu viðbrögð við þessari kenningu voru þau að hún hlyti að vera röng. Maðurinn gat varla verið með réttu ráði. Erum við ekki með astma vegna þess að við getum ekki andað nógu mikið? En þegar ég reyndi að anda dýpra og meira fann ég að astmaeinkennin versnuðu. Ég fékk áhuga á að heyra meira um aðferð Buteykos og næstu spurningar mínar voru þessar:

Hvernig er hægt að anda minna? Er andardrátturinn ekki ósjálfráður? En þar sem hægt er að ákveða að anda djúpt og mikið, hlýtur einnig að vera hægt að einbeita sér að því að anda minna. Oft er sannleikurinn nær manni en maður heldur. Mér fannst þetta of öfugsnúið til að hunsa það! Ég ákvað að prófa aðferðina. Það reyndist auðvelt, og á innan við viku gat ég hætt notkun flestra berkjuvíkkandi lyfja, mér til mikillar undrunar og ánægju!

Að anda rólega er hollt, það veldur ró í líkama og sál
Í íslensku heilbrigðiskerfi er astmi meðhöndlaður á öfugan hátt við það sem Buteyko hefur sýnt fram á að virki. Okkur er alls staðar sagt að best sé að anda mikið. Enn hafa menn ekki áttað sig á tengslunum milli djúprar öndunar og versnandi sjúkdómsástands. Markmið Buteyko-aðferðina er að minnka öndunina meðvitað með því að ná áreynslulausri, óhindraðri öndun. Fólki er kennt að anda smám saman minna og að hreyfa sig í samræmi við andardráttinn. Aðferðin útilokar ekki notkun lyfja, en nýlegar rannsóknir (enskar, ástralskar og rússneskar) sýna að 90% astmasjúklinga geta hætt notkun berkjuvíkkandi lyfja eftir að hafa stundað Buteykoaðferðina í 6 mánuði. Enn fremur að 50% sjúklinganna geta hætt notkun innöndunarstera. Aðferðin er því ekki einungis gagnleg fyrir sjúklingana sjálfa heldur er hún einnig hagkvæm fyrir þjóðfélagið.

Hvaða þættir ýta undir djúpa öndun?
Það er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk, átti sig á neikvæðum áhrifum djúprar öndunar, og hætti að hvetja fólk til að anda djúpt. Hreyfingarleysi, óhóflegt át, óhófleg streita veldur ósjálfrátt djúpri öndun. Dags daglega er gott að hafa í huga að reyna að lifa lífinu sem mest með lokaðan munn. Stíflað nef hrjáir marga. Buteykoaðferðin losar um stífluna á mjög einfaldan hátt. Ég hef kennt 9 ára dóttur minni að nota aðferðina, og hún svínvirkar.

Hvað er eðlilegur andardráttur?
Eðlileg öndun er öndun sem viðheldur lífeðlisfræðilega réttu magni af koltvíoxíði til að tryggja nægjanlega súrefnisupptöku í frumurnar án þess að líkaminn þurfi að gera sérstakar ráðstafanir. Við vitum að blóðþrýstingur getur verið of hár og of lágur. Sú er einnig reyndin með líkamshita. Við þurfum að átta okkur á því að það er einnig mjög mikilvægt að öndunin sé hvorki of mikil né of lítil, heldur eðlileg. Prófessor Buteyko hefur þróað einfalda aðferð til að mæla öndun, svokallaða ,,control pause“ aðferð (CP), sem allir geta nýtt sér hvenær sem er og hvar sem er. Sá sem mælir öndun situr kyrr með lokaðan munn. Hann andar létt frá sér, heldur síðan fyrir nefið með tveim fingrum og tekur tímann. Við fyrstu tilfinningu um loftskort, sleppir hann taki af nefinu og skráir tímann. Ef hann þarf ekki að anda djúpt eftir mælinguna, hefur hann mælt rétt. Ef CP er 60 sekúndur telst öndunin eðlileg og öndunarefnaskiptin óhindruð. Flestum finnst þetta ótrúlega há tala. Segjum svo að mælingin sýni hins vegar 15 sek.

Eðlileg öndun er 60 sek. 60 deilt með 15 er 4. Það þýðir að með hverri innöndun er andað 4 sinnum meira lofti en eðlilegt er. Ef mælingin sýnir 20 sek er andað fyrir 3 menn í einu. Buteyko gerði slíkar mælingar á þúsundum manna í Rússlandi á árunum 1960 og 1980. Það kom í ljós að meðal CP var um 30 sek árið 1960, en var orðið 20 sek árið 1980. Þetta bendir til þess að fólk sé farið að anda oftar og dýpra en áður. Aðferðina þarf að læra hjá sérhæfðum Buteykoþjálfara. Hana geta allir þeir lært sem eru 3ja ára eða eldri og hafa góða geðheilsu.

Eins og ég nefndi hér á undan var ég illa haldin af astma og ofnæmi. Einkennin voru auk astmans slæm útbrot, bólgin augu, mikil þreyta og pirringur. Ég hélt einkennunum niðri með lyfjum. Núnahef ég náð „eðlilegri öndun“ samkvæmt mælingum prófessors Buteykos. Þetta hefur gjörbreytt lífi mínu. Ég er laus við astmann og ofnæmið og öll  lyfin sem ég tók við þessu. Kvef hef ég ekki fengið síðan ég losnaði við astmann eða í þrjú ár. Ég hef miklu meiri orku en áður og afkasta mun meiru. Fjölskyldan er aftur búin að eignast kött og hest, og ég finn ekki fyrir óþægindum.

Auk Rússlands hafa kenningar Buteykos nú einnig verið viðurkenndar í Úkraínu, Ísrael, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Bretlandi, Hollandi og Ameríku. Í öllum þessum löndum er Buteyko-aðferðin notuð með góðum árangri. Breska heilbrigðiskerfið hyggst birta kenningar Buteykos í viðmiðunarreglum sem gefnar eru út um meðferð fyrir astmasjúklinga ( British guideline on the management of asthma) Hundruð þúsunda manna hafa læknast af astma með notkun Buteyko-aðferðarinnar.

Eins og svo margt gott í lífinu er Buteyko-aðferðin mjög einföld. Hún krefst þess þó að við breytum viðhorfi okkar. Í stað þess „að anda djúpt“ þurfum við ,,að anda minna“. Áhrif Buteyko-aðferðarinnar á astmeinkenni eru fljótvirk og áþreifanleg. Prófessor Buteyko telur að 150 aðra velferðasjúkdóma megi einnig rekja til oföndunar. Hægt er að fræðast meira um Buteyko-aðferðina á vefsíðuna http://members.westnet.com.au/pkolb/buteyko.htm Lifið heil, andið rólega (an het einde!)

Monique van Oosten sjúkraþjálfari og Buteyko-kennari.  Greinin er skrifuð árið 2006.

Monique van Oosten heldur námskeið um þessa aðferð og geta áhugasamir haft samband við hana í síma 8998456 eða í gegnum tölvupóst: monique.v.oosten@gmail.com



Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir

%d bloggers like this: