Dýr meðhöndluð með hómópatíu

Rætt við Ingu Björk Gunnarsdóttur hómópata og hundaræktanda á Sperðli í Landeyjum.  (Árið 2006)

Það var margt sem heillaði Ingu Björk að læra að loknu stúdentsprófi t.d. sálfræði, geðlækningar eða kennaranám, en vegna heimilisaðstæðna ákvað hún að láta frekara nám bíða betri tíma. Ákveðin atvik urðu svo til þess að hún fékk mikinn áhuga á að læra hómópatíu.

Hver er sagan á bak við áhuga þinn á hómópatíu?
Ástæðan fyrir því er nátengd áhuga mínum á hundum. Árið 1995 gaut tíkin mín, Hera, 6 hvolpum og einn tíkarhvolpurinn hætti að vilja nærast nokkurra daga gamall. Þrátt fyrir pelagjöf var hún að veslast upp. Mér var bent á að tala við hómópata, Dagnýju Einarsdóttur, og fá remedíur handa litla krílinu. Hún varð strax öflugri og fór að sjúga mömmu sína og varð stór og myndarleg tík sem hlaut nafnið Líf. Seinna veiktist Hera af einhverjum óskilgreindum sjúkdómi og þrátt fyrir ítrekaðar heimsóknir til dýralækna var ekkert hægt að gera til að lækna hana.

Hún var lömuð af aftan, vildi lítið borða og fékk hita öðru hvoru. Þá datt mér loksins í hug að prufa aftur remedíur. Talaði aftur við Dagnýju og fékk hjá henni viðeigandi remedíur. Nokkrum mínútum eftir fyrstu remedíu gjöfina dró hún sig á rassinum úr bælinu sínu til okkar inn í eldhús. Það var ótrúlegt að sjá lífsviljan kvikna með þessum hætti. Ekki var hægt að bjarga Heru, en remedíurnar juku lífsgæði og kraft þann tíma sem hún átti eftir ólifaðan. Frá og með þessu andartaki fékk ég óbilandi trú og áhuga á þessum fræðum og tók því tækifærinu fagnandi þegar ég frétti af því að nýtt skólaár væri að byrja hjá The College of Practical Homoeopathy og lauk þaðan fjögurra ára námi árið 2002.

Getur þú lýst áhrifum hómópatíu á dýr?
Þegar dýr eru meðhöndluð með hómópatíu eru sömu grundvallarreglur í gildi og fyrir fólk. Það þarf að skoða einkennin sem dýrið sýnir og í framhaldi af því að ákveða remedíu og styrk hennar. Sömu remedíur virka fyrir menn og dýr. Það sem gerir það svo skemmtilegt að meðhöndla dýr er það hversu falslaus þau eru, ef árangur er af meðferðinni þá sést strax eða fljótlega breyting á þeim. Meðhöndlun dýra með hómópatíu er besti vitnisburðurinn um að hún virkar! Margir sem ekki hafa mikla trú á óhefðbundnum lækningum halda því fram að fólk læknist af remedíum af því að það ,,trúir að þær geri gagn“. Meðhöndlun dýra afsannar þessa kenningu, dýrin trúa ekki á neitt, en sýna viðbrögð strax og þeim líður betur.

Hver er árangurinn?
Árangur með remedíum getur verið margskonar, hundur getur sýnt einhverja skapgerðarbresti sem hugsanlega væri hægt að laga með remedíum. Hræðslu er hægt að eyða með remedíum, t.d. hræðslu við flugelda, það er hægt að auka móðureðli hjá tíkum sem ekki sýna hvolpunum sínum þá ást og athygli sem þær ættu að gera. Langvarandi notkun remedía getur jafnvel komið í veg fyrir notkun verkjalyfja. Ég vil taka það skýrt fram að heilbrigð skynsemi verður alltaf að vera í fyrirrúmi, fólk verður að átta sig á því hvenær það getur gert eitthvað sjálft og hvenær þarf að kalla til dýralækni eða annað fagfólk.

Áttu einhverja skemmtilega sögu um áhrifamikinn árangur?
Frá því að ég fékk áhuga á hómópatíu hef ég alltaf haft remedíurnar Carbo Veg, Arnicu og Recovery Remedy (blómadropa) við höndina þegar ég er að taka á móti hvolpum. Carbo Veg hefur oft hjálpað til við að koma lífi í lífvana hvolpa og hvolpa sem eru lengi að ná upp líkamshita. Í þessu tilfelli sem ég ætla að segja frá virkaði hún hins vegar ekki. Ég var að taka á móti cocker hvolpum og einn hvolpurinn andaði ekki og var líflaus með öllu. Ég gerði það sem á að gera í tilvikum sem þessu, þ.e. að ná upp úr honum vökva og nudda til að örva hann.

Hann byrjaði af og til að taka andköf, en andaði ekki á milli þeirra, hann var helblár og sýndi lítil viðbrögð. Þrátt fyrir allt sem ég reyndi, nudd, remedíur, blómadropa og að hreinsa vökvann úr lungunum varð hann ekkert lífvænlegri, blánaði meira og meira og ég sá það að ef ekki kæmi til kraftaverk myndi hann deyja. Þar sem það hafði verið talsverður vökvi ofan í honum datt mér í hug remedía sem er notuð til að hreinsa slím og vökva úr lungum sem heitir Ant Tart hún er notuð fyrir fólk eftir að hafa verið bjargað frá drukknun. Ég bað manninn minn að ná í Ant Tart í remedíuskápinn og við gáfum hvolpinum nokkra dropa af vatni sem ég hafði leyst remedíuna upp í. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.

Örfáum sekúndum seinna var hann farinn að anda, tók reyndar enn andköf en andaði greinilega á milli þeirra. Andköfin hættu síðan og hann andaði reglulega og það fór að færast yfir hann dásamlegur bleikur litur í stað þess bláa. Ég gladdist vitaskuld mikið yfir þessu kraftaverki en enn meira gladdist ég við að sjá svipinn á manninum mínum. Hann hafði fram að þessu tekið þessum fræðum með fyrirvara, en þarna sá hann hversu áhrifarík hómóptatían getur verið og hann hefur haft fulla trú á henni síðan. Ég tel að hvolpurinn hafi verið, þrátt fyrir að vatnið hafið verið farið úr lungunum, fastur í „drukknunarástandi“, remedían ýtti honum úr þessu ástandi og við tók lífið.

Á meðferð þín betur við eina dýrategund en aðra?
Nei, hómóptía virkar á öll dýr, ég hef samt eingöngu reynslu af að meðhöndla hunda, hesta og ketti.

Eru fólgnar fleiri aðferðir en hómópatía í meðhöndlun þinni á dýrum?
Ég er að ljúka námi í ilmolíufræðum (aromatherapy) og vegna áhuga míns á dýrum hef ég verið að kynna mér hvernig hægt er að nota ilmolíur á dýr. Nálgunin er aðeins öðruvísi en þegar remedíur eru notaðar. Ilmolíur eru öflugar og virka vel sem fyrirbyggjandi og læknandi á allskyns sýkingar, s.s. í eyrum og sveppasýkingar á loppum. Það væri efni í aðra grein að fjalla um notkun þeirra. En það er eins með olíurnar og remedíurnar, það þarf alltaf að vera vel vakandi fyrir því hvenær rétt er að snúa sér til dýralækna. Inga Björk rekur heildræna meðferðastofu í Hvolsvelli. Þar nota hún hómópatíu, ilmolíufræði nudd og reiki heilun. Netfangið hennar er: sperdill@emax.is

I.S.Flokkar:Annað, Ýmislegt

%d bloggers like this: