Í bak og fyrir

Rætt við Ágúst Berg Kárason osteópata og náttúrulækni á Dalvík árið 2006

Svo vildi til í ágúst 2006 að mér gafst tækifæri til að heimsækja Fiskidaga á Dalvík. Það var ,,einstök upplifun“. Fyrir utan höfðinglegar veitingar sem fólust í gómsætum fiskisúpur og alslags sjóðheitum fiskréttum þ.á.m. ómótstæðilegum fiskborgurum. Viðmót heimamanna var einstaklega alúðlegt og tók Ágúst Bergur því vel þegar ég óskaði eftir viðtali við hann, þrátt fyrirannríki hátíðahaldanna.

Snemma beygðist krókurinn
Níu ára gamall var Ágúst Bergur staðráðinn í að verða læknir. Í lok menntaskólanáms var hann hvattur til þess að fara á námskeið í svæðameðferð, sem hann gerði og frestaði svo háskólanámi haustið eftir til þess að stunda almennt nuddnám í tvö ár. Þar á eftir flutti hann til Dalvíkur þar sem hann rak nuddstofu næstu tvö árin og fróðleiksfíkn hans jókst stöðugt þessi árin. Samtímis lagði hann stund á nám í höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun. Árið 1996 dreif hann sig svo til London í háskóla til að læra almennar náttúrlækningar (naturopathy) og osteópatíu.

Löggild heilbrigðisstétt
Osteopatía hefur hlotið löggildingu á Íslandi og tilheyrir nú heilbrigðisstéttum. ,,Osteópatar meðhöndla bæði mjúku og hörðu vefi stoðkerfisins og nota til þess liðlosun, alls kyns nudd- og mjúkvefjameðferð, liðkun og teygjur, auk endurbóta á líkamsstöðum og lífsstíl sjúklings. Osteópatar mega ekki gefa sig út fyrir að vinna með annað en stoðkerfiskvilla þó betri líðan og almenn heilsa líffærakerfisins haldist óhjákvæmilega í hendur við heilbrigðara stoðkerfi. Íslenskt heilbrigðiskerfi eins og önnur, samanstendur af sérgreinum. Sem dæmi má taka að hér eru hjarta-, skurð-, bæklunar-, nýrna-, blóð-, þvagfæra- og geðlæknar o.fl. og enginn má fara inn á annars sérgrein.

Það er skrítið að hugsa til þess að engin ákveðin heilbrigðisstétt virðist sjá um að meðhöndla einstaklinginn í heild sinni nema hugsanlega heimilislæknirinn. Samt er nauðsynlegt að huga að heildinni ef góður árangur á að nást eins og kennt var í náttúrlækninganáminu í The British College of Naturopathy and Osteopathy, sem nú heitir British College of Osteopathic Medicine segir Ágúst Bergur og heldur áfram; „til þess að sigra sjúkdóma og halda heilbrigði þarf jafnvægi sálar og líkama, hollt fæði, rétta hreyfingu, góða hvíld og hæfilegan svefn.“

Orsök svefnleysis í álagstengdum sjúkdómum
Í þjóðfélagi okkar, þar sem magn, afköst og neysla ráða hraðanum er auðvelt að missa jafnvægið í hreyfimynstri, hvíldar- og svefnmynstri, fæðuvali, og stjórn á innra og ytra áreiti. Þannig gengur menningin á adrenalíni og öðrum stresshormónum stóran hluta lífsins, eða vinnuvikunnar, og er svo steinhissa á því af hverju líkaminn fer svo í bólgu og viðgerðarviðbragð þegar kemur að helgi eða sumarfríi. Adrenalínið virkar nefnilega þannig að það beinir blóðrás út í stoðkerfi svo maðurinn geti hreyft sig, og upp í athyglina til þess að hann geti haft sem flesta hluti í höfðinu í einu.

Til einföldunar er hægt að hugsa sér einstakling sem áttar sig á því að það stendur einhver með byssu fyrir aftan hann, þá er um fátt að velja; hugsa, hlaupa og kannski svitna ef maður hefur tíma. Þetta er hægt í takmarkaðan tíma ef einstaklingurinn ætlar að halda lífi þ.e. blóðrás minnkar til innri líffæra og viðgerðarferli liggja niðri og uppbygging ónæmiskerfis er í lágmarki. Þá er eðlilegt að viðgerðarferlið hefjist þegar einstaklingurinn ætlar að slappa af, þ.e. þegar stresshormónin detta niður í kerfinu og líffærastarfssemi færist aftur í eðlilegt horf.

Þetta tekur yfirleitt 2-3 daga í sumarfríinu hjá fólki, og annan eða báða helgidagana í vinnuvikunni ef það er þá ekki bara að vinna yfir helgina líka. Fyrir flest okkar skiptir þetta nú kannski ekki öllu máli til lengdar og er kannski gott og ,,stimulerandi“ lífsmunstur, til þess að geta komið öllu því í verk sem við óskum og til að geta þannig notið lífsins til hins ýtrasta. Hins vegar fyrir þá sem ná ekki að vinna upp hvíldina eftir hverja viku á helginni, eða sumarfríið hættir að endast til að laga það sem aflaga hafði farið í líkamanum yfir árið, þá fara álagseinkennin að hrúgast upp. Fái þau að safnast of lengi saman, er algeng þróun hækkun á blóðþrýstingi, vefjagigt og aukning í einkennum á undirliggjandi sjúkdómum, svo eitthvað sé nefnt. Þannig mætti draga úr þróun eða jafnvel fyrirbyggja marga álagssjúkdóma með einföldum breytingum á lifnaðarháttum, sem virðast samt yfirleitt vera að þróast í rétta átt.

Óhindruð hreyfing, blóðrás og flutningur taugaboða
Osteópatía miðar að því að fá hreyfikerfi líkamans til að starfa óhindrað, svo blóðrás og taugaboð fái að ferðast óhindrað, og líkaminn geti lagað sig sjálfur. Til dæmis fer jafnvel heilt líkamssvæði að starfa betur ef losað er um skekkju á einum hryggjarlið. Þá lagast blóðflæðið í kringum liðinn og þvingun á taugakerfið minnkar. Einn hryggjarliður getur þannig haft áhrif á vöðvaspennu frá baki niður í mjöðm, þaðan niður í hné, áfram niður í ökkla og fram í tá. Sama gildir um líffærin þar sem taugakerfið stýrir líffærahreyfingum, samdrætti og útvíkkun í blóðrás þeirra og fleiru.

Meðferð á staðnum
Talið barst að því að samferðamaður minn væri með ,,frosna öxl“ og þó að klukkan væri orðin hálf tíu bauð Ágúst Bergur manninum að meðhöndla öxlina á stofu sinni er hann nefnir „Í bak og fyrir“ og er staðsett á Heilsugæslustöð Dalvíkur. Þar með voru þjáningar mannsins úr sögunni. Það var því ekki ofsögum sagt í byrjun greinarinnar að viðmót Dalvíkinga er einstakt.

Viðalið skriaði Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 2006



Flokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d