Niðurstöður rannsókna í skugga leiguvísinda

Undanfarin tuttugu ár eða svo hefur undirritaður fylgst með því, með vaxandi áhyggjum, hversu gáleysislega er tilkynnt opinberlega um niðurstöður hvers kyns vísindarannsókna, sem almenningur síðan dregur sínar niðurstöður af. Þetta á ekki hvað síst við um hvers konar læknisfræði- eða heilsufarsniðurstöður, þ.e. upplýsingar, sem geta haft afgerandi áhrif á heilsufar einstaklinga í alvarlegum aðstæðum, þegar svara og viðbragða skal leita við uppákomandi veikindum.

Í þessu samhengi eru það þrír til fjórir hagsmunahópar sem við sögu koma: Fjölmiðlar og vísindamenn eða vísindastofnanir annars vegar og svo fyrirtæki sem framleiða og þróa lyf og lækningatæki, oft studd af viðkomandi ríkisbákni, hins vegar. Af þessum eru, eins og flestir vita, tveir þeir síðastnefndu að verða æ áhrifameiri, ef ekki beinlínis ósvífnari, í krafti peningaumsvifa sinna og lagasetningarmöguleika. Og síðast en ekki síst, vegna æ sterkari innbyrðis hagsmunatengsla þessara tveggja hópa víða um heim.

Þeir vísindamenn, sem hér koma við sögu, eru þá langoftast af þeirri nútímalegu gerð vísindamanna, sem láta tilganginn helga meðalið, ekki síst vegna eigin stundarhagsmuna, fremur en að þeir vilji beinlínis brjóta blað í þekkingu mannkynsins með starfi sínu. Starfssvið þessa sívaxandi hóps vísindamanna hef ég leyft mér að nefna leiguvísindi, til þess að greina þá frá hinum gamaldags vísindamönnum, sem eru í raun óforbetranlegir hugsjónamenn, en geta ekki annað. Takið vinsamlega eftir því að í mínum augum er ,,hugsjónamaður“ hrósyrði!

Lítum til þess, að það voru þeir síðastnefndu, eða þeirra líkar, sem með óeigingjörnu og oft illa launuðu starfi sínu, vörðuðu leiðina, sem gerði okkur öllum að lokum kleyft að geta talið okkur, auk ýmissa vestrænna landa, í hópi siðmenntaðra þjóða. Þáttur fjölmiðlanna hér er dæmigerður fyrir þá þróun þeirra, sem nú stendur yfir, þ.e. að þeir eru að færast æ lengra í átt gagnrýnislausrar sjálfsafgreiðslu á því, hvað er umfjöllunarhæft efni og hvað ekki.

Þannig er t.d. allt sem byrjað getur á setningunni:
,,Vísindamenn hafa nýlega uppgötvað“, augljóslega hundrað prósent birtingarhæft og áríðandi. En um leið er mjög margt annað, sem gæti skipt sköpum fyrir tilveru okkar allra á reikistjörnunni Jörð, ekki talið prenthæft. Stundum vegna þess, að stórþjóðirnar hafa af lítilli skynsemi skrúfað tímabundið fyrir nokkur stór meginmálefniaf ýmsum ástæðum, og fréttamenn smáþjóða eru háðir fréttamiðstöðvum þeirra. En oftast er þetta millibiIsástand fjölmiðla þó án efa tilkomið vegna þess, að meðferðarfræði frétta á tímum kaldastríðssins, þar sem afflutningur staðreynda eða ,,desinformation“ var hluti af vopnabúnaði stríðsaðilanna, mótaði það sem fylgdi í kjölfarið.

Og nú er of seint að greina það, hvar lygin byrjaði, enda gildir enn sú regla að með því að endurtaka lygina nógu oft verður hún viðtekin sem „sannleikur“. Hvað sem því líður, geta þeir sem vinna við fréttaflutning dagsins í dag, ávallt borið fyrir sig offramboði á fréttum og þá um leið sérþekkingu sína á því „hvað fólk vill vita“ vegna vals síns á fréttum til opinberrar birtingar. Það er mun lengra mál allt saman en svo, að það sé pláss fyrir það hér í ritinu.En tilefnið til þess að minnast enn einu sinni á þetta málefni, eru fréttirnar frá Seul í Suður-Kóreu nú í enda árs 2005.

Það kemur sem sé í ljós að „óskabarn þjóðarinnar þar á vísindasviðinu“, Hwang Woo Suk, falsaði mjög „merkilegar“ niðurstöður á sviði erfðafræðirannsókna, enda þótt honum tækist að vísu að klóna hund. Þessar rannsóknir höfðu þá verið studdar af suður-kóreönsku ríkisvaldi með gífurlegum peningaupphæðum og miklu auglýsingaskrumi. Hwang Woo Suk hafði að sögn, m.a. lofað því sem lokamarkmiði sínu að lækna hvers kyns sjúkdóma með því að taka erfðasýni sjúklinganna og sérhanna lausn fyrir hvern og einn.

Í tilefni þessara endaloka Hwang Woo Suk og vísindaskilnings hans, hafa nú nokkrir vísindasögurannsakendur fengið orðið í dagblöðum. Það á m.a. við með lífeðlisfræðinginn Hans-Hermann Dubben frá Hamborg. sem rætt er við í Berlínarblaðinu Tagesspiegle þann 15.01.2006. Hann hefur ásamt öðrum vísindamanni helgað sig því verkefni að leita uppi misskilning og vitleysur í vísindarannsóknum almennt og hefur ritað bók um þetta málefni, enda af nógu að taka, sérstaklega í seinni tíð. Í því sambandi hefur hann ásamt fleirum einnig sett á fót námskeið í aðferðafræði rannsókna við háskólaklínik Hamborgar bæði fyrir vísindamenn og blaðamenn.

 Hann bendir og á það, að eigi vísindin, sem kerfi til öflunar vitneskju að bera árangur, þá þurfi vísindamenn aftur meira olnbogarými, en nú er raunin, til þess að þurfa ekki að aðlaga sig svo mjög að þeim margumtöluðu markaðslögmálum. En af hverju námskeið fyrir blaðamenn? Jú, segir hann, það er vegna þess, að þeir verði að geta dæmt um réttmæti þess, sem þeir velja að birta.

Í því sambandi bendir Dubben m.a. á þá merkilegu, en röngu fullyrðingu, sem er alls staðar á ferðinni í fjölmiðlum um þessar mundir, að þegar ísinn sem flýtur á hafinu yfir Norðurpólnum bráðni þá hækki yfirborð sjávar! Þetta sé tóm vitleysa, enda geti allir sem eiga ísskáp sannfært sig um það heima hjá sér, að klaki sem flýtur á vatni, t.d í vatnsglasi, þrýstir vatninu niður, og þegar hann loks bráðnar er yfirborðið í vatnsglasinu jafnhátt og fyrr. Sem sé, Íslendingar þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af bráðnun pólaríssins í sínu nágrenni! –

Vitaskuld gildi þó ekki það sama um ís, sem liggur á landi, eins og td. Grænlandsjökul, en það er samt meginmunur á þessu tvennu, sem enginn hirðir um að upplýsa fólk um, vill Dubben meina. Og heildarmagn íssins á yfirborði hnattarins, sem gæti valdið hækkun sjávar, er vafalaust annað en tölur segja okkur nú. Það er einkum aðferðafræði talnavísinda (statistíkur) sem er Dubben sérlegur þyrnir í augum. Hún sé kröftuglega misnotuð af vísindamönnum nútímans og hvaða vitleysa sem kemur frá þeim, er birt athugasemdalaust af fjölmiðlum.

Í orðræðu við viðmælanda sinn setur Dubben fram í blaðaviðtalinu aðferðina, sem nú er nær daglega notuð til þess að sanna ágæti, nú eða skaða, ýmissa matvæla, drykkja, læknislyfja, vítamína o.s.frv. Vilji til dæmis einhver sanna ágæti nýs læknislyfs, þá þarf einungis að skoða vel einhver 100 líkamleg atriði hjá sjúklingunum. sem prófa lyfið í tilraun og það verða þá ávallt 5 atriði, sem túlka má sem betri útkomu, en hjá öllum öðrum sambærilegum lyfjum. Þessi fimm atriði eru síðan birt opinberlega, en ekkert minnst á hin níutíu og fimm.

Þar að auki, segir hann, að sé ekki einu sinni víst, að þessi fimm atriði séu réttmæt. heldur gætu eingöngu verið tilkomin vegna tilviljunar innan ramma aðferðafræðinnar sem beitt er. Rétt eins og ef maður kastar rauðum tening upp tíu sinnum og fær fjórum sinnum sex og þar á eftir grænum tening jafnoft og fær 3 sinnum sex. Og maður dregur síðan þá ályktun, að rauður teningur gefi betri árangur en grænn! ,,Fyrrum gerði ég sjálfur þessi sömu mistök“, segir Dubben, „og ég hélt þá, að ástæðan fyrir því að ég náði svona oft góðum árangri væri einfald lega sú, að ég væri svo fjandi góður vísindamaður! En nú get ég hins vegar fullyrt, að 90 prósent allra læknisfræðiniðurstaða eru ónothæfar. Og þá tek ég alls ekki of djúpt í árinni. Sem dæmi um hvað þetta er algengt er t.d. rannsókn sem birt var í alþjóðlega læknisfræðiritinu Lancet. Þar sagði, að Aspirín gæti fækkað hjartaáföll.

En aðferðafræðin, sem leiddi til þessarar fullyrðingar var einfaldlega röng, rétt eins og dæmið með rauða og græna teninginn.“ Dubben bendir einnig á það, að eins og læknisfræðirannsóknir séu nú framkvæmdar, sé það að miklu leyti peningaaustur útí hafsauga – þar á ofan bæling á vaxtarbroddi vísindastéttarinnar og síðast en ekki síst: svik við sjúklingana. Þess vegna þurfi fólk, sem veikist að leita til margra lækna mismunandi sérgreina, til þess að fá rétt svör. Ef svo ólíklega vilji til, að þeir séu allir sammála, þá sé maður á réttri leið. Það er athyglivert í þessu sambandi að benda á rannsókn frá háskólanum í Kaupmannahöfn, framkvæmd af vísindakonunni Bodil Als-Nielsen.

En niðurstöður af lyfjafyrirtækjum er árangurinn 51% jákvæður, en aðeins 16% jákvæður, ef hlutlaus aðili borgar rannsóknina! Hjá Dubben kemur og fram, að læknaritið ,,Journal of the Americal Medical Association“ birti fyrir skömmu niðurstöður ,,rannsóknar“ á líkindum hollustu göngutúra. Þar á meðal var sú fullyrðing, að með því að kona fari út með hundinn sinn í göngutúr þá minnkaði það hættuna á því, að brjóstakrabbameinið, sem læknismeðferð kom í veg fyrir hjá henni taki sig upp að nýju.

Um þetta segir Dubben töluvert kaldhæðnislega að vísu að eina raunverulega samhengið milli fjölda göngutúra og þeirra kvenna, sem lifa lengst eftir meðhöndlun brjóstakrabbameins. Sé vitaskuld það, að þær sem lifa slíkt af, geti hreyft sig meira en hinar sem ekki lifa af! Til þess að sýna enn betur fram á vitleysuna sem fólki er boðið uppá með talnavísindum, segir Dubben einnig frá þeirri stórmerkilegu niðurstöðu, að sköllóttir karlmenn séu ríkastir allra. Skýringin er ekki sú, að menn auðgist af því að raka af sér hárið, heldur einfaldlega að: a) karlmenn þéna meira en konur. b) eftir því sem þeir eldast og missa þá e.t.v. fremur hárið, þéna þeir einnig meira, talnavísindalega séð.

Hér í Þýskalandi er æ oftar að kom í ljós, að „að því er virðist“ mjög efnilegir ungir vísindamenn hafi falsað mikið af fengnum niðurstöðum sínum, meðvitað eða ómeðvitað. Það er t.d. fölsun að sleppa því að geta þeirra niðurstaðna. sem voru neikvæðar við sett markmið rannsakandans, án þess þó að allir geri sér grein fyrir þessu. Einnig eru hér í Þýskalandi dæmi um hitt. að 30-40 ára starf vísindamanns sé allt byggt á fölsunum. Merkileg sýning á fölsunum vísindamanna var haldin í Heidelberg fyrir um það bil ári. Þeir fáu sem fengist hafa til þess að skýra út ástæðuna fyrir þessari óvísindalegu hegðun sinni, kenna þar um m.a. þeim óstjórnlega árangursþrýstingi, sem þeir þurfa að búa við, eftir að hafa fengið eina óvenjulega góða niðurstöðu.

Þá er einnig mjög oft minnst á alls konar gylliboð, sem stórfyrirtæki bjóða uppá. ef hægt er að sýna fram á röð af „góðum“ niðurstöðum. Þá er það næst samkeppnin, sem er orðin gífurleg, ekki síst vegna þess að rannsóknir kosta nú einfaldlega miklu meira en áður fyrr og það fé, sem er til boða, er alls ekki meira en var fyrir t.d. hálfri öld. Í Evrópu er nú t.d. einnig að aukast sú ameríska aðferð, að vísindamenn sem ná inn aukafjármunum frá einkaaðilum til rannsókna á vissum verkefnum, að auki við ríki og háskóla, fái hluta af þeim fjármunum til eigin afnota. Einhver röð niðurstaða hjálpar þar auðvitað til.

Í heild lítur dæmið sem sé illa út fyrir þá, sem hafa komið sér í þá stöðu að treysta blint á heiðarleika vísindamanna og vísindastofnana. Mátuleg gagnrýni á þessa aðila er vitaskuld sjálfsagt mál um það geta flestir verið sammála en þegar mál einstaklings hér að lútandi snýst um eigin sjúkdóm og eina ráðið sýnist vera að leita til sérfræðinga um bata eða a.m.k. einhvers konar bót, þá versnar í því. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að landslög veita venjulega og þrátt fyrir allt, þessum sömu ,,vísindamönnum“ – einnig þeim sem tilheyra leiguvísindageiranum einkarétt á því að ,,lækna“ fólk. Og þá er komið að spurningunni, sem þetta ástand leiðir af sér: Þarf fólk virkilega að leita útfyrir sitt eigið land, þangað sem landslög leyfa fleiri meðferðir. en þær sem eru eyrnamerktar vísindunum, t.d. eins og Kúba – sem er vitaskuld bara eðlileg samkeppni í því skyni að ná bata? Eða er samkeppni bara stundum af hinu góða? Ellegar gefur þessi þróun innan vísindanna tilefni til þess að afmarka sérstök afgirt svæði innan hvers lands fyrir sig – eins konar fríhöfn vísindanna – þar sem læknalög falla út gildi og fólk getur því leitað sér þar fleiri batamöguleika að eigin ósk?

Höfundur: Einar Þorsteinn Ásgeirsson hönnuður lést árið 2015Flokkar:Annað, Ýmislegt

%d