Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð framkvæmd í vatni

Rætt við Ólaf Þór Jónsson
Heilsuhringurinn frétti af því að Ólafur Þór Jónsson sjúkranuddari meðhöndlaði fólk í vatni. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að á síðustu fimm árum hefur Ólafur Þór lokið 8 námskeiðum í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð. Námskeiðin tók hann hjá Upledger stofnuninni á Íslandi Hann er einn af fáum hérlendis sem stundar meðhöndlun í vatni en margir hafa lært þetta meðferðarform. Hann telur meðferð í vatni áhrifaríkari en á nuddbekk þó svo að báðar aðferðir skili góðum árangri. Hann segir að í vatninu fáist meiri mýkt í líkamann og þar stjórni hann hreyfingum sínum algjörlega sjálfur, meðferðaraðilinn fylgir bara hreyfingum himnanna eftir. Meðferðin miðast að því að inngrip meðhöndlarans sé sem allra minnst því að þannig næst mestur árangur. Heilsuhringurinn spurði Ólaf út í þessa meðferð og fræddist um fyrri störf hans.

Unnið úr áföllum
Margt getur valdið hindrun og röskun á starfsemi líkamans svo sem slys, sýkingar, heilahimnubólga, erfið fæðing, vöðvabólgur, tilfinninga-bælingar og ótal margt fleira. Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð miðar að því að losa um höft, og stíflur sem myndast í líkama og sál. Í meðferðinni er unnið með losun um spennu og hindranir í himnukerfi (bandvef) líkamans. Himnurnar umlykja öll líffæri okkar og vefi. Þegar við verðum fyrir áverkum eða tilfinningalegu álagi geta myndast stíflur þ.e. spenna, bólgur eða samgróningar í himnunum.

Við finnum til, ekki bara einungis á staðnum sem áverkinn á sér stað heldur getur sársaukinn komið fram annars staðar í líkamanum vegna þess að strekkt er á himnunum og teygjan verður óeðlileg. Með höfuðbeina og spjaldhryggjarkerfinu er átt við höfuðbeinin, spjaldhrygginn, heila- og mænuhimnurnar, heila- og mænuvökvann og þá vefi sem taka þátt í framleiðslu og frásogi á heila- og mænuvökva. Ef ójafnvægi er á kerfinu hefur það áhrif á starfsemi líkamans.

 Meðferðin byggist á því að jafna himnurnar og losa um spennu í þeim. Framleiðsla heila- og mænuvökva fer fram taktbundið sex til tólf sinnum á mínútu. Þannig myndast sláttur (púls) sem fyrir þá sem læra höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er eins auðfundinn og hjartsláttur. Höfuðbeinin geta hreyfst sjálfstætt á ákveðinn hátt og heilahimnurnar eru teygjanlegar. Hluti meðferðarinnar er nefndur ,,afvinda“ þá fær líkaminn aðstoð við að leysa spennt hreyfimynstur með því að fara í gegn um sama ferli og olli vandanum. Með aðstoðinni fer hann inn í vandann afturábak á þann besta hátt sem hann finnur sjálfur.

Sem dæmi: Ef einhver hefur handleggsbrotnað þá gerir líkaminn sömu hreyfingar og hann varð fyrir við slysið, en nú í öfugri röð. Það hefur komið í ljós að þegar líkami hefur orðið fyrir áverka og er fastur í einhverju mynstri er auðveldast fyrir hann að sleppa þessu hafti í sömu stellingu og hann lenti í þegar hann varð fyrir áverkanum. Þegar afvindan á sér stað hlustar meðhöndlarinn með höndunum á vefinn, styður við og fylgir hreyfingunni eftir. Í vatninu verður þessi ,,afvinda“ nokkuð auðveld og er stundum furðulegt á að horfa. Þegar meðhöndlað er í vatni eru iðulega tveir meðferðaraðilar sem vinna saman með einstaklinginn. Ólafur Þór er svo heppinn að hafa tækifæri til að vinna í vatni með dóttur sinni Freygerði Önnu og miðla henni af reynslu sinni.

Blindur eldhugi
Ólafur Þór varð fyrir slysi þriggja ára gamall og missti þá sjón á öðru auganu, síðan tapaði hann sjón á hinu auganu uppúr tvítugu vegna augnsjúkdóms. Þrátt fyrir það hóf hann nám í nuddi hjá Eðvald Hinrikssyni og starfaði á nuddstofu hans frá árinu 1969 til 1974. Í febrúar 1975 stofnaði hann sína eigin nuddstofu og rekur hana enn í húsi Blindrafélagsins við Hamrahlíð. Ólafur Þór lærði svæðanudd hjá Haraldi Tiis frá Noregi og var meðal fyrstu svæðanuddara hér á landi.

Einnig lærði hann sogæðanudd í Finnlandi. Strax í upphafi hafði hann mikinn áhuga á að efla samstöðu meðal nuddara og bæta menntun þeirra. Hann stóð fyrir stofnun Félags íslenskra nuddara sem í dag heitir Félag íslenskra heilsunuddara. Eitt af fyrstu verkefnum félagsins var að koma á fót meiri bóklegri kennslu og má segja að Nuddskólinn hafi byrjað í stofunni heima hjá honum. Þangað komu bæði nuddnemar og nuddarar til að afla sér meiri þekkingar. Fyrirlesarar voru lífeðlis-fræðingar og læknanemar. Félagið sótti líka fyrirlesara erlendis frá bæði frá Bandaríkjunum og Norðurlöndum.

Út frá þessum litla vísi er Nuddskóli Íslands sprottinn en hann starfar eftir reglugerð frá Menntamálaráðuneytinu og hefur sína lögbundnu námskrá. Bóklega námið fer fram í Menntaskólanum við Ármúla. Nokkrum árum seinna var hann hvatamaður að stofnun Félags íslenskra sjúkranuddara. Á þeim árum voru um 30 manns á landinu sem störfuðu í þeirri grein.

Ólafur Þór hefur alla tíð fylgst vel með nýjum heilsubætandi aðferðum og ætíð stutt við félagasamtök er stuðla að bættri heilsu og betri líðan. Hann er m.a. stofnfélagi í ýmsum félögum það á meðal í Íþróttafélagi fatlaðra, Íþrótta-sambandi fatlaðra, Gigtarfélaginu, Svæðameðferðarfélaginu, Cranio Sacral félaginu, Bandalagi íslenskra græðara og líknarfélaginu Bergmáli. Hann telur mikils virði að meðferðaraðilar séu vel menntaðir og sérhæfi sig í þeim aðferðum sem þeir kjósa að beita hverju sinni svo öruggt sé að viðskiptavinurinn njóti góðs af. Á nuddstofu hans starfar nú auk hans einn sjúkranuddari, en á árum áður voru iðulega hjá honum bæði nuddnemar og stundum fjórir nuddarar hlutastarfi.

Viðtalið skrifað 2006 — I.S



Flokkar:Meðferðir

%d bloggers like this: