Fjölskyldu uppstilling ,,Family Constellation“

Í nóvember árið 2006 gaf Kærleikssetrið, fólki kost á fjölskylduuppstillingu undir umsjón Antons Giesser miðils og heilara frá Þýskalandi og Friðbjargar Óskarsdóttur fræðslumiðils og heilara, sem hefur unnið við heilun, ráðgjöf og kennslu í tugi ára. Anton hefur sérhæft sig í þessari einstöku fjölskyldumeðferð og Friðbjörg notið leiðsagnar hans og þjálfunar. Fjölskylduuppstilling (Familiy Constellation) er kennd heilbrigðisstéttum í Þýskalandi út frá sálfræði og hún er einnig kennd miðlum og andlega sinnuðu fólki. Anton er reyndur miðill og hefur unnið við heilun og fjölskyldu uppstillingu í mörg ár með góðum árangri. Þessi aðferðafræði hefur verið notuð til að leysa erfiðleika í fjölskyldum og mannlegum samskiptum af ýmsum toga.

Röskun orkuflæðis
Þegar upp koma erfiðleikar, áföll eða missir í fjölskyldum raskast oft orkuflæðið innan fjölskyldna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Fjölskyldu uppstilling fellst í því að finna út í hverju röskunin felst og feta sig í gegn um ferlið til að koma orkuflæðinu í lag svo jafnvægi komist á að nýju, til þess að breyting verði á samskiptum innan fjölskyldunnar. Hver fjölskyldumeðlimur á sitt sæti í orkuflæðinu og ef þeirri stöðu er raskað kemur ójafnvægi. Við þekkjum hvað gerist m.a. í fjölskyldum alkóhólista þar sem fjölskyldumeðlimir ganga í mismunandi hlutverk, t.a.m. þegar börn taka á sig ábyrgð sem foreldrarnir eiga að bera.

Slíkt veldur ójafnvægi í orkuflæði fjölskyldunnar. Hver kannast ekki við fjölskyldur þar sem samskipti ganga ekki eins og æskilegast væri? Hver þekkir ekki einhvern sem finnst hann ekki passa inn í fjölskyldu sína, af því að hann nýtur sín ekki í nálægð hennar? Og hvað ætli séu margar fjölskyldur þar sem einn meðlimur hennar ,,stjórnar öllu og hinir læðast um eins og mýs undir fjalaketti“? Tökum dæmi um einstakling sem finnur sig ekki í fjölskyldunni sinni og er í ofanálag með lága og eða brotna sjálfsmynd. Í slíku sálarástandi eru sumir stóran hluta af lífi sínu að leita að jafnvægi og að finna út hverjir þeir eru í raun og veru.

Ef mikið andlegt áfall býr djúpt innra með okkur getur það orsakað að við missum sjálfsstjórn, án þess að við skiljum ástæðuna. T.d. ef barn verður fyrir einhverju voðalegu í frumbernsku sem fellur í gleymsku með aldrinum. Þá geta seinna á ævinni komið upp tilfinningar sem manneskjan skilur ekki sjálf. Því að við getum ekki losað okkur við tilfinningar sem við vitum ekki af hverjar eru sprottnar. Ef eitthvað endurtekur sig hvað eftir annað sem raskar lífi okkar, sumt þannig að við sjáum ekki hlutina í réttu ljósi, er mest áríðandi að fá hjálp til að koma auga á orsökina og vinna úr málinu.

Upphafsmaður
Fjölskyldu-uppstilling miðar að því að koma á jafnvægi innan fjölskyldna og er nú kennd og framkvæmd í yfir 25 þjóðlöndum. Upphafsmaður hennar er þýskur sálfræðingur að nafni Bert Hellinger sem eftir reynslu- og lærdómsríkt líf áttaði sig á því að örlög eða hlutskipti foreldra og forfeðra hafa ómeðvitað áhrif á þá yngri og takmarka oft árangur þeirra sem á eftir koma. Hann segir að margt í lífshlaupi sínu hafi leitt sig til skilnings á þessari áhrifaríku aðferð til úrlausnar fjölskylduvandamálum og bendir á vissa þætti í lífi sínu.

Fyrst nefnir hann nákvæma og yfirvegaða skoðun á foreldrum sínum og æsku sinni og sérstakri afstöðu foreldra hans til trúmála. Afbakaðar skoðanir þeirra á þjóðernisjafnaðarmennsku á Hitlers tímanum, þegar Bert gerðist meðlimur í ólöglegum samtökum kaþólska unglinga og var flokkaður sem fjandmaður fólksins. Hann slapp frá Gestapó þegar hann fékk herkvaðningu 17 ára gamall, tók þátt í bardögum, upplifði hörmungar stríðsins og fangelsisvist í Belgíu með Bandamönnum.

Í öðru lagi talar hann um áhrif af veru sinni í kaþólskum prestaskóla, sem hann fór í tvítugur, strax eftir að hann losnaði úr fangelsinu. Þar fór hann í gegnum stranga vinnu við hreinsun líkama, hugar og sálar með hugleiðslu og hugkyrrð. Síðan nefnir hann áhrif af 16 ára trúboðastarfi hjá Súlú ættflokknum í Suður Afríku. Hann lærði mál þeirra vel og kynntist menningu þar sem fólk hafi sérstaka hæfileika til að skynja undiröldu samskipta í fjölmennu menningarsamfélagi. Eftir 25 ára starf prests og trúboða í Afríku flutti hann aftur til Þýskalands og lærði sálfræði. Seinna kynntist hann fjölskyldumeðferð í Ameríku sem hann þróaði áfram og varð að þessari árangursríku fjölskylduuppstillingu. Nánar má lesa um Bert Hellinger og störf hans á vefslóðunum: http://www.hellinger.com og http://www.hellinger.co.uk

Meðferðin í framkvæmd
Fyrst er kannað um hvað vandamálið snýst og hvað fjötrar sálarlíf viðkomandi. Nánast er hægt að stilla upp öllum vandamálum manneskjunnar. Tíu til tólf manns taka þátt í uppstillingunni og hjálparbeiðandinn velur sjálfur staðgengla í hlutverk fjölskyldumeðlima sinna. Staðgenglar skynja hvernig þeir yfirtaka orku, tilfinningar og jafnvel líkamlega krankleika þess sem túlkaður er.

Umsögn staðgengils
Þegar búið var að setja mig inn í ,,hlutverkið“ leið mér mjög undarlega, ég fann til sorgar, reiði, iðrunar og fleiri kennda sem ég var viss um að ekki tilheyrðu mér. Ég var allt í einu komin í hlutverk manneskju sem ég þekkti ekki og hef aldrei séð. Hennar tilfinningar voru sem sé innra með mér. Þannig virkar þessi aðferð, við tökum inn á okkur tilfinningar annarra og hjálpumst við að skilja og leysa vandamál þeirra sem í vanda er. Þessi vinna snart mig djúpt og gaf mér nýja sýn á hvernig hægt er að hjálpa fólki sem á í erfiðleikum vegna áfalla s.s. sorgar, veikinda eða annarra erfiðleika. Ég tel að þetta meðferðarform geti hjálpað mörgum, ef þeir hafa kjark til að taka á sínum vandamálum.

Ummæli hjálparbeiðanda
Eftir að mín fjölskylda var sett upp hefur margt breyst. Mér líður mun betur en áður, er sáttari í alla staði og öruggari með mig. Ég fékk að sjá hluti sem ég e.t.v. vissi innst inni, en þorði ekki að treysta á að væru réttir. Ný tækifæri hafa komið í kjölfarið. Mér líður eins og ég sé búin að draga frá gluggatjöldin og að allt er bjartara og fallegra en áður.

Greinin skrifuð árið 2006– ISFlokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

%d