Hér á eftir fylgja ráðleggingar mínar til fólks sem vill nota hómópatíu til að meðhöndla og fyrirbyggja flensu. Eins og alltaf þegar hómópatía er notuð þarf að skoða einstaklingsbundin einkenni, því þó sjúkdómur hafi ákv. nafn þá getur birtingarmynd hans verið mismunandi hjá þeim sem veikjast. Forsendur þær sem hómópatían gengur út frá er að einkenni sem framkallast í sjúkum líkama séu birtingarmynd þeirra varna sem líkaminn notar í baráttu sinni við sjúkdóminn.
Í stað þess að nota lyf til að berja niður þessi einkenni gefa hómópatar örskammta (nanoskammta) af efnum sem í ofskömmtum valda samskonar einkennum og á að lækna. Með því að gefa örskammta af hómópataefni sem líkir eftir því sem líkaminn sjálfur velur að gera vinnur maður með honum læknar líkt með líku.
Þegar flensa byrjar að ganga í kringum mann er gott að eiga remedíuna Influenzinum og taka hana inn vikulega til að komast hjá smiti. Einnig eru það einföld ráð sem virka vel að þvo sér oft um hendur, hvílast nægjanlega, borða hvítlauk reglulega og forðast að borða sykur. Sé maður hins vegar orðinn smitaður af flensu þarf að skoða einkennin og velja síðan remedíu sem við á út frá þeim. Fólk ætti ekki að reyna að harka af sér flensu eða fara of snemma að vinna eftir flensu, heldur liggja í rúminu og jafna sig í þann tíma sem það þarf.
Til að stytta þann tíma sem maður er veikur getur verið gott að eiga eftirtaldar remedíur og taka inn í styrkleikanum 30C eða 200C á klst. fresti nokkrum sinnum eða þar til einkenni taka að minnka. Yfirleitt má segja að því fyrr sem byrjað er að taka inn viðeigandi remedíu eftir að einkenni byrja, því betri er árangurinn. Þegar einkenni fara að ganga tilbaka fækkar maður þeim skiptum sem remedían er tekin inn og lengir einnig tímann á milli inntöku.
Algengar remedíur sem fólk með flensu notar
Arsenicum Album: Yfirleitt meltingartengd einkenni – uppköst, niðurgangur, kviðverkir. Hræðsla, kvíði og eirðarleysi fylgja veikindunum. Einkenni yfirleitt verri á nóttunni, sérstaklega frá kl.1-3. Verkir eru brennandi en skána við hita, innvortis og útvortis.
Baptisia: Alvarleg veikindi, óráð og rugl – hár sótthiti sem kemur skyndilega, eitrað ástand. Ranghugmyndir s.s. um legu eigin líkama, finnst hann t.d. vera tvískiptur ofl. í þeim dúr.
Belladonna: Góð remedía til að taka inn í byrjun flensu sem byrjar skyndilega. Hár hiti, andlit rautt og glóandi. Púlserandi höfuðverkur og verkir í baki. Hnerri og nefrennsli.
Bryonia: Sótthiti með köldu. Verkir í höfði, útlimum og baki. Mjög þyrstur og drekkur mikið í einu. Einkenni fara rólega af stað. Stirðleiki og verkir í líkamanum og öll einkenni versna við minnstu hreyfingu, jafnvel hreyfingu augna.
Eupatorium: Beinverkir í útlimum og baki með háum hita. Höfuðverkur og mikið nefrennsli. Þorsti mikill í kalda drykki. Verkir í augum og augntóftum. Einkenni verri snemma morguns milli 7-9. Líður betur ef nær að svitna.
Gelsemium: Einkenni byrja rólega. Mikill slappleiki er einkennandi, viðkomandi getur varla hreyft sig. Verkir í vöðvum frekar en beinum, verkur aftan í höfði. Augnlok, útlimir, höfuð, hugsanir . allt er þungt. Lítill þorsti fylgir veikindunum og þá helst í eitthvað hressandi (gos, ávaxtasafa t.d.). Yfirleitt ekki meltingareinkenni. Viðkomandi líður betur ef getur losað sig við þvag.
Nux vomica: Einkenni koma hratt. Kalda með skjálfta og svita, hár sótthiti. Frekar fyrir fólk með magaflensu en kvefflensu. Þorsti í heita drykki fylgir veikindunum. Pirringur og mikil viðkvæmni fyrir hljóðum og lykt.
Pyrogenum: Eins og Baptisia – mjög alvarlega veikt fólk. Hár sótthiti með óráði og rugli og hægum púls. Mjög miklir verkir í útlimum og eirðarleysi og líður betur af að hreyfa sig.
Rhus Tox:Flensa sem orsakast af því að ofgera sér líkamlega eða eftir að hafa orðið blautur og kaldur. Verkir um allan skrokk, skána við hreyfingu og hita en stirðnar fljótt upp aftur – eirðarleysi. Kalda og sótthiti með stífni í líkamanum. Rauður þríhyrningur á tungubroddi.
Þetta eru aðeins nokkrar af þeim remedíum sem notaðar eru þegar fólk fær flensu en duga vel ef þær eiga við einkennin. Á síðustu mánuðum hefur mikið verið rætt um yfirvofandi heimsfaraldur fuglaflensu H5N1 og hvernig best sé að bregðast við verði hún að veruleika. Engin hómópataremedía hefur verið „prófuð“ með tilliti til þessarar nýju tegundar flensu – hvorki til að kanna fyrirbyggjandi áhrif né læknandi. Hins vegar eru til heimildir um notkun hómópataefna í Spönsku veikinni (H1N1) árið 1918, sem gefa góðar vonir.
Einungis um 1% þeirra sjúklinga sem lagðir voru inn á hómópataspítala og hlutu þar meðhöndlun létust á meðan dánartíðni vegna flensunnar á öðrum spítölum var u.þ.b. 30%. (Homeopath in epidemic diseases, Dr. Dorothy Shepherd). Eftir að spænska veikin var um garð gengin var farið að nota remedíuna (1925) fyrir fólk með flensu og í dag hefur alþjóðlegur hópur vísindamanna (The Cochrane Collaboration) komist að þeirri niðurstöðu eftir fjórar tilraunir að Oscillococcinum gefi ,,góðar vonir“ fyrir fólk með flensu og flensulík einkenni. (Townsend Letter for Doctors & Patients, Feb/March 2006, Dana Ullman MPH). Til að ná sem bestum árangri þarf að byrja meðhöndlun innan 48 klst. frá því einkenni gera vart við sig því fyrr, því betra. Eftir þann tíma hentar betur að velja remedíu eftir einstaklingsbundnum einkennum þess sem veikur er.
Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir. Greinin skrifuð árið 2006.
Flokkar:Greinar og viðtöl