Kvikasilfurseitrun vangreint heilsufarsvandamál hjá börnum !?

Samtökin Generation Rescue eru foreldrasamtök rekin af foreldrum, fjármögnuð af þeim og stjórnað af þeim. Þessi samtök halda úti heimasíðu sem hefur slóðina http://www. generationrescue.org sem athyglisvert er að skoða. Eftirfarandi grein byggir að mestu á heimildum af þessari vefsíðu en einnig af vinsælustu vefsíðu um óhefðbundnar lækningar http://www.mercola.com, úr tímaritinu Townsend letter for doctors and patients tbl. 203, árg. 2000 og völdum köflum úr bókunum Autism: A Novel Form Of Mercury Poisoning, höf. Sallie Bernard B.A. Undirrituð er ekki að finna neitt upp, einungis að benda á staðreyndir sem vísindamenn, læknar og foreldrar víða um heim hafa að sögn Generation Rescue ofl. þegar sannreynt. Málefnið er að mínu mati svo brýnt að full ástæða er til að staldra við og íhuga þann möguleika sem hér verður skrifað um með opnum huga og af fullri alvöru, án fordóma eða ásakana. Hver græðir hvort sem er á því?

Málið snertir okkur öll, sem foreldra og uppalendur og ábyrgðaraðila fyrir lífi og heilsu æsku landsins. Ekki hefur farið mikið fyrir umræðu um tengsl kvikasilfurs við vanvirkni í taugakerfi undanfarið og á þessi grein því fullt erindi til landsmanna og verður vonandi hvati að nýrri nálgun á málum er tengjast hegðunar-, þroska- og námsvanda. Á síðu Generation Rescue má lesa eftirfarandi: ,,Markmið Generation Rescue er að upplýsa foreldra um þroskavandamál barna sinna, þannig að þeir geti betur einbeitt sér að meðferð sem virkar. Samtökin hafa einbeitt sér sérstaklega að einhverfu og öðrum taugatengdum sjúkdómum.“ (1) Á heimasíðunni er einnig að finna mikinn fjölda tengla inn á aðrar síður með nýlegum upplýsingum um þessi mál og hvet ég alla sem geta og láta sig þessi mál varða, til að kynna sér þær. ,,Generation Rescue trúir því að taugasjúkdómar s.s. einhverfa, Asperger-heilkenni, ADHD/ADD, seinkun á talþroska, vandamál með samþættingu skynjunar og mörg önnur þroskafrávik séu öll einkenni vangreindrar kvikasilfurseitrunar.“ (2)

Það sem meira er, þau upplýsa að hægt sé að meðhöndla slíka eitrun og með því að gera það sé hægt að snúa þróuninni við og oft á tíðum lagfæra einkennin til frambúðar. Í vitnisburði fyrir Subcommittee on Human Rights and Wellness, U.S. Congress 6.maí 2004 var eftirfarandi haft eftir DR. Rashid Buttar, DO, FAAPM, FACAM, FAAIM Vice Chairman, American Board of Clinical Metal Toxicologists, doctor of Toxicology, einum af þeim læknum sem með góðum árangri meðhöndlar börn með einhverfu: ,,Þetta snýst um að fjarlægja ,,neistann“ þ.e  kvikasilfrið og við höfum í dag einfaldar og árangursríkar aðferðir til þess. Með úthreinsun kvikasilfur og nokkrum stuðnings-meðferðum er hægt að snúa einhverfu og ákv.öðrum taugahrörnunarsjúkdómum að fullu við til frambúðar. Þetta er EKK kenning, heldur frekar fyrsta skjal um þetta málefni (protocol) sem nú þegar hefur verið vísindalega staðfest og sannanirnar eru óhrekjanlegar“.(3)

Kvikasilfur
Fyrir um 20 árum var fjallað um skaðleg áhrif kvikasilfurs á heilsu fólks í Heilsuhringnum í tengslum við amalgam úr tannfyllingum. Allt það sem áður hefur verið skrifað um það þar stendur að mínu mati og vísa ég til þess til frekari fróðleiks. Að öðru leyti er það um kvikasilfur að segja að það er annað eitraðasta efni á jörðinni á eftir Plútonium og banvænasti málmur sem þekktur er í heimi vísindanna. Þrátt fyrir það á það sér langa sögu úr heimi læknisfræðinnar, þar sem gott þykir að blanda það öðrum efnum (t.d. tannfyllingarefni – amalgam) og einnig hefur því verið blandað í ýmsan neysluvarning s.s.latex málningu, ungbarnapúður, hreinsivökva fyrir linsur, sveppaeitur á fræ ýmissa kornvara omfl, þ.á.m. í bóluefni (Thimerosal). Allstaðar þar sem kvikasilfur hefur verið notað til framleiðslu á vörum sem gerir því kleift að komast í snertingu við fólk hafa afleiðingarnar verið hörmulegar. Vegna þessara neikvæðu áhrifa á heilsu manna hefur notkun kvikasillfurs smám saman verið hætt – nema (af óskiljanlegum ástæðum) þegar kemur að bóluefnum og amalgam-tannfyllingarefnum. „Einhverfu var fyrst lýst árið 1943 meðal barna fæddum á árunum 1930-1940.

Thimerosal var fyrst bætt í bóluefni á þessum sama áratug. Í rannsóknum framkvæmdum fyrir 1970 var tíðni einhverfu álitin vera 1 á móti 2000; í rannsóknum frá 1970-1990 fór meðaltalið í 1 á móti 1000. Á þessu tímabili jukust bólusetningar með bóluefnum með Thimerosal og DPT á börnum í þróunarlöndum. Snemma á 10. áratugnum var tíðni einhverfu orðin 1 á móti 500 og árið 2000 var hún orðin 1 á móti u.þ.b.150. Seint á 9. áratugnum og snemma á þeim 10. var bætt við tveimur nýjum bóluefnum í bólusetningarprógramm ungbarna (Ath. m.v. bólusetningarprógramm í Bandaríkjunum – innskot höfundar) og innihéldu þau bæði Thimerosal.“ (HIB og Lifrarbólga B) (4)

,,Uppgötvun og aukning á tíðni einhverfu endurspeglar notkun og útbreiðslu Thimerosal í bóluefnum “ (5) Mörg fleiri börn hafa verið greind með aðra sjúkdóma tengdum taugaþroska, en skv. Generation Rescue eru þau öll talin falla undir sama hattinn – þ.e. kvikasilfurseitrun. ,,Nýlega (árið 2000) hafa Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) og Samtök bandarískra barnalækna (AAP) reiknað út að magn kvikasilfurs sem sprautað er í kornabörn og ungbörn með hefðbundnum barnabólusetningum (þar í landi – innskot höfundar) sé komið fram úr því magni sem ríkisstjórnin telur öruggt fyrir einn einstakling að fá í sig af (bólu) efni sem safnast upp í líkamanum.“ (6) Á sama tíma eru mörg fleiri bóluefni í þróun hjá lyfjafyrirtækjum og stefnt á að innleiða þau í bólusetningarprógrammið í fyllingu tímans.

Kvikasilfurseitrun:
Einkenni kvikasilfurseitrunar eru gríðarlega margvísleg og geta birst á ólíkan hátt hjá mismunandi einstaklingum. Hér verður einungis fjallað um taugatengd einkenni en önnur einkenni eru ekki síður alvarleg. Áhrif kvikasilfurs á börn í vexti eru mjög alvarleg vegna þess að það veikir þroska taugakerfisins. Sumir sérfræðingar áætla að kvikasilfur sé 5-10x skaðlegra fyrir börn en fullorðna því eftir því sem barnið er yngra, þeim mun erfiðara er fyrir óþroskað þvagfærakerfi þess að losa út eitrið. Rannsóknir benda til að ,,lítill“ hluti barna verði fyrir alvarlegum heilsufarslegum áhrifum (1:150 einhverfa) af því sem telja mætti skaðlausum, lágum skömmtum af kvikasilfri. Önnur börn sleppa betur þó þau lifi við krónísk eituráhrif efnisins.

Áhrifin eru einstaklingsbundin, fara eftir aldri, kyni, genasamsetningu, næmi viðkomandi fyrir efninu, öðrum eiturefnum í umhverfi ofl. ofl. „Kvikasilfrið sjálft þarf þó ekki að orsaka beint öll þau einkenni sem dæmigert er að komi fram, heldur er það neistinn sem kveikir í púðrinu, sem setur af stað holskeflu eyðileggingar í líkamanum. Kvikasilfur drepur stig af stigi taugafrumur í heilanum og eyðileggur heila- og taugakerfið sem leiðir af sér margs konar vanvirkni tengda taugum, vitsmunumog skynjun. Það kemur í staðinn fyrir ákv. nauðsynleg vítamín og steinefni, en vöntun á þeim orsakar síðan skemmdir í heila, á ónæmiskerfi, hormónakerfi og í reynd öllum öðrum líffærakerfum einstaklingsins.

Kvikasilfur veikir afeitrunarkerfi líkamans sem gerir öllum öðrum eiturefnum, sem nóg er af allstaðar í kringum okkur í umhverfinu, auðveldara að safnast upp í líkamanum og gera þar skaða. Kvikasilfur skemmir meltingarveginn þannig að ójafnvægi kemst á milli góðra og slæmra baktería sem þar halda til og orsakar ofvöxt sveppa (Candida). Sveppurinn sjálfur gefur frá sér eiturefni og getur búið til lítil göt á líningu smáþarmanna þannig að þeir verði lekir. Ómeltar fæðuagnir geta smogið í gegnum þessi göt út í blóðstrauminn þar sem líkaminn bregst við þeim eins og um sýkil væri að ræða og setur í gang ónæmisviðbrögð, ýtir undir fæðuofnæmi, exem og önnur sjálfs-ofnæmis viðbrögð. Fæðuofnæmi sem ekki er meðhöndlað og skemmdir þarmar geta leitt til ýmissa krónískra sýkinga s.s. eyrnabólgu. Að meðhöndla þessar sýkingar með sýklalyfjum gerir aðeins illt verra.

Sýklalyfin auka enn á ójafnvægið í þörmunum og skemmdir á meltingarveginum, sem er fyrsta þrepið í ónæmisvörnum líkamans og minnkar getu ónæmiskerfisins til að fást við sín verkefni. ,,7) Einkenni eitrunar geta birst skyndilega, sérstaklega hjá viðkvæmum einstaklingum en venjulega er byrjunin ,,óvirkt tímabil“, þar sem smávægilegar taugatengdar breytingar eiga sér stað og í kjölfarið birtast einkenni stig af stigi. Þar sem einkenni eitrunar eru svo mörg verða þau ekki rakin nánar hér en bent á heimasíðu Generation Rescue og bókina A Novel Form of Mercury poison, þar sem finna má nákvæmari lista yfir einkenni. Í stuttu máli er þó hægt að segja að „einkenni einhverfu, Asperger-heilkenni, PDD-NOS, ADHD og ADD séu öll hin sömu og einkenni kvikasilfurseitrunar“.(8)

Hvaðan kemur kvikasilfrið ?
Skv. upplýsingum Generation Rescue má telja líklegt að kvikasilfur sem safnast upp í líkamsvefjum barna eigi sér eftirtalinn uppruna:

1. Úr Thimerosal í bóluefnum: þ.m.t. úr ýmsum ungbarnabóluefnum. 49,6% Thimerosal er ethylmercury (eHg), sem er mjög öflugt taugaeitur (neurotoxin). Kringum aldamótin 2000 fór FDA fram á það við framleiðendur bóluefnis að þeir hættu að nota Thimerosal vegna skaðlegra áhrifa þess. Notkun efnisins hélt þó áfram fram á árið 2003 meðan verið var að ganga á birgðir sem til voru af bóluefnum. Í flensubóluefni sem notað var á árunum 2004-2005 er áætlað að um 75% bóluefna hafi ennþá innihaldið Thimerosal – þrátt fyrir tilmæli FDA. Athygli vekur að ekki innihalda öll bóluefni Thimerosal og nauðsyn þess virðist ekki vera brýn úr því FDA álítur að hægt sé að fjarlægja það úr bóluefnum án þess að vöntun á því hindri virkni þeirra.

Því vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvað í ósköpunum þetta eitraða efni sé að gera í bóluefnum nema ef vera skyldi til hagræðis fyrir framleiðendur? Sannleikurinn er sá að ef bóluefni væri framleitt þannig að einn skammtur væri í hverju glasi, þá þyrfti ekkert kvikasilfur. Því er blandað í glösin til að koma í veg fyrir ,,mengun“ á bóluefninu þegar sprautunálum er ítrekað stungið í gegnum tappann á glasinu. Kostnaður lyfjafyrirtækjanna myndi vissulega aukast við hverja bólusetningu ef um einnota glös væri að ræða, en m.v. þá veltu sem þau hafa og þá fjármuni sem þau eyða í markaðssetningu ættu þau að hafa efni á því. Skv. upplýsingum frá sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins inniheldur ein ungbarnabóluefnisblanda“Pentavac“ sem notað er hérlendis, efnið Thimerosal.

2. Frá samvirkandi efnum (Synergistic toxins):
Þetta eru efni sem í bland við ákv. önnur efni magna eituráhrif kvikasilfurs. Algengustu efnin með þessháttar virkni sem börn komast í snertingu við eru:
a) Sýklalyf – magna eituráhrif kvikasilfurs, skemma þarmaflóruna og minnka þannig líkur á að líkaminn geti losað sig við eiturefni.
b) Aluminium – finnst m.a. stundum í bóluefnum en einnig í neysluvörum og umhverfi.
c) Testosteron hormón – drengir eru í miklum meirihluta einhverfra einstaklinga.

3. Frá móður með kvikasilfurseitrun: Börn mæðra með kvikasilfurseitrun eru stundum með kvikasilfurseitrun. Eitrið berst yfir fylgju til fósturs og einnig með móðurmjólk. ,,Kvikasilfur er allstaðar í umhverfi okkar og rannsóknir sýna að móðir sjötta hvers barns sem fæðist (í Bandaríkjunum – innskot höf.) er með kvikasilfur yfir þeim mörkum sem álitin eru örugg fyrir fóstur.“ (9)

4. Úr kvikasilfurstannfyllingum barnsins:
..Silfurfyllingar (amalgam) eru u.þ.b.50% kvikasilfur og leka eitruðum kvikasilfursgufum 2 klst. 7 daga vikunnar. Þeim mun fleiri fyllinga, þeim mun hærra hlutfall kvikasilfurs finnst í líkamanum“  (10)

1) Úr kvikasilfri í sjávarfangi: Víða er fiskur orðinn mengaður af kvikasilfri og öðrum þungmálmum og því ekki æskilegur til matar. Þetta fer þó eftir því hvar hann er veiddur og vert að geta þess að hér við land er fiskur í lagi þó ástæða sé til að hafa varann á varðandi t.d. hákarl og hvalkjöt. Innfluttur túnfiskur í dós (aluminium!) inniheldur mikið magn kvikasilfurs og ættu börn sérstaklega að varast að borða hann.

2) Frá öðrum uppsprettum: Kvikasilfur finnst
í mörgum neysluvörum, t.d. flúor-ljósum, rafhlöðum, hitamælum og ýmsum hreinlætisvörum svo eitthvað sé nefnt. Erlendis er kvikasilfursmengun í lofti nálægt ákv. verksmiðjum og í tengslum við ákv. iðnað, sem og mengar það vötn og safnast upp í fæðukeðjunni og berst loks í fólk þaðan.

Hvað er til ráða?
Hafi maður grun um kvikasilfurseitrun er hérlendis mögulegt að fá framkvæmda mælingu á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Sú aðgerð er dýr og helst ekki framkvæmd nema brýn ástæða þyki til og grunur um eitrun sé sterkur. Hægt er að senda hársýni úr ólituðu hári til útlanda og fá nákvæma mælingu á málmum og ýmsum öðrum efnum framkvæmda af t.d. fyrirtækinu Trace Elements, Inc í Bandaríkjunum en það fyrirtæki tekur við sýnum allstaðar að úr heiminum.

Sjá nánar: http://www.evenbetterhealth.com/hairanalysis. Html „Hársýni endurspeglar magn málma í vefjum líkamans, þ.e. það sem safnast þar fyrir með tímanum. Þegar hækkun greinist í blóði þýðir það alvarlegt ástand og einkenni eitrunar eru til staðar, stundum mjög alvarleg. ,,(11) Í grein sem Dr.Martin Laher skrifaði í Lancet árið 1982 bendir hann á að mæling á hári sé hentugri til að meta magn kvikasilfurs í börnum en blóð- eða þvagsýni. Með því að taka sýni snemma og jafnvel reglulega mætti koma í veg fyrir að barnið yrði fyrir meiri eitrun og þar með koma í veg fyrir alvarleg heilsufarsleg vandamál.

Úrlausn
Eftirtalin ráð hafa að mati Generation Rescue reynst best en eru ekki ráðleggingar lækna: Úthreinsun kvikasilfurs úr líkamsvefjunum með aðferð sem kölluð erChelation“. (Chelation þýðir á íslensku ,,krabbakló“ vegna hinnar föstu bindingar sem efnið nær við kvikasilfrið og gerir það óskaðlegt. Innskot höf.) Þetta er afeitrunarferli sem getur tekið allt að tveimur árum hjá börnum sem eru undir miklum eituráhrifum. „Orðið ,,Chelation“ er ekki til í orðaforða lækna. Þeir fáu læknar sem meðhöndla þessi börn eru að drukkna á stofum sínum. Góðu fréttirnar eru að börnin taka vel við sér á chelation-meðferðinni. Merkilegar breytingar í taugavirkni eiga sér stað með hverjum degi sem líður á meðferðinni ,, segir Dr.Stephanie Cave, höfundur What your Docto may not tell you about children´s vaccinations. (12)  Chelation- efni er hægt að taka inn í gegnum munn (pillur), í æð, með endaþarmsstílum eða í gegnum húð á formi áburðar sem borinn er á hana. Algengustu Chelation efnin sem notuð eru DMPS, DMSA og EDTA.

Einnig eru ýmis náttúruleg úthreinsiefni þekkt, s.s. hvítlaukur, kóríander og Chlorella. Hómópatar hafa og yfir að ráða remedíum sem örva líkamann til að losa sig við þungmálma. Ýmis vítamín (t.d. B6) og steinefni (s.s. selen) gera slíkt hið sama. Sána og hreyfing eykur og úthreinsun og gott getur verið að nota ýmsar aðferðir saman. Ráðlegt er að framkvæma málmaúthreinsun undir eftirliti læknis, sem fylgist með úthreinsun efna og tekur sýni með reglulegu millibili til að kanna stöðu efna, sérstaklega steinefna. Afar ólíklegt verður þó að teljast að skortur geti orðið á þeim ef leiðbeiningum um bætiefni er fylgt. Ýmislegt annað er hægt að gera til að örva úthreinsun og minnka það álag sem hvílir á líkamanum. Útilokun fæðuóþols og ofnæmisvaka, sykurs og oft einnig hveitis (glúteins) og mjólkur-vara (kaseins) er nauðsynlegt.

Einnig þarf að koma þarmaflóru í lag með notkun broddmjólkur (colostrum), lýsis og æskilegra þarmagerla og taka inn aukalega vítamín, steinefni, fitusýrur og amínó-sýrur til að byggja upp heilbrigðan taugavef. Notkun bætiefna sem innihalda efnasamband við methyl – svokallaðir ,,methyl hópar“ hafa reynst vel. Algengust þeirra eru glutathion, B-12, folin-sýra og betain (hluti af lesitínsameind). Miklu skiptir að foreldrar séu duglegir að standa með barninu þannig að það eigi auðveldara með að halda sig við meðferðarplanið. Bati gengur stundum í bylgjum, tvö skref áfram og eitt afturábak því gömul eitrunareinkenni geta látið á sér kræla og hrellt barnið og fjölskyldu þess. Fjölskylda með veikt barn þarf stuðning og það er mikilvægt að þurfa ekki að berjast við fordóma og vanþekkingu meðfram veikindunum.

Lokaorð
Það þarf engan sérfræðing hvorki í eiturefnum né læknisfræði til að sjá samhengi milli inntöku eiturs og áhrifa þess á neytandann. Inntaka taugaeiturs er nægjanleg ástæða ein og sér fyrir taugatengdri vanvirkni. Þetta virðist hins vegar vefjast fyrir sumum og vísindamenn eru ósammála um hvort hægt sé að tengja kvikasilfur við áðurnefnda taugavanvirkni. Á meðan ekki hefur verið ,,sannað“ svo „óyggjandi“ sé að kvikasilfur sé orsakavaldur í þeim heilsufarslegu vandamálum sem hér hefur verið rætt um gerist lítið hjá þeim einstaklingum sem helst þyrftu á aðstoð að halda. Um hitt er ekki deilt að einkenni þeirra taugatengdu sjúkdóma sem hér hafa verið nefndir eru öll hin sömu og einkenni kvikasilfurseitrunar.

Heilbrigðisyfirvöld þurfa og eiga að verða meðvituð um hætturnar sem eru samfara notkun kvikasilfurs og gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari notkun bóluefna og tannfyllingarefna sem innihalda það. Það er úr þessum efnum sem börn fá mest af kvikasilfri í sig auk þess að hægast er að fjarlægja eitrið þaðan. Það ætti að vera kappsmál foreldra og meðferðaraðila að þrýsta á um að heilbrigðisyfirvöld bregðist við af ábyrgð og liðki fyrir innflutningi á Chelation-efnum til að losa út eiturefni þannig að sem flest börn með ,,meinta“ kvikasilfurseitrun geti fengið viðeigandi meðferð hratt og örugglega, sé óskað eftir því. Það er einlæg von mín að grein þessi opni augu fólks fyrir því tjóni sem hlotist getur af notkun kvikasilfurs og að gerðar verði ráðstafanir til að létta þessari ánauð af ,,yngri“ kynslóð landsins. Höfundur er hómopati

Frekari lesning um skylt efni
Toxic metals and Mental health, höf. Mark D.Filidei, DO, San Francisco Preventive Medical Group. Evidence of Harm, höf. David Kirby. Children with Starving Brains, höf. Dr. Jacquelyn McCandless. Heimildir:
(1) http://www.generationrescue.org/index.2.html
(2) http://www.generationrescue.org/index2.html
(3) http://www.generationrescue.org/mercury_symptoms.html
(4) Autism: A Novel Form of Mercury Poisoning, Sallie Bern ard B.A.
(5) Autism: A Novel form of Mercury Poisoning, Sallie Bernard B.A.
(6) Autism: A Novel form of Mercury Poisoning, Sallie Bernard B.A.
(7) http://www.generationrescue.org/mercury_symptoms.html
(8) http://www.generationrescue.org/what_treatment.html
(9) http://www.mercola.com/2005/may/11/mercury_vaccines.htm
(10) Townsend Letter For Doctors & Patients, june 2000,tbl.203; Dental Elements of Danger by Dr.Morton Walker, DDM
(11) Townsend Letter For Doctors & Patients, june 2000, tbl.203; E.Blaurock.Bussch. PHD, Lab Director Trace Minerals International, Inc.
(12) http://www.generationrescue.org/mercury_symptoms.html

Sjá líka  Kvikasilfurseitrun frá tannfyllingum:  https://heilsuhringurinn.is/1984/04/03/kvikasilfurseitrun-ur-tannfyllingum/

Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir



Flokkar:Eitrun og afeitrun

%d