Geitamjólk – vannýtt heilsulind

Í gegnum tíðina höfum við heyrt sögur um hollustu geitamjólkur en þær hafa oftast verið taldar til hindurvitna. Þar má nefna söguna af systkinunum 6 þar sem tveir af bræðrunum drukku geitamjólk og voru alla tíð áberandi hraustir og annar var með allar tennur óskemmdar þegar hann var sextugur. Rannsóknir sem nú er verið að vinna að í Noregi sýna fram á að einhver fótur sé fyrir þessu sögum, þar sem geitamjólk inniheldur efni sem hafa verndandi áhrif gegn tannsýklum. Þó að við sem búum í hinum vestræna heimi þekkjum lítið til geitamjólkur nema þá helst til ostagerðar þá lifir mikill hluti fólks í heiminum á geitamjólk. Fyrir utan að vera mjög bragðgóður drykkur og að úr henni megi gera lúxus osta, jógúrt og fleira, hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum, að geitamjólkin er auðmeltari og líkari konumjólk en kúamjólkin (hryssu og ösnumjólk líkjast konumjólk meira).

Uppbygging fitu og próteina er mun fíngerðari í geitamjólk heldur en í kúamjólk. Sumir tala um að hún sé náttúrulega fitusprengd þar sem fitu mólikúl geitamjólkur eru um 2 micron að stærð miðað við 3 – 3 1/2 micron í kúamjólk. Þar af leiðandi hentar hún betur sem fæða fyrir ungabörn, börn og fullorðna sem eru með viðkvæm meltingarfæri. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að þeir sem hafa óþol fyrir kúamjólk og sojamjólk geta í mörgum tilfellum notað geitamjólkina. Ég hef í nokkur ár mjólkað geitur fyrir þá sem óskað hafa eftir henni og hef orðið vör við ótrúlegan árangur af henni fyrir óvær börn sem enga aðra mjólk virðast þola af því sem á boðstólum er. Einnig hef ég orðið vitni að því að barn lagaðist af exemi eftir u.þ.b.. mánaðarnotkun á geitamjólkinni og síðast en ekki síst er sagan hans Benjamíns Nökkva sem fylgir hér með. Uppbygging geitamjólkur er um margt frábrugðin kúamjólkinni.

Áður hef ég minnst á uppbyggingu fitu og próteina og þar má við bæta að í rannsóknum þeim sem verið er að vinna að í Noregi er fyrst og fremst verið að rannsaka gamla norska geitastofninn, því mjólk þeirra geita hefur nýst verr til ostagerðar en mjólk úr öðrum geitastofnum. Ástæðan er sú að í mjólk þessara geita vantar eitt prótín þ.e. alfa S1 kasein sem ekki eingöngu orsakar það að ostamassinn verður minni heldur gerir þetta mjólkina líka auðmeltari. Íslandsgeitin, sem telst orðið sérstakur stofn vegna algjörrar einangrunar hér í 1100 ár, er komin af þessum norska stofni. Lék því forvitni á að rannsaka prótíngerð íslensku mjólkurinnar og voru sýni send til Noregs til rannsóknar og útkoman var sú að öll sýnin vantaði alfa S1 kasein. Þetta vakti forvitni íslenskra vísindamanna og hefur nú verið safnað mjólkursýnum um allt land til nánari kortlegginga á prótínum.

Fleira merkilegt kemur fram í þessari norsku rannsókn, m.a. það að geitamjólkin inniheldur þrefalt meira magn af Lactoferini miðað við kúamjólk. Laktoferin er bakteríuhemjandi efni í mjólk og þetta eykur góð áhrif hennar á vandamál í meltingarfærum sem orsakast af bakteríusýkingum. Einnig lítur út fyrir að geitamjólkin hafi góð áhrif gegn of háum blóðþrýstingi. Töluverður litamunur er á geitamjólk og kúamjólk, gulleiti liturinn á kúamjólkinni kemur af retinoli sem er forstig A-vítamíns en geitamjólkin er snjóhvít þar sem í henni hefur retinólinu verið breytt í A-vítamín en það auðveldar nýtingu þess. Næringarlega séð er geitamjólkin ekki mikið frábrugðin kúamjólk eins og sést á samanburðartöflunni hér á eftir og breytileikinn á Íslensku tölunum orsakast sumpart af því að íslenska geitin hefur ekki verið ræktuð til mjólkurframleiðslu og mjólkar því minna en flest önnur geitakyn. Rannsóknir sýna að þurrefna- og næringarefnamagn sé heldur hærra í mjólk þeirra geitastofna sem framleiða minni mjólk.

Tegund:          Fita -Lactósi – Prótín
Kona                      3,0………. 6,5 …..0,75
Kýr                         3,67 ….. ..4,78 …3,4
Geit                        4,5 ……….4,08…. 2,7 – 2,9
Geitur/Háafell     3,57 ………4,53 3,18

Hvað kjötið af geitunum varðar þá hefur það reynst auðmeltara en flest annað kjöt fyrir viðkvæm meltingarfæri. Það er svo til fitulaust án þess þó að vera þurrt og samkvæmt bandarískum samanburðarrannsóknum inniheldur það minna af fastri fitu heldur en kjúklingakjöt. Það er jafn próteinríkt og nautakjöt og reyndist járnríkasta kjöttegundin miðað við naut, lamb, svín og kjúkling og síðast en ekki síst þá er þetta afar bragðgott kjöt og hægt að nýta það á fjölbreyttan hátt. Jóhanna B. Þorvaldsdóttir Hjúkrunarfræðingur og geitabóndi Háafelli, 320 Reykholt

Saga 1.
Benjamín Nökkvi greindist með bráðaeitilfrumuhvítblæði einungis 10 vikna gamall, eða í október 2003. Eins og flestu krabbameini fylgir löng og ströng lyfjameðferð og aukaverkanir lyfjanna eru margvíslegar. Þeirra á meðal er mikil ógleði og erfiðleikar við að nærast, einnig getur magatæming orðið fremur hæg sem getur orðið til þess að uppköst verða mikil þrátt fyrir að reynt sé að næra barnið lítið í einu.

Vel gekk að næra Benjamín Nökkva í byrjun meðferðar þar sem hann var á miklum sterum og hungrið var því mikið og kroppurinn virtist brenna hratt og mikið. Þegar lengra leið og sterarnir minnkuðu en lyfjameðferðin hélt áfram komst Benjamín Nökkvi í þannig ástand að honum fór að líða mjög illa og átti erfitt með að halda niðri þeirri fæðu sem hann fékk (í gegnum sondu) – en margar leiðir voru reyndar til að næra hann og fjölmargar tegundir af næringardufti, sem flest börn virðast þola vel þar sem þau eru niðurbrotin í minni mólíkúl og innihalda flest ekki mjólkurprótein. Þrátt fyrir að reynt væri að minnka hraðann á næringunni sem fór í gegnum sonduna, allt niður í 10 ml. á klukkustund, kastaði hann yfirleitt nánast öllu upp aftur.

Í gegnum hómópata hafði ég heyrt að geitamjólkin væri mjög lík móðurmjólk í uppbyggingunni og hún mælti eindregið með að ég reyndi að nálgast (með einhverjum hætti) geitamjólk. Eftir þó nokkrar krókaleiðir komst ég í kynni við Jóhönnu, geitabónda með meiru, á Háafelli og byrjuðum við á að prófa okkur áfram með geitamjólkina. Það varð úr að Benjamín Nökkvi virtist þola geitamjólkina mjög vel og hætti nánast að kasta upp og það litla sem kom uppúr honum var strax farið að nýtast honum þar sem það var byrjað að ,,ysta“ (meltast). Eftir að hætt var að þurfa að gefa honum geitamjólkina í sondu fór Benjamín Nökkvi að drekka hana og þekkti ekkert annað og drakk hana af bestu lyst.

Hann dafnaði vel og fór loks að þyngjast og braggast þannig að þegar hann fór í beinmergskipti til Svíþjóðar í mars 2004 var það vel nærður og hraustur strákur sem komst í gegnum þessa erfiðu meðferð. Eftir að heim var komið héldum við áfram að gefa honum geitamjólk, ásamt öðrum mat, og þyngdist hann og stækkaði vel miðað við þau erfiðu veikindi sem hann hafði gengið í gegnum. Benjamín Nökkvi greindist því miður aftur með hvítblæði nákvæmlega ári eftir beinmergskiptin og var ákveðið að eina vonin væri að hann færi í önnur mergskipti, sem er fremur sjaldgæft þar sem líffæri líkamans verða yfirleitt fyrir töluverðu tjóni eftir það álag sem mergskiptum fylgir.

Benjamín Nökkvi hafði verið óvenju hraustur þetta ár, sem liðið var frá fyrri mergskiptum, og vaxið og dafnað vel og að hluta til voru það þættir sem urðu til þess að honum var treyst að fara í önnur mergskipti. Eftir þessi seinni mergskipti hefur Benjamín Nökkvi verið viðkvæmur í meltingarfærum og þrátt fyrir að margt hafi verið reynt er það okkar reynsla að það sem fer best í hans líkama er enn og aftur blessuð geitamjólkin. Dæmi síðan hver fyrir sig!!.
Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur og móðir Benjamíns Nökkva

Saga 2.
Þegar sonur minn var þriggja mánaða hætti ég að geta gefið honum brjóstagjöf vegna vandamála sem komu upp. Ég fór þá að gefa honum kúaþurrmjólk. Fljótlega byrjaði hann að fá þurrk í  húðina og magavandamál. Þurrkurinn varð að exemútbrotum og prófaði ég þá að gefa honum sojaþurrmjólk í stað kúaþurrmjólkur. Það virkaði ekki betur hvað exemið varðaði og hægðirnar urðu harðar. Ég fór í mikinn leiðangur til að finna eitthvað sem gæti hjálpað syni mínum þannig að honum liði betur en það var ekki mikið af lausnum í gangi.

Ég heyrði svo frá vinkonu minni af geitamjólkinni sem ætti að vera mjög góð fyrir ungabörn með óþol. Ég hafði engu að tapa og hafði loks upp á Jóu geitamömmu eins og við kölluðum hana. Eftir að sonur minn byrjaði á geitamjólkinni fór exemið og húðin varð mun betri. Hægðir hans urðu einnig mjög góðar, eiginlega eins og þegar hann var á brjóstamjólkinni. Hann dafnaði vægast sagt vel og varð aldrei misdægurt á meðan hann var á geitamjólkinni. Ég prófaði að gefa honum sojaþurrmjólk í viku eitt sinn þar sem við gátum ekki nálgast geitamjólkina og hann byrjaði strax að þorna í húðinni fá exemútbrot en það fór fljótt eftir að hann fór að fá geitamjólkina aftur.

Þegar hann varð 9 mánaða gat ég skipt yfir í hrísgrjónamjólk enda farinn að borða vel og í dag fær hann sojamjólk að drekka. Hann er að verða tveggja ára. Eftir þessa reynslu hef ég eðlilega ofurtrú á geitamjólkinni og held að sonur minn eigi alltaf eftir að búa að því að hafa verið á henni þennan mikilvæga tíma. Við erum Jóu á Háafelli og íslensku geitunum hennar ævinlega þakklát.

Marsibil og Úlfur Máni.

Höfundur: Jóhanna B. ÞorvaldsdóttirFlokkar:Greinar

%d bloggers like this: