Geðlyfjakynslóðin -Eru geðlyf töfralausn eða martröð?

Íslendingar eru meðal þeirra 3ja þjóða sem nota mest af geðlyfjum í heiminum í dag. Það ætti að vera meira áhyggjuefni en raun ber vitni. Þessi þróun er bæði ógnvænleg og óeðlileg. Þunglyndi, geðhvörf og ofvirkni hrjáir alltof margt fólk nú á dögum. Þjóðarátak þarf til að bæta úr þessari þróun og fyrirbyggja þessa sjúkdóma. Algengast er að sjúklingum séu gefin geðlyf og síðan eiga þeir bara að bjarga sér sjálfir. Börn undir skóla aldri og gamalt og veikt fólk sem fær jafnvel ekkert um það að segja hvort þau séu sett á geðlyf. Geðlyf eru ekki góð lausn. Það er að koma æ betur í ljós. Kærunum rignir yfir lyfjafyrirtækin í Bandaríkjunum sem komu með „Prozac“ og samskonar lyf á markaðinn.

Allt of margir hafa framið sjálfsmorð, beitt ofbeldi og framið morð sem annað hvort voru á geðlyfjum eða nýlega hættir á þeim. Læknar vara alltaf við því að hætta snögglega á geðlyfjum þegar fólk er byrjað að taka þau inn á annað borð. Það ætti líka að vara við því að byrja á þeim! Fróðlegt væri að vita hve stór hluti lækna skrifar uppá „Rítalín“ fyrir sín eigin börn eða „Prozac“ og þvílíkt fyrir maka sinn. Einnig hversu margir læknar skyldu sjálfir vilja taka inn sitt eigið meðal? Í Bandaríkjunum eru nú starfandi samtök byggð upp svipað og AA-samtökin sem hjálpa fólki að hætta á geðlyfjum. (Prozac survivors support group =stuðningshópar fólks sem lifir af eftir að hætt er á Prozac eða öðrum geðlyfjum.)

Það vantar slík samtök hér á landi. Ekki er æskilegt að blanda saman meðferðarúrlausnum og setja alla á sama stað sem þurfa hjálp við að hætta að nota áfengi, eiturlyf, geðlyf eða önnur vímuefni. Þótt eitrið sé það sama hvort sem það rýkur, rúllar eða rennur þarf samt sem áður að aðgreina meðferðarúrlausnir hjá fíklum. Geðlyf eru skuggalega lík amfetamíni og „speed“ en í bókinni „Talking back to Prozac“ eftir Peter R. Breggin, M.D. er því lýst nánar. Árið 1988 fékk lyfjafyrirtækið Eli Lilly & Company samþykki fyrir að setja nýtt geðlyf á markaðinn sem hafði ekki eins róandi áhrif og eldri lyfin (eins og t.d. Valium) heldur örvandi. Þetta lyf var kallað „Prozac“. Almenningur kallaði það fljótlega gleðipillur eða læknadóp. Ári seinna hafði sala „Prozac“ geðlyfsins náð 350 milljón bandaríkjadala sem var meira en heildarupphæð allra eldri geðlyfja samanlagt árinu áður.

Í kjölfarið komu fleiri með nöfnum eins og Luvox (flovoxamine), Serzone (nefazadone), Zoloft, Paxil, Effexor (venlafaxine hydrochloride), Klonopin, Dalmane og Xanax. Öll eiga þessi lyf ýmislegt sameiginlegt við eiturlyfin Amfetamín og „Speed“. Það er vel þekkt erlendis að ungt fólk á glapstigum selur geðlyf sem „dóp“, það tekur það í nefið, blandar því saman við áfengi, verkjalyf, svefnlyf og jafnvel sprautar sig með því. Hér á landi hefur ekki verið kannað hve algengt það er en trúlega er nóg framboð af sterkari eiturlyfjum hér á landi og meira eftirlit komið á hve mikið læknar skrifa út af geðlyfjum. Þannig að erfiðara er að misnota eða selja geðlyf á götunni.

Á hverju ári bætast svo við nýjar geðlyfjaefnablöndur með nýjum nöfnum. Sjúklingar verða alltaf svo uppnumdir að heyra lækninn segja töfrasetninguna; „Það eru komin nýog betri lyf“! Þó svo þessi „nýju og betri lyf“ verði bönnuð seinna vegna aukaverkana, þá vill enginn hugsa lengra heldur bara trúa í blindni að nú sé komið töfralyf og allt verði í lagi. Fyrst nú árið 2004 kom í fréttum viðvörun um að ein tegund geðlyfja gæti valdið lífshættulegum aukaverkunum þ.e.a.s. hættu á sjálfsmorði! Óvenju margt ungt fólk hafði reynt að fremja sjálfsmorð og sumum tekist það sem voru á þessum geðlyfjum. Sagt var að þetta tiltekna geðlyf gæti eingöngu reynst hættulegt fólki undir tvítugu. Eitt aldursár átti því greinilega að breyta aukaverkunum geðlyfsins! Hvernig sem í ósköpunum sú útkoma var fengin!

Geðlyf hafa meðal annars þau áhrif á fólk að það verður „flatt“ (eins og það er oft kallað) tilfinningalega, hefur minni ást að gefa, er ekki eins umhyggjusamt, er minna í tengslum við raunveruleikann. Skapsveiflur, óþolinmæði, ranghugmyndir, minni samkennd, ásamt því að verða mjög upptekið af sjálfu sér, eru nokkrar þær persónubreytingar sem algengt er að þeirra nánustu taki eftir þegar fram í sækir. Líkamlegar breytingar eiga sér einnig stað. Mikilvæg spurning er því, hvaða áhrif hefur það á börn að alast upp hjá foreldrum á geðlyfjum? Eða þar sem jafnvel ömmur og afar eru á sömu lyfjum líka og svo systkini á Rítalíni. Þrjár kynslóðir á geðlyfjum! Það er ábyrgð að ala upp börn því þau læra jú það sem fyrir þeim er haft og mótast af lifnaðarháttum og allri lífsreynslu.

Notkun geðlyfja á heimilinu hlýtur að skapa auka álag, meðvirkni og minna öryggi fyrir börnin. Foreldrarnir hafa ef til vill verið svo ógæfusamir að verða fyrir áföllum, líða mjög illa, og lenda í erfiðleikum sem þeir ráða ekki við sjálfir og oft á tíðum er þá auðveldasta leiðin þegar leitað er til læknis að setja þá bara á lyf. Því hver hefur tíma og ráð á að veita þann mikla stuðning sem þarf í meiri háttar erfiðum málum? Erfiðleikar og áföll setja sín spor, þreyta og streita taka sinn toll í nútíma þjóðfélagi þar sem hraðinn og kröfurnar aukast jafnt og þétt. Lausnin er samt ekki að framleiða fleiri og fleiri geðlyf. Lyfjafyrirtækin eru alltaf að leita að nýjum og nýjum markhópum.

Hver vill fljúga með farþegaþotum ef flugmennirnir væru allir á geðlyfjum? Þegar lítið barn kemur í heiminn eru foreldrar og þeir nánustu öll af vilja gerð að hugsa eins vel og best verður á kosið um barnið. Forða því frá öllu skaðlegu og óhollu. Smám saman er svo oftast slakað á umhyggjunni eftir því sem árin líða. Ungar konur sem verða barnshafandi meðan þær eru á geðlyfjum hætta margar hverjar að taka þau inn á meðan á meðgöngu stendur eða meðan börnin eru á brjósti. Þær vita að það getur skaðað barnið að taka inn þessi lyf.

En ef hugsað er aðeins lengra, getur það ekki skaðað barnið líka ef mæður byrja aftur að taka inn geðlyf eftir að brjóstagjöf er hætt. Samkvæmt víðtækri könnun sem gerð var í Bretlandi á fólki sem þjáðist af þunglyndi var meiri árangur af samtalsmeðferð en geðlyfjum. Málið er bara að ódýrasti og einfaldasti kosturinn er að skrifa út einhverjar pillur. Margir geðlæknar eru undir miklu álagi, því það er erfiðast að eiga við sjúklinga með geðræn vandamál og þá er auðveldara að gefa lyf en að tala við sjúklinginn tímunum saman. Samtalsmeðferð á hverjum degi hjá geðlækni eða sálfræðingi og góð áhrifarík meðferð er bara fyrir þá sem hafa meiri peninga.

Fólk þarf að kynna sér vel hvaða læknar og sálfræðingar mæla með lyfjalausum meðferðarúrlausnum. Þeir eru því miður enn í miklum minnihluta. Góða geðlækna getur verið erfitt að finna. Einnig ætti fólk að kynna sér vel hvernig steinefni, vítamín og lífrænt fæði hefur góð áhrif á fólk með geðræna sjúkdóma. Samkvæmt dr. Linus Pauling nóbelsverðlaunahafa má rekja flesta sjúkdóma og lasleika til skorts á steinefnum og vítamínum. Birta og hreyfing skipta einnig miklu máli. Þú átt þennan eina líkama og getur aldrei eignast annan. Því skyldir þú þá reyna að tortíma honum? Með því að gera líkama þinn háðan töflum svo sem róandi lyfjum, geðlyfjum, áfengi og tóbaki ertu að arðræna eigin líkama!

Þessa speki má finna í einni af bókum dr.D.Dyer. Í bókinni; „Talking back to Prozac“ eftir Peter R. Breggin, M. D. má lesa allar staðreyndir um hvernig Prozac komst fyrst á markað og hvaða neikvæð áhrif það hefur haft á milljónir manna um allan heim. Peter R. Breggin, M. D. skrifaði einnig; „Toxic Psychiatry“ og varð sú bók einnig metsölubók. Enginn ætti að byrja á geðlyfjum án þess að lesa þessar bækur fyrst. Aðstandendur fólks sem á við geðræn vandamál að stríða ættu einnig að lesa bækurnar. Það eru oftast þeir sem verða að berjast fyrir sína nánustu og bera þyngstu byrðarnar. Varist bækur og bæklinga sem lyfjafyrirtækin standa á bak við. Það er eingöngu sölumennska Lesið heldur um þær aukaverkanir sem lyf valda og spyrjið; er áhættan þess virði?

Villt dýr sem sett eru í búr verða þunglynd, afkvæmi apa deyja ef þau eru tekin frá mæðrum sínum, gæludýr verða þunglynd ef þau þurfa að fara á dýraspítala. Dýr missa matarlyst og sýna öll einkenni þunglyndis eins og mannfólkið en það er ekki af því að það sé einhver erfðagalli í heilanum í þeim eða eitthvað að genunum. Þau eru bara óörugg, hrædd og leið. Dýrin þurfa ekki geðlyf og fólk í rauninni ekki heldur! Það þarf bara hjálp! Það þarf manneskjulegra þjóðfélag, styttri vinnudag, meiri umhyggju svo allir megi vaxa og dafna í ást og hamingju.

Pillur geta aldrei komið í staðinn fyrir fólk! Eftir allt er pilla bara pilla! Hún hefur ekki nákvæmnina né tæknina sem þarf til að fínstilla óhamingjusama heila! Það eina sem hún getur gert þegar hún leysist upp í blóðinu er að skapa vissa ringulreið upp í heilann og þá er bara mismunandi hvernig fólk bregst við og hegðar sér undir eituráhrifunum. John Lennon söng; All you need is love. Það er mikið til í því.

Höfundur: Benedikta Jónsdóttir benediktaj@hotmail.comFlokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: