Hormesis: Byltingarkennd leið til langlífis og bættrar heilsu

Inngangur
„Hormesis, hvað er nú það?“ munu vafalaust einhverjir spyrja þegar þeir sjá þetta orð ef þeir líta á efnisyfirlit Heilsuhringsins vorið 2005. Líkt henti mig þegar ég sá þetta orð í janúarhefti  ,,Townsend Letter for Doctors and Patients“ nú í vetur. Hormesis mætti sennilega flokka sem hugmynd eða leið til að virkja eða hvetja meðfæddan lækningamátt líkamans. Þar á ég ekki aðeins við að styrkja ónæmis- og varnarkerfið, þó að það komi oft við sögu. Ekki síður á ég við að örva hæfileika frumanna til að endurnýja sig og einnig getu til að hreinsa líkamann af skaðlegum efnum, en hæfileikinn til þess dvínar með aldri <aldrinum>. Orðið ,,hormesis“ er komið úr grísku og þýðir eiginlega að hvetja eða örva.

Ég átti ekkert gott íslenskt orð sem hægt væri að nota yfir orðið „hormesis“, og því nota ég erlenda orðið, sem mér finnst skárra en að búa til eitthvert „íslenskt“ orðskrípi sem enginn skilur.Sumir telja að flokka megi hormesis með hómópatíu, en á því tvennu er þó svo mikill grundvallarmunur að hæpið er að það sé rétt. Hvað sem um þetta má segja er hormesis mjög spennandi rannsóknarefni sem mér þykir líklegt að við eigum eftir að heyra meira um í framtíðinni.

Er hægt að seinka ellinni?
Læknisfræðin hefur lengi stefnt að því að reyna að seinka ellinni. Árangurinn hefur aftur á móti enn sem komið er verið frekar rýr. Þó að meðalaldur flestra þjóða hafi hækkað töluvert, stafar sú hækkun mest af því að nú deyja fá ungbörn og ungt fólk, vegna þess að sigrast hefur verið á flestum ungbarnasjúkdómum og bakteríusýkingum sem oft lögðu ungt fólk í gröfina. Þeir sem deyja úr „elli“ eru sennilega lítið eldri nú en fyrir 100 árum, þrátt fyrir öll lyfin sem aldrað fólk notar, nú en voru þá ekki til. Svo virðist að ellihrumleiki stafi fyrst og fremst af því að hæfileiki líkamans til að viðhalda og gera við það sem aflaga fer er ekki nógu afkastamikill til að hafa í við eyðileggingaröfl sem stöðugt herja á líkamann.

Þó sjáum við að ýmislegt hefur ofurlítil áhrif á þetta ferli. Bill Sardi, höfundur greinar um þetta, telur að mataræðið hafi dálítil áhrif. Það er það afar misjafnt hvaða mataræði hefur mest áhrif. Kólesterólsnautt mataræði lengir ævina aðeins um hálft ár, svo að sé þetta rétt er varla þess virði að breyta um neysluvenjur þess vegna. Reglubundnar líkamsæfingar eru ofurlítið skárri, en Sardi telur að þær geti e.t.v. stuðlað að því að lengja ævina um hálft annað ár.

Að taka upp jurtafæðu og lifa eingöngu á grænmeti og ávöxtum telur Sardi að gæti bætt 4-7 árum við ævina, sé mataræðisbreytingin gerð fyrir 35 ára aldur. Konur lifa að jafnaði allt að 5-8 árum lengur en karlmenn, sennilega vegna þess að minna járn er í blóði þeirra, sem er afleiðing mánaðarlegra tíðablæðinga. Þetta er þó allt saman minniháttar, en þegar við förum að ræða um að draga úr neyslu á hitaeiningum, sem talið er að sé einn hormesis þátturinn, er annað uppi á tengingum. Þá förum við að ræða um 30-50 ár, eftir því sem sérfræðingarnir í öldrunarrannsóknum segja okkur.

Er lykillinn fundinn?
Vísindamennirnir ,,David Sinclair við Harvard læknaháskólann og Konrad Howits við Biomst“ líftæknifyrirtæki í Pennsilvaniu, upplýstu þar á ráðstefnu að efnasamband í rauðvíni lengdi líf gerfruma á líkan hátt og gerist við að fækka hitaeiningum sem þær fá. Sinclair og Howits bentu á að erfðavísir eða gen sem nefnt er „Sirtuin-1 lífgen“ eykur virkni sérstakra ensíma sem lagfæra skemmdir í DNA erfðaefninu, en það gerist aðeins þegar frumuna skortir hitaeiningar eða þetta efnasamband í rauðvíni verkar á hana.

Það gefur svo frumunum lengri tíma til að gera við sjálfa sig, verði þær fyrir skaða. Búið er að leita heilmikið að efnum sem hafa lík áhrif á sirtuin-1 lífgenið og rauðvín og hitaeiningaskortur. Þetta hljóta allt að vera litlar sameindir eins og t.d. ,,fjölfeno“ sem m.a. eru á ,,telaufum, resveratrol, fisetín og kversetin“ og bláu og rauðu litarefnunum í ótal berjum t.d. vínberjum og bláberjum. Einnig eru skyld efni í berjum sem ekki eru rauð eða blá, t.d. grænum vínberjum.

Hæfileg streita er góð
Streita er hér skilgreind mjög vítt. Hún getur t.d. verið af völdum hita, kulda, fæðuskorts, hávaða, skaðlegra efna í umhverfinu, geislavirkra efna, mikillar vinnu, fjárhagslegra erfiðleika og svona má lengi telja. Sameiginlegt þessu öllu er að hæfileg streita virðist styrkja einstaklinginn og gera hann hæfari, setur í gang þetta sem nefnt hefur verið „hormesis“. Aftur á móti: Verði streitan of langvarandi, eða of mikil getur hún haft öfugar verkanir. Þá brýtur hún niður. Þess vegna er sennilega fólgin nokkur sannleikur í máltækinu: „Af misjöfnu þrífast börnin best.“

Hiti sem læknismeðferð
Hiti getur sett í gang hormesis-viðbrögð. Sýnt hefur verið fram á að ávaxtaflugur lifa lengur ef þær verða fyrir mildri hitameðferð, sé meðferðin endurtekin nokkrum sinnum. Sánaböð eru gott dæmi um þetta. Japanskir vísindamenn hafa skýrt frá að sánaböð bæði lækki blóðþrýsting og komi í veg fyrir æðakölkun. Í Finnlandi er sagt að 2000 ára hefð sé á að nota sánaböð sem allsherjar læknisdóm. Í Japan eru heitar lindir notaðar til lækninga og þar er einnig radongas. Þetta tvennt hjálpast því að við að framkalla hormesis viðbrögð hjá þeim sem baða sig þar.

Hermesis og geislavirkni
Sú kenning að öll geislavirkni, sama hversu lítil hún er, sé ávalt af hinu illa og valdi alltaf skaða hefur mótað skoðanir flestra vísindamanna. Nú hefur kenningin um hormesis fengið suma til að draga þessa kenningu í efa og gruna að „hæfileg geislun“ sé holl og jafnvel ómissandi öllu lífi á jörðinni. Bent hefur verið á að þó að mikil jónandi geislun sé án efa mjög skaðleg öllu lífi eru alls engar sannanir til fyrir því að örlítil geislun valdi skaða. Þvert á móti er til fjöldi vísbendinga um að væg geislun sé stundum til gagns. S.M.J. Mortazavi, við líffræðideild Menntaháskólans í Kyoto í Japan telur að veik geislun geti verið „ómissandi aflgjafi fyrir líf“ (Essential energi for life) og álítur að hægt myndi vera að komast hjá þriðjungi allra dauðsfalla úr krabbameini með því að auka veika geislun. Sýnt hefur verið framá hormesis áhrif af veikri geislun hjá rannsóknarmönnum í Japan. Frumur voru látnar verða fyrir veikri gammageislun  „til aðlögunar“.

Nokkru síðar voru þær aftur látnar verða fyrir samskonar veikri gammageislun. Þær frumur voru fljótari að lagfæra geislaskemmdir sem urðu, heldur en aðrar frumur sem enga geislun fengu áður, en voru geislaðar jafn mikið og samhliða fyrrnefndu frumunum. Í annarri tilraun voru 80% músa geislaðar með veikri gammageislun og nokkru síðar voru svo allar mýsnar geislaðar með sterkri gammageislun. Þær mýs sem áður fengu veiku geislunina lifðu allar í 30 daga eða lengur, en aðeins 8% þeirra sem aðeins fengu sterku geislunina.

Mjög áhugaverð tilraun var gerð við Harvard læknaskólann árin 1976 og 1979, sem sýnir ótvírætt að veik geislun á allan líkamann er ekki aðeins skaðlaus, heldur fjölgar beinlínis þeim krabbameinssjúklingum sem lifa í 4 ár eða lengur eftir greiningu, úr 40-52% hjá þeim sem fá hefðbundna meðferð með mikilli geislun og lyfjameðferð, upp í 70-74% hjá þeim sem fengu veiku geislunina. Lík krabbameinsmeðferð í Japan fjölgaði þeim sem voru lifandi eftir 4 ár, var frá 65% upp í 84%. Fylgst var með þeim sjúklingum og voru þeir allir lifandi eftir 9 ár, þó að þeir væru með 4. stigs krabbamein í upphafi. Aðeins helmingur annarra sjúklinga sem fá hefðbundna meðferð er þá yfirleitt ennþá lifandi.

Hvernig nota má hormesis
Til að fækka krabbameinstilfellum um þriðjung. Lengja líf fólks með 4. stigs krabbamein í 9 ár eða meira? Lengja ævina hjá öllum um 30-50 ár. Vitið þið um nokkuð annað sem gæti gert þetta allt, og það kostar að auki sáralítið? Þetta sýnist við fyrstu sýn vera draumsýn sem ólíklegt er að verði raunveruleiki í náinni framtíð. Og þó; við höfum hér lesið um rannsóknir og kannanir sem þegar hafa verið gerðar og sýna að allt þetta þarf ekki endilega að vera fjarlægur draumur um einhverskonar „Útópíu“, sem aðeins er hugarfóstur þess sem færir slíkan boðskap í letur. Eins og áður var sagt virðist hormesis setja einhver öfl í gang, sem stundum snúa við ferlum sem annars leiða til hrörnunar og að lokum dauða.

Svo virðist að einn erfðavísir, það er sirtuin-1 lífgenið sem ræður lífi okkar eða dauða stjórni þessu. Verið getur að fleiri gen með hliðstæða verkun eigi eftir að finnast. Framtíðin mun svara þeirri spurningu. Okkur er ljóst að hægt er að hafa áhrif á sirtuin-1 lífgenið með fleiri en einni aðferð. Hæfilegir streituvaldar í umhverfinu er ein þeirra. Þar kemur m.a. væg geislavirkni við sögu, ásamt hita og kulda, jafnvel örlítið af eitruðum efndasamböndum og sennilega ýmis átök, bæði í eiginlegri og yfirfærðri merkingu, t.d. sálrænum eða vitsmunalegum átökum. Sennilega er alltaf gott að reyna á kraftana, en þó aldrei svo mikið að ofreyna sig, hvorki andlega né líkamlega. Svo virðist sem hægt sé að nota viss efnasambönd til að virkja sirtuin-1 lífgenið. Og þetta eru einmitt efnasambönd sem áður var vitað að höfðu lífgefandi áhrif. Þar vil ég einmitt endurtaka það sem sagt var fyrr í þessari grein um efni í rauðvíni og fjölda efna sem flest má telja til flavonóíða eða skyldra efna, fjölfenola og tannins.

Þetta eru yfirleitt öflug andoxunarefni sem finnast í jurtaríkinu. Sérlega mikið er af þessum efnum í grænu tei og mörgum berjum t.d. aðalbláberjum (anthocyanosíð), dökkbláa litarefninu sem gefur berjunum lit sinn. Skyld efni finnast í vínberjum og rauðvíni og flestum öðrum berjum og sumum ávöxtum. Séu þessar upplýsingar réttar, eru áðurnefnd efni þau einu sem vitað er að hafa áhrif á sirtuin-1 lífgenið. Því mætti brugga sannkallaðan „lífs-elexír“ úr þessum berjum og sá elexír mundi „raunverulega“ tefja fyrir öldrunareinkennum væri hann drukkinn að staðaldri. Sagt er að nú þegar séu komnar á markað í Bandaríkjunum pillur úr rauðvínsextrakti.

Þessi grein er samin upp úr grein eftir Bill Sardi, sem birt var í Townsend Letter for Doctors and Patients, janúar 2005

Ævar Jóhannesson



Flokkar:Greinar