Eru stórir skammtar af E-vítamíni raunverulega skaðlegir?

Þessi greinarstúfur kemur í framhaldi af rammagrein sem birt var í vorblaði Heilsuhringsins 2004 undir nafninu „E-vítamín er ekki allt eins“. Í febrúar-mars blaði Townsend Letter for Doctors and Patients, árið 2004 skrifar dr. Alan R. Gaby, læknir ritstjórnargrein um sama efni og gerir því þar betri skil en í fyrri grein sem hann skrifaði um E-vítamín. Í sama blaði Townsend Letter skrifar svo einnig Wayne Martin í lesendabréfi um þetta sama. Hér ætla ég að reyna að taka saman í eins stuttu máli og ég get það helsta sem þessir tveir heiðursmenn hafa til málanna að leggja um þetta efni. Við samantekt á 19 könnunum sem gerðar hafa verið og birtar í The Annals og Internal Medicine í janúar 2005 var komist að þeirri niðurstöðu að stórir skammtar af E-vítamíni (400 alþj. ein. Eða meira á dag) geti fjölgað dauðsföllum af öllum ástæðum og skyldi því varast að nota 400 eða fleiri alþj. ein. á dag. Þessar niðurstöður bárust til fjölmiðla og ollu heilmiklu umróti í hugum fólks og margir hættu að nota E-vítamín í framhaldi af því.

Eftir að hafa farið vandlega yfir afrit af könnuninni, segir dr. Gaby, „komst ég á þá skoðun, að svo margir alvarlegir gallar væri á þessari könnun, að draga megi niðurstöður hennar í efa“. Að auki sögðu þeir sem að könnuninni stóðu, að niðurstaðan miðaði aðeins við langvarandi veikt fólk en ekki heilbrigt. „Þetta ætti að minna okkur á“, segir dr. Gaby, hvað hann sjálfur og margir aðrir hafa sagt, „að sumt það E-vítamín sem nú er á markaðinum sé alls ekki öruggt til neyslu fyrir alla í hvaða skömmtum sem er.“

Niðurstöður könnunarinnar bentu til að þeir sem notuðu minna en 400 alþj. ein. af E-vítamíni á dag hefðu ofurlítið gagn af því í samanburði við þá sem ekki notuðu neitt E-vítamín. Ekki var vitað í mörgum tilfellum hvaða tegund af E-vítamíni var notuð, nema það var alfa tokoferol. Í einni könnuninni (Age-Related Eye Disease Study, AREDS) voru líka notuð ýmis önnur bætiefni en E-vítamín t.d. voru mjög stórir skammtar af zinki (80mg á dag), sem hæglega gætu hafa haft áhrif eða breytt niðurstöðunni og smáskammtar afkopar, sem gefnir voru til að draga úr hugsanlegum koparskorti til að vega upp á móti ofgnótt af zinki, var í formi koparoxíðs, sem er ómeltanlegt og því gagnslaust. Koparskortur eykur hættu á hjartabilun og þar með fjölgum dauðsfalla sem ekkert hefur með E-vítamín að gera.

Í einni stærstu könnuninni (Cambridge Heart Antioxidant Study) var samanburðarhópurinn og hópurinn sem fékk E-vítamín ekki samanburðarhæfur, enda þótt valið í hópana ætti að vera tilviljanakennt. E-vítamín-hópurinn var í byrjun könnunarinnar með meira kólesterol í blóði og hærri blóðþrýsting, fleiri með sykursýki, reyktu meira og voru jafnvel með alvarlegri kransæðasjúkdóma en samanburðarhópurinn. Munurinn á fjölda dauðsfalla milli hópanna var svo lítill, að þessi galli á aðferðinni til að velja í hópana gerir niðurstöðuna í besta falli mjög vafasama.

Í þriðju stóru könnuninni (MRC/BHF Heart Protection Study), fengu þáttakendurinir auk E-vítamíns efnafræðilega tilbúið beta karótín, sem er lítið eitt öðruvísi en beta karótín í náttúrunni (annar ísómer). Aðrar kannanir hafa sýnt að tilbúið karótín eykur lítið eitt hættu á lungnakrabbameini hjá reykingafólki og beta-karótín veldur hjá sumum tilraunadýrum lifrarbilun ef dýrin fá samtímis áfengi. Bilbúna beta karótínið sem notað var getur því  hugsanlega hafa haft áhrif á niðurstöðu þessarar könnunar og gert hana vafasama til að draga ályktanir af. Rúmlega tveir þriðju hlutar þeirra sem könnunin náði til tilheyrir einhverri þessara þriggja kannana sem hér hafa verið nefndar.

Sú ályktun að E-vítamín sé hættulegt er fyrst og fremst grundvölluð á þessum könnunum sem allar eru meingallaðar. Séu stórir skammtar af E-vítamíni raunverulega hættulegir má auðveldlega skýra það með því hverskonar E-vítamín er notað. Eins og útskýrt var í greininni í vorblaði Heilsuhringsins 2004 eru til nokkur mismunandi afbrigði E-vítamíns, sem auðkennd eru með grískum bókstöfum: alfa, beta, gamma og delta. Þó að þetta séu náskyld efni eru verkanir þeirra alls ekki þær sömu í öllum atriðum. Yfirleitt er það aðeins alfa afbrigðið sem er selt sem E-vítamín, þó að í náttúrunni sé oftast um að ræða blöndu þessara efna.

Mér er sagt að í náttúrlegu E-vítamíni, sem selt er í belgjum, sé oftast dálítið af öllum afbrigðunum, þó að aðeins standi á glösum „Alfa-tókóferol“, sem er það afbrigðið sem mest er af og vítamínið er staðlað fyrir. Áður fyrr var álitið að alfa afbrigðið væri það eina sem hefði virkni og að hin væru gagnslaus. Nú er vitað að þau eru sennilega öll jafn mikilvæg og að t.d. gamma-tókóferol er líklega mikilvægara fyrir hjarta- og æðakerfið en alfa afbrigðið. Sennilega trufla mjög stórir skammtar af alfatókóferoli upptöku annarra afbrigða E-vítamíns, svo að skortur getur orðið á þeim við að nota alfatókferól eitt sér.

Þetta verður sennilega frekast ef stórir skammtar af efnafræðilega tilbúnu E-vítamíni eru notaðir, en í því eru engin afbrigði E-vítamíns önnur en aðeins alfa-tókóferol. Við að búa til alfa-tókóferol með kemiskum aðferðum myndast tveir ísómerar. Annar þeirra nefnist D-alfa-tókóferol en um leið myndast spegilmynd hans, sem nefnd er L-alfa-tókóferol. L-alfatókóferol, sem er helmingur þess sem myndast, hefur sennilega enga virkni sem E-vítamín og því er DL afbrigðið með aðeins hálfa virkni miðað við D-alfa-tókóferol. Það sem þó er öllu verra er að grunur er um að L-afbrigðið kunni að skaða eða hindra virkni annarra afbrigða E-vítamíns.

Eitt er þó víst að L afbrigðið finnst ekki í náttúrlegu E-vítamíni og einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því. Vegna þess að DL-afbrigðið er miklu ódýrara en D-afbrigðið er það oft notað í rannsóknum og könnunum. Vitað er að það var notað í einhverjum af þeim könnunum sem tóku þátt heildarkönnuninni sem hér hefur verið til umræðu. Margt fleira ræðir dr. Gaby um í sambandi við muninn á virkni mismunandi afbrigða E-vítamíns. M.a. hindrar gamma tókóferol samloðun á blóðflögum betur en alfa afbrigðið (dregur út líkum á blóðtöppum í æðum). Þá vinnur gamma-afbrigðið gegn krabbameini, sem alfa-tókóferol gerir ekki.

Verið gæti, að þó að alfa-tókóferol hafi marga augljósa kosti, gætu mjög stórir skammtar af því einu, komið í veg fyrir að kostir annarra tókóferola fái notið sín. Best er því sennilega að nota aldrei efnafræðilega framleitt E-vítamín og nota blönduð tókóferol, jafnvel þó að þau séu dýrari en náttúrlegt alfa-tókferol eitt sér. Alan R. Gaby lýkur grein sinni með því að benda á að þó að hægt sé að færa rök fyrir að niðurstöður könnunarinnar séu að öllum líkindum rangar og að E-vítamín valdi ekki dauða fólks, sé það þó alls ekki nógu gott. Fjölda margar aðrar kannanir hafi á liðnum árum bent til að E-vítamínin dragi úr líkum á að fá hjartaáfall, hægi á framvindu Alzheimers-sjúkdóms, minnki skaða vegna loftmengunar, dragi úr hættu á blóðrásartruflunum í heila og fyrirtíðavanlíðan hjá konum, auk margs annars.

Í langflestum þessum könnunum voru notaðir stærri skammtar af E-vítamíni en 400 alþj.ein. Hvort minni skammtar af blönduðum tókóferolum eru jafn áhrifaríkir eða jafnvel virkari en stærri skammtar af alfa-tókóferoli verður framtíðin að skera úr um, segir dr. Gaby að lokum. Wayne Martin byrjar að segja frá sömu könnun og dr. Gaby. Síðan fer hann að bera þá könnun saman við aðra könnun sem birt var niðurstaðan úr í The Lancet 23. mars 1966 og nefnd er CHAOS könnunin Cambridge Heart Antioxidant Study). Wayne Martin telur að nú sé einmitt rétti tíminn til að rifja upp þessa gömlu könnun.

Niðurstaða þeirra sem að henni stóðu var að E-vítamín minnkaði umtalsvert líkurnar á að fólk sem fengið hafði hjartaáfall fengi það aftur og að batinn entist í heilt ár. Í þeirri könnun dóu ofurlítið fleiri úr hjartaáfalli í hópi þeirra sem notuðu E-vítamín en í samanburðarhópnum (27:23). Endurteknum hjartatáföllum fækkaði aftur á móti um 77% miðað við þá sem ekki fengu E-vítamín. Einn þeirra sem að könnuninni stóð, Malcolm Mitchinson sem enn er við fulla heilsu ræddi um þetta á internetinu. Hann taldi að þetta væri mjög jákvætt fyrir E-vítamín.

Þau fáu dauðsföll sem urðu fleiri hjá E-vítamínnotendum heldur en hinum sýndu aðeins að hjarta þeirra hafi skaðast svo mikið við áfall sem þeir áður höfðu fengið, að ekkert gat bjargað þeim. Hann bætti við að helst ætti að nota E-vítamín áður en einhver fær hjartaáfall en síður á eftir. Þó var hann mjög ánægður með að sjá 77% fækkun á áföllum sem ekki leiddu til dauða. Wayne Martin telur að E-vítamín sé mjög öflugt efni til að hindra blóðtappa í æðum og bendir á gamla könnun í The American Jouurnal of Physiology apríl 1948 eftir Zierler Grob og Lillienthal. Þar segir frá Anton Ochsner, sem var skurðlæknir við Tulane University og fór að nota daglega fyrir sjúklinga sína 800 alþj.ein. af E-vítamíni, frá einum degi fyrir og þartil 15 dögum eftir meiriháttar skurðaðgerðir.

Hann framkvæmdi 15.000 skurðaðgerðir á 20 ára tímabili, án þess að missa einn einasta sjúkling vegna blóðtappa í æð. Wayne Martin segist hafa hringt í hann á skrifstofu hans árið 1970 og þar fékk hann þetta staðfest. Hann segir að nú sé mikil þörf á að nota E-vítamín, enda þótt varla 1 af hverjum 100 læknum ráðleggi sjúklingum sínum að nota það. Þá óttast hann að fordæming einstakra lækna á E-vítamíni, muni valda því að einhverjir kunni að hætta að nota það og það muni koma niður á heilsufari þeirra fyrr eða síðar. Heimildir eru í greininni.

Ævar Jhannesson.



Flokkar:Greinar

%d