Um þessar mundir er að koma út (haust 2008) á íslensku langþráð bók sem áður hefur verið fjallað um og vitnað til í Heilsuhringnum (Bókarkynning – í haustbl. 2006 og Ég þoli ekki skólann – í haustbl. 2007). Bókin hefur á íslensku hlotið nafnið ,,Meltingarvegurinn og geðheilsa“ og er höfundurinn Dr. Natasha Campbel McBride en Jóhanna Mjöll Þórmarsdóttir hjúkrunarfræðingur íslenskaði. Jóhanna Mjöll lauk námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands vorið 2008 og fjallaði lokaritgerð hennar um áhrif mataræðis á börn með ADHD. Hún þýddi bókina meðfram náminu og gefur hana út á eigin kostnað.
En hversvegna ákvað hún að þýða og gefa út þessa bók og til hverra á hún helst erindi? ,,Þegar dóttir mín greindist með ódæmigerða einhverfu og athyglisbrest fannst mér mjög erfitt að sætta mig við að ekkert væri hægt að gera til að hjálpa henni, en það eru gjarnan þau skilaboð sem foreldrar fá þegar börn fá greiningar sem þessar. Ég frétti af konu sem átti einhverfan son sem hafði tekið gríðarlegum framförum eftir að hafa fylgt ákveðnu mataræði. Ég hafði því samband við þessa konu sem benti mér á bókina „Gut and Psychology Syndrome“ eftir dr. Natasha Campbell-McBride.
Ég var ekki komin langt með lestur bókarinnar þegar ég ákvað að þessa bók yrði einfaldlega að þýða og gefa út á Íslandi. Mér fannst mjög mikilvægt að koma þessum boðskap áfram til foreldra barna með einhverfu, ofvirkni eða aðrar þroskaraskanir þar sem ég tel að mataræðið sem Natasha fjallar um í bókinni geti skipt sköpum fyrir þessi börn. Bókin opnaði í raun augu mín fyrir nýjum víddum varðandi skilning á orsökum andlegra kvilla og hvernig þær aðstæður geta skapast að einstaklingar þroskist ekki með þeim hætti sem ákjósanlegt þykir. Ég tel að breytt mataræði hafi haft mikið að segja fyrir dóttur mína.
Hún er mikið rólegri, hefur betri einbeitingu og athygli og henni gengur betur að læra. Ég sé strax mun á henni þegar hún fer ekki eftir mataræðinu, til dæmis þegar hún fer í afmæli. Þá verður hún ör og athyglisbresturinn versnar til muna. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa kynnst bókinni og fengið tækifæri til að gefa hana út á íslensku og vona að hún eigi eftir að hjálpa öðrum foreldrum og einstaklingum. Ég vonast einnig til að með útgáfu hennar aukist meðvitund fólks á mikilvægi og áhrifum mataræðis. Þrátt fyrir að höfundur bókarinnar sé sérstaklega að reyna að ná til einstaklinga með þroskaraskanir með skrifum sínum enda rekur hún meðferðarstofnun fyrir börn með þroskaraskanir þá er þessi bók frábær fræðibók um áhrif mataræðis á líkamann og gott innlegg í þjóðfélagsumræðuna þar sem hún gefur nýjan vinkil á þau mál.
Bókin er stútfull af fróðleik og snertir líklega á flestum þeim þáttum sem snúa að neysluvenjum okkar. Stærsti kosturinn við bókina er að hún segir ekki aðeins hvað er hollt og hvað óhollt, heldur er það rökstutt með skiljanlegum hætti. Bókin á sérstaklega erindi til allra sem þekkja einhvern eða þjást sjálfir af þunglyndi, einhverfu, ofvirkni, athyglisbrest, geðklofa, verkstoli eða lesblindu, enda er þar brýnast að efla skilning á áhrifum mataræðis á andlega og líkamlega heilsu. Bókin á einnig fullt erindi til alls almennings enda þekking og skilningur á hollu og góðu mataræði eitthvað sem allir ættu að tileinka sér.
Ég tel mikilvægt að ná til fólks sem er að vinna með einstaklinga sem hafa ,,greiningar“, og þá er ég að tala um lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk. Ég vona að smám saman verði meiri vakning innan heilbrigðiskerfisins um hvað rétt mataræði hefur mikið að segja fyrir fólk með einhverfu, ofvirkni, athyglisbrest, þunglyndi og geðklofa. Hægt er að nálgast bókina í gegnum vefsíðuna http://www.maturogheilsa.is og í völdum verslunum. Til að efla enn frekar vitund og þekkingu almennings og fylgja eftir útgáfu bókarinnar býður Jóhanna Mjöll þeim sem áhuga hafa á frekari kynningu á málefninu. Einnig mun hún bjóða upp á ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna sem vilja aðstoð og hjálp varðandi mataræði og þá sérstaklega út frá þeim línum sem bókin leggur. Mun hún nota http://www.maturogheilsa. is til að koma á framfæri frekari upplýsingum, fræðslu, uppskriftum, o.fl.
Burt með skaðleg efni
Frétt frá Neytendasamtökunum Neytendasamtökin hafa fjallað um umdeild litarefni (svokölluð asó-litarefni) sem notuð eru í matvæli en rannsóknir hafa sýnt samhengi á milli neyslu efnanna og ofvirkni, einbeitingarskorts og annarra hegðunarvandamála hjá börnum. Einnig er þekkt að efnin geta valdið ofnæmiseinkennum. Samtökin sendu nýlega bréf til Samtaka iðnaðarins og hvöttu innlenda framleiðendur til að skipta efnunum út fyrir önnur öruggari, líkt og margir framleiðendur í Evrópu hafa þegar gert. Samkvæmt nýjum reglum Evrópusambandsins verður framleiðendum innan tíðar skylt að merkja matvæli sem innihalda litarefnin E102, E104, E110, E122, E124 og E129 með varúðarmerkingunni;
Getur haft óæskileg áhrif á hegðun og einbeitingu barna Það er vissulega skref í rétta átt en Neytendasamtökin telja þó að vörur sem seldar eru með slíkri viðvörun eigi einfaldlega ekki erindi á markað. Neytendasamtökin hvetja því innlenda framleiðendur til að skipta litarefnunum út hið fyrsta. Minnt er á að efnin voru bönnuð á Íslandi til ársins 1997 þannig að framleiðendur ættu að hafa reynslu af því að nota önnur og öruggari litarefni.
Sjá nánar á vef Neytendasamtakanna: http://www.ns.is
Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir árið 2008
Flokkar:Kynningar