Hvað er lágur blóðsykur?
Talið er að læknirinn dr. Seale Harris hafi í fyrstu uppgötvað þennan sjúkdóm árið 1924. Hann var fyrstur til að skrifa um óeðlilega lágan blóðsykur og þau einkenni sem fylgja því ástandi. Upphaflega var álitið að þetta stafaði af of mikilli insúlínframleiðslu í briskirtlinum. Síðar kom þó í ljós að þó að það geti verið orsökin í einstaka tilfellum eru þó aðrar orsakir miklu algengari. Seale Harris ráðlagði sérstakt mataræði, sem við hann er kennt, gegn þessum sjúkdómi. Áður en lengra er haldið er óhjákvæmilegt að skýra í örstuttu máli, hvernig blóðsykurstjórnun líkamans fer fram. Við fáum sykurefni úr fæðu sem í daglegu tali er nefnd ,,kolvetnafæða“, þó að orðið kolvetni sé í raun rangt, ætti að vera ,,kolhydröt“.
Kolvetnum má skipta í tvo flokka, einföld og flókin kolvetni. 011 kolvetni eru úr svonefndum sykrum eða sykrungum. Einföld kolvetni eru annað hvort einsykrungar t.d. þrúgusykur (glucosa), ávaxtasykur (fructosa) eða tvísykrungar t.d. hvítasykur (sucrosa). Tvísykrungarnir eru samsettir úr tveimur einsykrungum. Fjölsykrungarnir eru samsettir úr mörgum einsykrungum. Af þeim eru mikilvægastir, sterkja og ýmis konar trefjaefni, t.d. cellulosa, lignin, pektin o.fl. Hvatar í meltingarsöfum manna og dýra brjóta suma fjölsykrunga niður í frumparta sína, einsykrunga.
Aðrir eins og margskonar trefjar, brotna ekki niður, en þær fara ómeltar gegnum meltingarveg fólks, en gegna þar öðru mikilvægu hlutverki. (Sjá grein um trefjar í H.h. 2. tbl. 1982). Fyrir áhrif hvata breytast allir sykrungar í þrúgusykur, sem síast út í blóðrásina gegnum þarmaveggina. Sé um ein- eða tvísykrunga að ræða gerist þetta mjög hratt, en hvatarnir eru lengi að brjóta fjölsykrungana niður, svo að langur tími líður frá því að þeirra er neytt, þar til þeir hafa borist út í blóðrásina sem þrúgusykur.
Þrúgusykurinn berst til lifrarinnar, sem bindur það sem líkaminn þarf ekki á að halda hverju sinni í fjölsykrung sem nefndur er ,,glycogen“. Verði skortur á þrúgusykri í blóðinu, breytist glycogenið aftur í þrúgusykur. Í briskirtlinum eru frumur sem mynda hormón sem nefnist ,,insúlín“. Insúlínið er ómissandi til þess að frumurnar geti notfært sér þrúgusykurinn í blóðinu. Skortur á insúlíni veldur sykursýki, sem er ofhár blóðsykur. Einnig myndast í briskirtlinum annar hormón sem nefnist „glucagon“, sem hindrar verkanir insúlíns þegar þörf er á.
Sé mikils magns einfaldra kolvetna neytt berast á skömmum tíma kynstrin öll af þrúgusykri til lifrarinnar. Sé starfsemi hennar ekki í mjög góðu lagi ræður hún ekki alltaf við að breyta öllum þessum þrúgusykri í glycogen nægilega hratt og blóðsykurinn hækkar. Briskirtillinn myndar þá insúlín sem lækkar blóðsykurinn aftur í eðlilegt horf. Sé umframsykurmagn í blóðinu mjög mikið og hafi blóðsykurinn hækkað mjög hratt, eins og gerist við að neyta sætinda í stórum stíl, svarar briskirtillinn mjög kröftuglega og spýtir stórum skammti insúlíns út í blóðrásina. Blóðsykurinn fellur þá niður á örskömmum tíma og stundum niður fyrir eðlilegt mark.
Vegna þess hversu sykur er fljótur að berast út í blóðrásina klárast upp á mjög skömmum tíma í meltingarfærunum sá sykur sem neytt er. Eftir það berst nú lítill sem enginn nýr þrúgusykur út í blóðrásina, en vegna þess að mikið insúlín myndaðist á meðan blóðsykurinn var of hár er það í sumum tilfellum orðið of mikið, ef enginn nýr þrúgusykur berst út í blóðið. Sé allt annað í lagi býr lifrin nú til þrúgusykur úr glycogeni vegna áhrifa frá hormóninu ,,adrenalín“ sem nýrnahetturnar mynda, verði blóðsykurinn of lágur.
Við það hækkar blóðsykurinn á nýjan leik og jafnvægi næst. Stundum fer þó eitthvað úr skorðum í þessum ferli. Stundum getur lifrin e.t.v. ekki myndað nægilega mikinn þrúgusykur úr glycogen. Stundum svarar briskirtillinn háum blóðsykri alltof kröftuglega og myndar of mikið insúlín. Stundum getur verið að briskirtillinn myndi illa eða ekki hormóninn glucagon, sem dregur úr virkni insúlíns. Röng starfsemi heiladinguls og/eða skjaldkirtils getur valdið því að hormónar, sem þessir kirtlar framleiða og stjórna myndun adrenalíns í nýrnahettunum, ef blóðsykur verður of lágur, berist ekki á réttum tíma eða í réttu magni. Fleira mætti nefna, en afleiðingin er að blóðsykurinn verður of lágur og þó alveg sérstaklega eftir mikla sætindaneyslu.
Gagnslítið er að reyna að bæta úr þessu með því að neyta sykurs. Það hefur líkar afleiðingar og að pissa í skóinn sinn við kulda á fótum, gefur aðeins stundarfróun, en ástandið verður enn verra á eftir. Sé flókinna kolvetna neytt í stað sykurs berst þrúgusykurinn miklu hægar úr meltingarfærunum út í blóðið og til lifrarinnar. Hún á því auðvelt með að breyta umfram þrúgusykri í glycogen og lítil hækkun verður á blóðsykri. Stórframleiðsla briskirtilsins á insúlíni er því óþörf. Því verður blóðsykurinn, til þess að gera, jafn og stöðugur í langan tíma og lifrin þarf ekki að breyta glycogen í þrúgusykur, því að stöðugt berst þrúgusykur frá þörmunum inn í blóðrásina meðan flóknu kolvetnin eru að brotna niður, sem tekur langan tíma.
Þegar því er lokið hættir þrúgusykur að vísu að berast út í blóðrásina, en það gerist hægt og rólega og insúlínmagn blóðsins er þá til þess að gera lágt og því þarf lítill þrúgusykur að berast frá lifrinni til að halda blóðsykrinum eðlilegum. Þetta er í stórum dráttum einfölduð mynd af því sem talið er að gerist í sykurefnaskiptum líkamans í tengslum við of lágan blóðsykur. Til er önnur tegund af lágum blóðsykri sem stafar afmikilli insúlínframleiðslu briskirtilsins vegna æxlismyndunar eða stækkunar þeirra svæða í brisinu sem mynda insúlín. Vegna þess hversu sjaldgæf sú tegund er verður það ekki rætt frekar og allt sem hér eftir verður sagt um lágan blóðsykur á við hina tegundina.
Einkenni lágs blóðsykurs
Þegar ræða á um helstu einkenni sem fylgja lágum blóðsykri, er erfitt að segja um hvar á að byrja og hvar á að enda. Bæði er það að sjúkdómurinn er á mjög mismunandi háu stigi hjá einstaklingum, og einnig hitt, að einkennin eru mjög fjölbreytt. Dr. Paavo Airola segir að varla sé til það sjúkdómseinkenni sem lágur blóðsykur geti ekki valdið. Þó má nefna nokkur einkenni sem algengt er að fylgi sjúkdómnum en lesendur verða þó að gera sér grein fyrir að einkennin eru mjög breytileg eftir einstaklingum og því útilokað að birta hér tæmandi lýsingu. Sumir einstaklingar hafa mörg einkenni, aðrir e.t.v. aðeins eitt eða fá og hjá nokkrum breytast einkennin frá einum tíma til annars. Hér koma nokkur einkenni sem algengt er að fylgi lágum blóðsykri:
Þreyta.
Þunglyndi.
Svefnleysi.
Ótti og kvíði.
Mígreni og annar höfuðverkur.
Óeðlilegur sviti.
Hjartsláttur og hjartsláttartruflanir.
Krampi í kviðarholi, skjálfti og óstyrkur.
Minnisleysi, nýliðin atvik gleymast algerlega (black out).
Verkir í vöðvum.
Langvarandi meltingartruflanir.
Geðtruflanir af ýmsu tagi.
Sjálfsmorðstilhneigingar.
Kyndeyfð hjá báðum kynjum.
Þessi listi er aðeins örlítið brot af því sem til er skráð af einkennum sem hurfu, þegar sjúkdómurinn var læknaður. Vitanlega geta öll þessi einkenni stafað af öðrum ástæðum en of lágum blóðsykri. Sérstaklega minna þau á einkenni sem oft fylgja fæðuofnæmi, kvikasilfurseitrun og sveppasýkingu í meltingarfærum, enda ýmislegt sem bendir til að visst samband kunni að vera á milli þessara vandamála eins og rætt verður síðar í þessari grein. Flest þessi einkenni eru venjulega flokkuð sem taugaveiklun, sál/líkamlegir sjúkdómar, ,,tilfinningavandamál“, æðiþunglyndi (manic-depressive psychosis), geðklofasýki (schizophrenia) eða einhverjir aðrir sjúkdómar frá miðtaugakerfi.
Venjulega eru þeir sjúkdómar meðhöndlaðir með geðlyfjum, sem sum hver draga úr einkennum en lækna vitanlega ekki orsökina sem er of lágur blóðsykur. Þeir sem rannsakað hafa þetta best í Bandaríkjunum hafa látið hafa eftir sér, að sennilega mætti hálftæma öll geðsjúkrahús þar í landi á skömmum tíma ef þeir „geðsjúklingar“ sem þjást af oflágum blóðsykri væru rétt sjúkdómsgreindir og fengju viðeigandi meðferð. Algengt er að fólk með of lágan blóðsykur leiðist út í ofneyslu áfengis og vímuefna, vegna þess að það veitir stundarfróun. Talað hefur verið um og rök að því leidd að flestir ef ekki allir áfengissjúklingar þjáist af oflágum blóðsykri.
Hvort áfengissýkin er orsök eða afleiðing er þó ennþá ekki fullljóst. Læknar sem ekki hafa kynnst þeim rannsóknarniðurstöðum, sem hér er verið að segja frá gefa sjúklingum með of lágan blóðsykur oft róandi lyf, sem þeir síðan geta ekki án verið. Sé sjúkdómurinn ekki greindur og viðeigandi meðferð hafin eru mestar líkur á að þetta fólk verði ævilangt öryrkjar að meira eða minna leyti. Það er því ekki til svo lítils að vinna, bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélagið, að þekking á þessum sjúkdómi fái sem fyrst almenna viðurkenningu læknavísindanna. Einnig hefur lágur blóðsykur verið tengdur afbrota- og ofbeldishneigð og tilraunir við bandarísk fangelsi renna mjög stoðum undir þær hugmyndir (sjá H.h. 3.- 4. tbl. 1983. Römm uppskera sykurs).
Sykurþolsprófun
Vegna þess hversu breytilegum einkennum lágur blóðsykur veldur, getur oft verið erfitt fyrir lækna að greina sjúkdóminn. Sex stunda sykurþolsprófun getur þó gefið allgóða hugmynd um ástandið en þriggja stunda prófun er oft alls ófullnægjandi. Prófunin fer þannig fram að sjúklingurinn er látinn fasta í ca. 12 tíma, t.d. yfir nótt. Þá er tekið úr honum blóðsýni og þrúgusykursmagn þess mælt til að sjá svokallað „föstugildi“. Að því loknu fær hann þrúgusykursupplausn að drekka. Klukkustund síðar er annað blóðsýni tekið og síðan á stundar fresti þar til sex tímar eru liðnir. Stundum eru sýni tekin á 30 mín. fresti fyrri hluta tímans. Blóðsykurinn er mældur í öllum sýnunum og niðurstöðurnar skráðar sem mg í 100 ml. Þegar farið er að meta niðurstöðurnar getur málið farið að vandast.
Flestum læknum hefur verið kennt að allt sé í lagi þó að blóðsykurinn fari niður í allt að 50-60 mg í 100 ml blóðs, en eðlilegur blóðsykur á fastandi maga er 80-100 mg en hækkar nálægt 40-50% eftir máltíð. Reyndar er sáralítið kennt um lágan blóðsykur í flestum læknaskólum, svo að ílestir læknar trúa því, að aðeins þurfi að athuga hvort blóð sykurinn sé of hár, sé sykurþolspróf gert. Því kunna sárafáir læknar að draga réttar ályktanir afprófunum, sem miða að því að uppgötva of lágan blóðsykur. Hér verða sýnd línurit af nokkrum sykurþolsprófunum. Það fremsta sýnir þrjá heilbrigða einstaklinga, annað sýnir tvo sykursýkissjúklinga og hin mismunandi afbrigði of lágs blóðsykurs. Fyrsta línuritið af of lágum blóðsykri sýnir mjög milt afbrigði. Það er ekki fyrr en eftir fimm tíma sem blóðsykurinn fellur niður fyrir eðlilegt gildi.
Annað línuritið sýnir einnig fremur mild einkenni en vegna þess hvað blóðsykurinn fellur hratt geta þó veruleg einkenni stundum fylgt þannig blóðsykursprófi. Þriðja línuritið sýnir þrjá einstaklinga með línurit sern algengt er að sjá. Ath. að það er ekki fyrr en eftir þrjár klukkustundir að blóðsykurinn fellur niður fyrir eðlilegt gildi, en í byrjun fer hann of hátt. Fjórða línuritið sýnir eðlilega byrjun, en í lokin er blóðsykurinn orðinn allt of lágur. Fimmta línuritið sýnir alvarleg tilfelli. Heila línan sýnir alltof lágt föstugildi og mjög lágt endagildi en brotna línan mjög hratt fall úr of háu gildi niður í alltof lágt. Hvort tveggja er líklegt til að valda alvar legum einkennum.
Sjötta línuritið er ekki eiginlega flokkað sem of lágur blóðsykur en er kallað „flatt línurit“. Blóðsykurinn nær aldrei að komast upp í viðunandi hátt gildi en hangir alltaf á sama stað, slitna línan of neðarlega. Þannig línuriti fylgir oft þreyta, áhugaleysi og skortur á lífskrafti. Þó er ekki alltaf auðvelt að meta línuritin. Sumir hafa mikil einkenni, enda þótt blóðsykurinn fari aldrei mjög langt niður. Aðrir eru einkennalitlir, jafnvel þótt blóð sykurinn sé verulega of lágur. Paavo Airola telur að mjög snöggt fall í blóðsykri hafi meiri áhrif heldur en þó að blóðsykurinn sé lítið eitt of lágur og að stundum geti alvarleg einkenni komið fram, jafnvel þótt ekki sé um mjög lágan blóðsykur að ræða, að eins ef hann fellur hratt.
,,Sykurþolsþátturinn“ í fæðu (Glucose Tolerance Factor, GTF)
Hinn svokallaði „sykurþolsþáttur“, oft nefndur GTF, sem er skammstöfun á enska nafninu, hefur á undanförnum árum vakið áhuga fleiri og fleiri vísindamanna. Rannsóknir benda eindregið til þess að þetta efnasamband gegni mjög mikilvægu hlutverki í líkamanum í sambandi við stjórnun blóðsykurs og hindri þannig bæði sykursýki og of lágan blóðsykur.
Einnig er talið að það hafi fyrirbyggjandi áhrif á æðakölkun og hjartasjúkdóma. GTF er krómsamband sem líkaminn getur sjálfur myndað, sé til staðar nægilegt króm, niacin (B-3 vítamín) eða amínósýran tryptofan og amínósýrurnar glútamínsýra og cystein. Skorti eitthvað af þessu getur líkaminn ekki myndað GTF. Vitað hefur verið lengi, að í mikið unninni fæðu er mjög lítið af krómi og einnig að slík fæða (hvítt hveiti, hvítur sykur, ýmis konar unninn pakkamatur o.m.fl.), beinlínis rænir líkamann krómi, sem brotnar niður og tapast með þvagi.
GTF aðstoðar insúlín við stjórnun blóðsykurs. Of langt mál er að segja hér frá hvernig þessi eiginleiki þess var uppgötvaður – aðeins má geta þess að bæði dýratilraunir og athuganir á fólki sanna þetta endanlega. Einnig kom í ljós að GTF lækkaði bæði kólesteról og triglyseríið í blóði sykursjúkra tilraunadýra og dýra sem þjáðust afkrómskorti. Þá er vitað að GTF lækkar LDL (low density lipoprotein) en hækkar HDL (high density lipoprotein) í blóði bæði manna og dýra, en þessi lipoprótein bera kólesteról um líkamann.
Talið er að HDL hindri það að kólesteról setjist innan á æðaveggi, en LDL er talið valda því að kólesteról setjist innan í æðar. Nóg um það. Svo virðist sem sumir einstaklingar eigi í erfiðleikum með að mynda GTF. Stundum getur þetta stafað af krómskorti en stundum af öðrum ástæðum. Þeir einstaklingar þurfa að fá GTF úr fæðunni. Erlendis er selt sérstakt ölger, sem inniheldur verulegt magn GTF. Hér á landi fæst þannig ölger ekki og mun að öllum líkindum ekki fást í náinni framtíð, vegna þess að GTF inniheldur króm, en allar bætiefnatöflur sem innihalda snefil af krómi eru hér á bannlista.
Því eiga Íslendingar þess ekki kost að fá þetta nauðsynlega efnasamband, jafnvel þótt lífið lægi við. Vonandi verður reglugerð um þetta endurskoðuð fljótlega, enda beinlínis óskiljanleg frá sjónarmiði heilbrigðrar skynsemi eins og fleira á þeim bæ. Fyrir þá sem e.t.v. spyrja hvort króm sé þá ekki hættulega eitrað, úr því að það sé á bannlista við hlið arseniks, kvikasilfurs og cadmiums, ætla ég að svara með orðum dr. Richard. Passwaters: ,,Eitranir frá neyslu þrígilds króms eða GTF hafa aldrei verið skráðar. Þetta er ekkert undarlegt, vegna lélegrar upptöku í meltingarfærum og hversu það skilst.fljótt úr líkamanum. Áætlað hefur verið að hlutfall króms sem lyfs annars vegar, og skammta sem eitrunarverkanir fylgja hins vegar, sé einn á móti tíu þúsund.“ Þó að margt sé ennþá óljóst í sambandi við GTF og of lágan blóðsykur, má þó slá því föstu að þetta efnasamband gegni lykilhlutverki í stjórnun blóðsykurs.
Lækning á lágum blóðsykri
Flestum ber saman um það, að lækning lágs blóðsykurs verði að gerast með breyttu mataræði. Seale Harris, sá er fyrstur lýsti sjúkdómnum, eins og áður segir, ráðlagði kolvetnasnauðan en eggjahvíturíkan mat. Þannig fæða eyðir einkennum lágs blóð sykurs en henni fylgja ýmsir ókostir. Reynslan sýndi að fólk á þannig fæði vegnaði illa væri litið til lengri tíma. Margir fengu liðagigt og aðra gigtarsjúkdóma, beinmeiru, tregar hægðir, æðakölkun og jafnvel geðtruflanir. Nú er vitað að þetta fæði veldur skorti ýmissa ómissandi næringarþátta t.d. skorti á B-3 og B-6 vítamíni, C-vítamíni, kalki og fleiri steinefnum.
Flest fólk á þessu fæði lést fyrir aldur fram eftir ýmiskonar vanheilsu. Ennþá mæla þó ýmsir læknar með þannig fæði. Af áðurgreindum ástæðum er full ástæða til að vara fólk við þannig mataræði, sem einnig hefur verið notað fyrir sykursjúka. Dr. Paavo Airola ráðleggur fólki mataræði afallt öðrum toga. Það sama mataræði er einnig hið besta sem vitað er um fyrir sykursýkissjúklinga. Margir aðrir næringarfræðingar og læknar hafa mælt með líku mataræði svo að allt bendir til þess að það hafi í aðalatriðum hlotið almenna viðurkenningu læknavísindanna.
Mataræði Paavo Airola
Mataræði hans er að mestu samsett úr:
A) Komi, fræjum og hnetum.
B) Grænmeti.
C) Ávöxtum.
Hann telur að spíruð fræ, baunir og korn séu eitt það hollasta sem völ er á. Þar má nota mungbaunir (grænar sojabraunir), hveitikorn, sojabaunir, lúsernufræ (alfaalfa), sólblómafræ, o.m.fl. Þessi sömu fræ má einnig nota óspíruð og til viðbótar graskerjafce, sesamfræ, möndlur, hörfræ og ýmsar hnetur. Allt þetta inniheldur prótein (eggjahvítu), af miklum gæðum ásamt gnægð vítamína, steinefna, snefilefna og fjölómettaðrar fitu. Möndlur, hnetur og graskerjafræ má nota sem sælgæti milli mála. Besta kornið fyrir fólk með lágan blóð sykur, er bókhveiti og hirsi.
Margir eru ofnæmir fyrir hveiti, en ofnæmi kemur oft við sögu við lágan blóðsykur. Fylgi óþægindi eins og uppþemba, loft í þörmum eða magaverkur neyslu hveitis eða matvöru sem hveiti er í, má ekki neyta þess. Hirsi er allra kornvara best fyrir þá sem þjást af lágum blóðsykri, því að í því er óvanalegt kolvetni, sem ekki hefur slæm áhrif á sykurefnaskipti, auk þess að vera auðmelt. Bókhveiti er einnig prýðilegt. Í því er prótein sem að gæðum jafnast á við prótein í kjöti. Þá er það einnig góður steinefnagjafi. Airola telur einnig grænmeti mjög mikilvæga fæðu fyrir fólk með lágan blóðsykur.
Úr grænmeti fæst gnægð ýmissa vítamína, steinefna, snefilefna og efnahvata (enzyma). Sunat grænmeti má nota hrátt en annað verður að sjóða fyrir notkun, eins og t.d. kartöflur og ýmiskonar baunir. Hrár laukur og hvítlaukur hafa í sér efnasambönd sem verka vel á stjórnun blóðsykurs. Líkt má segja um ávöxtinn avocado sem inniheldur sjaldgæfa sykurtegund, „mannoheptulosa“, sem í reynd dregur úr verkunum insúlíns og vinnur þannig gegn lágum blóðsykri. Þó er rétt að nota avocado í hófi, hálfan til einn ávöxt á dag. Flesta aðra ávexti má nota, en suma þó aðeins í hófi, vegna sykurinnihalds þeirra. Sérstaklega er mælt með sítrónusafa blönduðum í vatn, vegna hagstæðra verkana sítrónusafa á starfsemi lifrarinnar, sem oftast er í miður góðu lagi hjá fólki með lágan blóðsykur. Einnig hefur hrár rauðrófusafi góð áhrif á lifrina. Frekar ætti að velja lítið sæta ávexti og ber og alls ekki nota sykraða niðursoðna ávexti.
Aðrar fæðutegundir
Til viðbótar áðurnefndum fæðutegundum telur Airola að flestir megi nota ýmiskonar mjólkurafurðir t.d. súrmjólk, osta og jafnvel nýmjólk. Þó ber að minnast þess að samkvæmt mörgum athugunum er mjólk einhver algengasti ofnæmisvaldur meðal fæðutegunda. Ofnæmið eða óþolið getur lýst sér sem verkir í maga, loft í þörmum eða niðurgangur. Verði þannig einkenna vart eftir mjólkurneyslu, verður viðkomandi að hætta að nota hana, að minnsta kosti í bili, jafnvel árum saman. Airola telur að súrmjólk og acidophylus mjólk (sjá grein í H.h. 3-4. tbl. 1984) séu best. Sennilega mætti bæta skyri við þessa upptalningu. Einnig telur hann að mjólkursýra og matur sýrður í henni sé heppilegur.
Líklega er skyrmysa einhver hollasti drykkur sem Íslendingar eiga völ á. Kaldpressaðar jurtaolíur má nota í hófi, en eins og oft hefur verið áréttað hér í þessu riti, má aldrei steikja í þannig olíu, né hita hana mikið. Við það geta myndast eitruð efnasambönd. Betra er að steikja úr mettuðum fitum t.d. smjöri, en best aföllu er þó að steikja mat alls ekki. Flestar jurtaolíur, sem ekki eru kaldpressaðar eru unnar við háan hita og/eða með efnafræðilegum aðferðum og innihalda mikið aftrans-fitusýrum. Þannig olíur og smjörlíki búið til úr þeim er vara, sem ætti helst ekki að leggja sér til munns nema í undantekningartilfellum. Örlítið af hunangi má nota til að sæta mat eða te, en þó aldrei meira en hálfa teskeið í einu. 1 mjög erfiðum tilfellum af lágum blóðsykri má þó ekki nota hunang í þannig smáskömmtum.
Líkt má segja um ávaxtasykur, fructosa. Sumir þola e.t.v. eina teskeið en aðrir alls ekkert. (Ath. Að rugla ekki saman ávaxtasykri og þrúgusykri, glucosa, sem alls ekki má nota). Airola telur að ölger sé mjög mikilvægt fæðubótarefni fyrir fólk með lágan blóðsykur. Með ölgeri er þá átt við ger sem ekki inniheldur lifandi gerla, eins og ger sem notað er í bakstur og til ölgerðar. Lifandi ger má alls ekki nota til matar vegna þess að það veldur óæskilegri gerjun innvortis, sein m.a. veldur lofti í þörmum og eyðir B-vítamínum úr fæðunni, auk þess að mynda skaðleg efnasambönd eins og t.d. acetaldehyd og vínanda (sjá grein um sveppasýkingu í 3-4. tbl. H.h. 1984). Í ölgeri eru flest þekkt vítamín af B-flokknum og í því er stundum efnasambandið GTF, sykurþolsþátturinn, sem áður er nefndur.
Ath.: Sé ölger notað á alltaf að taka það nokkru fyrir máltíð, en ekki með mat. Einnig er mælt með að nota kalk, t.d. dólómit-töflur eða calciurn-lactat eða gluconat, sé ölger notað, vegna þess hversu fosfórauðugt ölger er. Sé mikill mjólkurmatur notaður þarf þess þó e.t.v. ekki. Í sambandi við neyslu ölgers verður að geta þess að margt fólk, sem er með, eða hefur haft candida-sveppasýkingu, er ofnæmt fyrir ýmsum efnum sem myndast við gerjun, þ.á m. ölgeri. Það má alls ekki nota ölger í neinni mynd, að minnsta kosti fyrst eftir að sveppasýkingunni hefur verið útrýmt. Það má heldur ekki drekka öl eða neina aðra gerjaða drykki, jafnvel þótt þeir séu hvorki áfengir né sætir. Kjöt og sérstaklega fisk má nota í hófi. Sama er að segja um ýmsan annan mat úr dýraríkinu, t.d. egg, hrogn, lifur, nýru, hjörtu og annan innmat. Einnig má nota lýsi.
Fæðubótarefni og lágur blóðsykur
Flestir sem skrifað hafa um lágan blóðsykur mæla með því að nota einhver fæðubótarefni. Áður hefur verið talað um ölger, króm og krómsambandið GTF. Til viðbótar mæla flestir með því að nota vítamín af B- flokknum, sérstaklega B-6 og fólínsýru nokkuð stórum skömmtum, ásamt minni skömmtum af öðrum þekktum B-vítamínum. Einnig er mælt með að nota hálft til þrjú grömm af C-vítamíni og hálft til eitt gramm af E-vítamíni daglega, ásamt A-vítamíni eða lýsi. Kalk og magnesíum eru talin mjög mikilvæg steinefni, einnig zink.
Danski náttúrulæknirinn Oscar Christiansen mælir sérstaklega með því að nota steinefnatöflurnar ,,Scanalka“, en hann hefur náð sérlega góðum árangri við að lækna of lágan blóðsykur. Því miður hefur ekki ennþá fengist leyfi til að flytja þessar töflur hingað til lands, en þær fást í nágrannalöndunum. Mjólkursýra úr mysu og öðrum sýrðum mjólkurmat er talin mjög góð. Einnig efnið ,,Molkosan“, sem unnið er úr mysu og fæst í heilsubúðum. Mysuna má einnig drekka eins og hún kemur fyrir. Ýmis jurtalyf hafa reynst vel,m.a. úr íslenskum jurtum t.d. te úr vallhumli, blóðbergi og túnfífli. Lakkrísrót er talin hafa mjög góð áhrif á starfsemi briskirtilsins. Sagt er að ,,Síberíu ginseng“ (rússnesk rót) verki vel, einnig jurtablandan ,,Vital complex“ og nokkur hómópatalyf, sem hér verða ekki gerð nánari skil. Að lokum má nefna það, að margir telja að svæðanudd og nálastungulækningar, bæði með og án nála, geri oft gagn, séu þær aðgerðir framkvæmdar af kunnáttu.
Það sem ekki má borða Efst á blaði er þar allur sykur, hvaða nafni sem hann nefnist, nema e.t.v. örlítið af ávaxtasykri. Einnig allar matvörur sem sykur er í, t.d. sætar kökur, sælgæti, sæta drykki, mjög sæta ávexti o.s.frv. Hvítt hveiti og allar matvörur úr því má ekki nota. Einnig margs konar mikið unninn pakkamat, t.d. flestar pakkasúpur og ótal margt fleira. Kaffi, te, kakó, kóladrykki og aðrar vörur sem innihalda koffein og skyld efnasambönd, vegna þess að koffein truflar sykurjafnvægi líkamans. Alla áfenga drykki, vegna truflandi áhrifa áfengis á sykurefnaskipti. Tóbak má ekki nota af sömu ástæðu. Salt má að vísu nota, en mikil notkun þess brenglar hlutfall natríums og kalíums, sem getur valdið kalískorti, sem truflar blóðsykurjafnvægið.
Sítrónufasta Dr. Carey Ream
Lífeðlisfræðingurinn dr. Carey Reams telur að aðalástæðan fyrir of lágum blóðsykri og reyndar einnig sykursýki sé oftast nær óhóflegt sætindaát, sem ofbjóði þeim líffærum sem stjórni blóðsykursjafnvægi líkamans. Sérstaklega telur hann að lifrin verði þar illa úti og að lágur blóðsykur sé venjulega afleiðing þess að lifrin hætti að starfa rétt. Hann hefur þróað aðferð til að leiðrétta starfsemi hennar á skömmum tíma með því sem hann nefnir ,,sítrónuföstu“. Að öðru leyti eru ráðleggingar hans mjög líkar ráðleggingum Paavo Airola.Hann mælir þó ekki með að nota mjólkurafurðir eða hnetur nema í litlum mæli. Einnig telur hann að fólk með of lágan blóðsykur sé oft ofnæmt fyrir sykri og sætum mat og jafnvel fleiri kolvetnum og megi því alls ekki nota þannig fæðu, jafnvel í litlu magni, meðan á lækningu stendur og stundum jafnvel ævilangt. Sítrónufastan fer þannig fram að sjúklingurinn fær ekkert að borða í þrjá daga annað en 1.2 dl af ferskum sítrónusafa blönduðum í 1 lítra af hreinu vatni.
Af þessari blöndu er drukkinn 1.1 dl á klst. fresti (ca. 1 bolli). Að þrem dögum liðnum má byrja að borða lítilsháttar, t.d. linsoðið egg og grænmetissúpu á fjórða degi, en haldið er áfram að drekka sítrónuvatnið næstu þrjá daga. Matarskammturinn er síðan smáaukinn, þar til föstunni lýkur á sjöunda degi. Ekki má þó taka upp fyrra mataræði, þá sígur fljótt aftur á ógæfuhliðina, en sé réttu mataræði fylgt er sjúkdómurinn að fullu læknaður. Hann segir að líðan fólks sé oft mjög slæm meðan á föstunni stendur og varar fólk við að fara á þannig föstu nema undir eftirliti læknis. Að sögn Reams hafa tugþúsundir einstaklinga í Bandaríkjunum fengið fullan bata með þessari aðferð, sem auk þess að lækna lágan blóðsykur læknar oft sykursýki og kransæðasjúkdóma. Hann ráðleggur fólki að drekka mikið vatn milli mála til að auðvelda útskolun ýmissa óheppilegra úrgangsefna.
Sveppasýking, ofnæmi, eitranir og fleira
Dr. C. Orion Truss, sem rannsakað hefur candida albicans sveppasýkingu manna mest, (sjá greini í H.h. 3.-4. tbl. 1984) segir að eiturefni frá candida-sýkingu í þörmum hafi mjög truflandi áhrif á sykurefnaskipti. Von er á skýrslu um rannsóknir hans á því nú síðar á þessu ári. Meðan sú skýrsla er ókomin er ekki rétt að segja mikið um það efni, en á orðum dr. Truss í skýrslu frá síðasta ári er þó augljóst að hann telur þátt sveppasýkingar í blóðsykurtruflunum alls ekki lítinn. Athyglisvert er að fjölmörg þau einkenni, sem vitað er um að hafi lagast við lækningu langvarandi candidasýkingar í þörmum, eru lík eða þau sömu og einkenni um lágan blóðsykur. Sennilega skýrist það mál, þegar skýrsla dr. Truss verður birt.
Vitað er að samband er á milli ýmiskonar ofnæmissjúkdóma og of lágs blóðsykurs. Bæði er talið að ofnæmi, t.d. fyrir fæðu eða einhverju í umhverfinu, geti truflað blóð sykursstjórnun líkamans. Einnig er álitið að of lágur blóðsykur geti valdið ofnæmis viðbrögðum eða óþoli gegn ákveðnum umhverfisþáttum eða fæðutegundum. Í sumum tilfellum er vel hugsanlegt að candida sveppasýking geti verið sameiginleg orsök fyrir hvoru tveggja. Það atriði skýrist trúlega innan tíðar.
Líklegt er að sítrónusafafasta dr. Reams, sem áður er getið, sé öflug aðferð til að útrýma candida-sveppum úr meltingarfærum og einnig er vitað, að sykur er uppáhaldsviðurværi gersveppa, svo að það fæði sem best hefur reynst til að lækna of lágan blóðsykur er einnig heppilegt til að útrýma candida-sveppum úr þörmum. Einnig er vitað að eiturefni sem candida-sveppir mynda í þörmunum berast til lifrarinnar og auka mjög álagið á hana og veikla þannig. Nokkrir sem skrifað hafa um lágan blóðsykur telja að sennilega væri réttara að skilgreina sjúkdómseinkenni þau sem fylgja of lágum blóðsykri sem fæðuofnæmi eða fæðuóþol fyrir ákveðnum kolvetnafæðu tegundum, fremur en sjálfstæðan sjúkdóm.
Eiturefni í smáskömmtum t.d. kvikasilfur úr tannfyllingum, eða blý úr útblæstri bíla, sem undir venjulegum kringumstæð um mundu ekki valda verulegum vanda málum, geta hæglega orðið að stórvanda máli ef ónæmikerfi líkamans er veiklað af völdum langvarandi sveppasýkingar eða annarra orsaka. Þá eru e.t.v. að verki þrír eða fleiri samverkandi orsakaþættir, sem auka áhrif hvors annars og mynda lokaðan vítahring, sem ekki verður rofinn nema einn eða fleiri orsakaþáttanna séu numdir á brott. Þessir orsakaþættir gætu t.d. verið:
a) Langvarandi candidasýking í þörmum vegna lyfjanotkunar og óheppilegs mataræðis.
b) Og lágur blóðsykur vegna rangs mataræðis og langvarandi sveppasýkingar.
c) Ofnæmisviðbrögð fyrir kvikasilfri úr tannfyllingum, vegna veiklunar á ónæmiskerfinu afvöldum sveppasýkingar eða af of lágum blóðsykri.
d) Aukin candida-sýking vegna lélegra varnarviðbragða ónæmikerfisins gegn sveppnum. Þar með er hringnum lokað.
Ofnæmiviðbrögðin geta tekið á sig ótal myndir sem hér verða ekki ræddar í smáatriðum t.d. astma, exem, fæðuofnæmi og sjálfónæmissjúkdómar. Einnig á sú skoðun vaxandi fylgi að fagna, að margskonar geðtruflanir og taugaveiklun séu í eðli sínu ofnæmissjúkdómar. Vítahringurinn getur vitanlega litið öðru vísi út en hér var sýnt og orsakaþættirnir haft mismunandi mikið vægi hjá hverjum og einum. Ætlunin er að síðar komi í þessu riti sér stök grein um ofnæmi, þar sem þessum atriðum verða gerð betri skil.
Hreyfing er nauðsynleg
Airola telur að hæfileg hreyfing undir beru lofti sé afar mikilvæg. Hreyfingin örvar blóðrásina og flýtir fyrir ýmsum efna skiptum þ.á m. sykurefnaskiptum. Hann telur að hollt mataraeði skipti stundum minna máli en góð hreyfing. Því er mikil vægt að þetta tvennt haldist í hendur. Gönguferðir úti í náttúrunni eru sennilega bestar fyrir ílesta, einnig léttar æfingar úti við. Þeir sem óvanir eru hreytingu verða þó að byrja varlega til að ofreyna sig ekki. Síðan má lengja gönguferðirnar og gera þær erfiðari, þegar þrekið vex, jafnvel fara í léttar fjallgöngur, allt eftir því sem hver og einn er fær um. Munið bara að byrja ekki ofgeyst. Betra er að endurhæfingin taki lítið eitt lengri tíma, heldur en að ofreyna sig í byrjun og gefast síðan upp.
Eftirmáli Hér hafa nú verið kynntar í stuttu máli hugmyndir og rannsóknaniðurstöður, sem mikið hafa verið ræddar í nálægum löndum, sérstaklega í Bandaríkjunum, á undanförnum árum. Lítið sem ekkert hefur verið skrifað á íslensku um lágan blóðsykur og einkenni hans og því má búast við að einhverjir sem lesa þetta muni spyrja, hvers vegna læknar viti þetta ekki og hvort þetta sé ekki allt saman tóm ímyndun og staðleysa. Því er til að svara, að fáir læknar hafa átt kost á því að kynnast þessum rannsóknum, vegna þess hversu stutt er síðan margt það sem hér er sagt frá varð fyllilega ljóst, og lítið sem ekkert af því er ennþá komið inn í kennslu í læknaskólum, enda þótt margar bækur og ennþá fleiri greinar hafi verið skrifaðar um þetta efni. Því miður lesa læknar allt of lítið af bókum og skýrslum um nýjustu rannsóknir í læknavísindum og má þar sjálfsagt oft kenna um tímaleysi af miklu vinnuálagi.
Ég bið lesendur að lesa þessa grein með athygli og geyma blaðið. Mér þætti ekki ólíklegt, að ekki liðu ýkja mörg ár þangað til ýmsir læknar hafi tileinkað sér þær hugmyndir, sem hér eru kynntar í fyrsta sinn á íslensku. Þá getur verið gaman að líta í þessa grein á nýjan leik og sjá hversu vel efni hennar hefur staðist tímans tönn.
Fyrir þá sem hefðu áhuga á að reyna að notfæra sér leiðbeiningar hennar er rétt að upplýsa, að flestum fræðimönnum um þetta efni ber saman um, að oft versni ástandið fyrst eftir að mataraeðinu er breytt, sennilega vegna þess að fólk sem notað hefur mikinn sykur er orðið háð honum á líkan hátt og eiturlyfjum og fær viss fráhvarfseinkenni, þegar það hættir skyndilega að nota hann. Því fylgir oft óstjórnleg löngun í sætindi ásamt ýmiskonar vanlíðan. Þetta er þó aðeins tímabundið og lagast á nokkrum vikum. Einnig þarf oft að lækna sveppasýkingu þörmum samhliða mataræðisbreytingunni, annað hvort með lyfinu ,,Nystatin“, eða öðrum aðferðum eins og frá er skýrt í 3- 4. tbl. H.h. 1984.
HELSTU HEIMILDIR: * Dr. Paavo Airola „Hypoglycemia, a bettar Approach“, Health Plus Publishers, Phoenix, Arizona 1977. * Dr. Carey Reams, viðtal við „Healthview Newsletter“ nr. 6. * Richard A. Passwater, Ph.D. „GTF, Ghronium“, Keats, Publ. Inc. * Jeraldine Saunders og Harvey Ross, M.D. „Hypoglycemia“, Pinnacle Books, Inc., New York. * Oscar Christiansen, „Lavt blodsukker“, Foriaget Praxis, 1982. * C. Orian Truss, M.D. „Metabolic Abnormalities in Patients with Cronic Gandidiasis“, Journal af Ortomolicular Psychiatry nr. 2, 1984. * Auk þess bókin „The Yeast Connection“ eftir William G. Crood, M.D.
Höfundur: Ævar Jóhannesson árið 1985
Flokkar:Greinar, Skrif Ævars Jóhannessonar