Hinir furðulegu eiginleikar vatns

Úrdráttur úr bókinni Rafsegulsvið! Hætta eða hugarvíl?
Margt í eðli vatnsins er mönnum enn hulið. Í nýlegum sjónvarpsþætti (á RÚV) var fjallað um rannsóknir sem japanskur vísindamaður gerði á ískristöllum. Hann sýndi þar fram á að ískristallar í vatni geta verið misjafnir og jafnvel breytilegir eftir því hvers konar hljóð eða músíktónar hafa borist til þeirra. Hann setti vatn í sitt hvort glasið og spilaði tvennskonar tónlist, klassíska fyrir annað glasið og rokk fyrir hitt. Þegar kristalmyndanir í vatninu voru rannsakaðar sást að rokkvatnið var með heldur ljóta og ólögulega kristalla en klassíska vatnið hafði fallega og jafna kristalla. Hvað er þarna á seyð?

Þekktur er fjöldi dæma um furðulega eiginleika vatns. Meðal annars má nefna að hómópatía virkar þó ekki hafi tekist að útskýra hversvegna hún gerir það. Í einföldu máli er kenning hómópata á þá leið að mann, sem orðið hefur fyrir eitrun af einhverju tagi, má lækna með því að gefa honum útþynnta lausn af sama eitrinu og skaðaði hann. Hljómar ekki vel! Raunar þarf þynning eitursins að vera eftir kúnstarinnar reglum. Dropi af eitrinu settur út í lítra af vatni, síðan tekinn dropi úr þeirri lausn og þynntur út í öðrum lítra af vatni, og svo framvegis. Þegar þynningu er lokið er lyfið tilbúið. Það sem er furðulegt við þetta er að samkvæmt tölu Avogadros um fjölda mólekúla í rúmmáli er ekkert mólekúl eftir af upprunalega eitrinu í síðustu lausninni. Þar er komin ástæðan fyrir því að læknavísindin blása á þetta. En það er margt sem við ekki skiljum og nýlegar rannsóknir hafa svo um munar kollvarpað þekkingu manna á eðli vatns.

Rannsóknir Jean Monro, Cyril Smith, Joseph Miller og Jacques Benveniste, sem allir hafa doktorsgráðu, hafa opnað nýjar víddir í rannsóknum á ofnæmi og ofnæmistengdum sjúkdómum. Þessar víddir eru læknum framandi og margir súpa hveljur þegar minnst er á ósvinnu af þessu tagi sem að þeirra áliti er kukl af verstu gerð. En hver svo sem viðbrögð fræðimanna eru hefur reynslan sýnt að ekki er um það að villast að þessi fræði eiga rétt á sér.

Margar niðurstöður rannsókna eru reyndar svo ævintýralegar að fáir trúa þeim. Enda er það reynsla þeirra manna sem við þær fást að vísindarit vilji oft ekki birta niðurstöður af þessum toga því þær þykja of ótrúverðugar og er höfundunum brigslað um falsanir og kukl. Kuklið er þó ekki meira en svo að hópur virtra vísindamanna hefur tekið saman höndum um þessi fræði og heillast af þeim möguleikum sem þar eru á ferðinni. Meðal þess sem rætt er um í þessu sambandi er flutningur á efni með rafleiðslum. Nú verða flestir hissa og hrista hausinn. Enda má draga úr þessari fullyrðingu og láta nægja að segja: „flytja áhrif efnis eftir rafleiðslum“.

Óþol
Byrjum á byrjuninni. Þegar dr. Jean Monro og dr. Cyril Smith unnu að ákveðnum tilraunum með ofnæmissjúklinga komust þeir að þeirri furðulegu niðurstöðu að líkami ofnæmissjúklinga sendir frá sér rafbylgjur undir áhrifum sem rekja má til ofnæmisvalds. Til skýringar: Jón Jónsson hefur ofnæmi fyrir kartöflum. Farið er með hann inn á tilraunastofu sem er þannig útbúin að engar rafbylgjur komast inn í herbergið, hvorki manngerðar né náttúrulegar.

Jón er tengdur sérútbúnum mælitækjum sem eru einangruð frá honum þannig að hann getur ekki orðið fyrir óbeinum áhrifum frá þeim. Síðan er hann látinn borða kartöflu. Mælitækin fylgjast grannt með öllum rafbylgjum í vistarverunni. Eftir nokkra stund byrja mælitækin að sýna raföldur, af ýmsum tíðnum í herberginu, sem stafa frá sjúklingnum. Þetta er furðulegt fyrirbæri. Nánar rannsóknir hafa sýnt að það dugir að sjúklingur haldi á lokuðu glasi með ofnæmisvaldinum til að framkalla viðbrögð. Jón er ekki einsdæmi heldur á þetta sennilega við um flestalla ofnæmissjúklinga.

Tíðnisviðið er allt frá nokkrum milliriðum og upp í milljónir sveiflna á sekúndu. Hinsvegar nægir að mæla raföldur á tíðninni 20 til 16 þúsund rið, sem er heyranlegt sé því breytt í hljóð. Við tilraunir Monroe og Smith kom fljótlega í ljós að ofnæmi var ekki aðeins gagnvart efni, eins og t.d. mat eða kemískum efnum, heldur líka rafbylgjum. Frekari tilraunir voru gerðar á eftirfarandi hátt: Sjúklingur kom sér fyrir inni í vistarveru sem var einangruð gagnvart utanaðkomandi rafbylgjum. Eitt loftnet var sett upp inni hjá honum. Passað var upp á loftræstingu, til þess að engin efni kæmust inn sem valdið gæti ofnæmi. Síðan var hleypt riðspennu á loftnetið og var tíðnin hækkuð smátt og smátt.

Rafspenna á loftnetinu myndar rafsegulsvið sem var í þessu tilfelli ekki nema 0,3 mG að styrkleika eða 30 nT. Þessi styrkur er langt fyrir neðan öll hættumörk og telja má líklegt að finnist á flestum heimilum frá raftækjum. Sjúklingur hafði enga hugmynd um hvaða tíðni var á eða yfir höfuð hvort loftnetið væri tengt. Svörun sjúklinga við tíðni er einstaklingsbundin. Til dæmis mældist einn sjúklingur með óþol fyrir öllum tíðnum nema 8,4 riðum 450 riðum, 4 kílóriðum, 25 kílóriðum, 350 kílóriðum, 20 milljón riðum og 320 milljón riðum. Öll tíðni ofan við 350 milljón rið framkallaði ofnæmisviðbrögð (milljón rið er sama og MHz). Það sem meira er sumar tíðnir framkalla jákvæð viðbrögð, þ.e. létta á vanlíðan sem kviknar vegna áreitis. Frekari rannsóknir leiddu í ljós að með sérstökum raffræðiaðferðum var hægt að framkalla eða flytja áhrif efna sem valda óþoli.

Notum dæmið um hann Jón aftur. Jón hefur ofnæmi fyrir kattarhárum. Hann er svo næmur að hann þarf ekki nema koma inn þar sem kettir eru til að fara að hnerra og líða illa. Hann fer á tilraunastofu og sest inn í tilraunaherbergi. Í næsta herbergi setur aðstoðarmaður kattarhár í sér útbúið tæki sem við skulum kalla svarta kassann. Kassinn er tengdur loftneti sem er inni hjá Jóni. Nú er kveikt á svarta kassanum og innan stundar er Jón farinn að fá útbrot vegna kattar sem er hvergi nálægur. Þetta er eitt furðufyrirbærið í viðbót. Svarti kassinn inniheldur mjög næma skynjara og magnara sem skynja kattarhárin, breyta áhrifum frá þeim í rafboð og magna þau upp. Rafboðin eru síðan send út í loftnetið hjá Jóni sem upplifði óþolsviðbrögð. Þess konar tilraunir hafa verið margendurteknar með margvíslegum ofnæmisvöldum og fjölmörgum einstaklingum. Niðurstaðan er ætíð sú sama eða: Það er hægt að breyta efnisáreiti í rafboð sem hafa sömu áhrif á sjúkling eins og efnið sjálft hefur.

Hagnýt notkun
Dæmi um nýtingu þessarar þekkingar er meðferðarfræði sem kallast hefur „Bio Resonance Therapy“ (BRT). Það eru fræði sem Þjóðverjar tileinkuðu sér og voru þeir fljótir að átta sig á þeim möguleikum sem þetta býður upp á. Fyrirtækið MORA, með íhlutun Dr. Cyrril Smith og fleiri, hannaði og þróaði tæki sem getur hermt ofnæmisvalda og mælt ofnæmisviðbrögð sjúklinga. Í meðferðarfræði MORA BRT fer mæling fram á eftirfarandi hátt: Sjúklingur fær í hendur málmskaut sem tengt er tækinu. Í þetta skaut eru leidd rafboð, sem búið er að magna upp, frá ýmsum kemískum efnum sem valdið geta ofnæmi.

Það er gert með því að tilraunaglas með efninu er sett í hylki sem inniheldur rafsegulnema. Efniseiginleikar eru yfirfærðir í tækið, sem magnar þá upp og leiðir í skautið sem sjúklingur heldur á. Með þessu móti er hægt að stýra styrk ofnæmisáhrifanna svo að sjúklingi sé ekki hætta búin. Skaut mælitækis er sett á nálastungupunkt og fylgst vandlega með viðbrögðum og kemur strax í ljós hvort ofnæmi er fyrir viðkomandi efni eða ekki. Með þessu tæki hefur á undraverðan hátt tekist að greina ofnæmi í fólki, en læknum hefur ekki tekist að greina.

Heilsubúðin í Hafnarfirði hefur slíkt tæki í sinni þjónustu og býður upp á MRT meðferð. Ótrúlegur fjöldi manna hefur fengið greiningu og bót meina sinna eftir mælingu og meðferð þar. Besti en þó furðulegasti þátturinn í þessari meðferð er sá að þegar ljóst er hvað það er sem sjúklingur hefur ofnæmi fyrir er hægt að meðhöndla hann á grundvelli þeirra rafboða sem hann sendir frá sér sjálfur. Tækið getur „lært“ bylgjurnar sem sjúklingur sendir frá sér. Með því að snúa þeim við í fasa (búa til andbylgjur) og senda sjúklingi þær aftur má draga verulega úr ofnæmiseinkennum. Þegar sjúklingur hefur verið greindur og fengið meðferð með þessum hætti er blanda af salti og vatni geisluð með viðkomandi tíðni. Síðan er sjúklingur látin taka nokkra dropa af lausninni reglulega í nokkrar vikur. Einn þeirra sjúklinga sem komu í Heilsubúðina í Hafnarfirði var með ofnæmi sem ekki hafði tekist að greina þrátt fyrir ofnæmispróf lækna.

Læknirinn, sem er virtur ofnæmisfræðingur, sagði við sjúklinginn sem er kona að því miður gæti hann ekki hjálpað henni, hún yrði að finna út úr þessu sjálf. Ofnæmispróf á húð og blóðprufur sýndu ekkert. Ofnæmi var samt mjög greinilegt því þetta kom fram í rauðu húðútbroti og miklum kláða og var áberandi eftir flestar máltíðar. Margendurteknar tilraunir til að sleppa hinu og þessu úr matnum báru takmarkaðan árangur. Ákveðið var að prófa MBRT-meðferð hjá Heilsuhúsinu. Eftir fimmtán mínútur í þeirri prófun var ljóst að viðkomandi hafði ofnæmi fyrir gulrótum, kartöflum, rófum, lauk, tómötum, bönunum, paprika og gúrkum. Útilokað hefði verið fyrir viðkomandi konu að greina þetta sjálfa. Í kjölfarið var hún látin fara í gegnum ákveðið ferli sem miðaði að því að reyna að draga úr einkennum. Það tókst og eftir nokkrar vikur, þar sem notuð var „prentuð“ saltlausn, var ofnæmið að mestu horfið.

Konan gat þá borðað áðurnefndan mat án þessa að teljandi einkenni kæmu fram. Þetta þótti merkilegt og var læknirinn hennar ekki par hrifinn af þessu uppátæki. Hann taldi þetta kukl og svínarí. Hvað sem því líður þá virkaði þessi meðferð mun betur en öll lyfin sem hún var búin að prófa áður. Flestir læknar mundu líklega telja að um þóknunaráhrif væri að ræða, stundum kallað væntingaráhrif (placebo). Það gengur út á það að sjúklingur trúir að eitthvert ráð mundi virka og það gerir það, allavega um tíma. Í ofangreindi tilviki leiddi meðferðin til bata sem varir enn eftir fimm ár. Ef um væntingaráhrif væri að ræða allan þennan tíma ættu þau að vera eftirsóknarverð og notuð af læknavísindunum. Bótina sem konan fékk við ofnæminu er varla hægt að skýra með væntingaráhrifum. Ef svo væri hversvegna höfðu lyfin þá ekki skilað slíkum áhrifum? Einu áhrifin sem lyfin höfðu voru að slæva sjúklinginn og gera hann viðutan og ruglaðan.

Vatn hefur minni!
Í framhaldi á ofangreindu er rétt að útskýra hvernig vatn er „prentað“ með upplýsingum. Margir meðferðaraðilar nota slíkt, þar á meðal hómópatar, en þetta þarfnast nokkurrar útskýringar.  Hómópatar nota vatn til að leysa upp ýmis efni sem þeir síðan gefa sjúklingi. Efnið er þynnt langt umfram það að nokkuð mólekúl efnisins sé eftir í lausninni. Vatnið heldur samt sem áður eftir eiginleikum efnisins, tíðni þess. Þessi tíðni er dauf, svo dauf að það þarf mikla mögnun til að greina hana.

Af þessu hefur mátt draga eftirfarandi ályktun: „Vatn getur munað tíðni“. Eða kannski er réttara að segja: „Vatn getur munað efniseiginleika“. Í París starfar vísindamaður að nafni Dr. Jacques Benveniste. Hann hefur svokallaða INSERM (á ensku: The French Institude for Health and Medical Research.) rannsóknarstofu til umráða en hún er rekin af franska ríkinu með styrkjum. Þessi merki maður hefur gert tímamótauppgötvun á eðli vatns og efnis. Hann hefur sýnt fram á að hægt er að flytja áhrif frá efni í vatn og hafa áhrif á eiginleika þess (vatnsins) án þess að efnafræðilegir eiginleikar breytist.

Hér er dæmi um tilraun sem lýsir vel því sem átt er við. Tilrauninni er lýst af Michel Schiff í bók hans „Memory of Water“ en hún fjallar um rannsóknir dr. Benveniste. Tilraunin byggist á „yfirfærslu efniseiginleika“. Efni er haft í tilraunaglasi og sett í skynjara á sérbúnu tæki. Efnið er eggjahvíta (ovalbumin) og er glasið merkt OVA. Í hinum enda tækisins er hólf, svokallaður útgangur þar sem í er sett tilraunaglas með hreinu vatni.

Kveikt er á tækinu og það látið vinna í 15 mínútur. Að þessum tíma liðnum er glasið tekið úr útganginum og merkt OVATR (Transmitted Ovalbumin). Síðan er OVATR lausnin sett í tæki sem kallað er Langendorf-tæki. Það er tæki sem líffræðingar nota til að mæla líffræðilega virkni efna og byggist á hjarta úr nýslátruðu tilraunadýri, naggrís eða rottu. Inn á hjartað er tengd örmjó pípa. Út frá hjartanu er einnig örmjó leiðsla sem liggur að mæliglasi.

Hjartað lifnar við og meðan það lifir dælir það vissum skammti af vökva á mínútu. Magn vökva í mæliglasinu er skoðað með mínútu millibili og eru tölurnar skráðar. Tölur sem koma fram eru við rennsli OVATR eru 4,2 – 4,3 – 4,2 – 3,7 – 3,9 – 4,1 – 4,2 – 4,2. Hver tala segir til um gegnumstreymi hverja mínútu. Á þessu sést að rennsli minnkar á fjórðu mínútu um 20% og færist síðan í eðlilegt horf. Vatn hinsvegar hefur ekki þessi áhrif, það breytir ekki gegnumrennsli á þennan hátt.

Í þessu glasi er þó bara vatn efnafræðilega séð. Niðurstaðan er umdeild, reyndar svo að henni hefur verið hafnað af fjölda vísindamanna sem dellu. Michel Schiff lýsir því nánast þannig að vísindaakademían troði puttunum upp í eyrun og þykjast ekkert heyra. En þessi rannsókn er í raun að kollvarpa skoðun vísindamanna á eðli vatns og efnis. Schiff lýsir endurtekningum á þessari rannsókn í bók sinni Memory of Water.

Frekari rannsóknir
Dr. Benveniste hefur stundað margvíslegar rannsóknir er miða allar að því að sýna fram á að vatn er ekki bara vatn. Jafnvel hreint vatn getur innihaldið upplýsingar sem hafa áhrif í líffræðilegum tilraunum en gætu allt eins haft áhrif á þann sem neytir þess. Eina uppgötvun verður að nefna hér sem rennir styrkum stoðum undir kenningar hómópata.

Í vísindum er litið svo á að virkni efnis dofni þegar það er þynnt út. Deyfingin er línuleg í hlutfalli við þynningu. Dr. Benveniste hefur gert tilraunir sem sýna að þetta er ekki svona einfalt. Tilraunir hans eru byggðar á rannsóknum og uppgötvunum Elisabeth Daveas og Francis Beauvais. Þær tilraunir byggjast á því að trufla litun frumna eða aflita þær. Í einföldu máli má segja að hvít blóðkorn (basophil) þarf að lita til að gera þau sýnileg fyrir talningu undir smásjá.

Efnið antiimmunuglobulin E (aIgE) hefur þann eiginleika að geta truflað litun og aflitað litaðar frumur. Það hefur þau áhrif að frumur verða ósýnilegar aftur, eftir að hafa verið litaðar. Mólekúl þessa efnis eru stór og því er hægt að sía það frá upplausn, t.d. vatni. Vegna þessara eiginleika var efnið valið í tilraunina, en tilraunir sem gerðar hafa verið eru fjölmargar og tvíblindar. Það þýðir að sá sem sér um mælingar veit ekki hvað er í þeim glösum sem hann mælir. Hann dreypir efni úr tilraunaglasi yfir litaðar frumur (basophil).

Frumurnar eru taldar fyrir og eftir dreypingu. Virka efnið virkar þannig að lituðum frumum fækkar, þ.e.a.s. færri frumur sjást í smásjá. Efnið aIgE er útbúið og síðan þynnt. Í fyrsta glasi er það hreint, í glasi tvö er tíundi hluti af fyrsta glasi og afgangurinn vatn, síðan hrist kröftuglega saman. Í glasi þrjú er tíundi hluti af glasi tvö. Þetta er endurtekið allt að 45 sinnum blandan er þynnt út í hlutfallinu 1:10 í hvert skipti. Í síðustu lausninni er ákaflega lítið eftir af upprunalega efninu. Til viðmiðunar er útbúin sami fjöldi glasa með vatni. Það væri rökrétt að álykta að virkni efnisins aIgE minnki eftir því sem það þynnist meira, en sú reyndist ekki raunin.

Efnið sýndi ótrúlega virkni þó það væri orðið mjög þunnt. Þetta á ekki að vera hægt! Samt er það gert, og tilraunin hefur verið margendurtekin með sömu niðurstöðu. Súlurit 1 sýnir hvernig virkni aIgE eykst aftur eftir þynningu í níunda, tíunda og ellefta skipti. Í ellefta skiptið er blandan orðin 10-10 að styrk. Tölugildi Avogadros segir að í hverjum 18g af vatni séu 6,023 *1023 mólekúl. Það er því fróðlegt að sjá hvað gerist ef blandan er þynnt enn meira. Súlurit 2 sýnir hvað gerist þegar búið er að þynna blönduna allt að 45 sinnum.

Hér er mælikvarðinn á virkni fenginn með því að telja aflitaðar frumur sem hafa verið baðaðar í lausninni. Súluritið sýnir að fertugasta og þriðja þynning er virk en þar er aIgE þynnt í 10-42 Það segir okkur, að borið saman við tölu Avogadros sem er 6,023 1023 mólekúl í 18 g af vatni, að ekkert mólekúl orðið eftir í lausninni nema hugsanlega einn og einn flækingur. Samt er efnið mun virkara en viðmiðunarefnið, sem var vatn; sama vatnið og aIgE lausnin var þynnt í. Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar hjá þeim félögum dr. Benveniste hjá INSERM, og eru enn í gangi því rannsóknarstofan er enn starfrækt, og voru sumar lausnir þynntar í allt að 400 skipti í hlutfallinu 1:10 (10-400).

Þrátt fyrir þessa gríðarlegu þynningu eru efnin líffræðilega virk. Líffræðileg virkni efna eins og kannabis, thymulins, arseniks, interferons, týroxíns og margra annarra hefur verið prófuð á sama hátt og sýnir sig að lausnir með þessum efnum eru líffræðilega virkar þrátt fyrir þynningu; svo mikla þynningu að ekkert mólekúl af upprunalega efninu er eftir í lausninni. Rannsóknir sem þessar sýna að vatn er ekki bara vatn. Vatn getur verið mengað þó það sé efnafræðilega séð hreint. Spurningin er aðeins sú hvort það hafi einhver áhrif á okkur.

Höfundur: Valdemar Gísli Valdemarsson rafeindavirkjameistari



Flokkar:Umhverfið

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: