Hómópatía getur hjálpað einhverfum

Ingibjörg Friðbertsdóttir hómópati skrifaði árið 2004. 

Ekki er vitað með vissu hvað orsakar einhverfu  en hún hefur stórlega aukist s.l. tuttugu ár.
Í umræðunni að undanförnu hefur verið talað um bólusetningar sem orsakavald. Í Bandaríkjunum hefur aukningin verið frá 1 af hverjum 10.000 upp í 1 af hverjum 250 manns sem er afar mikið. Margir telja að bóluefnið komi af stað nokkurs konar sjálfsofnæmi sem getur komið út sem einhverfa hjá sumum börnum en getur komið út sem sykursýki,  fæðuofnæmi o.fl. hjá öðrum. Það er mjög mismunandi hvað mótstaða barna er sterk og getur líka verið erfðafræðileg tilhneiging sem ræður því hvað barnið þolir. Ein kenningin er eftir Baron Cohen byggist á samhygð sem er yfirleitt mun meiri hjá konum en körlum, rökhugsun er oft ráðandi eiginleiki meðal karlmanna og konur eru yfirleitt meiri tilfinningarverur.

Cohen skilgreinir samhygð þannig: „Að bera kennsl á tilfinningar og hugsanir annarra og bregðast við þeim“. Hann skiptir fólki í E manngerð og S manngerð eftir því hvort þeir hafa sterkari tilhneigingu til rökhugsunar eða samhygðar og vill meina að einhverfa sé ýkt útgáfa af starfsemi karlmannsheila. Vitað er að mun fleiri drengir en stúlkur greinast með einhverfu sem er mjög erfiður sjúkdómur og ekki auðveldur við að eiga. Eitt af þeim einkennum sem einhverf börn hafa er að þau eru mjög viðkvæm fyrir utanaðkomandi áreiti t.d. hljóði, snertingu og ljósi. Það sem okkur finnst eðlileg hljóð getur hreinlega virkað á þau eins og öskur.

Fæðuóþol algengt
Fæðuóþol er algengt meðal einhverfra barna, t.d. mjólkuróþol sem er mjög algengt, sérstaklega fyrir kúamjólk. Sumir einstaklingar með einhverfu einkenni geta ekki brotið niður ákveðin mjólkurprótein í líkamanum. Í staðinn framleiða þau exorphins, nokkurs konar morfín sem orsaka að frumur starfa ekki rétt. Í rannsókn sem gerð var í University of Florida um áhrif mjólkurprótíns á heilann kom í ljós að við það að einhverf börn hættu að nærast á mjólk, hjálpaði það 95% þeirra. Annar algengur valdur að óþoli er hveiti og gluten. Einnig er best að forðast efnabreytt matvæli og litarefni í mat eins og hægt er. Oft er mælt með bætiefnum eins og vítamín B-6 og C – vítamín, einnig hafa magnesíum og omega-3 gefist vel.Taugaboð í heila barna með einhverfu virka ekki eins og í heilbrigðu fólki þess vegna er oft nauðsynlegt að þau fái kennslu í tjáskiptum eins og hegðun og tali. Einhverf börn geta ekki lesið í eða túlkað látbragð annarra og eiga þess vegna mjög erfitt í samskiptum við aðra.

Drengur fékk bót
Bókin Impossible cure eftir Amy L. Lansky PHD hefur vakið mikla athygli þar sem hún lýsir hvernig einhverfur sonur hennar fær meðferð hjá hómópata og læknast. Tveggja og hálfs árs sonur hennar talaði ekki og virtist ekki skilja talað mál. Hann lék sér ekki við önnur börn hann gat ekki sýnt væntumþykju og náði ekki augnsambandi. Þau sáu að hann gat leikið sér í tölvunni, var rökvís og skarpur í hugsun. Hann var greindur með einhverfu og þeim var sagt að hann gæti aldrei gengið í venjulegan skóla. Í dag er hann 12 ára gamall gengur í almennan skóla fær A og B í öllum fögum, fullkomlega eðlilegt barn í framkomu. Þetta er búið að vera langt ferli þar sem allt var gert sem hægt er til að hjálpa honum að ná þessum árangri. Hægt er að fá nánari upplýsingar um bókina Impossible cure á slóðinni www.impossiblecure.com

Bætir líka asperger
Vinsældir hómópatíu sem heildræn meðferð hefur aukist mjög síðustu ár og telja margir hana vera framtíðar lausn á nýrri öld. Það er ekki síst vegna þess að hún vinnur með tilfinningar og andlega líðan fólks ekki síður en líkamlega líðan og hjálpar fólki í átt til jafnvægis. Í hómópatíu er alltaf unnið út frá einstaklingnum sjálfum og hans sérstöku einkennum. Þó að um sömu sjúkdómsgreininguna sé að ræða er enginn einstaklingur eins og einkennin því mismunandi. Þetta er margra ára ferli. Fyrst eru tekin þau einkenni sem barnið hefur og unnið út frá þeim, síðan er fundin sú ,,remedía” sem passar við þessi einkenni. Meðferðir sem hafa gefist vel og falla vel með hómópatíu er höfuðbeina og spjaldhryggs jöfnun og Reiki heilun. Ég hef sjálf verið með konu á miðjum aldri í hómópatameðferð s.l. 1/2 ár með asperger heilkenni sem er mun vægari en einhverfa. Konan hefur verið mjög einangruð og átt erfitt með og óttast samskipti við ókunnuga.

Við meðferðina hefur orðið þó nokkur breyting til batnaðar. Hún er hugrakkari og finnur til meiri samhygðar með öðrum en áður og er smátt og smátt að koma út úr sinni einangrun og líður betur. Ég er ekki að halda því fram að hægt sé með hómópatameðferð að lækna alla með einhverfu eða asperger heilkenni, en með þolinmæði og þrautseigju er ótrúlegt hvað hægt er að gera. Oft er erfitt fyrir foreldra barna með einhverfu að trúa því að hægt sé að lækna barnið vegna þess að í hefðbundinni læknisfræði er sagt að það sé ekki mögulegt. Það er alltaf hægt að bæta líðan barnsins. Ég held að viðurkenning á vandamálinu og bjartsýni á bata sé lykillinn.

Höfundur: Ingibjörg Friðbertsdóttir, hómópatiFlokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: