Um leikföng og Waldorf Uppeldisfræði

Öll vitum við hvað það skiptir miklu máli fyrir heilsuna hvað við borðum. En það er margt annað sem skiptir ekki minna máli. Fyrir börn er undirstaða þess að þau vaxi og dafni og verði heilbrigðir einstakligar að þau fái ást og umhyggju. Einnig hefur allt umhverfið áhrif, því þar er sú næring sem við tökum inn gegnum skynfærin. Í þessari grein langar mig að kynna hugmyndir Rudolf Steiners um uppeldisfræði. Sjálf hef ég kynnst þessum fræðum í Svíþjóð og haldið  námskeið í Waldorfbrúðugerð. Hér á landi eru starfandi tveir Waldorfskólar-og leikskólar.

Um leikföng og Waldorf brúður
Hér áður fyrr, áður en farið var að fjöldaframleiða leikföng, gerðu foreldrar gjarnan leikföng fyrir börnin sín, einföld tréleikföng og tuskubrúður. Gleði barnsins var þá ekki minnst fólgin í því að sjá leikfangið verða til. Börn áttu þá færri leikföng en börn eiga í dag og var því hver hlutur dýrmætari. Það var því eðlilegt að nota til viðbótar í leikinn ýmislegt sem til féll, eins og leggi, skeljar, steina o.fl. úr náttúrunni. Í okkar tæknivædda þjóðfélagi í dag, vantar ekki úrvalið af leikföngum.

Flest börn eiga í rauninni allt of mikið af leikföngum. Barn sem á tiltölulega fá og einföld leikföng þarf kannski að hafa meira fyrir því að skapa leikinn, en börn hafa þörf fyrir að fá að vera skapandi og þau hafa í eðli sínu mjög frjótt ímyndunarafl. En til þess að það blómstri og þroskist, þurfa þau að fá tækifæri til þess að nota það. Ef leikfang er nákvæm eftirlíking af ákveðnum hlut, þá er það frekar leikfangið sem ákveður leikinn og minna rými verður fyrir hugmyndaflugið. Börn herma eftir öllu sem þau sjá og upplifa í kringum sig.

Síðan endurskapa þau það í leik sínum og á þann hátt læra þau um lífið. Leikurinn er því barninu mjög mikilvægur, jafn mikilvægur og vinna er okkur fullorðna fólkinu. Dúkkan hefur dálitla sérstöðu meðal leikfanganna. Hún er jú eftirmynd af manneskju. Í leiknum er það gjarnan dúkkan sem er barnið sjálft. Þá á barnið, með hjálp dúkkunnnar, auðveldara með að finna sjálft sig og endurskapa og vinna úr því sem það hefur upplifað.

Ef dúkkan er einföld og hefur einungis punkta fyrir augu og munn, getur barnið frjálst bætt því við sem á vantar. Í huga barnsins getur dúkkan bæði grátið og hlegið, lokað augunum sungið eða verið leið. Handsaumuð tuskubrúða stoppuð með ull er bæði hlý og mjúk. Hún dettur ekki í sundur eins auðveldlega og plastdúkka og auðvelt er að gera við hana ef hún skaddast. Handsaumuð brúða er líka einstök eins og barnið sjálft. Fjöldaframleidd plastdúkka er ein af kannski þúsund eins.

Um Waldorf uppeldisfræði
Í Waldorf uppeldisfræði er lögð áhersla á að barnið verði að fá að þroskast alhliða. Sálarlíf barnsins er fjölþætt og mikilvægt er að hlúa að öllum þáttum þess. Í dag er tilhneiging til þess að meta einungis vitsmunalegan þroska og örva hann á ýmsa vegu og þá er hætta á að aðrir þættir í sálarlífi barnsins þroskist ekki eðlilega. Fyrstu 7 árin er megináhersla lögð á að þroska vilja og tilfinningar. Grunnurinn í uppeldinu á þessu tímabili byggist á þeirri staðreynd, að barnið lærir fyrst og fremst á því að herma eftir því sem fram fer umhverfis það. Þess vegna er það mikilvægast fyrir uppalandann, að vera góð fyrirmynd.

Hann þarf að ala sjálfan sig upp um leið og hann elur barnið upp. Hann .þarf að vera mjög meðvitaður um hvað hann gerir og hvað hann segir, því barnið tekur eftir öllu. Það sem barnið þarf mest á að halda á þessu tímabili er að uppalandinn fylgist með því af lifandi áhuga og kærleika og skapi því sem hlýlegast umhverfi. Í Waldorf-leikskólanum eru börn á aldrinum 3 – 6 ára. Fyrir þann aldur er mikilvægast fyrir barnið, sé þess nokkur kostur, að fá að alast upp innan veggja heimilisins. Þar fær það best þá hlýju, þá umönnun og það öryggi sem er því svo mikilvægt fyrstu árin. En barnið lærir líka á því að fylgjast með þeim störfum sem innt eru af hendi á heimilinu.

En eftir 3 ára aldurinn er líka mikilvægt fyrir barnið að læra að umgangast önnur börn. Öll börn ættu að fá að vera á leikskóla hluta úr degi. – Umhverfið í Waldorf-leikskólanum er milt og notalegt, hlýir litir á veggjunum og leikföngin einföld og úr náttúrulegum efnum. Það er mikið í gegnum leikföngin sem börnin þroska skynfærin og fá næringu fyrir skapandi ímyndunarafl sitt. Ef litið er á það hvaða efni henta best til þess að miðla skyn-upplifunum, kemur í ljós að tré, steinar, málmar, ull, silki og bývax hafa hvert um sig sína ákveðnu eiginleika og skynfæri barnsins fá næringu með því að upplifa  þessa eiginleika. Einfaldir hlutir og leikföng örva einnig ímyndurnarafl barnanna.

Það er unun að horfa á börn að leik og sjá hvað þau geta gert úr einföldustu hlutum. Til þess að fá næringu fyrir leikinn, þurfa börnin  að fá að fylgjast með, í ró og næði, með fullorðnum vinna skapandi störf ins og t.d. matargerð, bakstri, tiltekt úti og inni, saumaskap , smíðum að vökva blóm o.fl. Börnin taka það síðan upp í leik sínum og þau saga og hamra án raunverulegra verkfæra. Slíkir leikir eru mjög mikilvægir fyrir börnin og þeir styrkja viljann. Í leikskólanum fá börnin að fylgjast með  matargerð og nokkur í einu fá að taka þátt í að laga matinn og leggja á borðið.

Mikilvægt er að allt sé unnið með gleði og áhuga því hugarfar þeirra fullorðnu endurspeglast í barninu. Við matarborðið er kveikt á kerti til að skapa tó og notalegt andrúmsloft. Farið er með stutt þakkarvers. Í leikskólanum er mikil áhersla lögð á hrynjandi (dagshrynjandi, vikuhrynjandi og árshrynjandi). Ævintýrið hefur sinn ákveðna sess á sama tíma á hverjum degi, brúðuleikhúsið jafnvel vikulega, hausthátíð og jólaleikrit árlega o.s.frv. Það veitir barninu ótrúlega mikið öryggi að fylgja þessu eftir. Skapandi listræn starfsemi er mikil.

Leirmótun með lituðu bývaxi, vatnslitamálun á blautan pappír með stórum penslum, sem gefur sterkari litaupplifun heldur en ef málað er á þurran pappír, sungið, spilað á einföld hjóðfæri, sett upp einföld leikrit o.fl. Mikið er lagt upp úr því að örva málþroska barnanna og er það m.a. gert með því að fara saman með vísur og þulur. Börnin finna þá fyrir hrynjandinni í málinu og þau elska að leika sér með orð, hljóð og rím. Hringleikir með söng eru mikið notaðir og eru þeir ekki einungis börnunum til ánægju, heldur hafa þeir mjög góð áhrif á félagslegan þroska þeirra. Hápunktur dagsins er sögustundin, á sama tíma á hverjum degi.

Mikilvægt er að sagan sé sögð munnlega, en ekki lesin úr bók. Sögð eru klassísk gömul ævintýri. Það sama nokkra daga í röð. Notuð  eru styttri Grimms-ævintýri og norsk ævintýri og sögur eins og t.d. Pönnukakan og Geiturnar þrjár, þar sem fram koma endurtekningar. Í ævintýrunum býr djúpur sannleikur um lífið sagt í myndformi sem barnið skilur á sinn hátt. Í Waldorf- uppeldisfræði er rík áhersla lögð á að styrkja tengsl barnanna við náttúruna. Það er gert á ýmsa vegu m.a. með því að vekja áhuga þeirra á öllu í náttúrunni, stóru og smáu.

Þar getur sagan líka komið að gagni. Á leikskólaárunum verða börnin virkilega að fá að vera börn og mikilvægt er að flýta ekki fyrir eðlilegum þroska þeirra . Eftir leikskólann tekur skólinn við um 7 ára aldurinn. Í Waldorf-skólanum læra börnin það sama og kennt er í grunnskólanum, kennsluaðferðirnar eru hins vegar ólíkar að mörgu leyti. Þar er mikið lagt upp úr listrænu starfi og er stundum sagt að í Waldorf-skólanum læri börnin gegnum listina. Söngur, tónlist málun, teiknun, leiklist, allt er þetta svo nátengt námsefninu og vefur inn í skólastarfið. Í stuttu máli má segja að grunnurinn sé sá að gera námsefnið svo lifandi og skemmtilegt að nemandann þyrsti eftir að fá að læra meira.

Höfundur: Hildur Guðmundsdóttir, skrifað árið 2004



Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

%d bloggers like this: