- * Skýrslutaka: upplýsingar um sjúkrasögu, sjúkdómseinkenni og lifnaðarhætti manneskjunnar.
- * Skoðun: almenn skoðun á sjúklingi, þar með talið skoðun á líkams- og andlitstjáningu; húðlit og húðgerð; skoðun á almennu útliti, lagi, lit og öðrum einkennum á tungu þ.m.t. skán á tungunni, athugun á líkamslykt þ.e. hvort vottur af óeðlilegri eða óvenjulegri lykt sé af líkama sjúklings.
- * Hlustun: á eiginleika máls sjúklings þ.m.t. hvernig manneskjan bregst við spurningum, hversu hratt eða hægt hún talar, og hljómbrigði raddarinnar; á öndun og á hljóð sjúkdóma, eins og hósta, hávaða í innyflum o.s.frv, auk hlustunar á púlsana.
Púlsgreining
Fyrsti læknirinn sem talaði og skrifaði, um púlsgreiningu, á skipulagðan hátt, var Wang Shuhe, sem var uppi um 300 árum f.Kr. Ritverk hans um púlsgreiningu varð þekkt undir nafninu Mai Jing. Þó svo að verk hans hafi alltaf verið talið erfitt að skilja, hlaut það verðskuldaða viðurkenningu á sínum tíma. Mai Jing hefur síðan verið þýtt og einfaldað af mörgum þekktum læknum og rithöfundum. Aðgengilegasta rit um púlsgreiningu var seinna skrifað af Li Shi Zhen (1518-1593) sem var þekktur náttúrusagnfræðingur. Rit hans, Pulse diagnosis, í þýðingu Hoc Ku Huynhs, er enn notað og virt sem ein af betri kennslubókum í púlsgreiningum.
Markmið og aðferð púlsgreiningar
Markmið púlsgreiningar, eins og annarra forma sjúkdómsgreiningar, hefur alltaf verið það að ná sem nákvæmustu upplýsingum um hvað er að gerast í líkamanum, upplýsingum um hvað valdið hefur sjúkdómnum, hvernig megi laga það sem úrskeiðis hefur farið, og hverjir séu möguleikar á lækningu. Samkvæmt Kínverskum lækningum getur púlsinn gefið í skyn hvort sjúkdómur sé heitur eða kaldur, hvort um sé að ræða ofgnótt eða skort á orku, hvort sjúkdómurinn liggi grunnt eða djúpt o.s.frv.
Til þess að læknirinn geti greint rétt þarf hann að fylgja ákveðnum reglum um púlsatöku og síðan að túlka púlsinn eftir hefðbundnum aðferðum og formúlum. Þó svo að í Kínverskum læknaritum sé rætt um marga staði á líkamanum þar sem finna megi púlsa er venjan að taka púlsinn á hinum hefðbundna stað, við úlnlið. Þrír fingur eru lagðir á radial slagæð þar sem sláttur æðarinnar er fundinn með því að nota tvenns konar þrýsting; nær engan þrýsting sem hægt og rólega vex í að verða léttur þrýstingur (þar með finnst yfirborðskraftur æðarinnar slá upp í húðina), síðan aðeins þyngri þrýsting (til að finna púlsformið) sem síðan vex í þunga þar til æðin tvístrast næstum því undan þrýstingum (til að finna hversu vel sláttur æðarinnar endurheimtir sitt eðlilega form eftir þvingun).
Með léttari, yfirborðsþrýstingnum finnst Yang líffæri þess staðar sem þrýst er á púlsinn og með þéttari þrýstingnum er fengin tilfinning fyrir Yin púlsinum. Með þessum hætti finnur læknirinn 6 púlsa á hvorri hendi, eða 12 allt í allt. Þeir sýna, hvor um sig, heilbrigði hinna 12 aðallíffæra mannsins og hinna 12 meridian rása, sem eru tengiliðurinn milli orku og líffæra.
Þegar Kínversk læknavísindi tala um þessi 12 aðal-líffæri, Zang Fu, þ.e. hin 6 Yin líffæri og hin 6 Yang líffæri, er verið að tala um það sama og vestræn læknavísindi, en þó meira. Yin líffærin eru Hjarta, Lifur, Nýru, Milta (sem er samnefni fyrir milta og bris), Lungu og Hjartaverndari. Yang líffærin eru smáþarmar, ristill, magi, þvagblaðra, gallblaðra og þrír hitarar (sem er lýsing á starfsemi eða samræmingu, frekar en líffæri). Auk aðallíffæranna sjá Kínversk læknavísindi svokölluð auka-líffæri; bein, beinmerg, heila, æðar, leg og blöðruhálskirtil.
Auka-líffærin eru nærð af og þar af leiðandi háð heilbrigði hinna 12 aðallíffæra Yin líffærin eru mikilvægust, þ.e. starfsemi þeirra er mikilvægust. Þau liggja dýpra en hin líffærin (einnig á púlsunum) og það eru Yin líffærin sem stjórna lífi og lífslokum mannsins. Kínversk læknavísindi telja að ef Yin líffærin eru sterk sé maðurinn sterkur. Hvert Yin líffæri hefur áhrif á ákveðna líkamsvefi og líkamshluta ásamt því sem þau hafa öll með einn eða fleiri andlegan eiginleika mannsins að gera.
Öll líffærin hafa áhrif á ákveðna líkamsstarfsemi og líkamssvæði. Sem dæmi þá hreinsar Lifrin blóðið, en þess fyrir utan sér Lifrin um að Qi orkan flæði rétt um æðar líkamans. Ef Lifrin sinnir ekki þessu verkefni þá getur manneskjan þjáðst af svokallaðri ,,Lifrar Qi stíflu“, sem getur lýst sér sem m.a. uppþemba, verkir, óregluleg útskilun á þvagi og saur, blæðingarverkir o.sv.frv. Lifrin er einnig séð sem uppspretta næringar fyrir augu og sinar ásamt því að vera geymsla fyrir þá tilfinningu sem er reiði.
Lifrar- ójafnvægi getur þannig leitt til alls frá uppþembu til þunglyndis, sem er reiði sem snúið er inn á við. Fimm hinna mikilvægu líffæra eru séð sem áhrifavaldar andlegra áhrifa á manninn: Hjartað geymir gleðina, Nýrun geyma vilja mannsins, Lungun geyma sorg, Miltað geymir getu mannsins til að hugsa skýrt og læra, og Lifrin geymir reiðina. Allar þessar tilfinningar eru eðlilegar og bera vott um heilbrigði, en ef þær eru í ójafnvægi, eru þær færar um að valda sjúkdómum eða ójafnvægi, í viðkomandi líffærum og öfugt. Þegar hlustað er á púlsana eru öll þessi atriði tekin til greina.
Fyrir utan hina hefðbundnu 12 púlsa talar Kínversk læknisfræði um skiptingu úlnliðs í þrennskonar dýpt, þ.e. hin 9 púlssvæði. Þannig myndar hver dýpt púlsanna reiti þar sem staðsetning og eðli sjúkdóma getur fundist. Þessir níu-svæða reitir skiptast í cun (sjá mynd af úlnliðspúlsum), sem sýnir þind upp að hvirfli, guan, sem sýnir svæðið frá nafla til þindar, og chi, sem sýnir svæði líkamans frá nafla til og með fóta. Það svæði á púlsunum, fundnum sem slíkum, sem finnst með minnstum þrýstingi lýsir tilfinningaþáttum, þáttum sem sitja yst í líkamanum, í húð og ytri eða Yang líffærum og orkubrautar þáttum.
Miðsvæðið, sem finnst með miðlungs þrýstingi, lýsir þannig brennslu í líkamanum og dýpsta svæðið, sem finnst með mestum þrýstingi á æðina, lýsir ástandi í beinum og innstu líffærum. Saman mynda þessi níu svæði eins konar heildarmynd af líkamanum. Þegar leitað er eftir púlsunum þarf læknirinn að nota fingurgómana og með æfingu myndast næmni fyrir púlsunum sem gerir lækninum fært að greina milli hinna 12 mismunandi púlsa og eiginleika þeirra, svo og hinna 9 svæða. Höndin þarf að vera afslöppuð og sá sem tekur púlsinn þarf að sitja þægilega svo að sem fæst trufli.
Nokkur atriði sem hafa þarf í huga þegar púlsar eru teknir:
Tímasetning: besti tíminn til að taka púlsinn er fyrst á morgnana þegar Yin er rólegt og Yang hefur ekki náð fullum krafti. Staða: hendi þess sem hlustað er á þarf að liggja lóðrétt og neðar en hjartað. Öndun: læknirinn þarf að halda andardrætti sínum reglulegum til þess að geta greint andardrátt og púls þess sem á að greina rétt. Púls sjúklingsins miðast við andardrátt læknisins þegar greint er milli hægs og of rólegs púlssláttar (þetta var lengi misskilið á vesturlöndum).
Eðlilegur púlssláttur er 4-5 slög fyrir hvern andardrátt þess sem tekur púlsinn. Of hægur púls er púls sem slær 3 sinnum eða sjaldnar fyrir hvern andardrátt þess sem tekur púlsinn. Of hraður púls er púls sem slær oftar en 5 sinnum fyrir hvern andardrátt þess sem tekur púlsinn. Púlssláttur fer einnig eftir aldri og ef miðað er við klukkuna þá þykja eftirtalin slög á mínútu vera eðlileg:
Aldur Slög á mínútu
1-4 90 og meira
4-10 84
10-16 78/80
16-35 76
35-50 72/70
50+ 68
Þættir sem hafa áhrif á Púlsinn
Árstíðirnar fjórar: púlsinn er dýpri á veturna og grynnri eða ofar, á sumrin og vorin, svo og eru eiginleikar hinna mismunandi púlsa breytilegir eftir árstíðunum Tími: púlsarnir eru missterkir samkvæmt klukkunni (sjá töflu). Kyn: púlsar karlmanna eru eðlilega sterkari en púlsar kvenna og hjá karlmönnum eru þess utan púlsar vinstri handar sterkari en aftur á móti púlsar hægri handar sterkari hjá konum. Þetta er vegna þess að púlsar vinstri handar sýna kraft blóðsins og þar sem konur hafa reglulegar blæðingar hafa þær eðlilega minni blóðkraft. Starf: þeir sem vinna erfiðisvinnu eða stunda íþróttir ættu að hafa sterkari púlsa. Matur: ef manneskjan hefur nýlega borðað mun Maga púls og hugsanlega Milta púls vera sterkari en ella. Aðrir púlsar geta virkað veikari fyrir bragðið. Vestræn læknislyf geta truflað púlsgreiningu.
Kínverska klukkan:
Samkvæmt Kínverskum lækningum hefur hvert líffæri og viðkomandi orkurás sinn hámarksorkutíma einu sinni á sólahring. Mikið er stuðst við þessa kenningu, bæði í greiningu og meðferð á sjúkdómum. Eftirfarandi er tafla yfir þessa tíma:
23.00 – 01.00 Gallblaðra
01.00 – 03.00 Lifur
03.00 – 05.00 Lungu
05.00 – 07.00 Ristill
07.00 – 09.00 Magi
09.00 – 11.00 Milta
11.00 – 13.00 Hjarta
13.00 – 15.00 Smáþarmar
15.00 – 17.00 Þvagblaðra
17.00 – 19.00 Nýru
19.00 – 21.00 Hjartaverndari
21.00 – 23.00 Þrír Hitarar
Eiginleikar púlsa
Samkvæmt Li Shi Zhen eru 27 grundvallar púlseiginleikar sem lýsa bæði eðlilegum og óeðlilegum eiginleikum púlsanna 12. Hver og einn hinna 12 púlsa getur lýst einum eða fleiri eiginleikum. Hvern og einn af hinum 27 eiginleikum má einnig finna í einum eða fleiri af hinum níu reitum. Li Shi Zhen talar einnig um að hver og einn eiginleiki geti fundist sem par við annan, sem gefur okkur 486 einfaldar samsetningar af púlseiginleikum. Þetta í verki getur gefið lækninum mjög nákvæma lýsingu á staðsetningu og eðli allra sjúkdóma, sem aftur auðveldar og gerir alla meðferð nákvæmari. Eftirfarandi er stutt lýsing á hinum hefðbundnu 27 grundvallareiginleikum púlsanna:
Fljótandi púls (fu mai) Finnst nær yfirborði húðar en eðlilegt er og merkir yfirleitt að um utanaðkomandi veikindi sé að ræða, eins og flensu eða álíka. Ef púlsinn er veikur og ekki finnast önnur merki um utanaðkomandi veikindi getur hann þýtt að manneskjan þjáist af Yin skorti og hugsanlega innvortis Vindi.
Tvístraður púls (san mai) Svipaður tómum púls en er stærri og minna áberandi. Hann finnst helst þegar hann fellur. Tvístraður púls er merki um alvarlegan veikleika í viðkomandi líffæri, þar sem Nýrna orka er einnig hverfandi.
Tómur púls (xu mai) Stór, án styrks. Tilfinningin fyrir honum er eins og fyrir stórri blöðru sem er hálffull af vökva. Oft hægari en aðrir púlsar. Tómur púls er vottur um skort á Yin Qi.
Holur púls (kong mai) Finnst eins og graslauksstilkur – heill að utan en holur að innan. Holur púls er merki um blóðleysi og finnst oft eftir mikinn blóðmissi.
Sökkvandi púls – djúpur púls (chen mai) Finnst einungis á þriðja svæði, eða með mestum þrýstingi. Hann er merki um að sjúkdómurinn sé djúpur og að til staðar séu stíflur í líkamanum.
Flæðandi púls (hong mai) Flæðir með styrk breiðs púlsar, og hittir fingurna á öllum þrem dýptum en fellur með minni styrk. Hann er merki um að hiti hafi skaðað líkamsvökva og Yin líkamans.
Leður púls (ge mai) Sambland af víruðum og fljótandi púls, með eiginleika tóms púlsar. Leður púls finnst eins og strekkt húð á trommu. Hann er merki um skort á blóði og Jing og ber yfirleitt vott um að skortur á Nýrnaorku sé orsök veikleika.
Mjúkur púls (ru mai) Samblanda af þunnum, tómum og fljótandi púls. Mjúkur púls er mjög mjúkur, óskýrari en þunnur púls, og finnst einungis í efsta lagi, þ.e. með minnstum þrýsting. Hann finnst næstum eins og loftbóla sem flýtur á vatni. Mjúkur púls er merki um skort á blóði og Jing orku. Hann getur einnig merkt skort á beinmergskrafti.
Víraður púls (xuan mai) Hefur strengdan eiginleika, eins og gítar eða fiðlu strengir. Hann er sterkur, finnst á öllum þrýstingssvæðum og hittir fingurna jafnt. Víraður púls er merki um orku-stíflur í líkamanum sem oftast tengjast vanvirkni í Lifur og/eða Gallblöðru.
Þunnur púls (xi mai) Finnst eins og fínn þráður og er mjög skýr. Hann er merki um að blóðmagn sé lítið og ófært um að fylla æðarnar. Stundum getur Þunnur púls einnig verið merki um skort á Kí orku.
Breiður púls (da mai ) Breiður að þvermáli og mjög einkennandi. Hann er merki um ofgnótt og finnst oft ef um er að ræða hita (bólgu) í maga eða smágirni.
Fullur púls (shi mai) Stór og sterkur púls sem berst gegn fingrunum á öllum þrýstingssvæðum. Hann er merki um ofgnótt orku og/eða stíflaðrar orku.
Hægur púls (chi mai) Slær sjaldnar en fjórum sinnum fyrir hvern andardrátt. Hann er merki um innvortis kulda eða skort á Kí orku.
Hraður púls (shu mai) Slær oftar en fimm sinnum fyrir hvern andardrátt. Hann er merki um innvortis hita sem hraðar hreyfingu Blóðs.
Stinnur (innilokaður) púls – fangelsispúls (lao mai)
Andstaða Leður-púlsar, stinnur púls er form af földum púls, mjög djúpur, víraður og venjulega langur og sterkur. Hann er merki um stíflur í líkamsorku vegna kulda.
Rykkjóttur púls (se mai)
Andstaða sleips púlsar, ójafn og grófur, stundum óreglulegur í styrk og fyllingu. Ef hann er þunnur er hann merki um blóðskort eða Jing orku skort. Ef hann er þykkri getur hann verið merki um blóð stíflu.
Brothættur púls (hong mai) /Veikur púls (ruo mai)
Mjúkur, veikur og þunnur. Finnst venjulega á dýpsta svæði og er eins og umsnúinn tómur púls. Hann er merki um mjög alvarlegan Kí skort.
Falinn púls (fu mai)
Ýkt form af sökkvandi púls. Til að finna hann þarf að beita verulegum þrýstingi. Ef falinn púls er sterkur er hann merki um kulda sem stíflar orkurásirnar og ef hann er veikur er hann merki um að skortur sé á Yang. Falinn púls er yfirleitt merki um að kuldi sé til staðar í líkamanum og að kuldinn trufli annaðhvort orku-rásirnar eingöngu eða Líffærin einnig.
Sleipur púls (hua mai)
Mjög vökvakenndur, mjúkur að utanverðu en sterkur að innan, eins og slímbornar perlur. Sleipurpúls er merki um raka eða slím í líkamanum. Hann finnst oft hjá ófrískum konum og er þá ekki merki um sjúkleika heldur um aukabirgðir af blóði sem nauðsynlegar eru til að næra fóstrið.
Mínútu púls (wei mai)
Mjög fínn og mjúkur en skortir skýrleika þunns púlsar. Mínútu púls er púls sem varla finnst og virðist alltaf vera við það að hverfa undan fingrunum. Hann er merki um mikinn orkuskort og alvarlega þreytu, og tóman blóð og Kí kraft.
Hertur púls (jin mai)
Sterkur púls sem endurkastast milli hliða eins og hert reipi. Hann er fyllri og sveigjanlegri en víraður púls. Sterkur púls virkar oft hraðari en hann raunverulega er. Hann er merki um ofgnótt, kulda og stíflur.
Stuttur púls (duan mai)
Finnst venjulega eingöngu í einni fingrastöðu, þ.e. í cun, guan eða chi. Stuttur púls er merki um heildar Kí skort.
Hreyfi púls (dong mai)
Samblanda af stuttum, hertum, sleipum og hröðum púls. Hann finnst venjulega eingöngu í einni fingrastöðu og er talinn vera ófullkominn þ.e. að hann vanti bæði höfuð og fax. Hreyfi púls er mjög sjaldgæfur og er ávallt merki um alvarleg veikindi, oft hjarta veikleika. Hreyfi púls getur einnig fundist hjá fólki sem er með mjög háan hita eða mikla verki.
Langur púls (chang mai)
Andstaða stutts púlsar. Hann er finnanlegur utan við fingrastöðurnar þrjár, heldur áfram annaðhvort upp í lófa eða upphandlegg. Ef hann er eðlilegur að styrk og hraða er hann ekki merki um veikleika en ef hann er hertur eða víraður er hann merki um ofgnótt.
Hnýttur púls (jie mai)
Hægur, óreglulegur púls sem missir úr slög óreglulega. Í einstaka tilfellum er hnýttur púls meðfæddur og er hann þá ekki merki um veikleika, en ef ekki þá er hann oft merki um að hjartað stjórni ekki blóðinu vegna hjarta Kí veikleika, og því meiri óregla í slættinum því meiri hjarta veikleiki. Hnýttur púls getur einnig verið merki um ofgnótt og stíflu á Yin Kí.
Slitróttur púls (dai mai)
Reglulega óreglulegur en sleppir úr fleiri slögum en hnýttur og flausturslegur púls. Slitróttur púls getur verið meðfæddur og er sem slíkur ekki endilega merki um veikleika, en ef ekki er slitróttur púls talinn vera merki um alvarlegan veikleika. Hann er oft tengdur hjarta veikleika en einnig getur hann þýtt uppgjöf líffæranna og Yuan Kí orku nýrnanna.
Flausturslegur púls (cu mai)
Hraður púls eN sleppir úr slögum óreglulega. Hann getur verið meðfæddur og er sem slíkur ekki endilega merki um veikleika, en ef ekki er flausturslegur púls talinn vera merki um Hita sem truflar Kí og Blóð.
Púlsgreining sem aðstoð við aðrar tegundir sjúkdómsgreiningar
Á þeim tíma sem Kínversk læknavísindi hafa verið í þróun hefur myndast sú skoðun manna að Kínverskir læknar séu færir um að greina nákvæmlega hvað sé að með púlsgreiningunni einni saman. Þar af leiðandi hafa þessi vísindi, púlsgreining, oft verið álitin dulræn vísindi, og læknirinn sem notar þessa greiningaraðferð hefur jafnframt oft verið álitinn gæddur yfirnáttúrlegum hæfileikum. Þetta er vitanlega villutrú því greining og hlustun á púlsa er, eins og allt annað, æfing og meiri æfing.
Allir geta með tímanum orðið meistarar í faginu. Sumir læknar í Kínverskum lækningum hafa í gegnum tíð og tíma, notfært sér þá trú manna að púlsgreining sé yfirnáttúrulegur eiginleiki og hafa þeir oft einungis notað púlsana til sjúkdómsgreiningar, án spurninga um heilsufar og aðstæður og án almennrar skoðunar á líkamsástandi. Því miður varð þetta til þess að púlsgreining missti víða gildi sitt sem sjúkdómsgreining, sem síðan tafði vísindalegar rannsóknir til langs tíma. En sem betur fer hefur þetta breyst og á síðustu árum hafa verið unnar óteljandi rannsóknir á gildi og notkun púlsgreiningar til sjúkdómsgreiningar.
Í þessum rannsóknum hefur verið notast við bæði sérhannaðan rafeindabúnað svo og sérfræðinga í púlsgreiningu og hafa niðurstöður allra verið hliðhollar kenningum þeirra sem skráðu púlsgreiningar frá upphafi. T.d. hafa einar niðurstöður sýnt að víraður púls sem finnst sem sleipur og/eða hraður merki oft versnandi sjúkdóm og/eða myndun krabbameins. Þegar sleipur og hraður púls, víraður og hraður púls, eða veikur og hraður púls finnst hjá krabbameinssjúklingum eftir uppskurð þykir sterk ástæða til að athuga hvort eitthvað af meininu sitji eftir.
Í rannsókn á mikið veikum lifrarbólgusjúklingum með skorpulifur og lifrarkrabbamein sem unnin var í Taiwan kom í ljós að meirihluti sjúklinga var með veikan púls á vinstri chi og cun staðsetningu, sem eru staðsetningar sem segja til um heilbrigði hjarta, smáþarma, nýrna og þvagblöðru. Þessi líffæri og orkubrautir veikjast hjá lifrarbólgusjúklingum vegna stíflna sem myndast í Lifur við veikindin. Púlsgreining er stórkostlegt og viðurkennt verkfæri til staðfestingar á veikleikum líkamans, því jafnframt því að geta sagt til um eðli sjúkdómsins getur púlsgreining oft á tíðum sagt lækninum hver og hvar upptök sjúkdóms og veikleika eru. Aftur á móti, ef púlsgreining á að vera eina sjúkdómsgreiningin þarf hún að mínu mati, mikla meistara Kínverskra læknavísinda, meistara sem ég tel óvíst að séu meðal okkar sem slíkir í dag.
Nýtist púlsgreining okkur í nútíma lækningum?
Nútíma læknisfræði býr nú orðið yfir mun meira af tæknilegum hjálpartækjum en áður og því hafa not læknis fyrir púlsgreiningu, sem formi af sjúkdómsgreiningu,minnkað. Nú er hægt að hlusta á púlsinn með hlustpípu, sem getur greint hraða og reglu púlsins, með blóðþrýstingsmæli og eins með enn flóknari verkfærum eins og hjartalínuriti og öðrum tækjum sem geta fylgst með hjartslætti og ástandi æða.
Þessi tæki eru öll nytsamleg, þegar þeirra er þörf, en engin þeirra eru hönnuð sem tæki sem segja eiga til um ástand líkamans og líkamsorkunnar í heild. Kínversk púlsgreining er eina verkfærið sem enn stendur sem slíkt. Nútíma læknisfræði hefur einnig margs konar aðrar leiðir til að greina sjúkdóma þ.m.t. blóðprufur, þvagprufur, allskyns myndatökur og sýnatökur. Allar þessar aðferðir sýna okkur hvað er um að vera inni í líkamanum, þ.e. þær gefa okkur greiningu á hver veikleikinn er, og með þekkingu læknisins á eðli sjúkdóma getur hann, með þessum verkfærum, sagt til um hvað er að gerast og hvað líklegt sé að framhaldið muni verða.
Allar þessar ,,nýju“ aðferðir til sjúkdómsgreiningar eru ómetanleg verkfæri vegna þess að þau geta sagt okkur til um hvernig hvert og eitt líffæri starfar, jafnframt því sem þau lýsa ástandi líffæranna í smáatriðum. Gott og vel, en það er eitt sem vantar upp á. Vegna eðlis og nákvæmni þessara tækja og aðferða, þarf lækninn í það minnsta að gruna hvar sjúkdómurinn hefur bólfestu áður en hann getur ákveðið hverja aðferðina sé best að nota til greiningar. Þarna eins og víðar er að mínu mati nytsamlegt að horfa til púlsgreiningar. Og af hverju ekki? Af hverju að henda því sem er gamalt einungis vegna þess að eitthvað nýtt er fundið upp? Af hverju ekki að nýta allt sem við höfum lært og þá sérstaklega það sem við höfum lært að virkar, og nota það með því sem við þróum síðar?
Önnur not fyrir púlsgreiningu
Auk þess sem púlsgreiningu má nota til þess að finna hver og hvar veikleikinn er, er þessi aðferð notuð af nálastungulæknum til þess að ganga úr skugga um hvort nálar, sem notaðar eru í meðferð, hafi náð réttum árangri. Hlustað er þá á púlsinn strax eftir ísetningu nála. Ef púlsinn breytist ekki er líklegt að nálarnar hafi ekki komið við réttu orkupunktana, eða að þær þurfi að hreyfa betur til þess að tilætluðum árangri sé náð.
Ef engin breyting finnst á púlsum, eftir ísetningu nála, er annað af tvennu mögulegt, það að nálin sé vitlaust staðsett eða það að sjúklingur þurfi fleiri meðferðir en upphafleg greining gerði ráð fyrir. Sumt fólk bregst mjög hratt og vel við allri meðferð og aðrir, þá sérstaklega þeir sem þjást af einhverskonar orkustíflum, illa eða ekki. Í Kínverskum læknaritum er einnig sagt frá því að öll rétt meðferð, hvort sem hún er með nálum, jurtum, nuddi eða öðrum leiðum eigi að breyta púlsunum, þó ekki sé nema til skamms tíma og ef ekki þá sé meðferðin ekki sú sem best getur unnið á viðkomandi veikleika.
Púlsgreining er í dag notuð af öllum læknum sem stunda Kínverskar og/eða Ayurveda lækningar, ásamt því að vera notuð á sjúkrahúsum víða um heim og er það vegna nákvæmni þessarar greiningaraðferðar og einfaldleika hennar, svo ekki sé minnst á kostnaðarhliðina sem hún hefur ekki, og mun því líklega aldrei verða lögð til hliðar. Það sem hefur ekki síst staðið upp úr í umræðum um gildi þessarar tegund sjúkdómsgreiningar er sú staðreynd að fær læknir í púlsgreiningu getur ekki einungis sagt til um andlegt og líkamlegt jafnvægi þess sem hann greinir heldur getur hann einnig greint óeðlilegar breytingar og ójafnvægi í líkamanum á byrjunarstigi.
Tilvísanir: Maoshing Ni, The Yellow Emperor’s Classic of Medicine: A New Translation of the Neijing Suwen with Commentary, 1995 Shambhala, Boston, MA. Yang Shou-zhong, The Pulse Classic, 1997 Blue Poppy Press, Boulder, CO. Kaptchuk T, The Web that Has No Weaver, 1983 Congdon and Weed, New York. Li Shi Zhen, Pulse Diagnosis, í þýðingu Hoc Ku Huynh og G.M. Seifert, 1985, Paradigm Publications. Huang Huibo, New theory on pulse study, in International Congress on Traditional Medicine Abstracts, 2000 Academic Bureau of the Congress, Beijing. Yu Guiqing, et al., New progress in the four diagnostic methods of cancer, Journal of Traditional Chinese Medicine 1990; 10(2): 152-155. Chan Yensong, et al., The pulse phenomenon of liver cirrhosis and hepatoma, Journal of Chinese Medicine 1992; 3(2): 13-21.
Höfundur: Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir skrifað árið 2004
Flokkar:Greinar og viðtöl