Heilsubót í ætihvönn

Frá upphafi lækninga hafa jurtir verið notaðar til að bæta líðan og lækna sjúka. Lyfjaiðnaðurinn á upphaf sitt á 19. öld þegar menn fóru að einangra og framleiða náttúruefni og markaðssetja sem lyf. Náttúruefni eru notuð sem verkjalyf og sýklalyf, lyf við hjartasjúkdómum og krabbameinum o.fl. og eru markaðssett af lyfjaiðnaðinum Tvö af fyrstu árangursríkustu krabbameinslyfjunum við hvítblæði, vinblastine og vincristine, voru þróuð úr lækningajurt frá Madagaskar.

Í dag eru meira en 60% krabbameinslyfja komin beint eða óbeint úr náttúruefnum. Þessi náttúruefni eru m.a. mynduð í jurtum sem varnarefni til að verjast bakteríum, sveppum og veirum. Náttúruefnin hafa þróast í jurtunum á milljónum ára en þessi efni hafa hentuga stærð og lögun til að bindast stórum sameindum svo sem próteinum og kjarnsýrum erfðaefnisins. Náttúruefnin hafa þannig áhrif á starfsemi þessara stórsameinda sem stjórna flókinni starfsemi sérhæfðra fruma sem mynda lífveruna. Dýr og menn hafa nærst á og aðlagast slíkum jurtum á löngum þróunarferli en stórsameindir í dýrum, mönnum og jurtum eru byggðar úr sömu grunneiningum.

Hvers vegna eru lífvirk efni úr jurtum hentug til heilsueflingar?
Maðurinn hefur þróast í árþúsundir úr sömu sameindum eða lífefnum og dýr og jurtir. Sameindir úr plöntum eru mönnum því ekki framandi. Menn fá þessi efni úr fæðunni, m.a. úr grænmeti og ávöxtum. Fæðan hefur bein áhrif á framleiðslu ensíma sem vinna úr viðkomandi fæðuefnum. Sjúkdómar hrjá menn einkum þegar röskun verður á eðlilegri stjórnun líkamsstarfseminnar. Lækningin felst í því að koma aftur jafnvægi á starfsemina, t.d. með breyttum lífsstíl, náttúruefnum eða jurtalyfjum og/ eða lyfjum. Í framtíðinni verða jurtir, örverur og sjávarlífverur /mikilvæg uppspretta heilsubótarefna. Menn hafa þróað aðferðir til að erfðabreyta jurtum og örverum og láta þær framleiða tiltekin efni eftir forskrift erfðaefnis sem þær fá úr öðrum lífverum. Þetta er gert í dag í vissum mæli, svo sem við framleiðslu á insulini í örverum fyrir sykursjúka, en notkun slíkrar tækni mun aukast mjög í framtíðinni.

Erfðabreyttar jurtir verða sennilega einnig notaðar í auknum mæli til framleiðslu á heilsubótarefnum. Nú er mikið rætt um mikilvægi aukinnar neyslu á grænmeti og ávöxtum til að fyrirbyggja ýmsa sjúkdóma, svo sem krabbamein og hjartasjúkdóma. Faraldsfræðilegar rannsóknir gefa vísbendingar um samband milli sjúkdóma og neyslu á þessum afurðum en það hefur ekki verið sannað með klínískum rannsóknum. Af því leiðir að í grænmeti og ávöxtum hljóta að vera efni sem eru til heilsubótar og styrkja forvarnir líkamans gegn ýmsum sjúkdómum.

Þekkt eru mörg slík efni, t.d. ýmis vítamín og má þar nefna C-vítamín sem læknar skyrbjúg og fyrirbyggir þann sjúkdóm og D vitamin sem fyrirbyggir beinkröm. Er nú verið að leita þekkingar á fleiri slíkum efnum sem gætu verið mikilvæg fyrir forvarnir og til lækninga. Jurtir framleiða ýmis efnavopn en þessi varnarvopn geta einnig gagnast mönnum í baráttunni við sýkla og skordýr. Menn eru sífellt að leitast við að bera kennsl á þessi efni og kanna hvort og hvernig þau gætu þjónað þeim. Hafa ber í huga að sum efnin geta verið eitruð og skaðleg mönnum ef þau eru notuð í miklum mæli. Þetta á einnig við um ýmis algeng og lífsnauðsynleg vítamín eins og A- og D-vítamín. Aukaverkanir og eituráhrif eiga enn frekar við um lyf því þau eru mannslíkamanum framandi.

Rannsóknir á ætihvönn
Rannsóknir okkar hafa einkum beinst að leit að efnum sem virka á bakteríur, veirur og krabbameinsfrumur og efni sem hafa áhrif á ónæmiskerfið. Um fjörutíu af um áttatíu íslenskum lækningajurtum voru rannsakaðar en athyglinni var síðan beint að ætihvönn, geithvönn, blóðbergi, vallhumli og jafnframt lúpínu sem er nýbúi á Íslandi. Niðurstöður rannsóknanna sýna að lækningajurtir á Íslandi hafa líffræðilega virk efni sem hafa áhrif á ónæmiskerfið og geta einnig heft vöxt á krabbameinsfrumum, bakteríum og veirum. Náttúruefni úr ætihvönn og vallhumli sýna mikla virkni gegn krabbameinsfrumum úr mönnum (brjósta-, ristil- og briskrabbameinsfrumum o.fl.). Áhrifin eru mismikil á ólíkar frumutegundir. Náttúruefni úr ætihvönn og lúpínu sýna örvandi áhrif á ónæmiskerfið og önnur eru mjög virk gegn bakteríum og veirum. Þessi efni hafa væntanlega komið að gagni við ýmsum þeim kvillum sem þjáðu menn fyrr á árum og gera enn.

Reynsla af virkni ætihvannar
Íslenskar afurðir úr ætihvönn hafa verið á markaði undanfarin ár. Reynslan af þeim hefur verið góð en afurðirnar eru ýmist unnar úr fræjum eða laufi jurtarinnar. Neytendur hafa einkum rætt um eftirfarandi virkni eða áhrif sem þeir finna við notkun á hvannaafurðum: ,,Eykur orku og þrek, framtakssemi og vellíðan. Hefur hjálpað við þrekleysi og síþreytu. Róar spenntar taugar, dregur úr streitu. Dregur úr mildu þunglyndi. Styrkir forvarnir gegn kvefi og flensu. Hefur góð áhrif á magann og meltinguna. Dregur úr tíðum þvaglátum á nóttu (einkum hjá körlum sem hafa góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli)“.

Við nánari athugun og eftir frekari upplýsingaöflun er unnt að færa rök fyrir þessum áhrifum. Rannsóknir á ætihvönn hafa sýnt að í hvönn eru lífvirk efni sem finnast einnig í mörgum öðrum jurtum. Þessi efni hafa mikið verið rannsökuð á undangengnum árum af vísindamönnum víða um heim og hafa niðurstöðurnar verið birtar í alþjóðlegum vísindaritum. Efni þessi hafa áhrif á stjórnkerfi líkamans með því að örva eða hindra virkni fjölmargra ensíma, hormónaviðtaka og fleiri proteina sem sinna mikilvægum störfum í líkamanum. Sum efnin hindra einnig vöxt á sýklum (veirum, bakteríum og sveppum), hindra fjölgun á krabbameinsfrumum og myndun á krabbameinsæxlum í dýrum. Nýlegar rannsóknir sýna jafnframt að efni sem eru í hvönn geta haft jákvæð áhrif á framvindu Alzheimer sjúkdómsins.

Minnisleysi og Alzheimer sjúkdómurinn
Alzheimer sjúkdómurinn er algengasta orsök vitglapa (dementia) hjá eldra fólki. Nokkrar tilgátur  hafa verið settar fram til að útskýra orsök sjúkdómsins, t.d. að skortur á taugaboðefninu acetylcholine valdi minnisleysi og heilabilun, eða að sjúkdómurinn stafi af disklaga klumpum og þráðlaga búntum af proteinum sem safnist fyrir á milli taugafruma. Eru þetta einkum óleysanlegir bútar af amyloidproteini ásamt bútum af öðrum proteinum.

Fleiri tilgátur hafa verið settar fram og leita menn ákaft að orsökum sjúkdómsins. Ekki er ennþá hægt að lækna Alzheimer sjúkdóminn en það er unnt að tefja framvindu sjúkdómsins. Það er unnt að draga úr eða hindra virkni ensímsins (acetylcholine-esterasa) sem klýfur acetylcholine og auka þannig magn af þessu taugaboðefni í heilanum og bæta minnið. Einnig er verið að leita leiða til að draga úr eða fjarlægja amyloid- protein sem valda þessari heilabilun. Sýnt hefur verið fram á að lyf sem hindra virkni acetylcholine-esterase bæta ástand og sjúkdómseinkenni Alzheimer sjúklinga.

Fundist hafa 5 náttúruefni í hvönn sem hafa þessa virkni en það eru isoimperatorin, imperatorin, oxypeucedanin, xanthotoxin og isopimpinellin. Þessi efni flokkast undir fúranókúmarín og er mikið af þessum efnum í íslenskri ætihvönn. Ensímið acetylcholine-esterase er bundið ytri himnu taugafruma og hafa rannsóknir sýnt að ensímið stuðlar að myndun amyloid þráða og myndun skaðlegra ensím-amyloid-beta sambanda eða komplexa.

Þessir ensím-amyloid-beta komplexar virðast valda meiri skaða á taugafrumum en amyloid-beta peptíd ein og sér. Ef þetta ensím, acetylcholinesterase, getur hraðað amyloid myndun og taugaskemmdum þá má ætla að efni sem hindra virkni ensímsins gætu hentað við meðferð á Alzheimer sjúkdómnum og tafið frekari framvindu hans. Vísindamenn hafa búið til kúmarínefni eða afleiðu sem hefur tvíþætt hlutverk, hindrar bæði virkni ensímsins acetylcholinesterase og einnig myndun á ensím-amyloid-beta sambandi sem veldur taugaskemmdum. Með þessum hætti ætla menn að meðhöndla Alzheimer sjúkdóminn og stöðva heilabilun.

Magakvillar
Sýnt hefur verið fram á að efni sem hindra acetylcholine-esterase geta einnig dregið úr magakvillum og magaverkjum (dyspepsia). Fúranókúmarín með acetylcholinesterase virkni geta skýrt hvernig hvönnin getur verið gagnleg við magakvillum en sú var reynsla liðinna kynslóða hér á landi. Margar íslenskar lækningajurtir voru á árum áður notaðar við ýmsum magakvillum en magakvillar voru og eru enn mjög algengir á Vesturlöndum. Helicobakter pylori eru bakteríur sem eiga verulegan þátt í myndun á magasárum, magabólgum og jafnvel magakrabbameini.

Sýnt hefur verið fram á að efni sem eru virk gegn helicobacter pylori eru í fjallagrösum og vallhumli og er verið að leita að virkum efnum gegn þessum bakteríum í fleiri jurtum, t.d. ætihvönn, kúmeni o.fl. jurtum. Nóbelsverðlaun í læknisfræði 2005 voru veitt tveimur læknum frá Ástralíu en þeir sýndu fram á að helicobacter pylori getur valdið magasárum og bentu á leið til lækninga. Áformað er að framleiða fæðubótarefni úr blöndu af íslenskum lækningajurtum sem innihalda náttúruefni og virka m.a. gegn acetylcholinesterase og helicobacter pylori. Slík afurð gæti hentað við almennum magakvillum og jafnframt þjónað því hlutverki að styrkja forvarnir gegn krabbameini í maga.

Veiruvirkni í íslenskum lækningajurtum
Nú er mikið rætt um fuglaflensu og óttast sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismála-stofnunarinnar (WHO) að hún muni breiðast út og verða að drepsótt sem herji á heimsbyggðina alla. Slíkar drepsóttir voru mannskæðar áður fyrr en varnir eru litlar enn í dag. Þegar slík vá virðist fyrirsjáanleg er vert að huga að veiruvörnum sem finnast í náttúrunni, t.d. veiruvörnum sem plöntur hafa þróað, en plöntur hafa eigin varnarvopn sem þær hafa þróað á milljónum ára. Þessar veiruvarnir eru margskonar lífvirk efni, svo sem fúranókúmarín og flavonoídar o.fl. sem finnast í lækningajurtum, t.d. ætihvönn, og  ýmsu grænmeti svo sem sellerí. Ætihvönnin fékk latneska nafnið Angelica archangelica (erkiengill) á miðöldum en þá virtist hún styrkja varnir manna gegn skæðum drepsóttum.

Imperatorin er fúranókúmarin sem mikið er af í ætihvönn.Vísindamenn hafa sýnt fram á að imperatorin hindrar fjölgun á HIV veirunni sem veldur eyðni og er verið að rannsaka hvernig imperatorin verkar á HIV veiruna. Áformað er að nota imperatorin og fleiri fúranókúmarin við meðferð á sjúklingum með eyðni. Prangenin er annað fúranókúmarín sem finnst í ætihvönn. Prangenin hindrar fjölgun á RS veiru sem veldur skæðu ungbarnakvefi Flavonoídar er stór flokkur efna og eru sum þessara efna virk gegn veirum. Í ætihvönn, vallhumli og blóðbergi eru efni sem hindra fjölgun á kvef-veirum og coxsackie-veirum. Þessi virku efni eru flavonoídar. Tekist hefur að bera kennsl á sum veiruvirku efnin í ætihvönn t.d. isoquercitrin, rútín og díosmín og jafnframt chlorogen sýru en öll þessi efni virka gegn ýmsum veirum.

Blöðruhálskirtill og tíð þvaglát á nóttunni
Góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli er mjög algeng hjá karlmönnum þegar þeir eldast og er vaxandi vandamál eftir fimmtugt. Ekki er ljóst hvað veldur þessari stækkun en ýmsar tilgátur hafa verið settar fram, t.d. að stækkunin sé afleiðing þrálátrar bólgu af völdum baktería eða veira. Nýlega hefur veirutegund fundist í krabbameinsæxli úr blöðruhálskirtli en þessi veira hefur ekki fundist í mönnum áður. Þessar niðurstöður munu örva mjög leit að orsökum þessa meins. Þeir sem fara að finna fyrir tíðum þvaglátum á nóttu ættu að leita til læknis og fá vissu fyrir því að ekki sé um að ræða krabbamein í blöðruhálskirtli heldur meinlítil en hvimleið góðkynja stækkun á kirtlinum.

Í ætihvönn eru efni sem hafa mjög jákvæð áhrif á líðan manna sem glíma við þessi tíðu þvaglát og fækka þvaglátum úr 3-6 sinnum á nóttu í einu sinni eða sjaldnar. Ekki er alveg ljóst hvernig þessi efni virka en flavonoidar hafa fjölþætta virkni sem geta hugsanlega útskýrt þessi áhrif af hvannalaufaseyði sem veitir mönnum betri svefn og hvíld. Þá er vert að geta þess að í þessu seyði eru efni sem hindra myndun eða vöxt á krabbameinsæxlum í músum sem sprautaðar voru með krabbameinsfrumum. Ef mýsnar voru sprautaðar með brjóstakrabbameinsfrumum þá mynduðu þær allar æxli sem gat vaxið mjög hratt. Ef mýs sem fengu hvannalaufaseyðið í fóðrið voru sprautaðar á sama hátt með þessum krabbameinsfrumum þá mynduðust engin eða örlítil æxli í flestum músanna. Ekki er vitað hvort seyðið getur komið í veg fyrir æxlisvöxt í mönnum. Flavonoidar sem eru í ætihvönn hafa mjög áhugaverða virkni og er vert að nefna þessa:

Isoquercitrin: a) dregur úr nýæðamyndun og vexti á æxlum, b) antiviral – virkar gegn ýmsum veirum, c) getur dregið úr bólgum, d) hindrar samdrátt í barka – er  gagnlegt við astma, og getur dregið úr samdrætti í þvagblöðru og/eða þvagrás. Þessi áhrif má skýra með hindrum á leukotriene D4 framleiðslu sem veldur slíkum samdrætti. Rútin: a) hindrar krabbameinsmyndun af völdum heterohringlag amína, b) bólgueyðandi t.d. í ristli, c) virkar gegn fowlpox veiru sem er ein af fuglaveirunum. Diosmin: a) hindrar smit með rotaveiru, sem veldur uppköstum og niðurgangi hjá smábörnum, b) minnkar meinvörp vissra krabbameina, c) hindrar k rabbameinsmyndun. Þá hefur chlorogen sýra virkni gegn ýmsum veirum svo sem kvef-veirum og coxsackie- veirum. Chlorogen sýra er ekki flavonoid en er samt fjölfenol efni sem mikið er af í ætihvönn. Þetta efni er einnig andoxunarefni sem hindrar skaðleg áhrif mjög virkra súrefnisríkra efna, virkar gegn krabbameinsmyndun (anticarcinogen) og gegn ýmsum bakteríum.

Lokaorð
Náttúrulækningar eða grasalækningar voru hinar hefðbundnu lækningar áður fyrr, en nefndust síðar óhefðbundnar lækningar þegar nútíma læknisfræði og lyfjaiðnaður efldist. Talsmenn náttúrulækninga og stofnendur náttúrulækningafélaga máttu berjast við fordóma og sterka andstöðu fyrstu áratugina. Starfsemi þeirra efldist smám saman þegar fólk fór að taka aukinn þátt í eigin heilsuvernd. Notkun fæðubótarefna eða náttúruefna fer vaxandi þegar fólk tekur frumkvæðið og reynir að treysta forvarnir gegn sjúkdómum. Menn eru almennt sammála um það að heilbrigt fólk á besta aldri, sem neytir fjölbreyttrar fæðu í hófi, þurfi yfirleitt ekki á fæðubótaefnum að halda. Þetta er sennilega minni hluti þjóðarinnar, aðrir kunna að hafa gagn af slíkum efnum sér til heilsubótar.

Vonandi tekst að draga úr fordómum gagnvart íslenskum lækningajurtum. Mikill fjöldi fæðubótarefna úr erlendum jurtum er fluttur inn og seldur hér í verslunum. Niðurstöður rannsókna á íslenskum lækningajurtum staðfesta líffræðilega virkni fjölmargra jurta og styrkja jafnframt þá reynsluþekkingu á lækningajurtum sem er hluti af menningararfi þjóðarinnar. Áhrif margra þessara jurta eða jurtaafurða á menn hafa hins vegar ekki verið rannsökuð enn með hefðbundnum klínískum rannsóknum. Hið sama á við um flestar tegundir grænmetis og ávaxta. Reynslan hefur aftur á móti kennt mönnum hvaða jurtir hafa reynst hollar og heilsubætandi og það skiptir mestu máli. Rannsóknir á lífvirkni náttúruefna fara ört vaxandi og eru niðurstöður þessara rannsókna birtar í alþjóðlegum vísindaritum.

Hér er listi yfir nokkrar slíkar vísindagreinar fengnar frá National Library of Medicine, http://www.ncbi.nlm.nih.gov Frekari upplýsingar má finna á http://www.sagamedica.is

Heimildir:
Acetylcholinesterase inhibitors from the roots of Angelica dahuria. /Kim DK, Lim JP, Yang JH, Eom DO, Eun JS, Leem KH. Arch Pharm Res. 2002; 25 (6): 856-859. Acetylcholinesterase interaction with Alzheimer amyloid beta. Inestrosa NC, Sagal JP, Colombres M. Subcell Biochem. 2005; 38: 299-317. A placebo-controlled trial of itopride in functional dyspepsia Holtmann G, Talley NJ, Liebregts T, Adam B, Parow C. New Engl. J. Med. 2006; 354: 832-840. Imperatorin Inhibits HIV-1 Replication through an Sp1-dependent Pathway. R. Sancho o.fl. J. Biol. Chem. 2004; 279: 37349-37359. Identification, quantitative determination, and antioxidative activities of chlorogenic acid isomers in prune (Prunus domesticaL.). Nakatani N, Kayano S, Kikuzaki H, Sumino K, Katagiri K, Mitani T. J. Agric. Food Chem.2000; 48: 5512- 5516. The polyphenol chlorogenic acid inhibits staphylococcal exotoxin- induced inflammatory cytokines and chemokines. Krakauer T. Immunopharmacol. Immunotoxicol. 2002; 24: 113-119. Antiproliferative effect of Angelica archangelica fruits. Sigurdsson S. Ogmundsdottir H.M., Gudbjarnarson S. Z Naturforsch. 2004; 59: 523-527. Antitumor activity of Angelica archangelica leaf extract. Sigurdsson S., Ogmundsdottir H.M., Hallgrimsson J., Gudbjarnarson S. In Vivo. 2005; 19: 191- 194. The cytotoxic effect of two chemotypes of essential oils from the fruits of Angelica archangelica. Sigurdsson S, Ögmundsdottir HM, Gudbjarnarson S. Anticancer Research 2005; 25: 1877-1880. Imperatorin, a furanocoumarin from Angelica dahuria (Umbelliferae), induces cytochrome c-dependent apoptosis in human promyelocytic leukaemia, HL-60 cells. Pae HO. et al. Pharmacology & Toxicology 2002; 91: 40-48. Antiproliferative effect of isopentenylated coumarins on several cancer cell lines. Kawaii S. et al. Anticancer Research 2001; 21: 1905-1912.

Höfundur: Sigmúndur Guðbjarnason prófessor emeritus árið 2006Flokkar:Jurtir

%d bloggers like this: